06. tbl. 100. árg. 2014

Ritstjórnargrein

Vísindastarf á Landspítala – samanburður við Norðurlönd og sóknarfæri

Þorvarður Jón Löve gigtarlæknir vísindadeild Landspítala‚ kennslustjóri og lektor í læknadeild Háskóla Íslands

doi: 10.17992/lbl.2014.06.546

Heilbrigðistengd rannsóknarstarfsemi á Landspítala er gróskumikil og byggir á traustum grunni samstarfs við innlenda og erlenda aðila. Starfsmenn leggja mikið á sig til þess að sinna vísindaverkefnum samhliða öðrum störfum þótt ekki sé gert ráð fyrir fráteknum tíma til slíks. Ár hvert er þessum starfsmönnum þakkað sérstaklega á viðburðinum Vísindi á vordögum. Þessi dagur er í senn uppskeruhátíð þar sem farið er yfir árangur liðins árs og veittar viðurkenningar, en um leið er úthlutað meira en 100 styrkjum til þeirra vísindamanna sem lagt hafa fram bestu hugmyndirnar að nýjum verkefnum. Nú þegar þessi ánægjulegi dagur er að baki gefst færi á að meta stöðuna í vísindastarfi á Landspítala í dag, blikur á lofti og tækifæri næstu ára til frekari sóknar.

Vísindadeild Landspítala hefur komið á verklagi til þess að mæla afrakstur vísindastarfsins, auk þess að starfa með NordForsk að slíkri tölfræði fyrir Norðurlöndin. Þær tölur sýna að fjöldi birtra vísindagreina frá spítalanum eykst ár frá ári. Þetta bendir til þess að sú framsýni sem stjórn Landspítala sýndi með því að skera ekki niður framlög til vísindastyrkja í þrengingum undanfarinna ára hafi skilað sér. En sitt er hvað, magn og gæði, og því þarf að svara hvort þetta tvennt haldist í hendur. Nord-Forsk hefur nú birt sína nýjustu skýrslu1 um vísindastarf á Norðurlöndum og beitir við þá vinnu vandaðri aðferðafræði. Þegar fjöldi birtra greina er talinn er tekið tillit til fjölda höfunda frá hverri stofnun miðað við heildarfjölda höfunda greinar þannig að ef stofnun á einn höfund af 25 telst hún aðeins hafa birt 0,04 greinar. Þegar tilvitnanir eru svo taldar eru allar sjálfstilvitnanir útilokaðar og fjölda tilvitnana í hverja grein er deilt í meðalfjölda tilvitnana í greinar á heimsvísu í sama fagi. Þannig fæst mælikvarði þar sem talan 1 merkir að fjöldi tilvitnana í grein er jafn heimsmeðaltalinu. Þessi mælikvarði gerir kleift að bera vísindastarf á Íslandi beint saman við önnur Norðurlönd og heiminn allan án nokkurrar forgjafar vegna smæðar landsins eða annarra þátta. Með öðrum orðum: hér eru gæði mæld beint en ekki miðað við höfðatölu.

Það er ánægjulegt að greina frá því að árin 2000-2003 og 2004-2007 var Landspítali með hæstu tilvitnanaeinkunn af öllum háskólasjúkrahúsum á Norðurlöndum, eða 1,31 og 1,33 á þeim kvarða sem lýst var hér að framan. Hins vegar er áhyggjuefni að tímabilið 2008-2011 hefur þessi einkunn lækkað í 1,07. Þótt einkunnin sé yfir heimsmeðaltali hefur Landspítali nú fallið í 15.sæti af 21 háskólasjúkrahúsi á Norðurlöndum og er undir meðaleinkunn Norðurlandanna. Þó að hjá smárri einingu á borð við spítalann geti sveiflur milli tímabila verið umtalsverðar er óráðlegt að horfa framhjá þessum niðurstöðum. Þegar gögnin eru greind nánar kemur í ljós að líklega er hallinn aðallega á sviði þess sem skilgreint er sem heilbrigðisvísindi (health sciences) en þar er átt við klínískar og faraldsfræðilegar rannsóknir, en síður á sviði lífvísinda (biomedicine). Það er mikilvægt að styðja áfram rannsóknir starfsmanna spítalans í lífvísindum. En sóknarfæri í styrkingu rannsókna á Landspítala liggja ekki síður í rannsóknum á sviði heilbrigðisvísinda. Þar er lykilatriði að bæta aðgengi rannsakenda að rannsóknargögnum.

Rannsakendur á sviði heilbrigðisvísinda þurfa greiðan, öruggan og ódýran aðgang að gögnum. Nú er því svo háttað að vegna rannsóknar getur þurft að senda gögn milli stofnana með kennitölum, mismunandi aðferðum er beitt við samtengingar, og vísindamaðurinn ber stundum sjálfur ábyrgð á að tengja saman gögn og gæta persónuöryggis. Engin leið er að gera fyrirspurnir í rannsóknargrunna án atbeina sérfræðinga sem forrita hverja spurningu sérstaklega. Þetta ferli felur í sér götótta persónuvernd, er dýrt, tímafrekt og sama vinnan er endurtekin. Einkafyrirtækið Íslensk erfðagreining hefur leyst þetta mál fyrir sína rannsakendur. Þar er þess gætt að fyrirtækið og rannsakendur þess hafi aldrei aðgang að persónuauðkennum með því að láta þriðja aðila um samtengingar og dulkóðun. Jafnframt fá rannsakendur fyrirtækisins beinan aðgang að kerfi sem gerir ópersónugreinanlegar rannsóknarfyrirspurnir mögulegar. Til þess að allir íslenskir vísindamenn geti notið sams konar aðstæðna þarf að skipuleggja ferli sem gegnir því hlutverki að dulkóða, hreinsa og samtengja rannsóknargögn og afhenda vísindamönnum þau án persónuauðkenna. Einnig þarf að gera vísindamönnum kleift að gera sjálfir fyrirspurnir í rannsóknargrunnum. Nýlega samþykkt lög um vísindarannsóknir, lífsýnasöfn og söfn heilbrigðisupplýsinga auðvelda slíka uppbyggingu, ekki síst ákvæði um leitargrunna.

Rannsakendur á Landspítala vinna vísindastörf þar sem magn og gæði standast alþjóðlegan samanburð. En nú er tækifæri til að sækja fram með því að vinna eftir skipulegri sýn þegar kemur að notkun vísindamanna á gögnum til rannsókna. Þannig tryggjum við persónuöryggi, gæði og hagkvæmni heilbrigðisvísinda á Íslandi.

1.         Comparing Research at Nordic Universities using Bibliometric Indicators. NordForsk 2014. ISSN 1504-8640



Þetta vefsvæði byggir á Eplica