06. tbl. 100. árg. 2014
Umræða og fréttir
Embætti landlæknis 5. pistill. Þunglyndislyf á Íslandi
Gögn NOMESKO (Nordisk Medicinalstatistisk Komité; nowbase.org) má nota til að gera samanburð á lyfjasölu og fjölda notenda milli Norðurlandanna. Enn betra er að skoða lyfjanotkun í Danmörku eða Noregi á vefslóðunum medstat.dk/ og reseptregisteret.no/ sem sýna sambærilegar tölur og lyfjagagnagrunnur Embættis landlæknis. Fram kemur í nýjustu skýrslu NOMESKO að heildarsala allra lyfja er mest í Svíþjóð og Finnlandi en Ísland sker sig úr með mestri sölu tauga- og geðlyfja. Í þessum pistli er fjallað um þunglyndislyf hjá fullorðnum og börnum.
Þunglyndislyf hjá fullorðnum
Ef borin er saman sala allra þunglyndislyfja hjá öllum aldursflokkum er hún umtalsvert meiri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Munurinn milli Norðurlandanna hefur ekki breyst mikið áratugum saman en notkunin hefur verið að aukast eins og sést á mynd 1. Þessi munur sést í öllum undirflokkum þunglyndislyfja. Í öllum þessum löndum eru SSRI-lyfin (N06AB) langmest notuð og í þeim flokki er fjöldi notenda á Íslandi 50-100% meiri en annars staðar. Ef litið er á heildarnotkun þunglyndislyfja í öllum aldursflokkum fengu um 12% þjóðarinnar ávísað þunglyndislyfjum á árinu 2013 en það er svipað og í Bandaríkjunum; í Danmörku og Noregi eru þessar tölur hins vegar um 8% og 6%. Notendahópar þunglyndislyfja í þessum löndum samanstanda af nálægt helmingi fleiri konum en körlum.
Þunglyndislyf hjá börnum
Ef skoðaður er fjöldi notenda meðal barna á aldrinum 0-14 ára í Nomesco-skýrslu fyrir árið 2012, sker Ísland sig úr með mörgum sinnum fleiri notendur lyfjanna en sjást annars staðar á Norðurlöndum. Þessi munur sést vel í samanburði milli Íslands og Danmerkur árið 2008 og 2012, sjá töflu I. Ef hins vegar eru bornir saman ávísaðir dagsskammtar (DDD/1000 íbúa/dag) er munur milli Danmerkur og Íslands óverulegur. Notkunin á Íslandi virðist því dreifast á fleiri notendur sem vekur spurningar um hvort meðferð barna sé öðruvísi háttað hér á landi. Í lyfjagagnagrunni Embættis landlæknis sést að þeir læknar sem bera þungann af ávísunum þunglyndislyfja handa börnum á Íslandi eru sérfræðingar í barnalækningum og barna- og unglingageðlækningum. Annað sem vekur athygli er að mörg þeirra barna sem fá ávísað þunglyndislyfjum eru einnig að fá ávísað metýlfenídat-lyfjum. Árið 2013 fengu 480 börn undir 18 ára ávísað lyfjum af þessum flokkum á sama tíma. Allt eru þetta áhugaverðar upplýsingar sem kalla á frekari rannsóknir á meðferð þunglyndis hjá börnum á Íslandi.
Gera þunglyndislyf gagn?
Flestir eru sammála um að þunglyndislyf geri ótvírætt gagn við alvarlegu og meðalsvæsnu þunglyndi enda hafa margar rannsóknir sýnt það. Við vægu þunglyndi eru niðurstöður rannsókna misvísandi og komið hafa fram efasemdir um gagnsemi þunglyndislyfja yfirleitt og hafa verið skrifaðar greinar og bækur um það efni. Sumir hafa gengið svo langt að halda því fram að þunglyndislyf geri almennt séð lítið meira gagn en lyfleysa. Aðrir hafa komist að þeirri niðurstöðu að lyfin hjálpi bara þeim sem eru með alvarlegt þunglyndi. Lyfin hafa aukaverkanir sem skipta meira máli þegar verið er að meðhöndla vægt þunglyndi og bent hefur verið á að í þeim tilvikum geti aukaverkanir vegið þyngra en ávinningur af lyfjunum; þetta er þó áreiðanlega einstaklingsbundið. Hér má einnig benda á þá staðreynd að mun erfiðara er að sýna fram á (eða afsanna) gagnsemi við vægu þunglyndi en alvarlegu.
Af hverju stafar þessi munur milli landanna?
Ólíkt því sem sést meðal fullorðinna er notkun hjá börnum nánast eins milli kynja og árið 2013 fengu 1040 drengir (0 til 18 ára) ávísað þunglyndislyfjum en 1102 stúlkur.
Skýringar á mikilli notkun þunglyndislyfja á Íslandi liggja ekki fyrir. Okkur er ekki kunnugt um rannsóknir á algengi þunglyndis í almennu þýði á Íslandi en erlendar tölur liggja oft um eða yfir 15%. Ef það er rétt og 12% Íslendinga taka þunglyndislyf, þá er þetta ekki til að hafa áhyggjur af nema ef til vill meðal barna.
Til að hægt sé að átta sig á því hvort hér sé um einhvern heilbrigðisvanda að ræða vantar rannsóknir, meðal annars á algengi þunglyndis í mismunandi aldursflokkum og á raunverulegum ástæðum þess að þunglyndislyfjum er ávísað.