09. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Læknablaðið 100 ára. „Lít til baka með mikilli ánægju“ - segir Birna Þórðardóttir fyrrum ritstjórnarfulltrúi Læknablaðsins

Birna Þórðardóttir titlar sig ferðaskipuleggjanda í símaskránni. Hún býr í fallegu hornhúsi á Óðinsgötunni og kveðst aðeins þurfa að opna glugga til að heyra óminn af nýjasta gullæði Íslendinga, ferðamannastraumnum. Birna hefur þó ekki ausið að ráði úr gullstraumnum heldur skipuleggur gönguferðir um Þingholtin, Vesturbæinn og miðbæinn fyrir áhugasama Íslendinga, menningarrölt um gamlar götur, þar sem hún rifjar upp sögu húsa, íbúa þeirra og hlutverk í lista- og menningarsögu landans.


„Starf mitt við Læknablaðið var mikill skóli fyrir mig og ég lærði þar mikilvægi yfirlegu og vand-
virkni,“ segir Birna Þórðardóttir sem var ritstjórnarfulltrúi blaðsins 1985-2001.

„Annars klæðskerasauma ég leiðsögn mína eftir óskum hópanna hverju sinni og hef mikla ánægju af því. Ég hóf þessa starfsemi árið 2002 þegar ég hætti á Læknablaðinu, var þess nokkuð fullviss að ég myndi ekki ganga inn í vinnu annars staðar og yrði því að skapa mér vinnuna sjálf. Reynsla mín af íslenskum vinnumarkaði er ekki þess eðlis að ég byggist við að hann tæki mér opnum örmum þó ég hefði unnið gott starf við Læknablaðið hjá Læknafélagi Íslands um 17 ára skeið,“ segir Birna þegar hún er sest við eldhúsborðið eftir nokkra snúninga við kaffilögun og afgreiðslu tölvupósta sem ekki mega bíða.

Hún útskýrir að morguninn eftir eigi að birta í fjölmiðlum auglýsingu um starfslaun listamanna en hún hefur gegnt formennsku í stjórn listamannalauna um ríflega 5 ára skeið.

„Þetta er síðasta árið sem ég gegni formennsku í stjórninni en þetta er alltaf törn á haustin, umsóknarfrestur rennur út 30. september og síðan er tilkynnt um úthlutanir launa fljótlega uppúr áramótum.“

Þótti alldjarft að ráða mig

Birna hóf störf við Læknablaðið árið 1985 en þá var allt annað fyrirkomulag við vinnslu blaðsins en síðar varð. „Blaðið var þá prentað í Kaupmannahöfn og Danska læknafélagið sá um prentun og öflun auglýsinga. Örn Bjarnason var ritstjóri og einstaklega drífandi við allt er sneri að blaðinu. Hann og ritstjórn blaðsins tóku þá ákvörðun að hefja útgáfu fréttabréfs þar sem birtar væru fréttir af félagsmálum lækna, það yrði vettvangur umræðu um kjara- og félagsmál og annað er sneri að læknum en væri ekki fræðilegs eðlis. Ég hafði í nokkurn tíma verið lausráðin til ýmissa verkefna á skrifstofu Læknafélags Íslands og Örn bauð mér að sjá um Fréttabréfið í hlutastarfi. Ritstjórnarfulltrúi Læknablaðsins var þá Jóhannes Tómasson. Fréttabréfið var frá upphafi prentað hér heima og kom út nokkru oftar en Læknablaðið sjálft.“

Birna rifjar upp að Örn Bjarnason hafi þótt alldjarfur að ráða hana að blaðinu og ekki hafi allir verið jafn ánægðir með þá ráðstöfun. Birna var þekkt fyrir að fara ekki í felur með róttækar pólitískar skoðanir sínar og hafði mátt líða fyrir þær í leit sinni að störfum við hæfi. „Það er ákveðinn þröskuldur að vera ráðin í vinnu og þó ég sé ágætlega gerð til bæði munns og handa hafði ég ekki oft stigið yfir þann þröskuld. Ég var því Erni mjög þakklát fyrir að láta þetta ekki hafa áhrif á sig og bjóða mér þetta starf og standa síðan að baki mér eftir þá ákvörðun. Það hafði reyndar engan eftirmála og samstarf mitt við ritstjórn var ávallt mjög gott.“

Starf Birnu við Fréttabréf lækna þróaðist fljótlega yfir í samstarf við Jóhannes Tómasson við Læknablaðið og þegar hann sagði starfi sínu lausu eftir 10 ára starf var Birna ráðin ritstjórnarfulltrúi í hans stað árið 1988.

„Ekki löngu síðar var ákveðið að sameina útgáfu Fréttabréfsins og Læknablaðsins en prentunin hélt áfram í Kaupmannahöfn. Þetta var þróun sem átti sér stað á nokkrum árum. Auglýsingasöfnunin færðist fyrst hingað heim og þá varð til hálf staða auglýsingastjóra og ritara blaðsins. Árið 1994 var prentun blaðsins flutt heim og þar með lauk farsælu samstarfi við  Danska læknafélagið um vinnslu blaðsins en ritstjórn þótti þetta hentugra fyrirkomulag og hagkvæmara. Í ársbyrjun 1998 var ráðinn að blaðinu umbrotsmaður og blaðamaður og hefur það fyrirkomulag haldist síðan að mér skilst.“

Agi og skipulögð vinnubrögð

Látum þetta nægja um mannahald og breytingar á rekstri Læknablaðsins og snúum okkur að útgáfunni sjálfri. Birna hugsar sig um örlitla stund þegar hún er spurð hvað beri hæst í huga hennar þegar hún hugsar til blaðsins.

„Það er ekki neitt eitt ákveðið atriði. Blaðið var að mörgu leyti í mikilli mótun á þessum árum. Örn Bjarnason tók ritrýni fræðigreina mjög föstum tökum og því var haldið áfram og fylgt eftir af Vilhjálmi Rafnssyni sem tók við ritstjórn blaðsins af honum árið 1992. Örn var mikill áhugamaður um íðorðasmíð læknisfræði- og sjúkdómaheita á íslensku og lagði mikla áherslu á vandað málfar blaðsins. Íðorðasmíðin er í rauninni samtvinnuð sögu Læknablaðsins á 8., 9. og 10. áratug síðustu aldar. Þar vann Jóhann Heiðar Jóhannsson gríðargott starf og var með íðorðapistla í Læknablaðinu um árabil. Það má segja að Örn Bjarnason hafi verið drifkrafturinn að baki þessu starfi en íðorðanefnd Læknafélagsins hafði starfað ötullega með honum um árabil. Örn var og er einstakur maður og ég lærði geysilega margt af honum. Mestu skipti þar agi varðandi vinnubrögð við meðhöndlun fræðigreina og þær grundvallarreglur sem liggja þar að baki voru nýjar fyrir mér þó ég hafi haft reynslu af útgáfu áður en ég réðst til Læknablaðsins. Örn var mér ómetanlegur lærifaðir. Það eru svo mörg atriði sem þarf að hafa í huga við rétta meðhöndlun fræðigreina. Á þessum árum þróaðist sá háttur sem beitt var við ritrýni og tekin var upp blinduð ritrýni þar sem höfundar og ritrýnar vita ekki deili hver á öðrum. Þetta var í samræmi við alþjóðlega staðla sem virtustu fræðitímarit í læknisfræði höfðu sett sér. Ýmislegt varðandi réttindamál, meðferð ýmissa upplýsinga, siðferðileg álitamál, allt þetta þarf að hafa í huga og gera rétt í þessum efnum. Þetta var því mikill skóli fyrir mig og ég lærði þarna mikilvægi yfirlegu og vandvirkni.“

Örn Bjarnason lét af ritstjórn blaðsins 1992 og við tók Vilhjálmur Rafnsson sem gegndi því starfi til ársloka 2005. Birna ber þeim vel söguna og segir þá báða hafa verið mjög góða stjórnendur og samstarfsmenn.

„Ritstjórinn ber alla ábyrgð á blaðinu og er faglega og efnislega ábyrgur fyrir því. Ritstjórnarfulltrúinn sér síðan um framkvæmdina við vinnslu og útgáfu blaðsins enda er starf ritstjórans ólaunað og hefur ávallt verið. Sér til fulltingis hefur ritstjórinn ritstjórn blaðsins sem skipuð er læknum með sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum læknisfræði. Þar var öndvegisfólk og samstarf mitt við ritstjórana og ritstjórnirnar var ávallt með miklum ágætum. Þetta var ákaflega samhentur hópur. Þegar ég lít til baka er það með mikilli ánægju.“

Íslensk myndlist í öndvegi

Birna rifjar upp að gerðar hafi verið breytingar á útliti blaðsins á þessum árum. „Við stækkuðum brotið þannig að blaðið varð veglegra og það er ennþá í þessu sama broti. Einnig var ákveðið að breyta forsíðunni en hún hafði um langa hríð verið hönnuð með vísan í tiltekið efni þess tölublaðs. Það gat verið nokkur höfuðverkur að finna alltaf myndræna útfærslu á læknisfræðilegu efni og því var ákveðið að fara allt aðra leið  og birta ljósmynd á forsíðunni af listaverki eftir íslenska myndlistarmenn. Í fyrstu fengum við myndir frá Listasafni Íslands en seinna leitaði ég til myndlistarmanna eða þeirra er höfundarrétt höfðu, var það í og með hugsað af minni hálfu að þeir fengju þá greitt beint fyrir myndbirtinguna. Þetta þróaðist síðan áfram og ég fékk Jón Proppé listfræðing til að skrifa kynningu á viðkomandi listamanni. Útkoman var mjög skemmtileg og vonandi fræðandi um leið.“

Samtal okkar Birnu er á enda en í lokin svarar hún spurningunni hvort starf hennar á Læknablaðinu hafi nýst henni við önnur störf síðar.

„Já, eins og ég sagði þér í upphafi hef ég sinnt formennsku í stjórn listamannalauna í 5 ár. Þar skiptir miklu máli að fara að lögum og reglum og tileinka sér hlutlægni, verkefni stjórnar er að sjá til þess að fjallað sé um allar umsóknir eingöngu á grundvelli þeirra upplýsinga sem liggja fyrir. Láta ekki persónulega skoðun ráða um niðurstöðu, en nefndir tilnefndar af fagfélögum listamanna annast úthlutanir launa. Vinnubrögðin sem ég lærði í starfi mínu við Læknablaðið hafa reynst mér ómetanleg reynsla og gert mér mun auðveldara um vik en ella. Ég tel reyndar að ýmislegt í okkar samfélagi myndi fara betur ef slíkar reglur væru hafðar til hliðsjónar oftar en raun ber vitni.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica