07/08. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Fyrst kristniboði, svo læknir, rætt við Jóhannes Ólafsson

Jóhannes Ólafsson starfaði lengst af í Eþíópíu þar sem hann beitti lækniskunnáttu sinni í þágu fólksins og frelsarans

Mörg er mannsævin og misjöfn. Sumir fara aldrei út fyrir sinn fæðingarhrepp en aðrir flengjast um heiminn. Viðmælandi Læknablaðsins að þessu sinni fellur örugglega ekki í fyrsta flokkinn, ævi hans líkist mun frekar því sem ungir Íslendingar nútímans þekkja, og þó ekki. Hann kom undir í Kína, fæddist í Noregi, ættaður úr Borgarfirðinum, lærði til læknis í Reykjavík og eyddi stærstum hluta starfsævinnar í sunnanverðri Eþíópíu.


Systkinin Jóhannes, Guðrún og Hjördís í Kína.
Myndirnar með greininni eru úr eigu Jóhannesar og fjölskyldu.

Sá sem hér um ræðir er Jóhannes Ólafsson kristniboði og læknir, sonur Ólafs Ólafssonar kristniboða í Kína sem var þekktur maður í íslensku samfélagi á öldinni sem leið. Nú er Jóhannes orðinn eftirlaunamaður í landi móður sinnar, Noregi, og festi ekki alls fyrir löngu á blað æviminningar sínar sem til eru í handriti. Hann var í heimsókn hér á landi fyrir skemmstu og þá hitti blaðamaður hann að máli.

Jóhannes er fæddur í Noregi snemma árs 1928 en haustið 1927 höfðu foreldrar hans neyðst til að flýja kristniboðsstöðina sem þau störfuðu við í bænum Dengzhou í Henan í miðhluta Kínaveldis. Til Kína komu þau hvort í sínu lagi, Herborg kennari norskra barna í bænum Laohokow en Ólafur var við kristniboðsstörf í bænum Dengzhou. Árið 1926 giftu þau sig en þá var að hefjast borgarastyrjöld í héraðinu sem átti eftir að breiðast út um allt Kína. Snemma árs 1928 var trúboðunum skipað að koma sér niður til strandar og bíða þar átekta. Biðtímann notuðu þau til að heimsækja vesturíslenskan kristniboða í Japan. Ferðin endaði á heimaslóðum Herborgar Eldevik í Slettaune í Orkdal, skammt sunnan við Álasund í Noregi. Þar fæddist Jóhannes.


Jóhannes kennir innfæddum Boranamönnum. Óvíst hvort það eru smíðar eða pípulagnir sem eru á dagskrá.

Eftir rúmlega ársdvöl í Noregi og á Íslandi var orðið eitthvað friðsamlegra í Kína svo fjölskyldan flutti aftur þangað og þar ólst Jóhannes upp til níu ára aldurs. Árið 1937 fóru þau heim til Noregs í lögboðið frí og hugðust snúa aftur til Kína að því loknu. Þá var hins vegar skollin á styrjöld þar eystra og allar leiðir þangað lokaðar. Það varð því úr að fjölskyldan flutti til Íslands og þar dvaldi Jóhannes um tveggja áratuga skeið.


Fjölskylda Ólafs Ólafssonar og Herborgar Eldevik í Kína á þriðja áratug síðustu aldar. Jóhannes
lengst til vinstri.

Vildi verða kristniboði

Á menntaskólaárunum kynntist hann hjúkrunarnema frá Vestmannaeyjum, Áslaugu Johnsen, og þau opinberuðu trúlofun sína daginn sem hann varð stúdent, 17. júní 1949. Þá var Jóhannes staðráðinn í að verða kristniboði og hann langaði að starfa í Kína. „Áslaug spurði af hverju ég færi ekki í læknisfræði, þar gæti ég orðið að liði í trúboðsstarfinu. Ég leit alltaf á þetta sem sama hlutinn. Í báðum hlutverkum var ég að þjóna og hjálpa fólki. Það bjó mjög sterkt í mér að starfa að trúboði og í Kína hafði ég séð hversu vel þetta tengdist því skólinn okkar var í nágrenni við sjúkrahús kristniboðsins þar,“ segir Jóhannes.


Jóhannes með lítinn skjólstæðing í fanginu.
Myndin tekin í Jinka 2009.

Hann lauk læknisnámi í Háskóla Íslands og starfaði sem kandídat árið 1957-8. Að því loknu fluttu þau til Noregs þar sem Jóhannes var í starfsnámi í skurðlækningum í Molde og einnig í Svíþjóð. Hann sótti svo nám í hitabeltislækningum í Lundúnum áður en þau héldu á vit ævintýranna í Eþíópíu árið 1960.

Í maí það ár vígðust þau hjónin til kristniboða og í ágúst mættu þau til leiks í bænum Irgalem í Suður-Eþíópíu þar sem Jóhannes var um skeið læknir við sjúkrahús norska kristniboðssambandsins. Eitthvað hafði skolast til í samskiptum við þarlenda því tungumálanámskeið sem hann átti von á varð að að bíða betri tíma um sinn. Þess í stað varð hann að bjarga sér með aðstoð túlks. „Ég lærði þó fljótt helstu orð spítalamálsins,“ segir hann.


Fjölskyldan í Eþíópíu árið 1972.

Frumkvöðlastarf

Aðkoman var ekkert sérlega glæsileg í Irgalem. „Þar hafði kristniboðið starfrækt spítala í nær 20 ár en í bænum var engin opinber vatnsveita. Vatn var lagt inn um líkt leyti og við settumst að í Irgalem. Fram að því þurfti að sækja allt vatn á ösnum. En þótt slíkur spítali stæðist vart gæðakröfur nútímans stóðst læknastarfið sem þar var unnið kröfur þessa tíma. Við sinntum fyrstu hjálp og notuðum viðurkennd lyf. Við urðum að mennta fólk til starfa jafnóðum því það var ekki til í þessu fátæka landi.“

Allar aðstæður voru óneitanlega mjög ólíkar því sem hann hafði kynnst. „Stundum brostu menn að tillögum mínum og þóttu þær út í hött. Ég átti það til að stinga upp á hlutum sem ekki voru til, til dæmis að gefa vökva í æð. Ég gerði mér ekki grein fyrir því hversu mikla vinnu það kostaði að dauðhreinsa vatnið. Sem betur fer kunni Áslaug tæknina sem þurfti til að framleiða æðavökva. Sú tækni var enn í notkun á Landspítalanum á þessum tíma.

Þetta var því mikið frumkvöðlastarf. Hjúkrunarfræðingar voru ekki tiltækir svo við menntuðum það sem við kölluðum „dressers“. Þetta var stétt manna sem ítalski herinn hafði innleitt en þeir þurftu að þekkja helstu lyf, sótthreinsun og almenna hjúkrun. Þetta var eins konar hjúkrunarnám á tveimur stigum. En vissulega var þetta langt frá nútímanum.“


Jóhannes í Gidole ásamt hjúkrunarfræðingunum Margréti Hróbjartsdóttur og Simonettu Bruvik
og nokkrum heimamönnum.

Á vegum stjórnvalda

Eftir eitt ár í Irgalem fluttust þau til Gidole þar sem þau dvöldu lengst af. Þar höfðu fyrstu norsku kristniboðarnir hafið rekstur heilbrigðisþjónustu með leyfi stjórnvalda og boðist til að koma á fót spítala. „Þess vegna var ég sendur þangað en ekki til Konsó þar sem íslensku kristniboðarnir voru,“ segir Jóhannes og bætir því við að hann hafi allan sinn starfsferil í Eþíópíu verið á launum frá íslensku kristniboðssamtökunum.

Á því var þó ein undantekning sem varaði í fjögur ár en þann tíma var Jóhannes embættismaður á launum frá eþíópískum stjórnvöldum. „Það var á margan hátt áhugavert frá faglegu sjónarmiði. Ég vann að því að efla menntun hjúkrunarfólks og ljósmæðra en það verkefni var á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). En meginstarf mitt á þessum árum var að hafa umsjón með heilsugæslustöðvum í fylkinu. Stjórnvöld vildu að yfirstjórn þeirra væri í höndum manns með læknismenntun.“


Lítil skurðaðgerð í gangi.

Mætti skilningi fólksins

Lengst af starfaði Jóhannes þó meðal fólksins við að lækna það og hjúkra því. „Ég átti alltaf gott samstarf við fólkið, bæði sjúklinga og starfsmenn. Meðfram læknisstarfinu þurfti ég alltaf að kenna, ekki bara hjúkrun heldur smíðar og pípulagnir og fleiri praktíska hluti því iðnaðarmenn voru ekki á hverju strái. Fólkið í Gidole sýndi spítalanum mikinn skilning og vissi að þar fengi það þjónustu. Í fyrstu kynntist ég lítillega fáfræði og hindurvitnum íbúa og vissi af því að töfralæknar voru einnig að störfum. En fólk treysti okkur og með tímanum hvarf öll tortryggni.

Starfsemin þróaðist og eftir því sem vegir skánuðu leitaði fólk lengra að eftir þjónustu okkar. Stjórnvöld gerðu sér líka smám saman grein fyrir því að við starfræktum raunverulegt sjúkrahús. Á þessum upphafsárum komst ég yfir bók eftir breskan lækni, Maurice King, sem hafði starfað lengi í nýlendum Breta í Afríku. Hann lýsti þeirri tækni sem notuð er við lækningar um alla álfuna og þangað sótti ég margt sem reyndist nytsamlegt við okkar aðstæður.“Haile Selassie Eþíópíukeisari kom í heimsókn til Gidole þar sem Jóhannes sýndi honum aðstöðuna.
Keisarinn er sá stutti með hjálminn.


Hungursneyðir og bylting

Það gekk á ýmsu í Eþíópíu á þeim árum sem Jóhannes starfaði þar. Eins og flestir þekkja herjuðu hungursneyðir á landið með reglulegu millibili. „Hún varð aldrei mikil á okkar slóðum. Þó man ég að hungrið svarf að Konsó eitt sinn. Þá leigði kristniboðið þar fjórar þyrlur til að flytja mat og aðrar nauðsynjar til fólks því vegirnir voru flestir ófærir. En verst varð hungursneyðin í norðurhluta landsins og þar sem nú er Eritrea.“

Hungursneyð sem varð á árinu 1973 komst í heimsfréttirnar þrátt fyrir tilraunir stjórnvalda til þess að halda henni leyndri fyrir umheiminum. Það átti sinn þátt í falli keisarans Haile Selassie. „Þegar þetta kom í heimsfréttirnar lentu Eþíópar í vandræðum. Þeir voru að undirbúa tíu ára afmæli Samtaka Afríkuríkja (OAU) og áttu von á öllum leiðtogum álfunnar í heimsókn til Addis Abeba. Það átti að vera mikil hátíð á sama tíma og fólkið svalt.“ Keisarinn hrökklaðist frá völdum og við tóku menn sem kenndu sig við marxisma og kommúnisma.

Jóhannes segir að keisarinn hafi verið vinsæl persóna þótt embættismenn hans væru spilltir, margir hverjir, og það varð honum að falli. „Ég hitti hann í Gidole árið 1968 þegar við opnuðum þar klíník með 30 rúmum. Það var gaman að spjalla við hann og heimsókn hans ánægjuleg.“

En það breyttist margt í landinu með falli keisarans. „Fyrstu árin var friðsamlegt í Eþíópíu, það var ekki fyrr en kommarnir komu til skjalanna og gerðu byltingu 1974 að ástandið fór að versna. Þó voru aldrei mikil átök í Suður-Eþíópíu, bara mikill áróður. Afstaða stjórnvalda breyttist að ýmsu leyti, til dæmis til lyfjakaupa. Það var settur nýr maður yfir þá deild í ráðuneytinu sem þurfti að samþykkja lyfjapantanir okkar. Hann var menntaður í Moskvu og hafði ákveðnar skoðanir á því sem við vorum að panta, strikaði oft út hluta af því sem við höfðum beðið um, til dæmis æðavökva. Kollegar mínir gengu á fund hans og áttu við hann nokkuð hvassar samræður um þessi mál sem lyktaði með því að hann hrópaði á þá: You are criminals!“

Í hendur hins opinbera

Ekki var þó allt vont sem fylgdi byltingunni. „Margir eþíópskir unglingar hlutu menntun í Austur-Evrópu og á Kúbu. Það gerðu kommarnir vel. Þegar þeir misstu völdin sneru margir læknar heim að loknu námi. En smám saman fór starfsmöguleikum lækna fækkandi, það voru ekki til launaðar stöður fyrir alla þessa lækna. Allt í einu voru komnir sjö læknar þar sem ég hafði verið einn áður. Með tímanum brugðust margir læknar við með því að opna einkastofur úti í bæ og sneru baki við landsbyggðinni.

