01. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Hefur notið þess að skipuleggja Læknadaga - rætt við Örnu Guðmundsdóttur

Arna Guðmundsdóttir hefur auk starfa sinna sem sérfræðingur í innkirtlalækningum verið framkvæmdastjóri Læknadaga frá því í janúar 2005. Hún hefur nú ákveðið að láta af því starfi og við keflinu tekur Gunnar Bjarni Ragnarsson sérfræðingur í krabbameinslækningum. Læknadagarnir hafa vaxið og dafnað undir stjórn Örnu og fluttu sig um set í fyrra, af Nordica-hóteli yfir í Hörpu, og segir Arna það vera framtíðarstað Læknadaganna.

u03-fig1
„Ef ég á að nefna hvað einkennir Læknadagana þá er það einmitt efnisleg
fjölbreytni og henni viljum við halda þar sem margir læknar fagna tækifærinu
til að kynnast því nýjasta í öðrum sérgreinum og fá þannig þverfaglega yfirsýn
sem sjaldan býðst í dagsins önn,” segir Arna Guðmundsdóttir sem lætur senn
af starfi framkvæmdastjóra Læknadaga.


Um tildrög þess að hún tók að sér framkvæmdastjórn Læknadaga segir Arna að Sigurbjörn Sveinsson fyrrverandi formaður LÍ hafi komið að máli við hana fljótlega eftir að hún kom heim frá sérnámi og boðið henni að taka þetta að sér. „Í tíð forvera míns Arnórs Víkingssonar voru Læknadagarnir tvískiptir, fyrstu tveir dagarnir voru haldnir í húsnæði LÍ í Hlíðasmára en seinni þrír dagarnir á ráðstefnuhóteli. Þessu breytti Arnór og þegar ég tók við voru Læknadagarnir haldnir á sama stað og það fyrirkomulag hefur verið óbreytt síðan,” segir Arna.

„Upphaflega var þetta ólaunað áhugamál í þágu félagsins, en eftir nokkur ár hafði þetta undið svo upp á sig að þáverandi formanni, Birnu Jónsdóttur, þótti sjálfsagt að breyta stöðunni í  launað hlutastarf.  Þetta á ekki einungis við um Fræðslustofnun lækna heldur einnig önnur ábyrgðarstörf á vegum LÍ, enda er oft um að ræða verulegar fjárhæðir sem fólk er að sýsla með svo eðlilegt er að það sé launað og beri þá um leið fulla ábyrgð á störfum sínum.“

Velta Læknadaga 2012 var rétt tæpar 16 milljónir króna en að sögn Örnu hefur reksturinn verið í járnum frá árinu 2008 vegna lítilla vaxtatekna af sjóði Fræðslustofnunar.

„Tekjurnar koma úr nokkrum áttum, með aðgangseyri þátttakenda, leigu frá lyfjafyrirtækjum fyrir sýningaraðstöðu og óskilyrtum fræðslustyrkjum frá styrktaraðilum og vaxtatekjum af sjóðseign Fræðslustofnunar. Vandinn við þennan rekstur undanfarin ár, eftir kreppuna, er að ávöxtun sjóðs Fræðslustofnunar hefur verið mjög léleg en í lögum um Fræðslustofnun er kveðið á um að Læknadaga megi fjármagna með vaxtatekjunum. Það hefur sett okkur í erfiða stöðu að hafa litlar sem engar vaxtatekjur en þó hefur tekist að reka Læknadagana án halla með tekjum og styrkjum.“

Ágreiningur um aðgangseyri

Á aðalfundi LÍ í haust urðu heitar umræður um hvort breyta ætti aðgangseyri að Læknadögum. Deilt var um hverjir skyldu borga sig inn og hverjir fengju frípassa.

„Aðgangseyrir árið 2013 verður ekki hækkaður en það er á skjön við allt sem er að gerast í þjóðfélaginu hversu vel hefur tekist til við að halda gjaldinu hóflegu. Fyrir tveimur árum var ákveðið að allir, bæði fyrirlesarar og almennir þátttakendur, þyrftu að greiða þátttökugjald og frá og með næstu Læknadögum munu Öldungar (læknar á eftirlaunaaldri) þurfa að greiða fyrir þátttöku, en fá samt verulegan afslátt. Það má jafnframt benda á að aðgangur að Læknadögum er margfalt ódýrari en þátttökugjald á sambærilegar námsstefnur, jafnt hér heima sem erlendis. Samanburður leiðir í ljós að algengt þátttökugjald fyrir 3-5 daga ráðstefnu erlendis er um 1000 dollarar, (120-130 þúsund krónur) en við erum að rukka 15.000 krónur fyrir vikupassa að Læknadögunum. Samt vex mörgum þetta í augum en staðreyndin er sú að ef halda á gjaldinu svona lágu verða allir að borga sig inn. Það er kannski betra en að veita allt að helmingi þátttakenda frían aðgang eins og verið hefur og láta hina borga mun meira. Læknanemar greiða ekki fyrir þátttöku en almennir læknar (unglæknar) þurfa að greiða aðgangseyri. Gleymum því ekki að þetta er símenntunarþing og skiptir því kannski mestu máli fyrir lækna sem hafa nokkurra ára starfsaldur. Í þessu samhengi má líka nefna að við höfum aldrei greitt erlendum fyrirlesurum þóknun fyrir að halda erindi. Það er vissulega sérstakt en allir hafa verið sáttir við að fá ferðir og uppihald borgað og ekki gert kröfu um sérstakar greiðslur. Íslenskir fyrirlesarar fá frían miða á árshátíð Læknafélags Reykjavíkur sem haldin er í lok Læknadaga en annars er ekki um neinar sporslur að ræða fyrir erindi og umsjón málþinga.

Meginkostnaðurinn við Læknadagana er við ferðir og uppihald erlendra gesta og þar þarf að vera á tánum svo kostnaðurinn fari ekki úr böndunum. Við þurfum af þessum sökum að halda fjölda útlendinga í nokkrum skorðum og vega og meta í hverju tilfelli hvort ástæða er til að bjóða viðkomandi.“

Harpa er framtíðarstaður

Eftir nokkurra ára þinghald í þingsölum Hótel Nordica voru Læknadagar í fyrsta sinn í Hörpu í fyrra.

„Það tókst mjög vel en við vorum að læra á húsið og átta okkur á möguleikunum. Það varð nokkur misskilningur varðandi hádegismatinn sem var ætlaður þeim sem voru á hádegisfyrirlestrum og áttu að taka matinn með sér inn í salinn, en margir misskildu þetta og stóðu frammi með matinn sinn. Þá var maturinn eingöngu ætlaður þeim sem hugðust sækja hádegisfyrirlestra. Þetta verður vonandi í lagi núna í janúar. Annars var mjög almenn ánægja með Hörpu og þar er aðstaðan einstaklega góð. Salirnir eru mjög góðir og almenningurinn þar sem lyfjafyrirtækin höfðu kynningarbása sína mun stærri. Við lítum á Hörpu sem framtíðarstað Læknadaganna.”

Fyrir þremur árum var bryddað upp á þeirri nýjung að efna til Læknahlaups í tilefni Læknadaganna. Þátttaka hefur verið misjöfn eftir árum, enda erfitt að stóla á veður í lok janúar. Arna segir að Læknahlaupið hafi ekki náð að marka sér þann sess sem vonir voru bundnar við.

„Þátttaka í fyrra var óvenju léleg en þar áttu veður og færð eflaust stóran þátt. Ég veit ekki alveg hvað veldur því að okkur hefur ekki tekist að virkja almenning með okkur í þetta hlaup og lækna varla heldur. Sumpart held ég að ástæðan sé árstíminn, önnur ástæða gæti verið að almenningur hikar við að taka þátt í hlaupi sem virðist ætlað læknum sérstaklega og svo held ég að læknarnir sjálfir séu svo metnaðargjarnir að þeir vilja ekki vera með nema þeir séu í toppformi og eigi möguleika á verðlaunum! Þetta er auðvitað mesti misskilningur enda hugmyndin einfaldlega sú að fá sem flesta til að vera með og vekja athygli á hreyfingu sem heilsubót. Svona hlaup/ganga eru mjög algeng á þeim sykursýkisþingum sem ég sæki, þá taka margir þátt til að styrkja sykursýkissamtökin en ekki til að ná góðum persónulegum tíma! Líklega þurfum við að vinna kynningarstarfið betur þegar kemur að þessum lið í dagskránni.“

Fjölbreytnin er einkenni Læknadaganna

„Undirbúningur og skipulag Læknadaganna er kominn í mjög fastar skorður og liggur dagskráin fyrir að vori enda nauðsynlegt að hafa góðan fyrirvara þegar sækja skal fyrirlesara erlendis eða undirbúa málþing um mjög sérhæfð efni. Stjórn Fræðslustofnunar hefur í sjálfu sér lítið að segja um efnisval og efnistök á einstökum málþingum svo fremi að fyrirlesarar haldi sig við áður innsent efni. Okkar hlutverk er að tryggja efnislega fjölbreytni, þannig að ef umsókn er hafnað þá er það yfirleitt vegna þess að búið er að samþykkja svipað efni. Þróunin hefur einnig orðið sú að sérgreinafélögin sækja um að halda málþing fremur en að einstaklingar innan sérgreinanna standi fyrir þeim, þó auðvitað banni ekkert hið síðarnefnda. Þetta er eðlileg þróun og á sinn þátt í að gæði málþinganna hafa aukist með árunum.

Ef ég á að nefna hvað einkennir Læknadagana þá er það einmitt efnisleg fjölbreytni og henni viljum við halda þar sem margir læknar fagna tækifærinu til að kynnast því nýjasta í öðrum sérgreinum og fá þannig þverfaglega yfirsýn sem sjaldan býðst í dagsins önn. Auk þess má nefna félagslegt hlutverk þingins sem er oft vettvangur fyrir umræður um læknana sjálfa, svo sem starfsumhverfið og loks læknastéttina sem heild. Við teljum það mjög mikilvægt.

Dagskrá Læknadaga 2013 er að venju fjölbreytt og í fyrra var bryddað uppá þeirri nýbreytni að hefja vikuna með þemadegi. Í fyrra var fyrsti dagurinn helgaður offitu en í ár hafa svefn og svefnrannsóknir orðið fyrir valinu. Þarna verður fjallað um svefnrannsóknir frá öllum hliðum og eins og sagt er, alveg frá „bench to bedside”, það er frá rannsóknarstofunni að rúmstokknum, hefðbundnar og óhefðbundnar aðferðir við meðferð við svefn-truflunum, með og án lyfjagjafar, en svefnlyfjanotkun er mjög mikil á Íslandi.

Setning Læknadaganna verður á öðrum tíma en í fyrra, en þá var gerð tilraun með að hafa setninguna um kvöldið. Nú breytum við til fyrra horfs og höfum setninguna í beinu framhaldi af málþingi dagsins, kl. 16.30. Skemmtikraftur læknastéttarinnar, Óttar Guðmundsson geðlæknir, sem sló í gegn í fyrra með dagskrá sinni um geðsjúkdóma í íslenskum dægurlögum, mun stíga á stokk að nýju ásamt hljómsveit og söngkonu og nú með dagskrá um Njálu í íslenskum dægurlögum. Óttar mun svo verða með hádegis-erindi síðar í vikunni þar sem hann fjallar um kynlíf í Íslendingasögunum.

Læknafélag Íslands stendur fyrir málþingi um lögfræðileg álitamál innan læknisfræðinnar og einnig verður hádegisfundur um ný lög um heilbrigðisstarfsfólk. Af öðru efni má nefna málþing á vegum barnalækna um tilfærslu sjúklinga með langvinna sjúkdóma frá barnalæknum yfir til fullorðinslækna. Þessi sjúklingahópur stækkar og við 18 ára aldur færast þeir á milli lækna. Talsvert verður fjallað um verki og verkjameðferð og aukamálþing á vegum iðnaðarins um tækjabúnað til að stilla verki. Einnig verður fjallað um nýjungar í krabbameinsmeðferð, þar má nefna róbótmeðferð við blöðruhálskrabbameini. Af allt öðru tagi má nefna málþing um sjúklinginn og læknislistina í bókmenntum, en þar leggja læknar og bókmenntafræðingar saman krafta sína.“

Viðbótarmenntun í kynskiptameðferð

„Loks má nefna að þátttaka íslenskra lækna í Læknadögum hefur verið vaxandi og í raun má segja að nær allir læknar sem á annað borð eiga heimangengt mæti. Frekari vöxtur er því bundinn við aðrar heilbrigðisstéttir og margt í dagskránni sem höfða ætti til annarra stétta en lækna. Þeir sem ekki tilheyra læknastétt geta keypt sér dagpassa á tiltekin málþing en geta ekki keypt vikupassa og þeir verða jafnframt að skrá sig á staðnum, það er ekki um fyrirframskráningu að ræða fyrir aðra en lækna. Framtíðarverkefni er einnig að bjóða upp á styttri dagskrá á ensku og markaðssetja fyrir erlenda lækna. Þetta er verkefni Gunnars Bjarna arftaka míns og ég er viss um að þetta á eftir að vekja áhuga og draga marga hingað til lands.

Ég á eftir að sjá eftir Læknadögunum og vil gjarnan koma því að hversu gott samstarf ég hef átt við Margréti Aðalsteinsdóttur á skrifstofu Læknafélagsins. Hún hefur verið mín stoð og stytta í þessu starfi. Ég mun verða viðloðandi skipulag næstu Læknadaga og Gunnari Bjarna innan handar, því reynslan er mikilvæg en um leið er mikilvægt að hætta áður en maður verður alveg gróinn í starfinu. Hvað mín framtíðaráform varðar þá hef ég fengið mikinn áhuga á meðferð transgenderfólks sem ég sinni hér á landi. Ég  stefni á þjálfun og viðbótarmenntun í kynskiptameðferð í Svíþjóð í vor. Það er ört stækkandi hópur sem óskar eftir slíkri meðferð og mikilvægt að sækja sér þekkingu á þessu sviði.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica