07/08. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Afmælisgjöf frá norska læknablaðinu

Vinir okkar á norska læknablaðinu, Tidsskrift for Den Norske legeforening, sendu árnaðaróskir og gjöf til Læknablaðsins á dögunum í tilefni hundraðasta árgangsins. Það er frummynd listaverks sem þau létu gera og birtu á kápu norska blaðsins haustið 2011. Myndin á að túlka von og ósk ungra krabbameinssjúklinga og höfundur hennar er ameríski hönnuðurinn Dung Huang sem notar samþætta tækni, silkiþrykk, olíu, vatnsliti og stafræna nálgun til að tjá sitt verk. Þessi leið Huangs útmálar mjög vel hinar flóknu og margþættu staðreyndir, hugsanir og tilfinningar sem einkenna þungbæra sjúkdóma.

Í bréfi með myndinni segja Norðmennirnir: Áður hafði orðið krabbamein hræðilegan hljóm, og var aðeins tengt við dauðann og lífslok. Nú komast æ fleiri sjúklingar frá þessu meini og endurheimta lífið að nýju. Ungir krabbameinssjúklingar eru í mikilli hættu á að verða ófrjósamir. Það að geta varðveitt frjósemi sína skapar ekki aðeins þá von að komast lífs af heldur líka að vera fær um að koma frjómagni lífsins áfram til næstu kynslóðar. - Læknisfræðilegri þekkingu er ekki síður miðlað með myndum en texta. Samspil þess sem maður les og sér myndar nýjar tengingar, alveg eins og nákvæm skoðun veitir innsýn í verkefnið framundan. Á hverri kápu blaðsins norska er þess vegna listaverk sem blaðið hefur pantað og er í samhengi við innihald blaðsins hverju sinni.


Charlotte Haug ritstjóri og ábyrgðarmaður norska blaðsins undirritar bréf með myndinni og sendir bestu velfarnaðaróskir til Læknablaðsins, með þeirri von að það haldi velli um ókomin ár.Þetta vefsvæði byggir á Eplica