03. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. 800 ár frá vígi Hrafns Sveinbjarnarsonar

Hinn 4. mars 2013 eru 800 ár síðan einn mætasti Íslendingur sögunnar var tekinn af lífi, Hrafn Sveinbjarnarson goðorðsmaður og læknir. Að því fólskuverki stóð Þorvaldur Snorrason Vatnsfirðingur nágrannagoði Hrafns.

Uppruni og lýsing Hrafns

Hrafn Sveinbjarnarson var fæddur 1166 (?). Hann var af læknum kominn. Atli Höskuldsson langafi hans var í liði Magnúsar góða Noregskonungs er hann barðist við Vindur á Hlýrskógsheiði syðst á Jótlandi árið 1043. Var Atli einn 12 manna er konungur valdi til að binda sár manna eftir bardagann, „en enginn þeirra hafði fyrr sár bundið, en allir þessir urðu hinir mestu læknar.“ Sonur Atla var Bárður svarti í Selárdal og hans sonur Sveinbjörn faðir Hrafns.


Úr glugga Hrafns Sveinbjarnarsonar í kapellunni á Hrafnseyri við Arnarfjörð.
Listamaður: Steinþór Sigurðsson.

„Sveinbjörn var goðorðsmaður og vitur og mikill atferðarmaður, læknir góður.“ Hann bjó að Eyri í Arnarfirði með konu sinni Steinunni Þórðardóttur. Þau áttu fimm börn og var Hrafn hinn yngri tveggja sona. Markús sterki, eldri bróðirinn, var prestvígður en dó þrítugur af slysförum og stóð Hrafn þá til arfs og goðorðs.

Í Hrafnssögu er hann sagður „mikill maður og réttleitur í andliti, svartur á hárslit.“ Þá var hann atgervismaður, völundur að hagleik, skáld, læknir sem ýmsir þeir frændur, vel lærður, lögspakur, vel máli farinn og að öllu fróður.

Um hann var sagt eftir að hann tók við búi og goðorði: „Svo var bú Hrafns gagnauðigt að öllum mönnum var þar heimill matur, þeim er til sóttu og erinda sinna fóru hvort sem þeir vildu setið hafa lengur eða skemur. Alla menn lét hann flytja yfir Arnarfjörð, þá er fara vildu. Hann átti og skip á Barðaströnd. Það höfðu allir þeir er þurftu yfir Breiðafjörð. Og af slíkri rausn Hrafns var sem brú væri á hvorumtveggja firðinum fyrir hverjum er fara vildi.“

Hrafn kvæntist Hallkötlu Einarsdóttur og áttu þau 9 börn. Af þeim er kominn mikill ættbogi.

Utanfarir

Hrafn fór þrívegis utan. Fyrstu ferðina fór hann líklega vart tvítugur til Noregs þar sem hann dvaldist veturlangt hjá tignarfólki og var mikils virtur sakir íþrótta. Í þessari för heimsótti hann Orkneyjabiskup er sendi Hrafni síðar veglegar gjafir.

Næsta ferð og hans lengsta var farin til að efna heit á dýrlinginn Tómas Becket sem heitið var á við rostungsveiði. Fór hann fyrst til Noregs en þaðan til Kantaraborgar og færði dýrlingnum tennur rostungsins. Síðan fór hann til Santiago di Compostela á Spáni (leiðin ekki ljós). Þá hélt hann um norðurströnd Spánar til St. Gilles eða Ílansborgar sem sögð er stofnuð af heilögum Egediusi. Þaðan fór Hrafn til Rómar og „fal líf sitt á hendi guðs postulum og öðrum helgum mönnum“. Frá Róm hélt hann heimleiðis um Norðurlönd.

Þriðju ferðina fór Hrafn sem ráðgjafi og leiðsögumaður með Guðmundi Arasyni biskupsefni er hann fór til Noregs til vígslu.


Læknaskólinn í Salernó.

Lækningar

Hrafn nam læknislist af föður sínum sem aftur hafði hana frá afa sínum. Ekkert liggur fyrir um hvernig námi hans var háttað, hvort stuðst var við bækur eða hvort um var að ræða munnlega kennslu og handleiðslu. Handlækningar hafa legið vel fyrir svo handlögnum manni.

Í Ílansborg voru höfuðstöðvar líknar- og lækningareglunnar sem kennd er við Jóhannes skírara og þykja læknisverk Hrafns minna á störf hennar:

„Til engis var honum svo títt, hvorki til svefns né til matar, ef sjúkir menn komu á fund hans að ei mundi hann þeim fyrst nokkura miskunn veita. Aldrei mat hann fjár lækning sína. Við mörgum mönnum vanheilum og félausum tók hann, þeim er þrotráða voru, og hafði með sér á sínum kostnaði þangað til er þeir voru heilir.“

Þá þykja lækningar Hrafns minna á læknisfræði Salernóskólans á Ítalíu sem er skammt sunnan Rómaborgar. Gæla menn við þá hugmynd að Hrafn hafi stundað þar nám í suðurför sinni. Altént er líklegt að hann hafi kynnt sér nýjungar í lækningum í ferð sinni.

