07/08. tbl. 100. árg. 2014
Umræða og fréttir
Sjúkrahúsið á Patreksfirði
Ljósmyndin á kápunni er tekin um 1910 og sýnir sjúkrahúsið á Patreksfirði. Karlmaðurinn við steininn mun vera Pétur A. Ólafsson kaupmaður og athafnamaður. Ljósmynd: Pétur A. Ólafsson. Ljósmyndasafn Reykjavíkur varðveitir myndina.
Sókn erlendra fiskiskipa á Íslandsmið á síðari hluta 19. aldar varð til þess að þau sóttu eftir aukinni þjónustu í landi, líka heilbrigðisþjónustu. Um og uppúr aldamótunum 1900 voru sjúkrahús reist víða um land þar sem starfandi voru læknar en einkum þó í sjávarþorpum. Oftar en ekki voru sjúkrahúsin byggð fyrir tilstilli og með fjárframlagi erlendra manna, fyrirtækja eða góðgerðarsamtaka. Útgerðar- og verslunarfélagið Islandsk Handels & Fiskerikompani var stofnað árið 1898 og ætlaði sér stóran skerf í íslensku atvinnulífi. Félagið var einkum með starfsemi við Breiðafjörð en höfuðstöðvarnar voru á Geirseyri við Patreksfjörð en á Vatneyri réði ríkjum Pétur Thorsteinsson (síðar Milljónafélagið). Félagið leitaði eftir samskotum í Kaupmannahöfn fyrir sjúkrahús við höfuðstöðvarnar en það var talin ein af forsendum þess að fyrirtækið dafnaði. Félagið bauð sýslunni sjúkrahús að gjöf en forsvarsmenn sýslufélagsins töldu að húsið væri allt of stórt og treystu sér ekki til að standa undir kostnaði við rekstur þess. Héraðslæknirinn, Sigurður Magnússon (1866-1940), gerði uppdrátt að nýju húsið sem var töluvert minna, en þar var gert ráð fyrir 7 sjúkrarúmum auk venjulegrar aðstöðu að þeirrar tíðar hætti. Húsið var byggt árið 1902og tók sýslufélagið við því nokkru seinna eftir að það hafði verið búið öllum nauðsynlegum gögnum auk þess sem sýslan hafði tryggt sér verulegt framlag úr ríkissjóði. Sjúkrahúsið stóð í hlíðinni mitt á milli verslunarstaðanna, Vatneyrar og Geirseyrar, og var notað allt til ársins 1946 þegar nýtt hús var tekið í notkun. Húsið stendur enn í dag, Aðalstræti 69, en fyrri þokki er fyrir löngu horfinn.
Þessi mynd er tekin árið 1967 á sjúkrahúsinu á Patreksfirði. Frá vinstri eru Ingveldur Valdimars-
dóttir hjúkrunarkona, Kristján Sigurðsson læknir og fyrir endanum situr presturinn á staðnum,
séra Tómas Guðmundsson, og lætur svæfingarlyf drjúpa niður í grisju yfir vitum sjúklings. Myndin
er fengin úr Minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti í Örlygshöfn.
Fyrsta starfsár sjúkrahússins lágu þar 40 sjúklingar um lengri eða skemmri tíma og var um helmingur þeirra útlendingar, aðallega Frakkar og Englendingar. Reksturinn gekk þó brösuglega og húsið var jafnvel leigt út undir aðra starfsemi frá vori til vetrarbyrjunar enda var þá minna um erlend fiskiskip á miðunum. Frá því um 1930 var sjúkrahúsið haft opið allt árið og dugði það ágætlega sem nokkurs konar slysadeild fyrir erlenda sjómenn sem sóttu til Patreksfjarðar en þeir voru fjölmargir. Helsti kosturinn við að fá erlenda sjómenn á sjúkrahúsið var að þá var greiðsla fyrir læknishjálpina og dvölina á sjúkrahúsinu yfirleitt tryggð en stundum gat verið erfitt að innheimta slíka reikninga hjá fátækum íslenskum almúga.
Sigurður Magnússon læknir teiknaði einnig kirkjuna sem enn stendur. Hann byggði sér tvisvar einbýlishús á Patreksfirði skammt frá sjúkrahúsinu en hann var héraðslæknir þar á árunum 1899-1923. Sigurður var smiður góður og fékk sveinsbréf í trésmíði sama ár og hann útskrifaðist úr Lærða skólanum og hóf nám við Læknaskólann.
Jón Ólafur Ísberg