05. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Þing um hálshnykksáverka 13. júní

Hálshnykkur:
Valda lághraðaárekstrar varanlegu líkamstjóni?

Læknisfræðileg, lögfræðileg og verkfræðileg nálgun - ráðstefna í Háskólabíói 13. júní frá kl 08:30-15:30

Hálshnykkir eru meðal algengustu áverka á fólki í umferðarslysum. Það er auðvelt að skýra og skilja slíka áverka þegar áreksturinn er sérstaklega harður og tjón mikið á bifreiðum og tækjum. Það er hins vegar vel þekkt staðreynd að mikill fjöldi fólks leitar aðstoðar eftir árekstra þar sem hraðinn er lítill og ummerki um áreksturinn er nánast hverfandi. Þessir hálshnykksáverkar eftir slíka lágorkuáverka eru þess vegna í eðli sínu merkilegir. Efnið hefur augljósa læknisfræðilega þýðingu, bæði vegna greiningar, til meðferðar og við mat á horfum fyrir sjúklinginn. Þá hefur þetta verkfræðileg sjónarhorn sem felast í því hvernig samspil hraða og orku við áreksturinn getur  borist í gegnum ökutækið í einstaklinginn sem fyrir verður. Þetta er ekki síst vegna lítils grunnhraða en ekki síður vegna eiginleika bifreiða við að gleypa orkuna í gegnum árekstrarvarnir bifreiðarinnar. Einnig eru í þessum málum lögfræðileg álitaefni sem lúta að ábyrgð á tjóninu og því sönnunarferli sem þarf að eiga sér stað til að sanna umfang þess tjóns sem einstaklingurinn kveðst hafa orðið fyrir. Í þessu felast oft ríkir fjárhagslegir hagsmunir, bæði fyrir einstaklinginn, tryggingarfélög og samfélagið.

Byggt á þessum bakgrunni verður efnt til ráðstefnu ætlaðri öllu fagfólki sem með einum hætti eða öðrum kemur að þessum málaflokki. Hefur innlendum og erlendum fyrirlesurum verið boðið að koma og fjalla um efnið.

Prófessor Mohammed Ranavaya,  læknir og lögfræðingur frá Bandaríkjunum, mun fjalla um það hvort lágorkuáverkar séu raun og veru staðreynd og hverjar séu horfur þessara einstaklinga eftir slysið og þannig hvernig meta má afleiðingar þess. Magnús Þór Jónsson prófessor við verkfræðideild Háskóla Íslands fjallar um álag á háls við lághraðaárekstra. Ármann Gylfason dósent fjallar um tölvulíkön við útreikninga við mat á lágorkuárekstrum og -prófessor Per Fink, geðlæknir við háskólann í Árósum, fjallar um það hvernig einstaklingar bregðast við eftir hálshnykk. Einn af þekktari lögfræðingum Dana, Michael S. Wiisbye, fjallar um lögfræði lágorkuhálshnykksáverka. Að lokum munu læknarnir Ragnar Jónsson, Kristinn Tómasson og Guðmundur Björnsson fjalla um birtar læknisfræðilegar greinar um efnið og reyna að svara spurningunni hvort sameiginleg sýn sé á efnið. Allar nánari upplýsingar um ráðstefnuna má fá á netfanginu whiplash2013reykjavik@gmail.com og í síma 8203363.

Ráðstefnan er haldin í samvinnu við Lögmannafélag Íslands, Verkfræðideild Háskóla Íslands og Íslenska tryggingalæknisfræðifélagið.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica