12. tbl. 96.árg. 2010
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ. Sól tér sortna? Af heilbrigðiskerfi í hættu
Blikur eru á lofti í heilbrigðismálum þjóðar. Fjárlög verða væntanlega afgreidd skömmu fyrir jól og þegar þetta er ritað treysta eflaust fáir sér til þess að spá um lokaniðurstöðu í þeim efnum. Upprunaleg áætlun í fjárlagafrumvarpi hljómar svo nöturlega að það vekur mesta umrót í heilbrigðisþjónustu hérlendis fyrr og síðar. Víða hafa komið fram hörð mótmæli og hneykslan fólks og upplifa margir tillögurnar sem árás á grunnstoðir samfélagsins.
Frá fyrstu kynningu fjárlagafrumvarps í októberbyrjun hafa ráðamenn hins vegar með ýmsum hætti slegið af yfirlýstum kröfum um sparnað og raddir hafa heyrst um að eigi megi skera svo mikið niður hér og því síður þar vegna bágborins atvinnuástands og þar með eru ráðherrar og þingmenn farnir að víkja frá faglegum ástæðum skipulagsbreytinga heilbrigðisþjónustu og láta veraldleg sjónarmið ráða. Þó hafa þessar yfirlýsingar flestar verið í skötulíki og almennt ekkert til að hengja hatt sinn á.
Meginhluti skipulagsbreytinga er fólginn í því að minnka verulega sjúkrahúsþjónustu eða jafnvel að loka sjúkrahúsum alveg víða um land. Á sama tíma eiga Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri að mæta þjónustuskerðingu með því að sinna þeim sem ella legðust inn á minni og stærri sjúkrahús á landsvísu. Vinnuhópur heilbrigðisráðuneytis mælir reyndar með því að umdæmissjúkrahús landsins verði gerð starfhæfari og ber að fagna því. Ekki á að auka fjárframlag til spítalanna til að mæta þessu aukna álagi. Þvert á móti er þar sem fyrr niðurskurður á dagskrá. Þessar hugmyndir eru því óskiljanlegar.
Miðað við þessar forsendur áætlar heilbrigðisráðuneyti að nokkrum tugum lækna verði sagt upp, flestum á landsbyggðinni. Slíkt er afleitt, ekki síst í ljósi þess að þegar hafa vel á annað hundrað læknar flust af landi brott til starfa erlendis á allra síðustu árum, og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Á sama tíma skila ungir sérfræðingar sér ekki heim eftir sérnám, meðal annars vegna mun lakari kjara hérlendis en ekki síður vegna þeirrar ólgu og þess óstöðugleika sem ríkir í heilbrigðismálum. Viðvarandi fækkun lækna á Íslandi gæti orðið grafalvarlegt mál og ráðamenn hljóta að leita úrræða til að sporna gegn því. Þeir geta það með ýmsu móti, meðal annars með því að leita í ríkari mæli samráðs við Læknafélag Íslands og stjórnendur heilbrigðisstofnana, ekki síst varðandi skipulagsbreytingar í heilbrigðismálum. Stjórnendur Landspítala geta lagt sig betur fram um að hlúa að þeim læknum sem þar vinna og forðast einhliða eða umdeildar ákvarðanir sem valda reiði og óánægju lækna. Auk þess þarf Landspítali að leggja ofurkapp á að missa ekki fleiri sérfræðinga af landi brott en raun ber vitni. Stjórnendur heilbrigðismála og ráðamenn þjóðfélagsins almennt hafa margt þarfara að gera en að ýta undir ferðahug og útþrá yngri og eldri lækna á Íslandi.
Ástæða er þó til að hrósa heilbrigðisyfirvöldum fyrir áform um að efla heilsugæslu í landinu, enda flestir sammála um að vönduð grunnheilbrigðisþjónusta í þéttbýli sem dreifbýli sé nauðsynleg, en hætt er við því að hinn almenni niðurskurður sem til stendur hafi neikvæð áhrif á heilsugæslu. Auk þess stendur ekki til að styðja með beinum hætti við bakið á hinni sífækkandi stétt heimilislækna. Fjölgun námslækna í heimilislækningum er þarft verk en skilar sér ekki nærri því strax inn í þjónustuna.
Nú vill svo til að kjarasamningur ríkisins við Læknafélag Íslands er laus. Læknum er ljóst að erfitt er krefjast mikilla launahækkana í miðju efnahagshruni. Hins vegar munu þeir fylgjast mjög náið með því hvort samninganefnd ríkisins, fyrir hönd fjármálaráðherra, komi til móts við þá varðandi ýmislegt í kjarasamningi sem ekki hefur beint með prósentuhækkanir að gera. Auðvitað verða læknar að fá einhverja launahækkun en umfram allt þarf að taka tillit til sjónarmiða þeirra um ýmislegt er varðar vinnutilhögun þeirra, og leysa verður í eitt skipti fyrir öll gömul ágreiningsmál eins og túlkun á hvíldartíma og frítökurétti. Nú er að sjá hvort fjármálaráðherra komi til móts við lækna og vinni gegn enn frekari fækkun þeirra á Fróni.
Við skulum vona að yfirvöld hverfi frá áformum um byltingu í heilbrigðismálum og uppsögn hundruða einstaklinga. Eftir efnahagshrun kemur ekki á óvart að yfirvöld vilji skera niður en áætlun þessi gengur allt of langt. Hvort sem ráðamenn sækja sér fjármagn með tafarlausri skattlagningu viðbótarlífeyrissparnaðar eða finna önnur úrræði, er að minnsta kosti ljóst að hrun í heilbrigðisþjónustu má ekki eiga sér stað.