Á frásögnum af lækningum Hrafns er nokkur helgisagnablær enda segir í sögu hans: „Svo fylgdi hans lækningu mikill guðs kraftur að margir gengu heilir frá hans fundi, þeir er banvænir komu til hans fyrir vanheilsu sakir.“

Ýmsar lækningar hans teldust ekki gjaldgengar nú enda hefur fræðunum fleygt fram á 800 árum. Sú skurðaðgerð sem lýst er hér í rammagrein sýnist standa nútímanum mun nær.

Þorvaldur – drápið

Fljótlega eftir að Hrafn kom heim úr förinni með Guðmundi góða og hafði sest að búi sínu á Eyri skiptust þeir á heimboðum hann og Þorvaldur goði Snorrason í Vatnsfirði og mæltust til vináttu hvor af öðrum. Ekki leið þó á löngu áður en slettist á vinskapinn. Þorvaldur var ófyrirleitinn og tók óhikað það sem hann taldi sér bera, oft ránshendi. Hrafn var friðsamur og sáttfús og vildi fara að lögum og fékk Þorvald dæmdan fyrir yfirgang.

Óvild Þorvalds jókst og þar kom að hann reið til Eyrar og ætlaði að brenna Hrafn inni. Hrafni barst njósn af ferðum Þorvalds og varð hann frá að hverfa er lið dreif að Hrafni. Lét Hrafn hlaða grjótvirki kringum bæinn og þegar Vatnsfirðingur gerði næstu atrennu var bærinn óárennilegri auk þess sem Hrafni barst enn liðsauki. Þorvaldur þóttist fús til sátta sem Hrafn þáði en hlaut ámæli fyrir að láta ekki drepa Þorvald meðan hann átti þess kost.

Í sögu Hrafns er lýst fjölda fyrirboða um dauða hans.

Á lönguföstu, 4. mars 1013, reið Þorvaldur með lið sitt um nótt, í illu veðri, yfir Glámu til Arnarfjarðar. Hann batt fólk á öllum bæjum þar sem hann fór um, svo ekki bærist njósn. Þessa nótt var í fyrsta skipti þann vetur enginn vörður í virkinu því menn Hrafns töldu útilokað að nokkur sækti að bænum í óveðri á föstu. Óvinirnir gátu því óáreittir lyft manni upp á virkisvegginn og opnaði sá fyrir hinum. Þeir svældu síðan út heimilisfólkið. Þorvaldur lét fóthöggva tvo menn Hrafns og hálshöggva hann sjálfan. Varð hann karlmannlega við dauða sínum.

Tólf árum síðar hefndu synir Hrafns, Sveinbjörn og Krákur, föður síns er þeir brenndu inni Þorvald Vatnsfirðing.

Heimildir

Bjarnason Ö. Kristinn heimur miðalda og Hrafn Sveinbjarnarson. Læknablaðið 2004; 90: 167-70.
Bjarnason Ö. Hrafn Sveinbjarnarson – líkn og lækningar. Læknablaðið 2004; 90: 253-7.
Hrafns saga Sveinbjarnarsonar hin sérstaka. Sturlunga saga II. Ritstj. Thorsson Ö. Svart á hvítu, Reykjavík 1988: 883-931.
Blöndal LH, Jónsson V. Læknar á Íslandi. Sögufélagið, Reykjavík 1944.


Hrafn fjarlægir þvagrásarsteina

„Í sveit Hrafns var maður þrotráða ... Hann hafði steinsótt svo að því mátti hann ei þurft sækja er steinninn féll fyrir getnaðarliðu hans.” Hrafn tók hann til sín og „létti hans meini með mikilli íþrótt. Og svo sótti meinið að honum að hann varð banvænn og lá bólginn sem naut.“ Þá leitaði Hrafn álits presta sinna og fleiri viturra manna. Þeir töldu manninn banvænan nema að væri gert. „En Hrafn sagði að hann mundi til taka með guðs forsjá og þeirra atkvæði. Og þá fór hann höndum um hann og kenndi steinsins í kviðinum og færði hann frá í getnaðarliðinn svo sem hann mátti og batt síðan fyrir ofan með hörþræði svo að eigi skyldi upp þoka steininn og öðrum þræði batt hann fyrir framan steininn. Og þá bað hann að allir skyldu syngja fimm pater noster, þeir er inni voru, áður en hann veitti aðgerðina. Og síðan skar hann um endilangt með knífi og tók í brott tvo steina. Síðan batt hann viðsmjör við sárið og græddi hann svo að hann varð heill.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica