12. tbl. 96.árg. 2010

Umræða og fréttir

Trú á framtíðina – um Kím, frumkvöðlasetur

Hugmyndin að baki KÍM-Medical Park er að stofna setur fyrirtækja sem öll starfa að heilsutengdum verkefnum,“ segir Sigríður Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri um tilgang frumkvöðlasetursins Kím sem staðsett er í Vatnagörðum í Reykjavík.

u05-fig
„Fyrirtækin njóta nálægðarinnar við hvert annað,“ segir Sigríður
Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri.

Kím er eitt af átta frumkvöðlasetrum sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands stendur að. Húsnæðið í Vatnagörðum er 1300 fermetrar að stærð með skrifstofuaðstöðu og fullbúnum rannsóknarstofum. Þar er aðstaða fyrir allt að 20 sprotafyrirtæki og 60 starfsmenn. Að Kími stendur Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samstarfi við iðnaðarráðuneytið, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Summit ehf.

Sigríður segir ástæðuna fyrir því að Kím var sett á laggirnar vera þá að í húskynnum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands við Keldnaholt hafi verið starfandi nokkur fyrirtæki í heilsutengdum verkefnum og fleiri fyrirtæki og frumkvöðlar hafi sótt um að fá að koma inn á frumkvöðlasetur Nýsköpunarmiðstöðvar. „Okkur langaði því að koma þessum fyrirtækjum undir sama þak, þannig að þau gætu nýtt tengslanet, tæki og tól og náð fram ýmsum samlegðaráhrifum. Þetta er að skila góðum árangri hér á Kíminu. Fyrirtækin njóta nálægðarinnar við hvert annað á mjög margvíslegan hátt; fá upplýsingar um framleiðendur og birgja, styrkjamöguleika til rannsókna og ýmislegt fleira sem að gagni getur komið,” segir Sigríður.

Fyrirtækin sem nú eru í Kím setrinu eru Genís,  SagaMedica Nox Medical, ValaMed, Medical Algorithms, Signal One, Íslensk fjallagrös, Prokazyme, Arkea,  Prókatín, Algilding, Líf-Hlaup og Björkin, auk nokkurra frumkvöðla sem eru að vinna að sínum viðskiptahugmyndum en hafa ekki enn stofnað formleg fyrirtæki í kringum starfsemina.

Það vekur athygli að nokkur fyrirtæki á setrinu eru að einbeita sér að því að finna lækningamátt og heilsubætandi áhrif íslenskra náttúruafurða á ýmsan máta, bæði úr jurta- og dýrarikinu. Íslensk fjallagrös, hvönn og  kítin úr rækjuskel eru meðal þess sem unnið er með í ýmsum læknisfræðilegum og heilsutengdum tilgangi, en einnig er unnið að þróun hátæknibúnaðar til lækninga og rannsókna í heilbrigðisgeiranum, svo sem á sviði svefnmælinga, heilaskönnunar og stýringar lyfjagjafar.

Mjög sérhæfðar hugmyndir

Aðspurð segir Sigríður að starfsmenn fyrirtækjanna njóti nálægðarinnar á formlegan jafnt sem óformlegan hátt. „Alls kyns upplýsingar fara á milli fólks þar sem það nýtir sameiginlega aðstöðu, en við stöndum einnig fyrir formlegum kynningum og fræðslufundum um ýmislegt sem snýr að hinu ytra umhverfi. Við skipuleggjum formlega fræðsludagskrá fyrir öll frumkvöðlasetrin og reynum eftir föngum að sérhæfa efnið að hverju setri fyrir sig, en einnig er ýmis fræðsla sem nýtist öllum setrunum jafnt; má þar nefna fræðslu um fjármálalíkön og gerð fjárhagsáætlana, tryggingu einkaleyfa og margs annars. Einnig er unnið með fyrirtækjunum  að gerð styrkjaumsókna, því þrátt fyrir að fyrirtækin í hverju setri eigi margt sameiginlegt þá eru þau einnig mjög sérhæfð. Fyrirtækin verða strax að huga að möguleikum sínum á alþjóðamarkaði þar sem íslenskur markaður  er einfaldlega of lítill til að geta borið uppi svo sérhæfðar hugmyndir. Það er rík áhersla á að þau séu það sem kallað er „born global“ þar sem Ísland getur aldrei orðið heimamarkaður fyrir slík fyrirtæki, en er nauðsynlegur fyrsti markaður til prufu á viðkomandi vörum og þjónustu .“

Sigríður segir að óformleg samskipti milli starfsmanna fyrirtækjanna séu ekki síður mikilvæg, en fólk miðlar fúslega af reynslu sinni, fagnar saman þegar árangur næst og veitir stuðning þegar á móti blæs. „Auðvitað gerist margt yfir kaffibolla enda eru allir að vinna á tengdum sviðum. Fólk skilur hvað félagarnir eru að ganga í gegnum.“

Auk þess sem að ofan er talið þá njóta fyrirtækin á setrunum sameiginlegra rannsóknarstofa, mötuneytis, símaþjónustu, fundaaðstöðu og þrifa. „Við leggjum þetta til svo frumkvöðlarnir geti einbeitt sér að því sem þeir eru bestir í, “ segir Sigríður. Þá rekur Nýsköpunarmiðstöð öflugar tæknideildir og rannsóknarstofu  sem fyrirtækin á setrunum hafa aðgang að og geta nýtt sér gegn sanngjörnu gjaldi. Varla þarf að taka fram að forsendan fyrir því að fá inni á frumkvöðlasetri er að fyrirtækið fáist við nýsköpun. „Með því móti skekkjum við ekki samkeppnisaðstöðu þó fyrirtækin hér inni njóti ýmiss konar fyrirgreiðslu sem ekki býðst annars staðar.“

Það kemur eflaust einhverjum á óvart að frumkvöðlasetur hafa verið rekin hérlendis í ellefu ár og á þeim tíma hefur ekki eitt einasta fyrirtæki innan þeirra farið á hausinn. „Þetta undirstrikar að þrátt fyrir áhættuna af því að hrinda í framkvæmd nýrri hugmynd, þá verður hin faglega aðstoð og faglega umgjörð setursins til þess að draga umtalsvert úr áhættunni.“

Samanlagt eru á milli 90 og 100 viðskiptahugmyndir vistaðar hjá Nýsköpunarmiðstöð og er mjög mismunandi hversu langt þær hafa verið þróaðar. „Sumar eru nánast á frumstigi, aðrar eru komnar vel áleiðis í framleiðslu og sölu. Hér á heilsutæknisetrinu KÍM eru þetta flest lengra komin verkefni sem eiga sér nokkurra ára sögu. Menntunarstig fólksins sem hér starfar er mjög hátt og sérfræðikunnáttan er mikil. Við vonumst til að tengjast betur Háskólunum og að hingað sæki doktorsnemar til að vinna að rannsóknarverkefnum sínum í framtíðinni.”

Mikil bjartsýni

Sigríður segir að þrátt fyrir tímabundna erfiðleika í íslensku efnahagslífi þá sé ástæðulaust að glata bjartsýninni. „Hér er menntunarstig hátt og þekking almenn, það er auðvelt að stofna fyrirtæki á Íslandi, auðvelt að afla sér tengsla og upplýsinga. Þessu verður að halda á lofti og þrátt fyrir að fjárfestar séu í biðstöðu núna er engin ástæða til að leggja árar í bát. Síður en svo. Alþingismenn sem komu hingað nýlega höfðu sérstaklega orð á því hversu gaman væri að finna hve fólkið hér hefði sterka trú á framtíðinni. Hér hafa komið erlendir gestir sem hafa kolfallið fyrir hugmyndinni og talað fjálglega um að setja á stofn svona setur heima fyrir. Hér er mikil bjartsýni ríkjandi og gestir okkar finna sannarlega fyrir því.“

Það felst í hugmyndinni um frumkvöðlasetur að á einhverjum tímapunkti hleypi fyrirtækin heimdraganum og standi á eigin fótum. „Það tekur hins vegar mun lengri tíma en margir gera sér grein fyrir að þróa nýja hugmynd alveg frá grunni. Á setrum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eru fyrirtæki sem búin eru að vera í nokkur ár og er það mjög eðlilegt, þar sem þróunartími tæknilegra nýsköpunarhugmynda er langur og auðvelt að benda á að fyrirtæki á borð við Marel, Össur og Actavis tóku ekki flugið fyrr en eftir 12-14 ár. Við vonumst til þess að þegar fyrirtækin eru orðin það stór að þau rúmist ekki hér lengur á setrum Nýsköpunarmiðstöðvar, þá flytji þau frá okkur. Margir frumkvöðlar hafa lýst þeirri reynslu sinni að þeir hefðu aldrei náð sér á strik nema af því að þeir nutu skjóls hjá okkur meðan þeir voru að koma undir sig fótunum. ”

Sigríður segir að ekki hefði verið mögulegt að stofna KÍM-Medical Park án öflugs stuðnings iðnaðarráðuneytisins og Summit eignarhaldsfélags, en hvert setur á sér sína stuðningsaðila í gegnum sveitarfélög, fyrirtæki og eignarhaldsfélög. „Það er samvinna margra aðila sem hefur skilað þessu góða starfi frumkvöðlasetranna og erum við afar þakklát fyrir hve vel hefur tekist til.”

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica