03. tbl. 100. árg. 2014

Fræðigrein

Læknakennsla á Íslandi fram til ársins 1970

Upphafið

Eiginleg læknakennsla á Íslandi hófst með Bjarna Pálssyni landlækni á ofanverðri 18. öld. Í erindisbréfi Bjarna var kveðið á um að hann skyldi mennta fjóra fjórðungslækna sem annast skyldu læknisstörf í landinu. En Bjarna gekk illa að fá unga pilta til námsins enda voru prestfræðin mun eftirsóknarverðari í augum ungra manna sem vildu tryggja sér gott embætti.

Biskupar landsins reyndu að vísu að koma sem flestum prestsefnum til Bjarna til að nema einhverja læknislist. Þeir vildu mennta sálusorgara í lækniskúnst til að styrkja aðstöðu prestanna og vald kirkjunnar. Bjarni afsagði þetta með öllu enda taldi hann að þessir prestar yrðu „frjósamt efni í sí-æxlandi fúskara“ eins og stendur í ævisögu hans eftir Svein Pálsson. Bjarni leit á læknisfræði sem sjálfstæða vísindagrein sem ekki mætti blanda saman við aðra menntun.

Fyrstur til að útskrifast sem læknir frá Bjarna var Magnús nokkur Guðmundsson sem hóf nám 1760 og tók lokapróf á Þingvöllum árið 1763. Hann varð læknir í Norðlendingafjórðungi skamman tíma en dó líkþrár.

Bjarna var gert að kenna læknaefnum sínum 5 námsgreinar: líffærafræði, handlæknisfræði, grasafræði, lyfjafræði og yfirsetufræði. Var gert ráð fyrir tveggja til fjögurra ára námi og prófi að því loknu í viðurvist yfirvalda.

Fram eftir 19. öldinni var læknakennsla áfram í höndum landlæknanna en hún var ærið misjöfn og féll niður frá árinu 1834 og allt til 1862. Þá komst innlend læknakennsla á að nýju fyrir tilstilli Jóns Hjaltalíns landlæknis. Jón var hámenntaður læknir sem farið hafði víða til að afla sér menntunar. Hann var áhugamaður um læknisfræði og ofbauð niðurlæging kennslunnar.  

Hann prófaði fyrsta nemanda sinn, Þorvald Jónsson, að loknu þriggja ára námi árið 1863 í alþingissalnum í Lærða skólanum. Jón Hjaltalín hélt einn uppi læknakennslunni til ársins 1868 en þá fékk hann sér aukakennara.

Eiginlegur læknaskóli var stofnaður 1876 með landlækni sem forstöðumann. Nýtt sjúkrahús var stofnað þar sem nú er Farsóttarhúsið við Þingholtsstræti og flutti læknaskólinn þangað árið 1884. Alls luku 64 prófi frá þessum læknaskóla sem var við lýði þar til Háskóli Íslands var stofnaður árið 1911.


Háskóli Íslands

Deildir Háskólans voru í upphafi aðeins fjórar: guðfræðideild, læknadeild, lagadeild og heimspekideild. Hin síðasttalda var ný af nálinni en hinar þrjár voru arftakar embættismannaskólanna.

Við stofnun háskólans lét landlæknir af störfum sem forstöðumaður læknakennslunnar en stofnuð voru tvö prófessorsembætti, Guðmundur Magnússon var skipaður prófessor í handlækningum og Guðmundur Hannesson prófessor í líffærafræði. Hvor þessara manna hafði tvær kennslugreinar auk sinnar eigin. Kennarar við deildina voru alls 10 og fyrsta starfsárið voru nemendur 27 talsins og höfðu allir áður verið í læknaskólanum.

Skólinn fékk í upphafi inni í Alþingishúsinu, nema læknadeild sem var um sinn áfram í húsnæði því sem Læknaskólinn hafði haft til umráða (Þingholtsstræti 25) en því var sagt upp árið 1913 og flutti læknadeildin þá í Alþingishúsið. Háskólinn hafði neðstu hæðina til umráða þar sem fram fór kennsla í öllum fjórum deildum skólans. Nefndarherbergi þingsins voru notuð sem kennslustofur og fyrir vikið sáust þingmenn og ráðherrar halda fundi í gluggakistum og öðrum afkimum hússins. Eini samkomustaður stúdenta var fordyri hússins.

