04. tbl. 100. árg. 2014
Umræða og fréttir
Úr fórum Læknablaðsins 1915-2014. Þrjú tölublöð 1974, 1979, 1980
Hátíðarbúningur blaðsins í tilefni 60 ára útgáfusögu er tilkomumikill, það er í desember 1974. Fyrsta ritstjórnin prýðir kápuna: Guðmundur Hannesson, Maggi Júl. Magnús og Matthías Einarsson. Á þessum tíma er Arinbjörn Kolbeinsson ritstjóri félagslegs efnis og Páll Ásmundsson ritstjóri fræðilegs efnis skrifar ritstjórnargrein um vegferð blaðsins þessa sex áratugi. Hann segir: „Fyrsta hugmynd að útgáfu íslenzks læknatímarits mun hafa komið fram 1898, en 16 ár liðu áður en sá draumur varð fyrir alvöru að veruleika. [...] Að öðrum ólöstuðum mun þó þáttur Guðmundar Hannessonar mestur við að fleyta blaðinu yfir hin erfiðu uppvaxtarár. Meðan hann var ritstjóri og jafnan meðan hans naut við, var hann óþreytandi að skrifa í blaðið bæði þýtt efni og frumsamið. Ætti að tilnefna einn mann föður Læknablaðsins yrði Guðmundur Hannesson óefað fyrir valinu.“
Desemberheftið 1979 var með þeim síðustu sem prentuð voru í Félagsprentsmiðjunni eftir rúmlega 60 ára samfylgd. Á kápunni eru lykilmenn Læknafélags Íslands á þessum tíma: Frá vinstri nýkjörinn formaður LÍ, Þorvaldur Veigar Guðmundsson, Páll Þórðarson framkvæmdastjóri læknafélaganna og Tómas Árni Jónasson fráfarandi formaður LÍ. Það eru kaflaskipti framundan hjá blaðinu og Örn Bjarnason ritstjóri og ábyrgðarmaður skrifar pistil: Á hvaða leið er Læknablaðið? Þar lýsir hann þeim áformum sem framundan eru að færa vinnslu og prentun blaðsins til útgáfufyrirtækis danska læknafélagsins. Sameiginlegur fundur stjórna LÍ og LR hafa samþykkt samning þessa efnis sem gilda á fyrir árið 1980 og í húfi eru 10 tölublöð. Örn skrifar: „Miklu ræður að sjálfsögðu, að með þessari skipan mun jafnframt takast að koma blaðinu á þann fjárhagsgrundvöll, að það verði ekki baggi á læknafélögunum. Þannig munu framlög, sem íslenzkir læknar leggja blaðinu til, nægja til þess að standa undir fastakostnaði við ritstjórn hér heima og ennfremur mun ritstjórnarfulltrúi geta sinnt því verkefni að afla félagslegs efnis og geta séð um, að því áhugaverðasta, sem er að gerast hverju sinni, verði komið á framfæri við lesendur án verulegra tafa.“
Á nóvemberheftinu 1980 er ljósmynd af Birni Pálssyni flugmanni (1908-1973) við flugvél sína TF- HIS af gerðinni Cessna 180. Myndina tók af Pétur Thomsen eldri. Við stjórnvöl blaðsins sitja þegar þarna er komið sögu þeir Bjarni Þjóðleifsson, Þórður Harðarson og Örn Bjarnason ábyrgðarmaður einsog árið áður, og blaðið er prentað í Kaupmannahöfn, hjá Mohns Bogtrykkeri, en afgreiðsla, auglýsingar og setning er í höndum Lægeforeningens forlag. Viðamesta greinin í blaðinu er eftir Ólaf Þ. Jónsson: Sjúkraflutningar með flugvélum, þar sem hann rekur sögu sjúkraflugs hérlendis og gerir grein fyrir könnun á sjúkraflutningum með flugvélum á árinu 1976, ræðir læknisfræðileg atriði sem máli skipta og reifar hugmyndir um bætt fyrirkomulag. Hlutur Björns Pálssonar var mjög stór í þessu flugi í 25 ár, og mun hann hafa farið hátt á fjórða þúsund ferðir í sjúkraflugi og því engin tilviljun að þessi ótrúlega magnaða mynd af flugmanninum sem Íslendingar höfðu í guðatölu sé á forsíðu blaðsins. Á aðalfundi Læknafélags Íslands í júní 1929 nefndi Guðmundur Björnsson landlæknir dæmi til að styðja gagnsemi sjúkraflugs. „Maður á Reyðarfirði verður allt í einu bandóður. Fólkið ræður ekkert við hann, allt í dauðans vandræðum. Símað. Eftir 4 tíma er flugan komin á Reyðarfjörð. Óði maðurinn fær deyfandi innspýtingu og sofnar. Er borinn í fluguna og eftir aðra 4 tíma er hann kominn í uppbúið rúm á Kleppi og þar vaknar hann næsta morgun og skilur ekki neitt í neinu. Og eftir hálfan mánuð er hann ef til vill albata af því að hann fékk strax rétta meðferð. Doktor Helgi getur sagt frá því betur en jeg, hversu afar mikla þýðingu það hefur, að ná mönnum, sem brjálast tafarlaust í geðveikrahæli.“ Í framhaldi af þessu er eftirfarandi tillaga Helga Tómassonar, Valtýs Albertssonar og Guðna Hjörleifssonar samþykkt: Aðalfundur Læknafélags Íslands 1929 skorar á Flugfélag Íslands, að gera þegar á þessu sumri tilraunir með flutning sjúklinga loftleiðis hér á landi.