10. tbl. 100. árg. 2014

Ritstjórnargrein

Spítalinn okkar ALLRA

Þorkell Sigurlaugsson framkvæmdastjóri fjármála og fasteignareksturs HR‚ stjórnarmaður í Spítalanum okkar‚ landssamtaka um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala

doi: 10.17992/lbl.2014.10.559

„Spítalinn okkar“, landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala voru stofnuð 9. apríl 2014 og voru stofnendur í upphafi 300, en eru nú orðnir um 500 og fjölgar stöðugt. Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um þegar Jóhannes M. Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala bað mig að koma í stjórn þessara samtaka. Anna Stefánsdóttir, fyrrverandi hjúkrunarforstjóri Landspítala, er formaður samtakanna. Ég vildi gjarnan leggja þessu lið sem viðskiptafræðingur og með mikla reynslu sem þróunaraðili og verkefnastjóri Háskólans í Reykjavík (HR) við nýbyggingu hans við Nauthólsvík. Áður starfaði HR á fjórum stöðum með öllu því óhagræði sem því fylgdi og samskiptaleysi milli starfsmanna. Erfitt var að byggja upp heilsteyptan starfsmannaanda og þjónustu við nemendur. Reynsla mín af heilbrigðiskerfinu sem „viðskiptavinur“ er þar til viðbótar nokkur.

Hlutverk Spítalans okkar er fyrst og fremst að fylkja okkur á bak við þetta verkefni og styðja landsmenn við að koma því í framkvæmd. Sífellt fleiri eru að átta sig á mikilvægi þess að hefja sem fyrst endurnýjun húsnæðis Landspítala. Brýnast er að reisa meðferðarkjarna og rannsóknarhús.

Vel hefur verið staðið að þarfagreiningu og frumhönnun nýrrar Landspítalabyggingar. Með frestun framkvæmda er verið að ýta vandanum á undan sér og eftir því sem árin líða er hætta á að nauðsynleg reynsla og þekking á þessu flókna verkefni glatist. Ég þekki það af eigin reynslu eftir að hafa starfað sem verkefnastjóri við þarfagreiningu, hönnun og framkvæmdir nýbyggingar HR frá 2006 til 2010. Þar skipti samfella og sterk samstaða miklu máli og ekki síður fjárhagslegur bakhjarl. Á rúmlega fjórum árum tókst að ljúka þarfagreiningu og hanna og byggja 30.000 fermetra háskólabyggingu. 

Því miður var samdráttartímabil áranna 2009-2013 ekki nýtt til að ljúka hönnun og hefja framkvæmdir við Landspítala. Ekki bólar enn á framhaldi verkefnisins. Vissulega skiptir máli að opnað hefur verið aðeins á verkefnið og fjármunir hafa verið settir í fullnaðarhönnun sjúkrahótels í tveimur síðustu fjárlagafrumvörpum. Sjúkrahótel er mikilvæg framkvæmd, en það er ekki upphaf að nauðsynlegri uppbyggingu meðferðarkjarna og rannsóknaraðstöðu Landspítala. Þetta er fyrst og fremst sérhæft hótel eins og nafnið ber með sér og hefði þess vegna mátt fara í einkaframkvæmd.

Heilbrigðiskerfið, bæði rekstur Landspítala og heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, hafa á undanförnum áratugum þótt til fyrirmyndar hér á landi. Við megum ekki bíða eftir að vandamálin vaxi okkur svo yfir höfuð að velferð landsmanna sé í húfi. Smátt og smátt hellast yfir okkur vandamál sem brýn þörf er á að leysa:

Þjóðin er að eldast og það kallar yfir okkur á næstu 10-15 árum stóran hóp eldri borgara sem þurfa mikla læknisþjónustu og vaxandi fjöldi ferðamanna bætist einnig við þann hóp.

Húsnæði og tækjabúnaður mætir víða ekki þörfum þjónustunnar og það torveldar mjög að íslenskir sérfræðingar snúi heim að loknu sérnámi erlendis.

Rekstur heilbrigðiskerfisins er dýrari og óhagkvæmari vegna dreifðrar starfsemi í óhentugu húsnæði.

Landspítalinn er sjúkrahús allra Íslendinga og hlutverk hans sem slíks er þríþætt – þjónusta við sjúklinga, menntun heilbrigðisstétta og rannsóknir. Náin tengsl eru á milli þessara þátta. Til að ná góðum árangri í umönnun sjúkra, er mikilvægt að geta sinnt öflugu rannsóknar- og þróunarstarfi með háskólum og fyrirtækjum á sviði lífvísinda og tækni. Með þeim hætti getum við laðað til okkar nemendur og öflugt starfsfólk og aukið gæði í heilbrigðisþjónustunni.

Vatnsmýrarsvæðið er mikilvægur staður í áframhaldandi þróun spítalans sem þjónustustofnunar enda eiga háskólasjúkrahús og þekkingarstofnanir, meðal annars á Vatnsmýrarsvæðinu, í sífellt fjölbreyttara samstarfi. Þverfagleg starfsemi eykst hratt, bæði milli greina innan háskóla, innan sjúkrahúsa og í samstarfi atvinnulífs og sjúkra- og menntastofnana. Má þar til dæmis nefna hversu mikilvægu hlutverki tölvutækni, tæknifræði og verkfræði gegna í þróun heilbrigðisvísinda auk læknisfræði og lífvísinda almennt. Bygging nýrra húsa á Landspítalalóð og endurbætur eldra húsnæðis spítalans við Hringbraut gegnir lykilhlutverki til að þjóðarsjúkrahúsið geti áfram sinnt hlutverki sínu.

Stöndum saman um nauðsynlegar endurbætur á Landspítala. Leitum leiða til að fjármagna þetta verkefni og hrinda því í framkvæmd. Undirbúningsvinnunni er lokið. Það er kominn tími til aðgerða. Íslenska þjóðin þarf á því að halda.Þetta vefsvæði byggir á Eplica