Samstarfið við stjórnvöld á þessum tíma var gott, en þegar fram liðu stundir mátti sjá merki þess að til voru þeir sem þótti óeðlilegt að útlendingur stjórnaði spítalanum. Þá var mér falið annað hlutverk: ég átti að semja við ríkið um að kristniboðssamtökin hættu rekstri spítalanna í Arba Minch og Irgalem og innlend stjórnvöld, ríki og héraðsstjórnir, tækju við. Það gerðist árið 1998. Við reyndum að skilja við starfsfólkið af fullri virðingu og tryggja að það héldi launum sínum og réttindum á borð við eftirlaun.

Kristniboðið er enn starfandi og okkur er velkomið að vera í landinu, þótt heilbrigðisstofnanirnar séu í höndum ríkisins núna. Til dæmis er kollega minn norskur, prófessor í Bergen, að stjórna verkefni í Gidole sem snýst um að kenna svonefndum heilsuliðum (health officers á ensku) að gera keisaraskurði til að draga úr mæðradauða við barnsburð. Hjúkrunarfólkið lærir svæfingar og sótthreinsun. Það þarf að draga úr kröfunum því læknarnir fást ekki til að búa á landsbyggðinni. Þeir vilja vera í borgunum þar sem þeir reka einkastofur. Verkefnið nýtur viðurkenningar WHO og hefur gengið vel, dregið verulega úr mæðradauða.“


Í marsmánuði síðastliðnum var Jóhannes sæmdur stórriddarakrossi Noregskonungs fyrir starf
sitt í Eþíópíu, „einkum þjónustu við mæður og börn" eins og segir í rökstuðningi. Myndin er tekin
af því tilefni en með Jóhannesi eru eiginkona hans, Kari Bø, til vinstri og fylkisstjórinn í Agder.Sex barna faðir

Það skiptust líka á skin og skúrir í einkalífi Jóhannesar. Þau Áslaug eignuðust tvisvar sinnum tvíbura og síðar eina dóttur en áður höfðu þau ættleitt barn. Áslaug veiktist í Eþíópíu og lést fyrir aldur fram árið 1986, aðeins 58 ára gömul. Um líkt leyti glímdi Jóhannes við hjartamein og þunglyndi í kjölfar hjartaáfalls. Þá voru þau flutt til Noregs. Jóhannes kvæntist tveimur árum síðar annarri konu, kennaranum Kari Bø, en þau höfðu kynnst lítillega þegar hún starfaði við Norska skólann í Eþíópíu.

Næstu árin starfaði Jóhannes sem læknir í Noregi. Árið 1992 sneru þau Kari aftur til Eþíópíu og dvöldu í Gidole og á fjórum öðrum stöðum fram til ársins 2000. Kari vann við að efla handverk meðal eþíópískra kvenna og koma á fót mörkuðum með afurðir þeirra, en Jóhannes starfaði fyrir hið opinbera eins og áður er sagt frá. Að sjálfsögðu voru þau einnig virk í kristniboðsstarfinu.

Það er kannski engin furða að Jóhannes svari því játandi þegar ég spyr hvort hann sé ánægður með ævistarf sitt. „Já, mér finnst það hafi verið innihaldsríkt. Það er mikilvægt að hjálpa fólki og ég sá árangur af því. Ég þurfti að starfa á öllum sviðum læknisfræðinnar og sinna farsóttarsjúklingum, mæðrum í barnsnauð, skurðlækningum og svo framvegis. Ég er með viðurkenningu sem skurðlæknir og það kom sér oft vel, enda ómögulegt að þurfa að senda konur langa leið ef þær þurftu í keisaraskurð. Ég þurfti að kunna eitthvað um allt,“ segir Jóhannes Ólafsson kristniboði og læknir – í þeirri röð.Þetta vefsvæði byggir á Eplica