03. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi

Myndina á kápunni tók Magnús Ólafsson árið 1910 en hann var einn kunnasti ljósmyndari landsins á fyrri hluta 20. aldar. Holdsveikraspítalinn blasir við með Esjuna og Skarðsheiðina í bakgrunni en í forgrunni er saltfiskbreiðsla og stakkstæði á vegum P. Thorsteinssonar á Kirkjusandi.


Stríðsáramynd tekin 1941-43, hér sést Laugarneskampur sem var einn af þeim stærstu í Reykjavík 
og stóð framan við Holdsveikraspítalann. Síðasti bragginn var rifinn 1980. Ljósmyndarinn er
óþekktur. Myndirnar eru allar frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi var vígður 27. júlí 1898. Hann var eitt stærsta hús landsins, um 750 m2, og líklega eitt stærsta timburhús sem byggt hefur verið hérlendis. Spítalinn var byggður fyrir erlent gjafafé sem Oddfellow-reglan í Danmörku safnaði og uppfyllti allar þarlendar kröfur um spítala. Spítalinn markar upphaf nútímaspítala á Íslandi en þó hann hafi ekki verið fyrsti spítalinn, var hann sá eini sem uppfyllti kröfur þess tíma.

Holdsveikraspítalinn var tveggja hæða hús með risi á steyptum kjallara. Hann var málaður gulum lit en gluggakarmar ýmist rauðir, bláir eða grænir og að innan voru notaðir ljósir bjartir litir. Aðkoman var sérlega glæsileg og gengið var inn í stóran forsal en sjúkraherbergi með stórum gluggum voru á hæðunum og sneru út. Herbergin voru eins og tveggja manna en alls var rúm fyrir um 60 sjúklinga og tvö salerni voru á hverri hæð. Gangar og þjónusturými, þar á meðal eldhús, þvottahús og líkhús, sneru inn og voru norðanmegin. Í risinu bjó allt starfsfólk spítalans.


Myndin er tekin árið 1916 og er af pípulagningamönnum við spítalann. Ljósmyndari:  Magnús Ólafsson.

Sæmundur Bjarnhéðinsson (1863-1936) var ráðinn yfirlæknir og gegndi því starfi til ársins 1934 og samkvæmt kröfu gefanda var einnig ráðin hjúkrunarkona, Christophine Mikkeline Jørgensen (1868-1943), en þá voru engar hjúkrunarkonur á Íslandi. Christophine giftist Sæmundi 1902 og þá tók Harriet Kjær við og var yfirhjúkrunarkona 1902-1929. Undir stjórn þessara dönsku hjúkrunarkvenna var komið á viðurkenndum erlendum spítalaaga. Nokkrar ungar konur sem réðust til starfa við spítalann lærðu fyrstu handtökin þar en luku síðan námi í Danmörku og spítalinn gegndi þannig mikilvægu hlutverki í menntun hjúkrunarfræðinga. Holdsveikraspítalinn var einkum hjúkrunar- og einangrunarstofnun en þar voru reynd margvísleg lyf til lækninga á holdsveikinni. Spítalinn var einnig búinn rannsóknartækjum og þar voru stundaðar skipulagðar sjúkdómskrufningar og aðrar rannsóknir á sjúkdómssýnum sem vöktu athygli víða um heim.

Fyrstu sjúklingarnir, feðgar, komu í spítalann 10. október 1898 en tíu dögum síðar komu strandferðaskip til Reykjavíkur og með þeim fjöldi holdsveikrasjúklinga sem hafði verið safnað saman um landið. Fljótlega varð hvert rúm skipað og þótt dánartalan væri há fyrstu árin bættust nýir sjúklingar við, en talið er að holdsveikir hafi verið um 250 talsins. Fljótlega fór starfið að skila árangri og spítalinn útskrifaði sjúklinga og var því aðeins nýttur að hluta en þá sáu yfirvöld sér leik á borði og notuðu hluta hans fyrir geðsjúklinga. Árið 1940 tók breski herinn spítalann yfir og voru hinir fáu sjúklingar sem þar voru þá fluttir á Kópavogshælið. Spítalinn brann til kaldra kola 7. apríl 1943.Yfirlitsmynd Ólafs Magnússonar sýnir Laugarnesið og upphaf götumyndunar þar. Esjan er á sínum
stað. Spítalinn stóð þar sem nú er bílastæðið við safn Sigurjóns Ólafssonar.

Holdsveikraspítalinn kemur fyrir í sögunni sem hreppti Íslensku bókmenntaverðlaunin 2013, 
Mánasteinn, drengurinn sem aldrei var til, eftir Sjón. Þar er sögusviðið Reykjavík
12. október til 6. desember 1918, Katla gýs og spænska veikin heldur bæjarbúum í heljargreipum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica