04. tbl. 99. árg. 2013

Fræðigrein

Töflur og töflugerð – með sérstöku tilliti til íslenskra aðstæðna

Tablets and tablet production – With special reference to Icelandic conditions

doi: 10.17992/lbl.2013.04.493

Ágrip

Töfluslátta hófst í Englandi 1844. Fyrstu töflur innihéldu vatnsleysin sölt samkvæmt forskrift Brockedons og voru sennilega slegnar án hjálparefna. Tímamót urðu um 1887 þegar tekið var að nota mjölva (amylum maydis) í Bandaríkjunum til þess að sundra töflum í vatnslausn. Þannig var hægt að framleiða töflur með torleystum lyfjum og tryggja jafnframt viðunandi aðgengi þeirra frá meltingarvegi. Á 9. áratug 19. aldar reis öflugt fyrirtæki í Englandi, Burroughs Wellcome & Co., sem náði yfirburðastöðu í töflugerð. Fram yfir 1920 var töfluframleiðsla mjög lítil í Danmörku. Dönsk apótek og lyfjafyrirtæki voru fyrirmynd íslenskra fyrirtækja á því sviði. Hófst töflugerð á Íslandi því fyrst um 1930. Fyrstu töfluvélarnar voru handvirkar en stórvirkari vélar komu til landsins eftir 1945. Um 1960 voru stærstu töfluframleiðendurnir eitt apótek og tvær lyfjaheildsölur sem jafnframt framleiddu lyf. Nú er einn töfluframleiðandi í landinu. Tæplega tíu töflutegundir voru á markaði árið 1913 en voru orðnar 500 árið 1965. Miklar sveiflur voru í fjölda taflna á þessu árabili. Töflur hafa ekki útrýmt öðrum lyfjaformum til inntöku, en langflest lyf til inntöku hafa komið á markað á síðustu áratugum í formi taflna.

Inngangur

Töflur í nútímaskilningi eiga rætur að rekja til brautryðjendastarfs hæfileikaríks Breta litlu fyrir miðja 19. öld.1,2 Framfarir í töflugerð næstu áratugi þar á eftir urðu langmestar í Bandaríkjunum og síðar í Bretlandi.2-4 Töflugerð hófst ekki almennt í Danmörku fyrr en á 3. tug 20. aldar.1 Lyfjagerð á Íslandi studdist langt fram á 20. öld við danskar fyrirmyndir og því skiljanlegt að töflugerð á Íslandi hæfist með vissu fyrst um 1930. Erlend sérlyf í töfluformi komu og fyrst hér á markað skömmu fyrir 1930 að ætla má.5

Töflur eru einingar samnefnds lyfjaforms til inntöku um munn, sem innihalda tilgreint magn (dosed) virkra efna og eru mótaðar í fast form með stimpilsláttu (compression) í töfluvél. Töflur eru nú nær undantekningarlaust framleiddar með ýmsum hjálparefnum (renniefni, fylliefni, bindiefni, sundrunarefni og fleirum).6 Til að auðvelda töflusláttuna er enn fremur nær alltaf búið til kyrni (lat. granulatum) úr virka efninu og hjálparefnunum.7 Íslenska ríkið gerðist aðili að Evrópsku lyfjaskránni (Ph. Eur.) 1. janúar árið 1978, og gildir enska útgáfa lyfjaskrárinnar hér á landi. Þar er gildandi skilgreining og lýsing á töflum og 6 undirflokkum taflna.8

Töflur (tablets) er gamalt heiti, sem áður virðist hafa verið haft um ýmsa formaða búta og bita til inntöku. Enska heitið er dregið með smækkunarendingu af latneska orðinu tabula (borð) og merkir því í raun „lítið borð“. Margar töflur eru og í „litlu borðlíki“, það er með tveimur stórum flötum og mjórri rönd á milli. Á fyrstu árum töflugerðar fram eftir 19. öld var ekki óalgengt að fjallað væri um töflur með heitunum compressed pills, compressed tablets eða compressed medicines. Nær lokum aldarinnar varð töfluheitið hins vegar ríkjandi.2,4 Í Evrópsku lyfjaskránni endurspeglast þessi þróun í því að kaflinn um töflur hefur compressi að yfirskriftsem þýða mætti „samsláttunga, en undirtitill er tablets og öll umfjöllun er síðan um töflur.8

Í þessari grein er í stórum dráttum rakin þróun töflugerðar í þremur nágrannalöndum (Bretlandi, Bandaríkjunum og Danmörku) svo og nánar framleiðsla og framboð á töflum á Íslandi. Töflur hafa réttilega komið í stað eldri lyfjaforma til inntöku um munn (mixtúrur ýmiss konar, skammtar, pillur). Því er til glöggvunar gerður samanburður á framboði lyfja í þessum lyfjaformum hér á landi á um 50 ára tímabili á síðustu öld. Eins og í fyrri ritgerð um stungulyf9 markast umfjöllunin af útkomu Lyfjaverðskrárinnar 191310 og fyrstu Sérlyfjaskrárinnar 196511 eða þar um bil.

Upphaf töflugerðar í Bretlandi

Upphafsmaður töflugerðar er talinn vera Englendingur að nafni William Brockedon (1787-1854) (mynd 1). Hann var þúsundþjalasmiður; var lærður úrsmiður, listmálari, uppfinningamaður og margt annað. Árið 1843 fann hann upp handvirka töfluvél þar sem hann gat pressað saman efni í formi dufts eða kyrnis í töflur með stimpilsláttu í móti (die). Hann fékk einkaleyfi á vélinni og aðferðinni árið eftir. Árið 1844 er því talið vera upphafsár töflugerðar.1,2 Mynd af vélinni, „töflupressunni“, er í báðum þessum heimildum.

Einkaleyfi Brockedons hljóðaði upp á: „Shaping Pills, Lozenges and Black Lead by Pressure in Dies. Pillur eru handunnið lyfjaform til inntöku, sem í munni margra hefur löngum verið látið jafngilda töflum. Lozenges (öðru nafni troches) er gamalt lyfjaform, sem haft var um litla bita eða stangir sem leysast áttu í munni og verka þar. Black lead á hins vegar við grafít til blýantaframleiðslu. Raunar lýsti Brockedon sérstökum stimpli til þess að pressa grafít. Má því telja að Brockedon hafi rúmað tvær uppfinningar í einni1 og hefur hann trúlega jafnframt fengist við blýantaframleiðslu.

Þær „pillur“ sem Brockedon framleiddi og voru lengi vel framleiddar með hans aðferð, innihéldu vatnsleysin sölt (karbónöt, tartröt, nítröt og fleiri), sem auðveldlega sundrast í maga. Þessar töflur voru að svo miklu leyti sem vitað er framleiddar án hjálparefna.1,2 Gildi uppfinningar hans var í fyrstu lítið í lyfjagerð, en meira í öðrum iðnaði. Kalíumbíkarbónattöflur og natríumbíkarbónat-töflur framleiddar með aðferð Brockedons urðu vinsæl söluvara í Englandi og Bandaríkjunum undir heitinu „compressed pills“ eða „Mr. Brockedon´s goods“.1

Lítil kynning eða engin í fagtímaritum varð þess sennilega valdandi að þýskur prófessor, Rosenthal að nafni, taldi sig frumkvöðul að smíði töfluvélar árið 1872. Vél hans var hliðstæð við vél Brockedons, en Rosenthal var ókunnugt um vél og vinnu Brockedons. Raunar er svo að sjá að lítil framþróun hafi orðið í töflugerð í Þýskalandi á 19. öld.2

Þróun töflugerðar í Bandaríkjunum og Bretlandi

Fyrirtækið John Wyeth and Brother (nú hluti af Pfizer) bjó árið 1872 til endurbætta töfluvél og framleiddi töflur líkt og Brockedon hafði áður gert, sem innihéldu vatnsleysanleg sölt (kalíumklóríð, ammóníumklóríð og fleiri). Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu fór áhugi lækna mjög vaxandi á notkun taflna þegar kom fram um 1880 („Physicians saw the convenience of this form of medication and at various times submitted different compounds formulae which were made into either tablets or compressed lozenges“).2 Óvíst er hvort fyrirtækið notaði hjálparefni við framleiðsluna. Hins vegar er staðfest að helsti hvatamaður í læknastétt vestan hafs á 19. öld um framleiðslu taflna, Robert M. Fuller (1844-1919), lét nota hjálparefni í töflur sem gerðar voru árið 1878 samkvæmt hans forskrift. Það lyfti og undir töflugerð að eftir 1880 voru búnar til miklu öflugri töfluvélar en fyrr (vélknúnar snúningsvélar; „rotatory tablets machines“).

Um 1880 stóð töflugerð engu að síður frammi fyrir þeim mikla vanda að illgerlegt var, með eða án þeirra hjálparefna sem þá voru notuð, að framleiða töflur með lyfjum torleystum í vatni. Slík lyf misstu virkni sína við inntöku, þar eð töflurnar leystust illa eða ekki í maga eða þörmum og gátu jafnvel gengið heilar niður. Hér skorti því augljóslega efni sem gæti sundrað töflunum í vatni eða vatnskenndu umhverfi og þannig tryggt torleystum lyfjum nokkra upplausn í maga og þörmum. Maísmjölvi (amylum maydis) reyndist vera hæfilegt sundrunarefni við töflugerð og leysti þennan vanda.2 Í nútímalyfjagerð hafa gerviefni (tilbúin efni) yfirleitt leyst mjölva af hólmi.6

Bandaríkjamaður að nafni Charles Killgore (1849-?) sótti árið 1887 um einkaleyfi til þess að nota mjölva við töfluframleiðslu þannig að töflurnar fullgerðar sundruðust í vatni. Killgore mun hafa starfað að lyfjagerð en um hann eru að öðru leyti nær engar heimildir. Honum var synjað um einkaleyfið því að mjölvi væri svo algengt og aðgengilegt efni. Hins vegar er óvíst hvort nokkrum öðrum hafi komið til hugar áður að nota mjölva með þessum hætti.2

Uppgötvun Killgores markar tímamót og skipti sköpum í töflugerð og verður ekki betur lýst en með orðum Keblers:2 „The discovery was a great triumph for the industry. From this time forward its growth was simply phenomenal. All conceivable solid drugs are now compressed into tablet forms...“ Þegar Kebler setti þessi orð á blað fyrir um 100 árum var þannig nær þriðjungur allra fullgerðra lyfja sem notuð voru í Bandaríkjunum töflur.

Bandarísk þekking í töflugerð og sölumennsku fluttist yfir Atlantshaf til Bretlands þegar kom fram á 8. tug 19. aldar. Bandaríska fyrirtækið John Wyeth and Brother, sem áður er nefnt, sendi árið 1878 ungan lyfjafræðing, Silas Burroughs (1846-1895), til London til þess að vera þar umboðsmaður og sölumaður fyrirtækisins. Burroughs fékk tveimur árum síðar ungan lyfjafræðing, Henry Wellcome (1853-1936), til starfa með sér í London. Ýmsar aðstæður hvöttu þá félaga til þess að hefja framleiðslu á töflum í eigin nafni á árunum 1882-1883. Það leiddi svo til stofnunar fyrirtækisins Burroughs Wellcome & Co. (BW & Co.), sem átti eftir að stækka og verða um skeið nánast leiðandi töfluframleiðandi í heiminum. Ein af meginforsendunum fyrir velgengni Burroughs og Wellcome var að árið 1888 heppnaðist þeim að búa til mjög mikilvirka töfluvél: „capable of producing 600 high-quality tablets every minute“, eins og segir í sögu fyrirtækisins.4 Það styrkti og enn stöðu fyrirtækisins að þessi tækni var varin einkaleyfum um víða veröld.3,4

Kyrni er nefnt í bandarísku lyfjaskránni 1883 eða um líkt leyti og töflugerð var að eflast þar og í Bretlandi að marki. Um kyrni er síðan fjallað í ýmsum yngri lyfjaskrám án þess að segja megi að nokkur nákvæm skilgreining á því sé til. Kyrning (tilbúningur kyrnis í þar til gerðu tæki) er fólgin í því að breyta smásæjum kornum virkra efna og hjálparefna í korn af sýnilegri stærð (sem sjá má með berum augum). Ferlið ber hins vegar ekki með sér að kornin séu öll af sömu stærð eða lögun. Kyrni getur verið lyfjaform í sjálfu sér, en er langoftast millistig í töflugerð til þess að auðvelda töflusláttuna og mótun taflna.7 Stutt lýsing á kyrningu eins og nú tíðkast er í skrifum Sænsku lyfjastofnunarinnar6 (sjá ennfremur texta við mynd 3).

Töflugerð hefst í Danmörku

Elsta lyfjaheildsölufyrirtækið í Danmörku, Alfred Benzon, var stofnað 1849. Fyrirtækið var fyrst heildsölufyrirtæki sem seldi apótekum hrávöru til lyfjagerðar. Árið 1893 setti fyrirtækið jafnframt tvö fullgerð lyf á markað í formi pillna og extrakts. Lövens kemiske fabrik (Leo) var stofnað árið 1908 og er næstelst danskra lyfjafyrirtækja annarra en apóteka. Árið 1912 hóf fyrirtækið að framleiða Albyl® (nokkurn veginn sama samsetning og magnýl) og setti á markað sem skammta. Síðar var tekið að framleiða lyfið í formi taflna (mynd 2). Alfred Wøhlk, lyfsali í Kaupmannahöfn, er talinn eiga heiðurinn af því að hafa fyrstur sett á markað (í árslok 1912) þá lyfjasamsetningu sem nú nefnist magnýl. Af skrifum hans er auðséð að hann hefur einkum selt lyfið í skömmtum, þótt hann bendi jafnframt á að slá megi töflur úr lyfjablöndunni (með mjölva).12,13 Lyfjaforminu töflum er einungis stuttlega lýst í dönsku lyfjaskránni árin 1893 og 1907.1

Af þessu er ljóst að töflugerð hófst mun síðar í Danmörku en í Bretlandi og Bandaríkjunum, þótt á því væru einstakar undantekningar. Í yfirlitsgrein sinni nefnir Svend Aage Schou að vel menntaður lyfjafræðingur, Christian Steenbuch (1850-1910), sem varð lyfsali í Kaupmannahöfn árið 1889, hefði „... anskaffet en mekanisk dreven tabletmaskine, men i det store flertal af apotekerne betragtede personalet tabletslagning som et ubehageligt stykke arbjede“.1 Af þessum skrifum má því enn ráða að Christian Steenbuch (og einstaka apótekarar aðrir) hafi fylgst með framþróun í töflugerð í Bretlandi og Bandaríkjunum. Jafnframt hafi starfslið í flestum dönskum apótekum framan af síðustu öld lagst gegn því nýmæli og framför í lyfjagerð sem töflugerð var. Það kann svo enn að hafa haft letjandi áhrif að Christian Steenbuch virðist hafa farnast illa fjárhagslega.14 Í dag er samt erfitt að skilja tregðu danskra lyfjafræðinga til að tileinka sér töflugerð. Mikill hagnaður af eldri lyfjagerð skipti án efa máli.

Eins og áður er nefnt var komið fram á þriðja áratug 20. aldar áður en apótek og lyfjafyrirtæki í Danmörku tóku að framleiða töflur að marki. Þessa sér stað í dönskum lyfjaskrám frá fjórða og fimmta áratug aldarinnar (28 töflum er lýst Ph. Dan. 1933 og 79 í Ph. Dan. 1948).1 Þessar lyfjaskrár og fleiri lyfjabækur danskar giltu á Íslandi og voru helstu undirstöðurit um töflugerð hér á landi fram yfir 1960. 

Töflugerð á Íslandi

Í spánsku veikinni 1918-1919 var aðeins eitt apótek í Reykjavík, Reykjavíkurapótek. Í því fátæklega úrvali lyfja sem í boði var í farsóttinni voru aspirínskammtar (með asetýlsalisýlsýru). Í minningum sínum greinir Aksel Kristensen, síðar lyfsali, frá því að apótekið hafi í byrjun veikinnar jafnframt átt nýfengnar aspiríntöflur í glösum frá Ameríku.15,16 Slíkar birgðir af aspiríntöflum heyrðu þá án efa til undantekninga og mátti öðru fremur rekja til viðskiptasambanda við Bandaríkin sem upphófust á heimsstyrjaldarárunum fyrri með siglingum þangað vestur.

Stefán Thorarensen (1891-1975) lyfsali stofnaði næstelsta apótekið í Reykjavík, Laugavegsapótek, haustið 1919. Hann byggði fáum árum síðar veglegt hús á Laugavegi 16 yfir apótekið (og fleiri fyrirtæki). Í viðtali við Stefán gamlan fórust honum svo orð: „Þegar ég svo var orðinn apótekari, fékk ég mér handsnúna töfluvél og síðan einstimpla vél . . .“17 Þetta gæti hugsanlega hafa verið fyrsta töfluvélin á Íslandi, en ekkert er nánar um hana vitað. Stefán átti samt síðar óvéfengjanlega eftir að koma að framþróun töflugerðar á Íslandi og þá með kaupum á enn öflugri vél en einstimpla (sjá á eftir).

Danskur lyfjafræðingur, Søren Ringsted Jensen Kampmann (1884-1959), sem starfað hafði í Reykjavíkurapóteki, fékk árið 1917 lyfsöluleyfi í Hafnarfirði. Hann stofnaði Hafnarfjarðarapótek og rak í 30 ár (til 1947). Eftir það fluttist hann til Danmerkur og dó þar. Hvorki hér né í Danmörku hafa fundist nokkur skrif um Kampmann eða eftir hann.

Kampmann eignaðist handvirka töfluvél sem nú er varðveitt í Lyfjafræðisafninu í Nesi (mynd 3). Vélin er framleidd í Austurríki og er sennilega keypt skömmu fyrir 1930. Vélin var notuð í tíð Kampmanns í Hafnarfjarðarapóteki og eitthvað lengur. Þessi vél telst nú vera elsta töfluvél sem til er í landinu.

Þorsteinn Scheving Thorsteinsson (1896-1971) eignaðist Reykjavíkurapótek árið 1919. Árið 1930 flutti hann apótekið í stórhýsið Austurstræti 16.9 Í Lyfjafræðisafninu er handvirk töfluvél, dönsk að gerð og talin frá árinu 1930, sem notuð var í apótekinu á árunum 1930-1940. Töfluvél þessi (mynd 4) er að dómi kunnáttumanna yngri að gerð en fyrrgreind vél úr Hafnarfjarðarapóteki.

Töfluframleiðsla í Reykjavíkurapóteki var lengi mikil að vöxtum og var umfram það sem tíðkaðist í öðrum apótekum.18 Höfundum er enn fremur kunnugt um að allnokkuð af framleiðslunni var selt í heildsölu til annarra apóteka. Vegna töflugerðarinnar var komið á fót „töfluútibúi“ í bakhúsi við neðanverða Vesturgötu. Á árabilinu 1954-55 innréttaði Þorsteinn lyfsali fjórðu hæð Austurstrætis 16 til lyfjaframleiðslu. Þar voru svo framleiddar töflur með rafknúnum vélum í áratugi, en í minnkandi mæli þegar til lengdar lét, einkum eftir 1980.9,18 Til á að vera skrá yfir töflur sem framleiddar voru í Reykjavíkurapóteki, en hún hefur ekki komið í leitirnar.

Stefán Thorarensen (mynd 5) stofnaði heildverslun árið 1944 í húsakynnum sínum og framleiddi í nafni þess fyrirtækis töflur og önnur lyf, auk þess að vera stórtækur innflytjandi á erlendum sérlyfjum. Skömmu eftir seinna stríð, sennilega árið 1947, keypti Stefán fyrstu mikilvirku töfluvélina á Íslandi, bandaríska fjölstimpla vél af Stokes gerð. Ætla má að kaup Stefáns á þessari vél hafi orðið með þeim hætti að til hans réðst árið 1945 ungur, vel menntaður lyfjafræðingur, Sigurður Jónsson (1916-1994), síðar lyfsali, er menntast hafði í Bandaríkjunum þegar leiðir lokuðust til Danmerkur á stríðsárunum. Sigurður þekkti því til nýjustu tækni í töflugerð þar vestra og hefur hvatt Stefán til kaupanna. Hvernig sem þessu var nákvæmlega farið, er ljóst að hér var brotið blað í sögu töflugerðar á Íslandi, hún færðist úr seinvirkum handknúnum vélum í framleiðslu í stórtækari, rafknúnar töfluvélar. Höfundum er ekki kunnugt um hvað af þessari vél varð. Heildverslunin mun hafa framleitt töflur fram á 8. áratug síðustu aldar.9

Lyfjaverslun ríkisins var að stofni til frá 3. tug 20. aldar. Lyfjaverslunin var alla tíð heildsölufyrirtæki, rekið með sérstöku tilliti til þarfa spítala og lækna og dýralækna sem höfðu lyfsöluleyfi (máttu selja lyf  jafnframt læknisstörfum). Lyfjaverslunin hóf töfluframleiðslu í smáum stíl árið 1950. Árið 1954 fluttist fyrirtækið í vegleg húsakynni að Borgartúni 6 og eignaðist þar öflugar töfluvélar.19 Í Lyfjafræðisafninu er nú varðveitt sú töfluvél fyrirtækisins sem mest reyndi á við framleiðsluna eftir 1954. Vélin er af Stokes-gerð eins og töfluvél Stefáns Thorarensen og áður getur um (mynd 6). Forstöðumaður Lyfjaverslunar ríkisins (lyfsölustjóri) frá árinu 1939 og til dauðadags var Kristinn Stefánsson læknir (1903-1967), en hann var jafnframt dósent og síðar prófessor í lyfjafræði í læknadeild Háskóla Íslands. Meginstarf Kristins var engu að síður ætíð í þágu Lyfjaverslunarinnar.20,21

Töfluframleiðsla Lyfjaverslunarinnar hefur án efa verið mikil að vöxtum og margvísleg þegar rekstur fyrirtækisins var í hvað mestum blóma. Lyfjaverslunin auglýsti hins vegar aldrei og skrá  yfir framleiddar töflur hefur ekki komið í leitirnar. Í þessu sambandi skal þess getið að mikil gögn eru enn ókönnuð í Lyfjafræðisafninu frá Lyfjaverslun ríkisins, Reykjavíkurapóteki og Heildverslun Stefáns Thorarensen hf. Lyfjaverslun ríkisins hvarf síðan inn í önnur fyrirtæki sem lögðu grunninn að risastóru lyfjaframleiðslufyrirtæki, Actavis.9

Um lyfjaframleiðslu Pharmaco hf., Innkaupasambands apótekara og samruna við Delta hf. er fjallað í fyrri ritgerð. Töfluframleiðsla Pharmaco hf. var lítil fyrir samrunann við Delta hf.9

Vilhjálmur G. Skúlason prófessor var jafnframt eftirlitsmaður lyfjabúða árin 1968-1971. Að hans sögn voru þá um 30 lyfjabúðir í landinu og framleiddu þær flestar töflur. Tíu árum síðar hafði dregið mjög úr framleiðslu í apótekum. Var þá talið að töflur væru einungis framleiddar í þremur apótekum.18 Meginástæðu þessa, og reyndar undanhalds innlendrar lyfjaframleiðslu yfirleitt, virtist vera að rekja til aukins innflutnings erlendra sérlyfja.22 Auknar kröfur til framleiðslunnar skiptu og máli.9

Nú framleiðir aðeins eitt fyrirtæki töflur á Íslandi, Actavis.

Framboð á töflum á Íslandi 1913-1965 og gildi taflna til lækninga

Mynd 7 sýnir sveiflur í fjölda töflutegunda sem samkvæmt aðgengilegum heimildum voru hér opinberlega á markaði á 6 tilgreindum árum á rúmlega 50 ára tímabili (1913-1965). Á myndinni eru jafnframt sýndar sveiflur í fjölda mixtúra, pillna, hylkja og skammta á umræddu tímabili. Töflum er skipt í tegundir: a) með tilliti til gerðar virks efnis (virkra efna) í töflu, b) með tilliti til mismunandi magns sama virka efnis (sömu virku efna) í töflu. Sama skipting gildir um pillur og hylki.

Í Lyfjaverðskránni 1913 eru 12 tegundir taflna. Sumar þeirra teljast ekki til taflna í dag, en voru svokallaðar lausnartöflur (solublettae). Slíkar töflur voru ætlaðar til þess að búa til lausnir og voru því ekki til inntöku. Eiginlegar töflur voru þannig innan við 10 talsins á markaði árið 1913. Sérstaka athygli vekur að asetýlsali-sýlsýrutöflur voru komnar hér á markað árið 1913. Notkun þeirra hefur þó að ætla má enn verið í skugga asetýlsalisýlsýruskammta þegar þetta var.15-17

Árið 1924 voru tegundir taflna á markaði 23 alls. Þetta var fáum árum áður en fyrstu auglýsingar um erlend sérlyf í töfluformi tóku að birtast í Læknablaðinu.5 Árið 1934 var fjöldi einstakra töflutegunda hins vegar orðinn meira en tuttugufaldur á við það sem verið hafði 10 árum fyrr. Virðist þessi mikla fjölgun ekki verða skýrð öðruvísi en með stórauknu innflæði erlendra lyfja (ekki síst sérlyfja), þar eð innlend töflugerð var þá enn lítil eða í lágmarki svo sem áður greinir. Árið 1947 hafði fjöldi einstakra töflutegunda hins vegar hrapað í um það bil 35% af því sem verið hafði 1934, eða 13 árum fyrr. Fjöldinn óx svo aftur eftir 1950 og náði árið 1965 sama marki og verið hafði fyrir upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar (mynd 7).

Í upphafi tímabilsins voru mixtúrur 47, en hafði fjölgað í 183 í lok tímabilsins. Vafalaust skiptist fjöldi mixtúra á milli innlendrar framleiðslu og innfluttra lyfja, einkum sérlyfja. Mixtúrur samkvæmt forskriftarlyfseðli læknis (ordinatio magistralis) eða öðrum óopinberum forskriftum koma ekki fram í þessari upptalningu sem tekur einungis til opinberlega skráðra lyfjasamsetninga. Pillur og hylki voru fá en fór þó fjölgandi yfir tímabilið (voru innan við 10 talsins í hvorum flokki árið 1913, en 30-40 í lok tímabilsins). Skammtar voru engir skráðir fyrr undir lok tímabilsins.

Lesa má úr mynd 7 að töflur hafi ekki „útrýmt“ mixtúrum eða öðrum eldri lyfjaformum til inntöku í áranna rás. Myndin sýnir hins vegar ótvírætt að langmestur hluti nýrra lyfja til inntöku hefur á síðari áratugum komið á markað í formi taflna (fjölgun úr færri en 10 árið 1913 í 500 árið 1965).

Töflur hafa ýmsa kosti fram yfir önnur lyfjaform til inntöku. Ber þar fyrst að nefna að töflur eru framleiddar í vélum með háþróaðri tækni og eru því tiltölulega ódýrar í framleiðslu samanborið við eldri lyfjaform. Töflur eru skammtað (dosed) lyfjaform með litlum frávikum í jafnvel mjög litlu magni virkra efna í hverri töflu. Þá er það ekki síður mikilvægt að unnt er að framleiða töflur þannig að stýra megi frásogi virkra efna frá meltingarvegi með sérstakri framleiðslutækni (controlled–release tablets).6 Enn fleiri kosti taflna mætti og telja. Það er því fullkomlega réttmæt og eðlileg þróun að ný lyf og lyfjasamsetningar sem ætlaðar eru til inntöku séu fyrst og fremst sett á markað í formi taflna. Sú hefur og orðið raunin hér á landi (mynd 7).

Lokaorð

Það vekur athygli hve háþróuð og mikil töflugerð var orðin í Bandaríkjunum og Bretlandi í lok 19. aldar. Það er líka merkilegt hve seint dönsk lyfjafyrirtæki (apótek og aðrir lyfjaframleiðendur), sem vegna menntunarlegra og starfslegra tengsla urðu fyrirmynd hliðstæðra fyrirtækja á Íslandi, tóku við sér í þessum efnum. Það er jafnframt eftirtektarvert að starfsfólk í dönskum apótekum virðist beinlínis hafa sett sig upp á móti framleiðslu lyfja í töfluformi.1 Það virðist og hafa verið jákvætt fyrir þróun töflugerðar í Bandaríkjunum á 19. öld að læknar hvöttu til framleiðslu á töflum.2

Þegar töflugerð nam land hér á landi, rétt fyrir 1930, voru keyptar til framleiðslunnar handvirkar og seinvirkar vélar. Það var fyrst eftir síðari heimsstyrjöldina, er íslenskir lyfjafræðingar höfðu numið í Bandaríkjunum á stríðsárunum, að skilningur á nýrri tækni í töflugerð fékk hljómgrunn hér á landi. Heildverslun Stefáns Thorarensen hf. reið á vaðið eins og áður er nefnt.

Á árabilinu 1913-1965 voru áberandi sveiflur í fjölda töflutegunda á markaði. Höfundar telja að lægðina í fjölda taflna á árunum kringum síðari heimsstyrjöld sé öðru fremur að rekja til þess að viðskipti við meginland Evrópu (einkum Danmörku, Noreg og Þýskaland) lögðust af á þessum árum. Að styrjöld lokinni opnaðist fyrir viðskipti við þessi markaðslönd á ný og slakinn hvarf (mynd 7). Svipaðar sveiflur virðast og hafa átt við um fjölda stungulyfja hér á markaði á sama árabili.9  Sveiflur í framboði lyfja af svipuðum toga og hér ræðir um eru sérstakt og merkilegt rannsóknarefni.

Sögu lyfjaheildsölu (utan apóteka) á Íslandi hafa engin skil verið gerð svo að höfundum sé kunnugt um. Brautryðjandi í innflutningi sérlyfja og heildsölu þeirra var að öllum líkindum danskur maður sem lengi bjó hér eða var viðloðandi Ísland, Svend Aage Johansen (1895-1980). Hann mun fyrstur hafa auglýst erlend sérlyf í töfluformi í Læknablaðinu.5 Um störf hans þekkja höfundar fáar eða engar aðgengilegar heimildir.

Það kemur berlega í ljós af þessum og fyrri skrifum9,20 hve heimildir um lyf, lyfjagjafir og lyfjaframleiðslu eru í brotum hér á landi. Hið sama á raunar einnig við í fleiri löndum. Það er knýjandi nauðsyn að læknar, lyfjafræðingar og aðrir sem málið varðar taki sér tak í þessum efnum. Vonandi á skilningur manna í þessum stéttum eftir að aukast á sögulegri geymd þegar fram líða stundir.

Þakkarorð

Dr. Philip Green, Head of Director´s Office, Wellcome Trust, London, eru þakkaðar upplýsingar um tilurð og töfluframleiðslu Burrou-ghs Wellcome & Co. í London. Prófessor Poul R. Kruse, dr. pharm., Dansk Farmacihistorisk Fond, Hillerød, Danmörku, eru þakkaðar upplýsingar um upphaf töflugerðar í Danmörku. Dr. Vilhjálmi G. Skúlasyni, áður prófessor og eftirlitsmanni lyfjabúða, og Einari Magnússyni, áður starfsmannni Reykjavíkurapóteks, skrifstofustjóra í velferðarráðuneytinu, eru þakkaðar ýmsar upplýsingar um töflur og töflugerð á Íslandi. Þá er Gunnari Guðmundssyni, áður yfirlyfjafræðingi í Heildverslun Stefáns Thorarensen hf., þakkað fyrir upplýsingar um töfluframleiðslu í því fyrirtæki. Loks eru Ester Önnu Ármannsdóttur B.Sc. þakkað fyrir aðstoð við gerð prenthandrits og Þorkeli Þorkelssyni MA, ljósmyndara, fyrir töku mynda í Lyfjafræðisafninu í Nesi (merktar Þ.Þ.).

Heimildaskrá

  1. Schou SA. Fra guldalder til velfærdstid 1844-1969. Tre faglige forløb: Danmarks Apotekerforening, tabletten og injektionsvæsken. Arch Farm Chem 1969; 76: 741-56.
  2. Kebler LF. The tablet industry – its evolution and present status – the composition of tablets and methods of analysis. J Am Pharm Ass 1914; 3: 820-48.
  3. Bailey P. The birth and growth of Burroughs Wellcome & Co. - Wellcome.ac.uk/About-us/History/WTX051562.htm – maí 2012.
  4. Church R, Tansey EM. From trading to manufacturing, S. M. Burroughs & Co. and Burroughs Wellcome & Co., 1878-1888. Í: Burroughs Wellcome & Co.: Knowledge, trust, profit and the transformation of the British pharmaceutical indusrtry, 1880-1940. Crucible Books, Landcaster 2007: 3-40.
  5. Johansen SA. Auglýsing um fjögur sérlyf frá lyfjaverksmiðjunni A/S Pharmacia, þar á meðal tvær tegundir taflna. Læknablaðið 1929; 15: forsíða maí-júní blaðs.
  6. Hjälpämnen i läkemedel. Information från läkemedelsverket 2012; 23: 8-11.
  7. Münzel K, Akay, K. Untersuchungen für die Herstellung und die Eigenschaften von Granulaten. Pharmacia Acta Helvetiae 1950; 25: 271-6.
  8. Compressi. Tablets. Í: European Pharmacopoeia. Supple-ment to Volume III, Maison neuve SA,París 1977: 92-7.
  9. Skaftason JF, Kristinsson J, Jóhannesson Þ. Brot úr sögu stungulyfja. Með sérstöku tillliti til íslenskra aðstæðna. Læknablaðið 2011; 97: 101-7 og 169-74.
  10. Lyfjaverðskrá 1913.Verðskrá frá Reykjavíkur apóteki. P.O. Christensen, lyfsali, Reykjavík 1913 (verðskrá gerð samkvæmt tilmælum landlæknis og samin í samráði við hann).
  11. Sérlyfjaskrá 1965. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, Reykjavík 1965.
  12. Wøhlk A. Acetylsalicylsyre med Magnesia. Arch Pharm Chem 1913; 20: 480.
  13. Wøhlk A. Smaa praktiske Notitser. Ugeskr læger 1913; 75: 1839-40.
  14. Dansk Biografisk Leksikon. Christian Steenbuch. denstoredanske.dk/Dansk_Biografisk_Leksikon/Sundhed/Apoteker/Christian_Steenbuch?highlight=Christian%20Steenbuch – september 2012.
  15. Kristensen A. Nogle erindringer fra Reykjavíkur Apótek under „den spanske syge”, nóvember 1918. Tímarit um lyfjafræði 1968; 3: 3-4.
  16. Kristensen A. Þá kostuðu 10 ml af Hoffmannsdropum 25 aura. Tímarit um lyfjafræði 1972; 7: 36-9.
  17. E. B. Kandídat klippti asperínskammta allan daginn. Viðtal við Stefán Thorarensen apótekara. Tímarit um lyfjafræði 1972; 7: 46-8.
  18. Magnússon E. Lyfjaframleiðsla í apótekum. Tímarit um lyfjafræði 1981; 15: 96-8.
  19. Edwald E. Lyfjaverslun ríkisins. Tímarit um lyfjafræði 1982; 17: 71-7.
  20. Jóhannesson Þ. Úr sögu innrennlislyfja á Íslandi með ívafi eigin minninga og brotlegrar minjavörslu. Læknablaðið 2006; 92: 328-33.
  21. Jóhannesson Þ. Kristinn Tryggvi Stefánsson prófessor. Fæddur 8.10. 1903 - Dáinn 2.9 1967. Læknablaðið 1967; 53: 225-8.
  22. Magnússon E. Framleiðsla í lyfjabúðum við hlið innlendra verksmiðja. Tímarit um lyfjafræði 1981; 15: 118-20.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica