06. tbl. 99. árg. 2013
Umræða og fréttir
Áhættureiknir fyrir líkur á beinbrotum
FRAX er heiti á áhættureikni fyrir beinbrot sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur þróað. Hann hefur verið notaður um nokkurt skeið víða um lönd og reynslan af honum er það góð að nú hefur verið ráðist í að laga hann að íslenskum aðstæðum. Er hægt að nálgast hann á vefnum fólki að kostnaðarlausu.
Í þessum áhættureikni er hægt að reikna út líkur á því að viðkomandi verði fyrir beinbroti á næstu tíu árum, annars vegar mjaðmarbroti (broti á lærleggshálsi, lærhnútubroti) eða á hinn bóginn einhverju af fjórum helstu beinþynningarbrotunum: á framhandlegg, upphandlegg, samfallsbroti á hrygg eða mjaðmarbroti.
FRAX-reiknivélin byggist á mörgum stórum framsæjum hóprannsóknum á beinbrotum og öðrum áhættuþáttum sem sumir hverjir tengjast beinþynningu en einnig óháð henni. Við íslenskun hennar voru nýgengistölur fyrir viðkomandi beinbrot unnar upp úr beinbrotaskráningu meðal kvenna og karla eldri en 40 ára sem tóku þátt í hóprannsókn Hjartverndar.
Í frétt frá Hjartavernd segir að FRAX-reiknivélin reikni líkur á beinbroti á næstu tíu árum sem prósentu. Þar er hins vegar vitnað til höfunda líkansins sem leggja á það mikla áherslu að niðurstöðurnar ráði því ekki hver verður settur á meðferð og hver ekki. Það verði áfram háð ráðleggingum lækna og vilja einstaklingsins. Þeir benda einnig á að í mörgum löndum hafi verið samdar leiðbeiningar um meðferð við beinbrotum sem byggjast á áliti sérfræðinga en styðjast víða einnig við heilsuhagfræðileg viðmið. Slíkt hefur ekki verið gert fyrir Ísland ennþá. Mikil notkun FRAX-reiknivélarinnar bendir þó til að útreiknuð heildaráhætta á alvarlegu beinbroti gagnist vel við klínískt mat.
FRAX-reiknivélina er að finna á vefslóðinni http://www.shef.ac.uk/FRAX/index.aspx þar sem áframhaldið er: Áhættureiknir > Evrópa > Ísland.