06. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Úr fórum Læknablaðsins 1915-2014. Læknablaðið í hálfa öld, 1965

Allt er í nokkuð föstum skorðum á blaðinu árin 1963 og 1964,  það kom út í  fjórum heftum hvort ár 188 og 220 síður - aðalritstjóri er Ólafur Bjarnason, og meðritstjórar Magnús Ólafsson (LÍ) og Ólafur Geirsson (LR). Í janúar 1965 bætast í ritstjórnina Þorkell Jóhannesson fyrir LÍ og Ásmundur Brekkan fyrir LR. Þeir slá í klárinn og gefa út þrjá árganga á árinu 1965 til að vinna upp glataðan tíma.


Nútíminn er að koma upp úr kafinu og í janúarblaðinu er eftirfarandi:

Orðsending frá LÍ. Að endurteknu tilefni eru læknar minntir á að gæta ýtrustu varfænri í öllu umtali um sjúklinga sína, jafnvel þó að samþykkir þeirra liggi fyrir. Í því sambandi vísast til Alþjóðasiðareglna lækna og Genfarheitis lækna (sjá Codex ethicus), laga nr 47/1932 og til Læknablaðsins, 38. árg. 1954, bls. 97-111. Stjórn LÍ

Fram kemur líka að skrifstofa LR er í Brautarholti 20 og rekin í samstarfi við Verkfræðingafélag Íslands, þar eru daglegar fjárreiður blaðsins og útsending. Þar segir frá því að haustið 1962 hafi læknar varnarliðsins í Keflavík boðið Læknafélagi Reykjavíkur til síðdegisdrykkju, „cocktailparty“, í samkomusal yfirmanna varnarliðsins og að 60-70 læknar og eiginkonur þeirra hafi þegið boðið. Páll Kolka hefur fallist á að rita félagssögu LR og auglýsir eftir fundargerðarbókum fyrstu 30 árin en þær virðast glataðar með öllu.

Birt er aldarminning Guðmundar Thoroddsen um nafna hans Magnússon, lipurlega skrifuð og skemmtileg með þessum lokaorðum:

Sullaveikin, sem hann barðist við alla sína ævi, má nú heita alveg horfin. Stúdentar og læknar kunna nú lítil skil á því, hvernig sú veiki hagar sér, og á aðgerðum við henni, hafa ekki þörf fyrir slíka kunnáttu, en bók Guðmundar Magnússonar um sögu sullaveikinnar á Íslandi mun standast tímans tönn sem óbrotgjarn minnisvarði um hinn hníffima, ráðholla og stundum spunastutta Magnússon.

Í fyrsta tölublaði 1964 er löng greinargerð frá 17. þingi Alþjóðabandalags lækna (World Medical Association) í New York í október 193, en þangað hefur Arinbjörn Kolbeinsson verið sendur. Margt kemur við sögu, skipting lækna í sérfræðigreinar í löndum Evrópu og skýrslur fulltrúa Kúbu og áheyrnarfulltrúa flóttalækna frá Kúbu, og eru eins og svart og hvítt.

Fyrsta hefti 50. árgangs sem gefið er út í júní 1965 er að stærstum hluta helgað því að Læknablaðið á útgáfuferill sem spannar hálfa öld. Ólafur Bjarnason ritstjóri rekur söguna, blaðið hefur stækkað úr einni örk í þrjár, nýlega voru teknar upp ritstjórnargreinar, í framtíðinni mun þurfa að gera strangar kröfur um efnismeðferð, Jóhann Hafstein heilbrigðismálaráðherra skrifar nokkur orð, Sigurður Sigurðsson landlæknir sendir hugheilar árnaðaróskir til blaðsins og Tómas Helgason forseti læknadeildar sömuleiðis. Læknablaðsannáll Magnúsar Ólafssonar fer yfir þróun blaðsins og mannskapinn í ritstjórn frá upphafi. 

Læknafélag Reykjavíkur gaf eitt út Læknablaðið þar til 1955, er Læknafélag Íslands, gerðist meðútgefandi þess. Kýs hvort félag tvo menn í ritstjórn, en stjórnir beggja félaga ráða aðalritstjóra.

Síðustu árin hefur Jón Aðalsteinn Jónsson cand. mag. verið ráðunautur blaðsins um íslenzkt mál. Hefur hann unnið mikið og vel fyrir blaðið, enda við ramman reip að draga, það er íslenzkt læknamál.


Ritstjórnin skrifar pistil um tímamótin þegar blaðið fyrst kom út:

Var það árið 1915, þegar Íslendingar eignuðust þjóðfána. Með útkomu Læknablaðsins má einnig segja, að íslenzk læknastétt hafi eignazt sitt sérstaka merki. Það hefur nú verið uppi síðan, ef undan eru skilin tvö hretár, svo sem getið er á öðrum stað í hefti þessu. Læknablaðið er því í hópi elztu tímarita, sem út koma hérlendis. – Læknablaðið er ritað fyrir lækna og af læknum. Það er tengiliður íslenzkra lækna innbyrðis og málgagn stéttarinnar í heild út á við. Læknablaðið getur því verið fjöregg íslenzkra lækna, sverð þeirra og skjöldur. Ritstjórn blaðsins á sér enga ósk jafnheita og þá, að læknar séu þessa ævinlega minnugir og efli blaðið, svo að um muni á ókomnum árum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica