12. tbl. 99.árg. 2013

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Gert að höfuðleðri um borð í Gullfossi. Þorkell Jóhannesson

Saga af 50 ára gömlu læknisverki úti á rúmsjó

Á árunum 1953-1963 var ég við nám og störf í Danmörku og fór margsinnis heim til Íslands ýmissa erindagerða. Oftast með Gullfossi, farþegaskipi Eimskipafélags Íslands, sem var í reglubundnum ferðum milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar með viðkomu í Leith. Farþegar gátu mest orðið rúmlega 200, ef ég man rétt, og að auki var áhöfn skipsins. Það bar því ekki sjaldan við að á mig dæmdust ýmis læknisverk fyrir farþegana, sem allmargir voru jafnan nokkuð við aldur. Faðir minn starfaði í áratugi á skrifstofu Eimskipafélagsins og þekkti því flesta yfirmenn á skipum félagsins, og þeir vissu þannig deili á mér. Mátti því segja að ég hafi í þessum ferðum „setið vel við bón“, ef eitthvað kom upp á um borð! Langflest læknisverkin voru þó sem betur fer ómerkileg og óminnisverð utan það eitt sem hér er rifjað upp og ég hef nýlega verið beðinn að setja á blað. Atburðurinn varð vissulega löngu áður en þyrlur voru notaðar til að sækja veikt fólk eða slasað um borð í skip á rúmsjó og aðgerð af þessu tagi heyrir því nú vonandi í einu og öllu fyrndinni til.


Gullfoss, skip Eimskipafélags Íslands hf. Gullfoss var smíðaður í Danmörku árið 1950 og var fram 
um 1970 lengst af í áætlunarsiglingum milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar. Myndin er úr viðtali 
við Kristján Aðalsteinsson, skipstjóra, í jólablaði Tímans 1976. (Myndvinnsla: Jóhannes Long.)

Eftir að hafa lokið starfsskyldu í héraði í lok ágúst 1959 hélt ég aftur utan með Gullfossi. Við brottför komst ég í kynni við íslensk hjón, nokkru eldri en ég, og roskna konu, sænska, á þeirra vegum. Við áttum vel saman og styttum okkur stundir með því að spila bridge þegar færi gafst. Svo var og að kvöldi þriðjudags eftir brottför frá Leith. Veður var gott og skipið lá vel á sjónum. Kom sér vel að vita það með tilliti til þess sem á eftir fór. Nokkuð snemma kvölds kom annar stýrimaður, ungur maður, hár og vörpulegur, að spilaborðinu til okkar og var ærið vandræðalegur á svip. Erindið var að biðja mig um að koma með sér hið bráðasta niður í matsal yfirmanna.

Þegar niður kom blasti við heldur ófögur sjón. Á matarborðinu lá ríflega miðaldra karlmaður með höfuðleðrið (galea aponeurotica) hoggið sundur nær eyrna á milli. Féll framhlutinn fram yfir augun, líkt og villtur Indíáni úr sögum sem lesnar voru á mínum unglingsárum hefði verið þar á ferð með öxi sína. Höfuðkúpan virtist heil og óbrotin, sárið hreint og blæðing ótrúlega lítil. Maðurinn var talsvert vankaður og hefur því án efa verið með einkenni um heilahristing eða enn frekari höfuðmeiðsl. Maðurinn var aðstoðarmaður í vélarrúmi skipsins og hafði fallið í einum af járnstigunum þar. Við það hafði hann skollið með höfuðið á brún eins þrepsins í stiganum og hoggið sundur höfuðleðrið. Mér var sagt að maðurinn ætti erindi á Borgarspítalann í Kaupmannnahöfn, meðan skipið væri þar í höfn. Var það skoðun eða eftirlit vegna truflaðs jafnvægisskyns, en einmitt það kann að hafa legið bak við og valdið þessu hrapallega slysi. Mitt verkefni var að reyna að tjasla manninum saman þannig að hann kæmist að minnsta kosti sjáandi á Borgarspítalann!

Annar stýrimaður kom nú með skips-kistuna, sem svo er nefnd, með lyfjum og læknisáhöldum. Þar voru saumnálar (sveignálar) af nokkrum stærðum, seymi, nálatangir, aðrar tangir, skæri, lyfjadælur, ýmis lyf og sitthvað annað eins og vera ber. Hins vegar vantaði sárlega staðdeyfingarlyf (prókaín, lídókaín) sem þar skyldu vera. Féll mér við þetta nær allur ketill í eld, því að öllum aðgerðum og saumaskap í húð er mjög þröngur stakkur skorinn ef staðdeyfingarlyf skortir og ekki er um svæfingu að ræða. Að vísu var klóretýl (Aethyli chloridum) í kistunni. Klóretýl má nota til stuttrar frystideyfingar, ef úðað er á húð rétt fyrir stungu. Slík frystideyfing er samt venjulega ófullnægjandi.

Ef gera átti manninum eitthvað frekar til góða, varð nauðsynlega að koma upp fyllri deyfingu en tækist með frystideyfingu einni og sér. Morfín átti að vísu að vera í skipskistunni. Mér hugnaðist samt ekki að gefa manninum morfín vegna hættu á klígju og uppsölu, sem hefði getað gert hugsanlegan heilaskaða enn verri. Ég lét því í staðinn senda eftir stórum skammti af viskíi. Fékk ég svo lipran mann úr áhöfninni til þess að gefa manninum viskíið hægt og rólega og smá vatn eftir hvern sopa. Með þessu móti hugðist ég ná þéttni etanóls í blóðinu, sem deyfði verkina marktækt án þess að vera úr hófi slævandi. Samtímis bað ég manninn sem stýrði viskíinu að tala stöðugt við hinn slasaða og halda honum vakandi með því að dreifa hug hans sem kostur væri. Jafnframt bað ég hann um að hafa gætur á hvort hinn slasaði fyndi fyrir klígju eða flökurleika.

Næst var fyrir hendi að klippa hárið niður sem næst var sáraröndunum og laga þær. Hafði ég annan lipran mann úr áhöfninni til þess að hjálpa mér við þetta, og svo hinn þriðja til þess að frystideyfa með klóretýl eftir minni forsögn. Það kom mér í raun á óvart hve klóretýlfrystingin virtist duga, en etanólverkunin var vissulega einnig að baki. Þá kom að því að reyna að sauma sárið saman. Valdi ég til þess stærstu nálarnar í kistunni. Óþarfi mun að segja læknum að höfuðleður á fullorðnum er bæði þykkt og seigt. Fór því svo að nálarnar gengu ekki í gegn, heldur flettust út og beygluðust til ónýtis. Ég leitaði nú að sáraklemmum í kistunni, en fann engar. Fannst mér því sem hér væri í fyllsta óefni komið. Skyndilega skaut upp þeirri hugsun að ágætur nafni minn, Þorkell Gunnarsson búrmaður, myndi eiga nálar sem dygðu á höfuðleður!

Í Gullfossi var rómað kalt borð sem Guðmundur Þórðarson bryti og Þorkell Gunnarsson búrmaður höfðu mestan veg og vanda af. Ég vissi að Þorkell bjó af metnaði sínum til suma kjötréttina sjálfur, þar á meðal rúllupylsu. Ég taldi því víst að í eldhúsinu væru öflugar rúllupylsunálar sem stinga mætti gegnum þykk kjötslög. Lét ég nú sækja þessar nálar og sjóða nokkrar þeirra. Með þessum öflugu nálum og ágætri hjálp þriggja manna úr áhöfn skipsins tókst mér á endanum að sauma höfuðleður mannsins saman þarna á messaborðinu. Minnir mig að ég hafi að lokum komið 10 eða 11 sporum í höfuðleðrið með þessum happanálum nafna míns þannig að það héldist örugglega uppi. Ásjóna mannsins var að vísu ekki falleg, en sem betur fer var enginn spegill honum nærtækur! Ég gaf manninum svo sýklalyf til þess að draga úr hættu á sýkingu, einhver róandi lyf og verkjadeyfandi lyf í töfluformi úr lyfjakistunni. Næsta dag hafðist maðurinn mest við í klefa sínum í umsjá áhafnarinnar og þurfti ég ekki að hafa afskipti af honum frekar. Morguninn eftir var svo komið til Kaupmannahafnar.

Ég frétti það síðar af manninum að hann hefði komist sinna erinda á Borgarspítalann í Kaupmannahöfn og aftur heim með skipinu. Faðir minn lét þau boð ganga til mín nokkrum vikum síðar, að maðurinn hefði náð sér eftir slysið og ekki borið nein óhæfileg mein af þessari grófu læknisaðgerð. Létti mér við þá fregn.

Að lokum er þess að geta að um kvöldið eftir þetta fór ég aftur upp í reyksal og lauk þar 2-3 spilum fyrir lokun. Var mér þá greinilega nokkuð brugðið og var skjálfhentur þegar ég tók til spilanna. Hefur þetta sennilega ekki dulist góðkunningja mínum, brytanum, því að hann sendi þegjandi til mín vænt viskíglas. Breiddi það óneitanlega skýjahulu yfir óhappaatvik kvöldsins og bjó í haginn fyrir slakan svefn að aflíðandi miðnætti.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica