12. tbl. 96.árg. 2010

Umræða og fréttir

Skipulag LÍ

Aðalfundur Læknafélags Íslands 2009 fól stjórn félagsins að fara yfir markmið, starfssvið og stefnu félagsins. Markmiðið var að einfalda uppbyggingu þess. Þá átti stjórnin að skoða kosti þess og galla að aðskilja hlutverk félagsins sem stéttarfélags og fagfélags. Í framhaldi þess skyldi ræða skipulagsbreytingar á Læknafélaginu og lagðar fram tillögur þar að lútandi. Átti stjórnin að gera komandi aðalfundi (2010) grein fyrir niðurstöðu sinni.

Stjórn LÍ brást við þessum fyrirmælum aðalfundar þegar í stað og skipaði starfshóp sem fékk í megindráttum það hlutverk sem stjórninni hafði verið falið. Starfshópurinn ákvað á fyrsta fundi sínum að efna til viðhorfskönnunar á netinu meðal félagsmanna, þar sem þess yrði freistað að lesa í afstöðu félagsmanna til þeirra úrlausnarefna sem hópnum höfðu verið falin. Svör bárust frá 470 læknum eða 45%. Sú þátttaka var samkvæmt væntingum starfshópsins. Góður meirihluti svarenda reyndist sáttur við skipulag Læknafélags Íslands, eða 67% þeirra sem afstöðu tóku. Óánægja með skipulag LÍ var mest í hópi unglækna en minnst í hópi heimilislækna. Þeir sem óánægðir voru með LÍ vildu flestir skilja að stéttarfélags- og fagfélagshlutann og að á aðalfundum félagsins færi hver læknir með eitt atkvæði.

Í umræðu sinni um aðföng þau sem aflað var og viðhorfskönnunina segir starfshópurinn í skýrslu sinni til stjórnar: „viðhorfskönnun sú sem nefndin gekkst fyrir leiddi í ljós að meginþorri lækna er ekki reiðubúinn til að breyta félaginu frekar, og sérstaklega ekki þeir sem telja má í varanlegu vistarbandi innan LÍ, þ.e. læknar með sérfræðimenntun. Minnihluti lækna er ekki sáttur við félagið og vill aðskilja faglega og stéttarfélagslega hlutann. Er það í samræmi við þau viðhorf sem hafa verið viðruð s.l. tvo áratugi og endurspeglast vel í þeirri tillögu sem Félag ungra lækna (Félag almennra lækna, FAL) bar upp á síðasta aðalfundi LÍ (2009).

Að mati nefndarinnar krefjast grundvallarbreytingar á LÍ frekari umræðu og afdráttarlauss stuðnings meirihluta félagsmanna. Þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til að skapa minnihlutahópum olnbogarými innan stéttarfélaga þar sem þeir telja hag sínum best borgið. Stjórn félagsins þarf þó alltaf að vera vakandi fyrir umræðunni í grasrótinni og mæta henni á opinn hátt og hlúa að, þegar hún á sér lífsvon . . . Umræðum af því tagi fylgja yfirleitt frjóir straumar sem skapa nýjar hugmyndir þó að ekki leiði til byltingar hverju sinni.“

Því miður gafst ekki ráðrúm til þessarar mikilvægu umræðu á liðnum aðalfundi eins og ráð hafði verið fyrir gert. Niðurstaða starfshópsins fylgdi með í skriflegri skýrslu stjórnarinnar til aðalfundar, án þess að gerð væri sérstök grein fyrir henni eða hún tekin til umræðu að frumkvæði formannsins. Hvað sem því líður er félaginu nauðsynlegt að gefa kost á frekari umræðu um skipulag sitt og laða fram þá ókosti sem félagsmenn telja fylgja fyrirkomulagi þess.

Fulltrúalýðræðið, sem er kjölfesta LÍ, byggir á einsleitum læknahópum sem mynduðu sterkar félagsheildir í vel afmörkuðum landshlutum um miðja síðustu öld. Þessir félagar komu saman að minnsta kosti einu sinni á ári á heimilum hvers annars, fóru yfir fræðin og taxtana, réðu um það hver gæti farið suður á aðalfundinn og nutu gestrisninnar.

Fulltrúalýðræðið hefur margvíslega kosti. Það dregur úr hættu á eyðandi sundurlyndi og ringulreið og að úrlausnarefnin verpist um hagsmuni sem endurspeglast í einstökum hópum lækna. Ég tel að fulltrúum lækna úr landshlutunum sé síður sú hætta búin að niðurstöður þeirra í einstökum málum litist af þröngum hagsmunum, til að mynda sérgreina; þeir séu með öðrum orðum líklegri til að skynja þörf læknastéttarinnar fyrir að ná víðtækri samstöðu um málatilbúnað.

Á þessu eru þó meinbugir á síðari tímum, sem forusta læknafélagsins verður að horfast í augu við.

Borið hefur á því að fámenn svæðafélög lækna eigi í erfiðleikum með að rækja skyldur sínar við LÍ. Er ég þá að vísa til þess að af einum eða öðrum ástæðum hafa fulltrúar frá þessum félögum ekki mætt á formannafundi eða aðalfundi. Þetta er áhyggjuefni og kann að benda til að undirstöður LÍ séu orðnar feysknar og þarfnist endurnýjunar.

Í annan stað hefur skipulag heilbrigðisþjónustunnar í landinu tekið gríðarlegum breytingum frá því LÍ fékk mynd sína 1952. Í stað sjálfstæðra héraðslækna sem dreifðust um landið, hafa heilbrigðisstofnanir tekið við. Ekki er óalgengt að starfssvæði þessara heilbrigðisstofnana afmarkist landfræðilega á svipaðan hátt og svæðafélög lækna. Þessar stofnanir hafa annars vegar ólýðræðislegt hírarkí og hins vegar sitt eigið læknaráð, og innan þeirra hlýtur að vera mótuð stefna sem læknarnir verða að fylgja, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Skoðun svæðafélags lækna, ef hún verður þá til, mun óhjákvæmilega litast af þessu sambýli. Ég tel að svæðafélögum lækna kunni víða að vera hætta búin fyrir þær sakir.

Forustu Læknafélags Íslands ber að halda þessari umræðu vakandi.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica