03. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Minningargrein um Þorkel Jóhannesson

Þorkell Jóhannesson
- fæddur 30. september 1929, dáinn 15. desember 2013


Þorkell Jóhannesson (1929-2013) var velunnari Læknablaðsins og birti margar greinar um lyfja-
fræði og sögu hennar. Blaðið sendir ættingjum og afkomendum Þorkels samúðarkveðjur.
Mynd Þorkell Þorkelsson.

Ég kynntist Þorkeli Jóhannessyni fyrst árið 1975. Hrafnkell Helgason vinur okkar kynnti okkur, en hann hafði um skeið verið prófdómari í lyfjafræði við Háskólann. Nú var hann vanhæfur vegna tengsla við föður eins stúdentsins og ég var fenginn til að hlaupa í skarðið. Fljótlega varð að samkomulagi okkar þriggja að ég tæki alfarið við  prófdómarastarfinu. Ég minnist margra fagurra vorkvölda á hlýlegu heimili Þorkels og Esterar konu hans við Oddagötu, þar sem við sátum við yfirferð prófa fram á nótt. Þetta gat verið snúið, sumir stúdentar illa skrifandi og málfar ekki gott! Það fór í taugarnar á Þorkeli sem var mikill íslenskumaður. Einnig líkuðu honum illa skammstafanir, sem sumir stúdentar notuðu óspart. Ég man að margir notuðu skammstöfunina „BBB“ og augljóst af samhenginu að átti að tákna „blood brain barrier“. Þorkell taldi hins vegar að þetta stæði fyrir „Brigitte Bardot ber“ og lagði til að einkunnin tæki mið af því. Ekki varð þó af því, og ég verð að segja að hann var jákvæður í garð stúdenta og okkur samdi vel við þessa iðju. Við þurftum stundum að taka hvíld, og þá var margt spjallað. Barst talið meðal annars að hestamennsku sem var hans hjartans mál. Leiddi hvað af öðru, ég fór að fara í útreiðartúra með honum, naut aðstoðar hans þegar ég keypti sjálfur hross og við deildum síðar hesthúsi í áratugi. Þetta leiddi til góðrar vináttu sem aldrei bar skugga á og ég tel Þorkel í hópi merkustu manna sem ég hef kynnst á lífsleiðinni.

Sagt var um Gissur biskup Ísleifsson að úr honum mætti gera þrjá menn: Biskup, víkingahöfðingja eða konung. Ekkert þessara starfa tel ég þó að hefði hentað Þorkeli. En hann var í reynd margir menn: Háskólakennari, vísindamaður, íslenskufræðingur, orðasmiður, rithöfundur, alþýðufræðari, hestamaður, áhugamaður um sögu landsins, landafræði og örnefni, þjóðlegan fróðleik, viðtöl við lífsreynt fólk, og er þó vafalaust ekki allt talið. Ég naut þess heiðurs að fá að lesa yfir mörg verka hans í handriti. Skipti engu að á mörgum þeirra hafði ég ekkert vit. Hann vildi aðeins reyna hvort sæmilega skýr maður skildi hvað hann væri að fara. Þorkell var með ritfærustu mönnum sem ég hef kynnst. Það var dálítið kúnstugt að í viðræðu var hann ekki orðfár, en ritaði hins vegar mjög knappan stíl. Það var sama hvort hann skrifaði vísindaritgerð um flókið efni eða grein ætlaða almenningi. Allt var hárnákvæmt og skýrt. Mér er minnistæð grein sem hann ritaði ásamt vini sínum Óttari Kjartanssyni og nefndist: Fjórar leiðir í Gjáarrétt. Var það leiðsögn ætluð hestamönnum hvernig hægt væri að komast í Gjáarrétt á mismunandi hátt. Grein þessi er svo laglega skrifuð að hver maður sem hefur hana á hnakknefinu á að komast klakklaust allar þessar leiðir og þekkja hvert leiti á leiðinni með nafni!

Þorkell var brautryðjandi í háskólakennslu í lyfjafræði á Íslandi að fyrirrennurum hans ólöstuðum, sem voru báðir hinir mætustu menn og góðir kennarar. Hann tók upp þann sið að hafa lækni sem stundaði klínísk störf í tímum hjá sér til að tryggja að kennslan yrði ekki síður hagnýt en fræðileg. Einnig fór hann að halda kvöldfundi með stúdentum þar sem farið var yfir ákveðið svið. Þar mættu aðrir kennarar greinarinnar auk utanaðkomandi lækna sem notuðu þessi lyf daglega í starfi sínu. Þar gátu orðið hörð skoðanaskipti milli fræðimannanna og þeirra sem stunduðu lækningar og höfðu allir viðstaddir gaman af.