Læknadeildin var í þessu óhentuga húsnæði allt þar til Háskóli Íslands var reistur á Melunum. Krufningar voru reyndar stundaðar í litlum kofa sem stóð við hlið Alþingishússins og eru margar sögur til af þrengslunum, lyktinni og óhugnaðinum sem blasti við sjónum í þessum kofa.

Spítalamál landsmanna voru í ólestri fram eftir 19. öldinni. Sjúkrahús Reykjavíkur var rekið af miklum vanefnum í Þingholtstræti fram yfir aldamót og danskir Oddfellowar gáfu myndarlegan holdsveikraspítala inni í Lauganesi árið 1898. Kleppur kom til sögunnar 1907 og Vífilsstaðir þremur árum síðar. Landakotsspítali reis af grunni 1902 og tók við læknaskólanum af Sjúkrahúsi Reykjavíkur í Þingholtsstræti og varð öflugasta alhliða sjúkrahús landsins. Læknakennsla fór að mestu leyti fram á þessum spítölum þar til Landspítalinn var byggður og tók til starfa árið 1930.

Námsefni og kennsla læknanema var hefðbundin og breyttist í tímanna rás með tilkomu nýrra greina sem urðu til með vaxandi þekkingu. Mesta áherslan var lögð á grunngreinar læknisfræðinnar eins og líffærafræði og lyfjafræði.

En hvernig var ástand mála þegar háskólinn var stofnaður? Bjarni Snæbjörnsson (f. 1889) læknir í Hafnarfirði útskrifaðist sem kandídat frá læknaskólanum 1914. Hann segir: „Flest bar merki fortíðarinnar í starfi þeirra fáu lækna sem hér voru og tæki þeirra og lyf voru af skornum skammti og af litlu úrvali.“

En menn höfðu háleit markmið og dreymdi um glæsta framtíð þessa nýja skóla enda var mikil áhersla lögð á að þarna skyldi rísa vísindastofnun. Páll Kolka (f. 1895) segir í Vísindin efla alla dáð: „Læknadeild háskólans var eins og fríð og gáfuð heimasæta eftirsóknarverð í augum okkar ungu mannanna en ótrúlega snauð af þessa heims auði því að hún átti varla nokkra spjör sem sæmileg gat talist.“


Ljósmyndari óþekktur, myndin er tekin milli 1910-1920 sennilega á Akureyri. Guðmundur Hannesson
læknir og sonur hans. Myndirnar með greininni eru allar fengnar frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur.


Kennarar skólans

En hvernig stofnun var læknadeild Háskóla Íslands á liðinni öld? Þegar ævisögur íslenskra lækna eru lesnar kemur í ljós að álit manna á deildinni mótast af prófessorum og kennurum hennar. Læknadeildin ber fyrst og fremst mark þeirra manna sem þar kenndu og réðu ríkjum.

Kristján Sveinsson (f. 1900) augnlæknir ber kennurum sínum vel söguna enda kenndu þá við skólann Guðmundarnir þrír, Guðmundur Björnsson (f. 1864), Guðmundur Hannesson (f. 1866) og Guðmundur Magnússon (f. 1863), sem allir þóttu miklir afreksmenn í læknisfræði. Greinilegt er á lestri endurminninga og viðtala að þessir þrír Guðmundar hafa verið í dýrlingatölu meðal stúdenta. Allir voru þeir Húnvetningar, sem og Þórður Sveinsson (f. 1874) yfirlæknir á Kleppi sem kenndi réttarlæknisfræði og sálsýkifræði og Sæmundur Bjarnhéðinsson (f. 1863) sem kenndi lyfjafræði og hafði sýningar á holdsveiki. Aldrei síðan hafa Húnvetningar verið svo áhrifamikilir meðal íslenskra lækna. Þessir fimm menn voru í miklum metum meðal stúdenta.

Erlingur Þorsteinsson (f. 1911) læknir segir svo um Guðmund Thoroddsen (f. 1887) prófessor: „Hann var skemmtilegasti kennari sem ég hef haft, alltaf jafn kátur og fyndinn auk þess sem hann var vel lærður og afbragðs kennari.“

Aðrir kennarar sem menn ræða hlýlega um eru Gunnlaugur Claessen röntgenlæknir, Ólafur Þorsteinsson háls- nef og eyrnalæknir og fleiri.

Lárus Einarsson (f. 1902) læknir er Sigurði Samúelssyni (f. 1911) prófessor minnisstæðastur. Lárus var aukakennari í vefjafræði og lífeðlisfræði. En aðstaðan sem Lárusi var boðin hérlendis var svo ömurleg að eðlilegt var að maður með hans menntun ílentist ekki hér. Danir voru fljótir að krækja í hann, segir Sigurður, en Lárus flutti til Danmerkur og gat sér ágætan orðstír.

Níels Dungal (f. 1897) prófessor naut mikils álits, bæði meðal kollega sinna og læknanema, sem og í samfélaginu. Hann var mjög áberandi og skrifaði bæði greinar í blöð og gaf út tímarit (Heilbrigðismál) og bækur um margvísleg efni. Níels Dungal byrjaði árið 1926 í Kirkjustræti 12 þar sem allt var þá í niðurníðslu. Dungal þótti fyndinn og skemmtilegur og fóru af honum margar gamansögur.

Dungal var kraftaverkamaður sem lét byggja yfir starfsemi sína og var á mörgum sviðum á undan sinni samtíð. Páll Gíslason (f. 1924) segir: „Níels fór stundum offari og fullyrti meira en hann gat staðið við.“ Ólafur Ólafsson (f. 1928) læknir lýkur lofsorði á Níels og segir að breska læknablaðið hafi skrifað leiðara um tóbaksrannsóknir hans árið 1953, sem var óvenjulegur og fáheyrður heiður fyrir íslenska lækna. En „sumir kollegar hér heima skelltu tungu í góm“.

Læknar bera venjulega Helga Tómassyni (f. 1896) vel söguna í endurminningum sínum og ljúka lofsorði á kennslu hans og áhuga á faginu. Páll Gíslason hefur á orði hversu mikla virðingu hann hafi alltaf sýnt sjúklingum sínum.

Þegar líður á öldina ber mest á Jóni Steffensen (f. 1905) prófessor sem smám saman varð persónugervingur læknadeildar.

Björn Guðbrandsson (f. 1917) segir: „Jón Steffensen tók kennsluna mjög alvarlega en kenndi líffærafræðina á dauðan hátt enda var ekki öllum gefið að læra hjá honum. Sumir féllu aftur og aftur en nú orðið sér maður að margir þeirra hefðu ekkert erindi átt í stéttina.“

Jón var umdeildur maður. Nemendur hans voru sammála um það að hann hafi verið lélegur kennari en eftir því sem árin liðu óx álit manna á Jóni og flestir fyrrum nemendur hans minnast hans með miklum hlýhug og virðingu. Páll Gíslason segir: „Jón var góður kennari en harður. Margir gáfust upp áður en kom að fyrrihlutaprófunum því að hann hafði litla þolinmæði með þeim sem voru illa eða ekkert lesnir.“

Ólafur Ólafsson segir: „Jón Steffensen var greindur maður og vel að sér en hvatti menn ekki beinlínis til dáða, blessaður. Hann var þungur og gat virst kaldlyndur og kaldhæðinn.“

Miklum sögum fór af Steffensen og er margar þeirra að finna í Íslenskri fyndni sem út kom á síðustu öld. Allar þessar sögur einkennast af þurrum og kaldranalegum húmor Jóns enda gat hann verið ansi háðskur í garð þeirra nemenda sem lítið kunnu.


Magnús Ólafsson tók myndina 1930. Jón Steffensen  prófessor í líffæra-
fræði heldur uppi teppinu fyrir framan stúlku með hryggskekkju.

Takmarkanir

Saga læknadeildarinnar mótaðist af endalausri umræðu um takmarkanir og mögulega offjölgun lækna í landinu. Níels Dungal hélt fyrirlestur um þetta fyrst árið 1939 og sagði að takmörkun að deildinni hefði verið íhuguð strax árið 1928 og bæri stöðugt á góma.  

Torfi Bjarnason (f. 1899) héraðslæknir: „Við vorum 8 nýstúdentar sem innrituðumst í læknadeild 1921. Þetta þótti allmikill fjöldi og Guðmundur Hannesson talaði alvarlega yfir okkur og sagði að það væri ekkert vit fyrir okkur að leggja útí þetta, læknar yrðu svo margir að við fengjum ekkert að gera.“

Sigurður Samúelsson prófessor segir mörgum árum síðar: „Mér bárust þau ógnvekjandi tíðindi að vonlaust væri að hefja nám í læknadeild vegna offjölgunar í stéttinni.“

Kannski má segja að enginn íslenskur læknanemi hafi komist hjá því að heyra þennan söng um offjölgun lækna og yfirvofandi atvinnuleysi og barning. Skemmst er frá því að segja að þessi dómsdagsspá um framtíð lækna hefur reynst hin mesta firra af ýmsum ástæðum.

Þegar tölur um útskrifaða kandídata eru skoðaðar er hægt að sjá aukningu en enga sprengingu í þessum fjölda sem útskrifaður er á hverju ári.  

 

Embættispróf í læknisfræði:
1912 4
1913 1
1914 5
1932 14
1952 21
1961 24

Lengst af á sjöunda og áttunda áratugnum voru útskrifaðir um 25-30 kandídatar á ári. Árið 1969 náðu liðlega 20 stúdentar báðum forprófunum sem gaf þeim rétt á að halda áfram námi.

Páll Gíslason læknir segir: „Fyrrihluti læknanámsins var 3 ár og Jón Steffensen var eini kennarinn okkar og kenndi okkur líffærafræði, lífefnafræði og lífeðlisfræði. Fyrsta prófið var ekki tekið fyrr en að þessum þremur árum loknum og það var mikið áfall fyrir þá sem féllu eftir þriggja ára nám. Þá var annað hvort að hætta eða byrja alveg frá byrjun að nýju. Þeir sem komust í gegn voru þeir sem gátu kúrt yfir líffærafræðinni í þrjú ár og lært hana utanbókar og komið þeirri vitneskju frá sér á þessum  eina degi sem prófið stóð yfir. Aðeins helmingur náði prófinu.“

Í þessum orðum kemur fram að prófessor Steffensen hafi haft með takmarkanir inn í deildina að gera. Greinarhöfundur innritaðist í læknadeild 1968 og þá fór miklum sögum af prófum hjá Jóni og hárri fallprósentu.

 

Stagl og aftur stagl

Margir læknar verða til að gagnrýna þá ofuráherslu sem lögð sé á bóklegt staglnám en verklegu klínisku námi sé mjög áfátt.  Þetta hefur reyndar fylgt allri umræðu um læknanám á Íslandi.

Í ævisögu Sigurðar Magnússonar (f. 1869) læknis er frásögn af aðbúnaði læknanema áður en Háskóli Íslands var stofnaður. Hann hóf nám í læknaskólanum árið 1887. „Námið var aðallega á bókina enda voru verklegar æfingar sama sem engar. Það var viðburður ef læknar tóku nemendur með sér í vitjanir út í bæ. Lítið var um spítalavist sjúklinga og stúdentum var sjaldan eða alls ekki borðið upp á að líta til þeirra, skoða þá eða rannsaka.“

Námið í deildinni einkenndist áfram af miklum utanbókarlærdómi og lestri stórra fræðibóka sem víðast annars staðar voru notaðar sem uppflettirit. Frægust þessara bóka er Anatómía Grays (1500 bls.) sem menn lásu og lærðu utanbókar undir leiðsögn Jóns Steffensens. Ólafur Ólafsson læknir segir: „Augljóst var að draga mátti úr kennslu í líffærafræði. Meðal ríkja sem héldu áfram meira og minna gagnlausri þriggja ára ítroðslu í líffærafræði voru austantjaldsþjóðirnar.“

Sama máli gegndi um aðrar stórar fræðibækur sem ætlast var til að stúdentar kynnu utanað.

Þegar Læknaneminn er lesinn og þá helst viðtöl við kennara og læknanema um málefni deildarinnar kemur fram mikil gagnrýni á klínísku kennsluna. Mönnum finnst hún sitja á hakanum en áhersla sé lögð á lesinn texta. Margir kvarta undan skorti á vísindalegum rannsókum sem standi undir nafni.

Þorkell Jóhannesson (f. 1929) prófessor: „Ég dreg hins vegar ekki dul á að mér finnst þessi skóli bera verulegan keim af menntaskóla þar sem vísindi eiga allt að því undarlega erfitt uppdráttar.“

Jóhann Sæmundsson (f. 1905): „Námsskilyrði hér heima eru um margt miklu ófullkomnari en erlendi. Í fyrsta lagi meira kennaraval. Erlendir háskólar eiga ýmis hjálpargögn sem okkur vanhagar mjög um, svo sem kvikmyndir og myndasöfn.

Íslenskir kandídatar eru mjög misjafnir og það eru hinir erlendu engu að síður. Ég fæ ekki betur séð en ísl. Læknakandídatar standi erlendum kollegum nokkurn veginn jafnfætis upp og ofan að bóklegri þekkingu. En okkar kandidatar hafa séð minna vegna fólksfæðar og smæðar sjúkrahúsanna.“

Haukur Kristjánsson (f. 1913) dósent: „Það þætti ærið fjarstæðukennt að læra til bílprófs án ökutækis. En kennsla í sumum greinum læknisfræði við Háskóla Íslands hefur allt fram á síðustu ár verið hliðstæð því.“  

Páll Gíslason segir: „Það má vissulega margt að finna kennslunni í læknisfræði og sérstaklega voru vísindalegar rannsóknir í litlum hávegum hafðar og það þótti viðburður á þessum árum ef íslenskur læknir vann doktorsverkefni.“

Grunnskipulag námsins er með svipuðum hætti fram eftir öldinni. Stúdentar læra utanbókar þykka doðranta og eru þess á milli á ærið misjöfnum klínískum kúrsusum á spítölunum og úti í héraði. Menn kvarta stöðugt undan þessu skipulagi og krefjast meiri og betri klínískrar kennslu en verða aldrei ánægðir með þær umbætur sem gerðar eru.


Læknanemar að kryfja, mynd úr Æviminningum Kristjáns Sveinssonar augnlæknis, (1982) eftir
Gylfa Gröndal.

Félag Læknanema

Félag læknanema er stofnað 6. mars 1933. Stofnendur voru 25 talsins, fyrsti formaður var Ólafur Geirsson (f. 1909). Mesta áhugamál stúdenta var alltaf verkleg kennsla í deildinni. Snemma bar á óánægju með fyrirkomulag kúrsusa og ljúka allir upp einum munni að það sé og hafi verið í alla staði fráleitt. Stúdentar stungu uppá ýmsum leiðréttingum en en oftast var þessari umbótaviðleitni ekki svarað eða hún athuguð niður í kjölinn þar til allir sofnuðu yfirkomnir af leiðindum. Margir helstu forystumenn íslenskra lækna voru formenn félagsins á námsárum sínum. Félagið gaf út Læknanemann frá árinu 1941 og er þar að finna gríðarlega miklar upplýsingar um starf læknadeildar.  


Nám og vinna

Víða kemur þó fram í viðtölum, frásögnum og æviminningum að menn fara snemma að vinna við lækningar og bera meiri ábyrgð en stallbræður þeirra og systur í öðrum löndum. Frásagnir eru um læknanema sem eru fengnir á ferðalagi til að hjálpa konum í barnsnauð eða aðstoða reynda héraðslækna við uppskurði.

Kannski má segja að þetta hafi verið eitt helsta einkenni læknakennslu á Íslandi. Menn fara fyrr að vinna og bera meiri ábyrgð en annars staðar og öðlast þannig reynslu og læra að taka ákvarðanir.

Íslenskir læknar hafa yfirleitt staðið sig ágætlega úti í hinum stóra heimi. Ég hef um árabil unnið í Svíþjóð og haft mikið með sænska lækna að gera. Það bregst ekki að flestallir sænskir læknar hafa einhverja sögu að segja af íslenskum lækni sem þeir hafa unnið með. Þessar sögur eru venjulega jákvæðar og fullar af aðdáun.

Ég held að þessir íslensku læknar hafi staðið sig með slíkum ágætum ekki vegna þess að þeir menntuðust í læknadeild Háskóla Íslands heldur þrátt fyrir þá staðreynd.

Ólafur Ólafsson læknir staðfestir þetta: „Ef marka má af því hvernig menn stóðu sig sem fóru utan til framhaldsnáms að loknu námi í læknadeildinni hér heima held ég að fullyrða megi að deildin hafi verið allgóð. Menn töluðu hins vegar mikið um það á tímabili að hún væri slæm. Skömmu eftir að ég var orðinn landlæknir rakst ég á grein sem birst hafði í hinu virta læknatímariti Lancet og var síðan endurbirt í norrænu læknatímariti þar sem gerð var úttekt á því hvernig læknar frá ýmsum þjóðum sem tækju próf til að öðlast læknisréttindi í Bandaríkjunum stæðu sig. Þar kom fram að þrjár þjóðir skæru sig úr, það er að segja Bretar, Írar og Íslendingar. Yfir 90% lækna frá þessum þjóðum stæðust prófið og var lagt til að læknum þaðan yrði sleppt við að taka það. Sumir hörðustu gagnrýnendurnir urðu ærið langleitir við að heyra þetta.“

Kannski má segja að stefna deildarinnar hafi verið sú að mennta menn ágætlega á bókina í kenningum og meðferð læknisfræðinnar og kasta þeim svo útí lífið og vona að þeir hefðu skynsemi og dómgreind til að nýta sér þá menntun sem þeir höfðu fengið. Sem betur fer hefur þetta gengið upp í langflestum tilvikum og íslenskir læknakandídatar hafa haldið út í heim með höfuðið fullt af læknisfræðifróðleik sem þeim hefur tekist að nýta sér við mismunandi aðstæður.


Myndin er tekin 1908 við Reykjavikurtjörn. Matthías Einarsson læknir og Ellen Ludvika Einarsson
konan hans með barnavagn á Tjarnargötunni. 
Ljósmyndari:  Magnús Ólafsson.Helstu heimildir

Pálsson S. Æfisaga Bjarna Pálssonar. Árni Bjarnarson, Akureyri 1944.

Blöndal LH, Jónsson V. Læknar á Íslandi. Fyrra bindi. Reykjavík 1970.

Jónsson JH. Læknakennsla á Íslandi. Læknaneminn 1966; 19: 42-6.

Sigurjónsson H. Læknir í blíðu og stríðu. Æviminningar Páls Gíslasonar yfirlæknis og skátahöfðingja. Bókaútgáfan Hólar, Akureyri 2010.

Schram GG. Héraðslæknir fyrir hálfri öld: Bjarni Snæbjörnsson læknir í Hafnarfirði segir frá. Læknar segja frá. Setberg, Reykjavík 1970.

Kolka PVG. Hálf öld. Vísindin efla alla dáð: afmæliskveðja til Háskóla Íslands 1961 / gefið út af Bandalagi háskólamanna; [ritnefnd Kristján Eldjárn, Ólafur Bjarnason, Sigurður Þórarinsson]. Hlaðbúð, Reykjavík 1961.

Gröndal G. Æviminningar Kristjáns Sveinssonar augnlæknis. Setberg, Reykjavík 1982.

Magnússon S. Endurminningar læknis. Iðunn, Reykjavík 1985.

Sæmundsson MV. Minningar barnalæknis. Lífssaga Björns Guðbrandssonar. Forlagið, Reykjavík 1987.

Þorsteinsson E. Æviminningar Erlings Þorsteinssonar læknis. Iðunn, Reykjavík 1990.

Kristinsson VG. Ólafur landlæknir, endurminningar. Vaka-Helgafell, Reykjavík 1999.

Læknaneminn 1941-1970.

Læknablaðið  1915-Þetta vefsvæði byggir á Eplica