12. tbl. 96.árg. 2010
Umræða og fréttir
Frá öldungadeild LÍ. Minnisstæður lærifaðir. Richard Asher MD, FRCP 1912-1969. Árni Kristinsson
Jóladagur á Central Middlesex Hospital.
Haustið 1963 kom ég til Lundúna til að hefja framhaldsnám, ókunnugur og talandi skólaensku. Fljótlega sótti ég um „húskarlsstöðu“ (House Physician) hjá dr. Asher á Central Middlesex spítalanum. Þeir sem til þekktu vissu að þetta var vonlítið og brostu vorkunnsamir. En Asher var ólíkindatól og sagði aðstoðarlækninum sínum að hann gæti ómögulega látið á móti sér að heyra ekki næstu mánuðina þessa fornaldarensku sem Íslendingurinn talaði. Ensk tunga átti hug hans, auk tónlistar og lyflæknisfræði með blóð- og efnaskiptasjúkdóma sem undirgreinar.
Sjúkradeildin okkar var 25 rúma salur, hár til lofts og víður til veggja. Þeir sem gátu voru á róli eða sátu í stól því að Asher hafði skrifað grein í Lancet 1947 um hættur sem fylgdu rúmlegu, The Dangers of Going to Bed: „We should think twice before ordering our patients to bed and realise that beneath the comfort of the blanket there lurks a host of formidable dangers.“ Þarna var hann langt á undan samtíð sinni.
Þá var hann ótrúlega fljótur að finna ef eitthvað var óvenjulegt í sjúkrasögu eða skoðun sjúklinga. Eitt sinn kom á vakt hjá mér bandarískur læknir með svæsna kviðverki, flókna sjúkrasögu og þurfti mikla verkjastillingu. Á stofugangi um morguninn hóf ég að þylja upp þrautasögu þessa kollega en komst ekki langt. Asher sagði snöggt við sjúklinginn: „Hvenær varðst þú lyfjafíkill?“
Richard Asher
Auk lyfjadeildarinnar stýrði Asher bráðamóttöku geðveikra (Mental Observation Ward) þar sem var öryggisklefi með leðurklæddum, mjúkum veggjum og gólfi (padded cell). Þangað var á vöktum stungið inn órólegum sjúklingum. Á stofugangi gekk Asher, sem var lágvaxinn og grannur, ætíð í fararbroddi, hiklaus og settist á gólfið. „Your fly is open!“ (Þú ert með opna buxnaklauf) sagði hann eitt sinn við öskrandi risa sem varð svo hvumsa að æðið rann af honum. Í annað skipti var hann ekki lengi að átta sig á að kolruglaður sjúklingur var aðeins skelfingu lostinn pólskur sjómaður sem Asher róaði með nokkrum orðum á pólsku og sendi síðan vaktmann með hann niður að höfn um borð í sitt skip. Lögreglan kom með ungan, snyrtilegan mann sem hafði kvartað undan því við frúna sem leigði honum herbergi að krókódílar syntu í klósettinu. Asher sendi hann heim með ströngu loforði um að hann mætti aldrei segja neinum öðrum en sér frá krókódílunum. Maðurinn slapp við að vera lagður á geðspítala og hélt vinnu sinni með því að koma reglulega á göngudeildina til hans.
Asher lýsti fyrstur í breska læknablaðinu árið 1949 14 sjúklingum með geðbilun af skjaldvakaskorti, Myxoedematous Madness, sem hann fann flesta á bráðamóttökunni. Á sama hátt greindi hann sjúklinga sem voru haldnir þeirri áráttu að gera sér upp bráð veikindi, og kallaði þetta Munchausen´s Syndrome sem er síðan notað í læknisfræðinni (Lancet 1951). Hann lýsti þremur tilbrigðum:
- Laparotomophilia migrans (kviðskurðarfíkn).
- Haemorrhagica histrionica (blæðingarbull).
- Neurologica diabolica (yfirliðsleikur).
Við undirsátar hans vorum boðnir í kvöldverðarboð hjá Asherfjölskyldunni. Eftir mat var farið í leiki sem reyndu miklu meira á heilastarfsemi gestanna en heimilismanna. Síminn hringdi margsinnis og var þar sambýlismaður dótturinnar Jane, Paul nokkur McCartney bítill sem leigði í kjallaranum hjá dr. Asher, að reka á eftir henni að koma í partý með Bítlum og Rolling Stones, en við vorum greinilega skemmtilegri félagsskapur.
Asher var hlýr maður og mikill húmoristi. Á jóladag um hádegisbil kom hann á deildirnar uppáklæddur í kjólföt með svuntu og húfu, skar jólakalkúninn handa sjúklingunum, skálaði við þá í viskí og sagði brandara. Ég lýk þessum endurminningum þar sem við Asher ökum svolítið góðglaðir í gamla Bentleynum hans eftir (sem betur fer) tómum götum Lundúnaborgar síðdegis á jóladag.
Bækur með ritgerðum Richards Asher
Richard Asher talking sense. Edited by Sir Francis Avery Jones. Pitman Medical 1972.
A Sense of Asher. A new miscellany. British Medical Association 1984.
Bókadómar Asher
„Muddy waters may look deeper than they are, and a muddy style lends a certain profundity to this book.“
„Professor Wintrobe, dealing with haematology, certainly knows what he is talking about; but I am not sure that his readers will.“
„As the book is for general practioners, to provide them with so much detail and so many references seems rather like giving the complete 16-volume Oxford Dictionary to a foreign tourist. Quite a high proportion of the few facts in the book are correct and the pictures are cleverly drawn.“
„Like many others who feel uncomfortable in the world of sense, he tries to sell us tickets to the land of nonsense. The journey is difficult and the destination obscure.“
Fleyg orð Asher
„It is not always worth the discomforts of major surgery to get minor recovery.“
„The difference between the maniac and the schizophrenic laugh is – mania and the world laughs with you – schizophrenia and you smile alone.“
„Once a man is a doctor he usually does all he can to acquire a dignified uniformity with the remainder of his species.“
„Despair is best treated with hope, not dope.“