Ég sat stundum í tímum hjá honum og kynntist því hvílíkur afbragðs kennari hann var. Hann talaði hægt, og þegar kom að aðalatriðum sagði hann oft: „Ég endurtek“ og fór síðan aftur yfir það sem hann vildi leggja áherslu á. Þorkell þekkti það af eigin raun að sumum hentar að taka skrifleg próf en öðrum munnleg. Hann var tilbúinn að leggja það á sig og aðra kennara greinarinnar að bjóða stúdentum að velja hvorn háttinn þeir vildu frekar. Hann vissi sem var að aðalatriðið var að prófa kunnáttu stúdentsins. Prófformið skipti ekki máli. Því miður bönnuðu háskólayfirvöld honum þetta eftir að það hafði varað í fáein ár. Annað sem einkenndi kennslu hans var að íslenska öll fræðiheiti, og voru þeir kollegar hans, Magnús Jóhannsson, Jakob Kristinsson og aðrir kennarar í lyfjafræði, mjög samstíga á þessu sviði. Þeir voru áhugamenn um íslenskt mál og duglegir nýyrðasmiðir, alltaf tilbúnir að breyta orðum til hins betra ef það fyrsta reyndist ekki vel. Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir hvert þjóðþrifaverk þessir menn unnu. Legg aðeins til að fólk líti í Læknablaðið eða Læknanemann frá 6. áratug síðustu aldar til að kynna sér málfar stéttarinnar.

Þorkell sinnti rannsóknarskyldu prófessors með afbrigðum vel og vann að vísindum nánast fram í andlátið. Læt ég nægja að vísa í ágætar minningargreinar þeirra Jóns Snædals og Magnúsar Karls Magnússonar varðandi það.


    Þorkell á baki eftirlætishestinum Gangvara. Hann átti reyndar aldrei sjálfur þennan gæðing.
    Fyrst eignaðist Bergþóra dóttir hans hestinn, en síðar eiginkona hans, Ester Eggertsdóttir.
    Málverkið gerði U. Kimpfler eftir ljósmynd. Mynd af málverki: Þorkell Þorkelsson.

Ég verð aðeins að minnast á hestamennsku Þorkels sem færði honum mikla lífshamingju. Hann var að upplagi mikill dýravinur, hafði ætlað sér að læra dýralækningar þótt tilviljun ylli því að hann sneri sér að læknisfræðinni. Hestar hans voru vinir hans, duglegir ferðahestar en engir sýningargripir. Yfirleitt tamdi hann þá sjálfur. Yrði þeim misdægurt hefði engin móðir hugsað betur um barn sitt. Helsta athugasemd við fóðrun þeirra var að þeir voru í feitara lagi, eins og hann reyndar sjálfur! Það er erfitt að lýsa Þorkeli svo fullnægjandi sé. Hann var meðalmaður á hæð, mjög þrekvaxinn án þess að vera beinlínis feitur. Hann var rammur að afli, svipsterkur en ekki smáfríður og það sópaði að honum. Hann stamaði, en mér fannst það aldrei há honum, jafnvel styrkja hann í kennslunni af því hann talaði ekki hratt vegna þess. Hann var mjög vel gefinn, einhver fjölfróðasti maður sem ég hef kynnst. Hann var skoðanafastur og mjög rökfastur, gat verið þrjóskur. Hann skrifaði stundum stuttar hnitmiðaðar greinar í Morgunblaðið um mál sér hugleikin sem unun var að lesa. Gallalaus var hann ekki frekar en við hin. Í honum var bæði gull og grjót. En mér fannst grjótið klæða hann, það var hluti af karakternum. Gullið sem hann hafði í svo ríkum mæli naut sín því betur en ella.

Þorkell átti við mikið heilsuleysi að stríða sín síðustu ár en lét það lítið á sig fá. Hann sinnti öllum sínum áhugamálum nema helst hestamennskunni fram í andlátið. Hann varð bráðkvaddur í veislu sem hann var nýkominn til. Þorkell trúði á líf að þessu loknu. Hafi hann rétt fyrir sér hlakka ég til að hitta hann aftur.

Tryggvi Ásmundsson



Þetta vefsvæði byggir á Eplica