05. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Enn af liðbólgusjúkdómum og sagnfræði læknisfræðinnar

Í seinni tíð hef ég haft sérstakan áhuga á hvers kyns sögulegum atriðum sem snerta svæfingar á Íslandi. Einnig les ég gjarnan greinar um söguleg atriði á öðrum sviðum læknisfræðinnar. Þar sem málið er mér skylt er ég þakklátur Leifi Jónssyni fyrir greinargóðan pistil sem hann skrifaði um nuddlækna í aprílhefti Læknablaðsins. Í bæklingnum Liðbólgusjúkdómar, sem Leifur vitnar til í pistlinum, má lesa um miklar framfarir sem orðið hafa í gigtarlækningum síðustu áratugi. Áður fyrr glímdu læknar af veikum mætti við þessa kvilla með meðferðarkostum sem í dag þættu frekar fátæklegir. Í bæklingnum er greint frá merkum athugunum íslenskra lækna á gigtarsjúkdómum á 17. og 18. öld en hins vegar er ekkert sagt frá gigtarlækningum á Íslandi á fyrri hluta liðinnar aldar. Þeir læknar sem þar komu mest við sögu höfðu fengið „sérfræðingsleyfi í nuddlækningum“ eins og það hét þá, en segja má að þeir hafi í raun verið undanfarar gigtarlækna. Eins og fram kom í pistli Leifs voru fyrstu fimm nuddlæknarnir Jón Kristjánsson (1923), Karl Jónsson (1930), Björgvin Finnsson (1937), Kristján Hannesson (1940) og Ragnar Sigurðsson (1948). Því má skjóta hér inn að sérfræðileyfi Bjarna Jónssonar 1941 hét beina- og liðasjúkdómar. Sérfræðiviðurkenning Hauks Þórðarsonar endurhæfingarlæknis 1962 hét orkulækningar (nuddlækningar) en það var í síðasta skiptið sem orðið nuddlækningar var notað við útgáfu sérfræðileyfis. Látum liggja milli hluta hvort nuddlæknar hafi verið gigtarlæknar eða ekki, eða jafnvel endurhæfingarlæknar, en því ber hins vegar að halda til haga að árið 1968 fékk Halldór Steinsen fyrstur lækna sérfræðiviðurkenningu í lyflækningum með gigtsjúkdóma sem undirgrein.Þetta vefsvæði byggir á Eplica