04. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Nýsköpun á heilbrigðissviði. Orri Þór Ormarsson

Nýverið undirritaði Nýsköpunarmiðstöð Íslands samkomulag við Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Samkomulagið kveður á um stuðning við frumkvöðla og sprota í heilbrigðistækni auk þróunar á heilbrigðistækniklasa. Um 40% af fyrirtækjum í hlutaeigu Nýsköpunarsjóðs eru tengd heilbrigðismálum og í dag eru rekin fjögur frumkvöðlasetur á vegum sjóðsins. Markmið setranna er að veita frumkvöðlum aðstöðu, skapandi umhverfi, tengslanet og faglega ráðgjöf til að vinna að nýsköpun.

Hugtakið heilbrigðistækni er vítt og getur átt við allt sem tengist líf- og læknisfræði og miðar að því að bæta líðan og heilsu manna, hvort sem það eru lyf, lækningatæki, tölvutækni eða búnaður er tengist greiningu eða meðferð.

Með klasa í þessu samhengi er átt við þyrpingu fyrirtækja í tengdum atvinnugreinum. Stjórnvöld, rannsóknastofnanir, fjárfestar og menntastofnanir tengjast svo þessum klösum.  

Dæmi um klasa á Norðurlöndum er Medicon Valley, heilbrigðisklasi á Skánar- og Kaupmannahafnarsvæðinu, með um 280 líf- og heilbrigðistæknifyrirtæki, auk tengsla við 32 spítala. Annað dæmi er svo Oslo Medtech sem hefur það að markmiði að styrkja þróunalþjóðlegs samkeppnishæfs heilbrigðistæknigeira í Noregi.

Nýsköpun fer oftar en ekki í gegnum svokölluð sprotafyrirtæki. Fyrir utan augljósa vísun í sprota, það er eitthvað sem vex og dafnar, hefur heitið líka lagalega og praktíska tilvísun. Sprotafyrirtæki fá endurgreiðslu frá skatti, afslætti hjá stofnunum eins og Evrópsku lyfjastofnuninni og geta sótt um styrki í innlenda og erlenda sjóði.

Grundvöllur fyrir nýsköpun með þátttöku lækna er að mörgu leyti góður á Íslandi. Margar forsendur þess að skapa verðmæti byggð á vísindastarfi í tengslum við háskóla og heilbrigðisstofnanir eru til staðar. Hér á landi eru læknar vel menntaðir og við njótum þess að við fáum til landsins sérfræðilækna með menntun frá mismunandi löndum, sem eykur víðsýni. Hér er sterkt tengslanet milli manna og stofnana sem styttir og einfaldar öll samskipti.

Það eru þegar allmörg sprotafyrirtæki sem tengjast læknum á Íslandi. Dæmi um slík eru:

Kerecis: sárameðferð með fiskroði

Lipid Pharmaceuticals: lyfjaþróun

MentisCura: greining taugasjúkdóma

Nox medical: svefnrannsóknir

Oculis: augnlyfjarannsóknir

Þessi listi er ekki tæmandi en hann gefur hugmynd um þá fjölbreytni sem er til staðar.

Hvernig á að standa að nýsköpun og hverskonar umgjörð þarf að vera til þess að sprotafyrirtæki vaxi og dafni?

Undirritaður hefur reynslu af nýsköpun í gegnum sprotafyrirtæki sem starfað hefur frá árinu 2009. Fyrirtækið var stofnað utan um verkefni sem óx útfrá rannsóknum við Háskóla Íslands. Reynslan hefur sýnt að margt var gert rétt þegar farið var af stað með það.

Bæði Háskólinn og Landspítali voru meðal stofnenda fyrirtækisins og eiga hlut í því. Sterkt fyrirtæki í iðnaði var fengið til samstarfs og í stjórn fyrirtækisins voru skipaðir einstaklingar með fjölbreyttan bakgrunn, reynslu og þekkingu sem nýttist við mismunandi hliðar verkefnisins.

Frá upphafi voru sett skýr markmið. Strax var farið að huga að markaðsmálum og fengin ráðgjöf sérfræðinga bæði hérlendis og erlendis til þess að móta stefnu fyrirtækisins, enda mikilvægt að þekkja eigin takmörkoggott samstarf við ráðgefandi aðila er ómetanlegt.

Fyrirtækið hefur notið styrkja frá opinberum sjóðum og lagt hefur verið til hlutafé. Enn sem komið er hefur ekki verið leitað í alþjóðlega sjóði en í tengslum við Evrópu- og Norðurlandasamstarf eru fjársterkir sjóðir sem veita styrki til samstarfsverkefna.

Góð samskipti við lækna, fyrirtæki og stofnanir, svo sem Landspítala, Háskólann og Lyfjastofnun, er lykilatriði og mikil verðmæti felast í beinum tengslum sem myndast milli atvinnulífs og vísindastarfa háskóla og heilbrigðisstofnana þegar unnið er að sameiginlegu verkefni.

Landspítalinn veitti nýlega í fyrsta skipti þrjá veglega nýsköpunarstyrki til starfsmanna spítalans. Það er hvatning fyrir lækna, og til þess gert að efla vísinda- og þróunarstarf innan spítalans.

Ég hvet alla lækna til þess að stunda nýsköpun og þó að endastöðin sé óviss er ferðalagið bæði skemmtilegt og gefandi. Hafa verður þó í huga að nýsköpun kostar og árangur sprotafyrirtækja verður ekki til á einni nóttu. Þó svo að enginn beinn fjárhagslegur ávinningur myndist í einstökum verkefnum, verður til þekking og reynsla sem getur nýst út fyrir verkefnið sjálft.Þetta vefsvæði byggir á Eplica