12. tbl. 96.árg. 2010
Fræðigrein
Heilsukvíði - aukin þekking og meðferðarmöguleikar
Ágrip
Heilsukvíði einkennist af óhóflegum og hamlandi kvíða þar sem fólk óttast að vera haldið alvarlegum sjúkdómi þrátt fyrir að niðurstöður læknisskoðana og rannsókna bendi til annars. Heilsukvíðnir hafa margir hverjir ítrekað gengist undir læknisrannsóknir sem ekki hafa verið til þess fallnar að veita trúverðugar skýringar á þeim vanda sem fyrir er. Endurteknar fregnir af því hvað sé líklegast ekki að hrjá hinn heilsukvíðna slær aðeins á kvíða hans í skamman tíma og getur aukið á ráðaleysið og grafið undan trausti hans á heilbrigðiskerfið þegar til lengri tíma er litið.
Aukinn áhugi hefur vaknað á heilsukvíða á síðastliðnum árum og áratugum. Ekki síst er það góður árangur hugrænnar atferlismeðferðar sem getið hefur af sér þennan aukna áhuga.Samkvæmt hugrænu skýringarlíkani á heilsukvíði rætur í og er viðhaldið af rangtúlkunum á eðlilegum líkamseinkennum. Auk þess hefur lyfjameðferð með sértækum serótónín-endurupptökuhemlum getið af sér ágætis árangur. Hefur vandinn löngum þótt illviðráðanlegur en meðhugrænni atferlismeðferð og/eða lyfjameðferð hefur náðst betri árangur í meðferð þessa oft illvíga vanda. Tilgangur þessarar greinar er að auka þekkingu íslensks heilbrigðisstarfsfólks á heilsukvíða og ekki síst að gera grein fyrir auknum meðferðarmöguleikum.
Inngangur
Hóflegar áhyggjur af heilsunni geta verið gagnlegar og stuðlað að heilsusamlegu líferni. Hjá sumum verða þessar áhyggjur hins vegar að óhóflegum og hamlandi kvíða þar sem fólk óttast að vera haldið alvarlegum sjúkdómi þrátt fyrir að niðurstöður læknisskoðana og rannsókna bendi til annars. Þetta ástand nefnist á ensku hypochondriasis og var áður þýtt sem ímyndunarveiki. Ekki er sú þýðing heppileg því vanlíðanin sem vandanum fylgir er engin ímyndun. Undanfarið hefur orðið heilsukvíði (health anxiety) verið notað og mun það einnig gert hér. Greiningarskilmerki heilsukvíða (DSM-IV) má sjá í töflu I.1
Heilsukvíði er flokkaður með líkömnunarröskunum í bæði DSM-IV og ICD-10 greiningarkerfunum. Einkennast þessar raskanir af líkamlegum einkennum sem talin eru eiga sér sálrænar orsakir. Undir þennan flokk heyra geðraskanir, svo sem hugbrigðaröskun (conversion disorder) og líkamsgervingarheilkenni (somatisation disorder).
Heilsukvíðnir hafa ósjaldan gengið á milli lækna og eiga margir hverjir flókna sjúkrasögu að baki. Þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir eru þeir oft óánægðir með þjónustuna sem þeir hafa fengið enda hafa þeir oftar fengið að heyra hvað sé ekki að þeim en trúverðugar skýringar lækna á því hvað sé raunverulega að hrjá þá.2 Þeir upplifa að þeim sé illa sinnt og ekki teknir alvarlega. Því missa þeir oft traust á læknum og telja þá illfæra um réttar sjúkdómsgreiningar. Á sama hátt geta þessir einstaklingar reynst læknum erfiðir. Læknarnir upplifa að heilsukvíðnir hlusti ekki á þá, treysti þeim ekki og leiti til annarra lækna og erfiðlega gengur að sannfæra þá um að vandinn eigi sér sálrænar rætur.3
Aukinn áhugi hefur vaknað á heilsukvíða á síðastliðnum árum og áratugum. Ekki síst er það góður árangur hugrænnar atferlismeðferðar sem getið hefur af sér þennan aukna áhuga. Víða, meðal annars á Norðurlöndunum, hafa verið stofnsettar sérstakar göngudeildir þar sem fengist er fyrst og fremst við þennan vanda. En áður en heilsukvíði er ræddur sérstaklega verður tekið dæmi af manni sem haldinn er þessum vanda.
Tilfelli
Gunnar er 41 árs gamall og hefur lengi glímt við mikinn heilsukvíða, en móðir hans lést þegar hann var 14 ára gamall af völdum krabbameins sem uppgötvað var á lokastigi. Gunnar hefur farið í gegnum mörg tímabil þar sem hann hefur talið sig vera haldinn alvarlegum sjúkdómum. Í fyrra taldi hann sig vera með eitlakrabbamein sem leiddi loks til sýnatöku. Fyrir fjórum árum taldi hann sig vera með heilaæxli vegna spennuhöfuðverkjar sem endaði með segulómskoðun. Í dag getur hann minnst þessara uppákoma með bros á vör en það kemur ekki í veg fyrir að hann óttist nú að vera haldinn MS (heila- og mænusiggi). Undanfarna mánuði hefur hann fundið fyrir dofa af og til á nokkrum stöðum vinstra megin í líkamanum. Fyrir um hálfu ári fann hann fyrir svima í eina viku, sem gekk yfir af sjálfu sér. Gunnar hefur lesið sér mikið til um MS og finnst lesturinn renna stoðum undir grunsemdir hans. Hann telur sig uppfylla skilmerki sjúkdómsins, taugaeinkenni sem samrýmast MS (dofa og svima) frá tveimur aðskildum hlutum taugakerfisins á mismunandi tímum.
Gunnar fór til heimilislæknisins sem taldi afar ólíklegt að hann væri haldinn sjúkdóminum en sendi engu að síður beiðni til taugalæknis að ósk Gunnars, og fékk þar tíma eftir þrjá mánuði. Í millitíðinni leitaði Gunnar, viðþolslaus af áhyggjum, til bráðamóttökunnar, og bað um steragjöf sem hann hafði lesið sér til um að gæfist vel við MS-köstum.
Við skoðun þar fundust engin teikn um taugasjúkdóm. Þó að læknirinn teldi ekki þörf á frekari rannsóknum náði Gunnar í sömu viku að knýja fram segulómun af höfði og mænu, auk mænuvökvaprófs. Reyndust rannsóknirnar eðlilegar nema að þrír ósértækir flekkir sáust í hvíta efninu umhverfis heilahólfin. Sjúkrahúslæknirinn útskýrði fyrir Gunnari að engin teikn væru um MS en að þrír ósértækir flekkir sæjust á segulómskoðun af höfði. Fyrir Gunnari var þetta staðfesting á því að hann væri haldinn MS. Hann spurði lækninn hvort hann gæti útilokað að þetta væru breytingar af völdum MS.Læknirinn sagðist nokkuð viss í sinni sök og útskýrði að margir væru með slíkar breytingar án þess að um sjúkdóm væri að ræða. Þessar skýringar nægðu Gunnari ekki, hann taldi að einkennin hlytu að eiga sér vefræna orsök.
Á þessum tímapunkti var kvíðinn orðinn svo mikill að Gunnar var hættur að geta sinnt starfi sínu, átti erfitt með svefn og það hrikti í stoðum hjónabandsins. Óvissan var honum svo erfið að hann var farinn að óska þess að fá einhverja sjúkdómsgreiningu í stað þess að fá ítrekað þau skilaboð að „ekkert væri að“. Gunnar fékk meðhöndlun með serótónín endurupptökuhemli í stigvaxandi skömmtum og var vísað til sálfræðings sem hann þó var tregur til að hitta í fyrstu. Hann sá ekki tengslin milli líkamlegu einkennanna og þess að taka geðlyf, hvað þá að hitta sálfræðing. Hann viðurkenndi þó að kvíðinn, svefnerfiðleikarnir og áhyggjurnar væru honum um megn. Eftir nokkrar vikur af lyfja- og sálfræðimeðferð minnkaði kvíðinn til muna og hjálpaði sálfræðimeðferðin Gunnari að öðlast innsýn í þann hugarfarslega vítahring sem hann var kominn í. Hann varð fær um að skoða og trúa öðrum skýringum á meinlausum líkamlegum óþægindum sem hann, líkt og aðrir, fann og finnur enn fyrir með reglulegu millibili.
Faraldsfræði heilsukvíða
Öfugt við flestar aðrar kvíða- og líkömnunarraskanir virðist heilsukvíði vera jafn algengur hjá körlum og konum og getur hafist á hvaða aldri sem er, en algengast er að hann hefjist snemma á fullorðinsárum.3 Oft gerir heilsukvíði vart við sig þegar fólk er undir álagi, til dæmis í kjölfar veikinda eða andláts nákomins ættingja. Áætlað er að 2-6% fólks veikist einhvern tíma á ævinni af heilsukvíða (lífsalgengi)4-6 en tölur eru nokkuð breytilegar þar sem mismunandi viðmið hafa verið notuð. Hins vegar má ætla að mun fleiri, eða í kringum 10-20% þeirra sem eru heilbrigðir á hverjum tíma, hafi áhyggjur af að vera haldnir einhverjum sjúkdómi.7 Þá má nefna að 25-50% heimsókna á heilsugæslustöðvar tengjast umkvörtunum sem ekki finnast læknisfræðilegar skýringar á.8
Heilsukvíði virðist ekki háður menntunarstigi, kyni, kynþætti, félagslegum eða efnahagslegum aðstæðum.6, 9-11 Er þetta öfugt við hugbrigðaröskun sem einnig telst til líkömnunarraskana, en er algengari meðal kvenna, og fólks sem býr við lægra menntunarstig og í fátækari löndum.9
Hugrænt skýringarlíkan heilsukvíða
Samkvæmt hugrænni kenningu Salkovskis og Warwick um heilsukvíða getur reynsla fólks af veikindum, hjá því sjálfu eða öðrum, átt þátt í myndun neikvæðra og ósveigjanlegra hugmynda um veikindi, sjúkdómseinkenni, vinnubrögð lækna og svo framvegis.12 Andlát móður Gunnars, heilsukvíðna mannsins sem lýst er fyrr í greininni, stuðlaði til dæmis að þeim hugmyndum Gunnars að það sama ætti fyrir honum að liggja og móður hans, að veikjast og deyja fyrir aldur fram. Hann þróaði jafnframt með sér afar neikvæðar hugmyndir um veikindi, eins og að þau hlytu óhjákvæmilega að fela í sér miklar kvalir, bjargarleysi og örvæntingu. Gunnar leit einnig svo á að líkamleg einkenni mætti ávallt rekja til undirliggjandi sjúkdóms og að ekki væri á lækna treystandi til að greina sjúkdóma í tæka tíð.
Eins og sjá má á meðfylgjandi skýringarlíkani af heilsukvíða (sjá mynd 1) verður eitthvert þýðingarmikið atvik, eins og að greinast með frumubreytingar í leghálsi, til þess að þær hugmyndir sem fyrir eru um veikindi ýfast upp. Þrálátrar tilhneigingar fer svo að gæta til að túlka líkamleg einkenni, eðlilegar líkamsbreytingar og heilsutengdar upplýsingar, til dæmis frá læknum eða niðurstöður læknisrannsókna, til marks um veikindi eða hættu á að veikjast alvarlega í náinni framtíð. Styrkur þessarar túlkunar ræðst af samspili eftirfarandi þátta: Líkum sem viðkomandi telur á að veikjast, hversu slæm hann álítur að veikindin yrðu, þeim bjargráðum sem viðkomandi telur sig búa yfir til að fást við veikindin og þeim utanaðkomandi þáttum sem hann telur að gætu komið sér til aðstoðar. Samspil þessara þátta má sjá á mynd 2.
Samkvæmt mynd 2 getur kvíðinn orðið mikill þrátt fyrir að líkur á veikindum séu metnar litlar, þar sem viðkomandi gæti álitið það hroðalegt að veikjast með ákveðnum hætti og séð fyrir sér hægfara og kvalarfullt andlát, svo dæmi sé nefnt. Kvíðinn yrði enn meiri liti viðkomandi svo á hann yrði ófær um að takast á við veikindin og að það væri ekkert sem læknavísindin gætu gert til að lina þjáningar hans. Sýnt hefur verið fram á að heilsukvíðnir meti hættuna meiri en aðrir á að veikjast af sjúkdómum13 og þeir eru jafnframt líklegri en aðrir til að álíta sig veila og illfæra um að fást við streitu.14
Skekkt úrvinnsla upplýsinga
Samkvæmt hugrænni kenningu vinna einstaklingar með heilsukvíða úr heilsutengdum upplýsingum í samræmi við hugmyndir um veikindi og gætir ríkrar tilhneigingar til að gera ráð fyrir því versta, horfa framhjá meinlausum skýringum á einkennum og taka upplýsingar úr samhengi.15 Gunnar varð til dæmis mjög upptekinn af ósértæku flekkjunum sem sáust við segulómskoðun og leiddi hjá sér þau ummæli læknisins að engin teikn væru um MS-sjúkdóminn.
Athygli fólks með heilsukvíða beinist sérstaklega að áreitum eða upplýsingum sem styðja þær hugmyndir sem fyrir eru, meðan upplýsingar sem benda til annars njóta minni athygli.12 Það geta annars vegar verið utanaðkomandi upplýsingar sem fanga athygli heilsukvíðinna, eins og að heyra umfjöllun um tiltekinn sjúkdóm í fjölmiðlum. Rannsókn frá 1999 benti til þess að heilsukvíðnir ættu auðveldara með að muna heilsutengd orð en önnur orð og kom þessi skekkja ekki fram hjá samanburðarhópi.16 Þá benti önnur rannsókn til að heilsukvíðnir ættu auðveldara með að muna orð tengd sársauka.17
Athygli heilsukvíðinna beinist hins vegar að líkamlegum einkennum og líkamsbreytingum. Til dæmis gæti manneskja fylgst grannt með nýjum fæðingarblettum og óttast að um sortuæxli væri að ræða.18 Þekkt er að fólk finni meira fyrir eðlilegum líkamlegum óþægindum beini það athyglinni að þeim,19 og því er hætt við að heilsukvíðnir magni upp hjá sér þau einkenni sem fyrir eru og telji þau stafa af undirliggjandi veikindum.
Lífeðlisleg viðbrögð
Hugsanir um alvarleg veikindi vekja gjarnan upp kvíða og streitu, jafnvel sorg og reiði. Þessum tilfinningum fylgja örvunartengd viðbrögð eins og aukinn hjartsláttur, vöðvaspenna, mæði og meltingartruflanir. Þá má nefna að örvunartengd einkenni frá meltingarfærum geta verið ógleði, magakrampar og niðurgangur. Langvarandi streitutengd vöðvaspenna getur lýst sér í vöðvakippum, andþyngslum og verkjum. Heilsukvíðnir eiga oft erfitt með að trúa því að þessi einkenni séu meinlausir fylgifiskar kvíða.20
Öryggisráðstafanir
Öryggisráðstafanireru varnarviðbrögð sem ætlað er að koma í veg fyrir eða draga úr líkum eða áhrifum skynjaðrar ógnar, en geta jafnframt átt þátt í að viðhalda óraunhæfum hugmyndum um ógnina.12 Til dæmis gæti manneskja sem óttast hjartaáfall tekið púlsinn á klukkutíma fresti og lagst niður í hvert sinn sem hún finnur fyrir auknum hjartslætti. Þessar öryggisráðstafanir aftra því að hún komist að því að ekkert alvarlegt gerist þótt hún sleppi þessum ráðstöfunum, hún sé hraust og þoli eðlilegt álag.
Ásókn í hughreystingu
Augljósasta öryggisráðstöfunin meðal heilsukvíðinna er að sækja ítrekað í hughreystingu (reassurance) en hún getur falist í að spyrja maka eða fjölskyldumeðlimi út í einkenni eða lýsa einkennum ítrekað fyrir öðrum. Hún getur einnig einkennst af lestri um sjúkdóma eða endurteknum heimsóknum til lækna og beiðni um læknisrannsóknir. Hughreystingin felst þá í því að utanaðkomandi aðili, oft læknir, komi því ítrekað á framfæri að ekkert alvarlegt sé að, oft með vísun í niðurstöður læknisskoðunar og rannsókna.20Það er freistandi að veita heilsukvíðnum hughreystingu en það gerir þeim lítið gagn og kann fremur að ýta undir heilsukvíðann þegar til langs tíma er litið.15, 20 Hughreystingin slær í fyrstu á kvíðann en kvíðinn tekur sig oftast upp á innan við sólarhring frá því að hughreysting er veitt.13, 21 Hætt er við að ásóknin í hughreystingu festist í sessi hjá þeim heilsukvíðna, sem leið til að fást við kvíða, og er það óheppilegt þar sem um skammvinna lausn er að ræða sem krefst ítrekaðrar hughreystingar. Viðkomandi getur þannig orðið háður öðrum um hughreystingu sem ýtt getur undið bjargarleysi hans og ósjálfstæði. Þá stuðla þessi viðbrögð að því að viðkomandi verji mun meiri tíma í umræður um heilsufar sitt, sem getur gert hann enn meðvitaðri um þau einkenni sem hann hræðist.20 Eins er hætt við að viðkomandi fái misvísandi upplýsingar frá öðrum, sem grafið getur undan trausti á aðra.15 Heilsukvíðnir þrá að komast til botns í því hvað hrjáir þá og vilja sumir frekar fá einhverja greiningu en að kljást við óvissuna. Ummæli Woodys Allen í hlutverki manns með heilsukvíða í myndinni Deconstructing Harry lýsa þessu vel: „Fallegustu orðin í enskri tungu eru ekki ég elska þig heldur það er góðkynja.“
Líkamsskönnun
Algengt er að einstaklingar með heilsukvíða skanni líkamann reglulega í leit að útlitsbreytingum eða líkamsósamhverfu. Algeng er þreifing á ákveðnum stöðum eins og hálsi eða brjóstum til að athuga hvort eitthvað óvenjulegt finnist þar. Endurtekin þreifing getur framkallað eymsli sem eru svo túlkuð á versta veg. Jafnvel þótt engin eymsli hljótist af, viðheldur líkamsskönnunin aukinni meðvitund um líkamann, sem gerir það að verkum að fólk tekur betur eftir ýmsum eðlilegum óþægindum og túlkar þau til marks um veikindi.15, 20Forðun
Forðun getur lýst sér með ýmsum hætti. Hinn heilsukvíðni getur til dæmis forðast „áhættusama hegðun“ eins og að reyna á sig líkamlega af hræðslu við að auka á einkennin og ofgera líkamanum sem álitinn er veikur fyrir. Þessi forðun kemur í veg fyrir að hann komist að því að hann hafi í raun eðlilegt úthald og að ekkert alvarlegt gerist þótt hann reyni á sig. Hreyfingarleysið stuðlar svo smám saman að verra líkamsformi sem gerir það að verkum að sá sem í hlut á finnur meira fyrir sleni, verkjum og spennu sem eru svo talin til marks um versnandi heilsufar, og vítahringur skapast.15Heilsukvíðnir eiga það einnig til að forðast aðstæður sem aukið geta á heilsukvíðann. Þeir gætu til dæmis forðast að lesa minningargreinar eða hlýða á sjúkrasögur annarra. Sumir forðast læknisheimsóknir alfarið af ótta við að fá slæmar fregnir. Þessi viðbrögð hjálpa ekki, því þau aftra því að viðkomandi komist að því að ekkert alvarlegt sé að. Viðbrögðin geta einnig gert það að verkum að sá sem í hlut á komist of seint undir læknishendur, þá sjaldan eitthvað alvarlegt er að. Öll þessi forðunarviðbrögð koma í veg fyrir að sá heilsukvíðni komist að því að hann ráði við aðstæðurnar.15, 20
Heilsukvíði og þráhyggjuárátturöskun
Margir telja að heilsukvíði ætti frekar að flokkast með kvíðaröskunum á borð við þráhyggjuárátturöskun í stað líkömnunarraskana. Margt styður að svo sé.22-26 Báðar raskanirnar einkennast af miklum kvíðaeinkennum, þrálátum hugsunum um ógnina og litlu óvissuþoli. Í báðum röskununum sækja óþægilegar hugsanir að sjúklingunum og valda þeim kvíða. Einstaklingar með þráhyggjuárátturöskun og þeir sem haldnir eru heilsukvíða leitast við að minnka kvíðann með öryggisráðstöfunum. Sá sem haldinn er þráhyggju og áráttu kann til dæmis að ganga ítrekað úr skugga um að slökkt sé á eldavélinni en sá heilsukvíðni kann að leita ítrekað til læknis til að fullvissa sig um hann sé ekki alvarlega veikur. Slíkar ráðstafanir slá aðeins á kvíðann til skamms tíma og eiga í raun þátt í að viðhalda vandanum.15 Einnig hefur svipuð meðferð með serótónín- endurupptökuhemlum borið árangur.25
Meðhöndlun heilsukvíða
Heilsukvíði þótti löngum illviðráðanlegur vandi en með tilkomu nýlegra rannsóknarniðurstaðna hafa þessar hugmyndir tekið að breytast. Teknar hafa verið saman helstu rannsóknir sem gerðar hafa verið á árangri mismunandi meðferðarforma við heilsukvíða.20 Hugræn atferlismeðferð og flúoxetín reyndust vera árangursríkustu meðferðarinngripin með áhrifastærðir (effect sizes) 2,05 og 1,92, sem samsvarar mjög góðum meðferðarárangri.27 Árangur hugrænnar atferlismeðferðar virðist haldast, í það minnsta ári eftir að hún er veitt, en ekki er vitað hvort það sama eigi við þegar töku lyfja er hætt. Þá mætti rannsaka betur hvort auka megi árangurinn með því að sameina hugræna atferlismeðferð og lyfjameðferð. Einnig hefur komið í ljós að fræðsla ber góðan árangur við vægum heilsukvíða, en þá er veitt fræðsla í nokkur skipti um áhrif hugarfars, athygli, öryggisráðstafana og streitu á vandann.28-31
Þegar einstaklingur með heilsukvíða leitar til læknis er sérlega mikilvægt að sýna hlýju og skilning. Í töflu II má finna frekari ráð um hvernig beri að nálgast fólk með heilsukvíða. Mælt er með að viðkomandi sé rannsakaður vandlega í upphafi þar sem tilvist heilsukvíða útilokar ekki að líkamlegur sjúkdómur kunni að vera á ferðinni. Að þessum rannsóknum loknum er mælt með að sneitt sé hjá frekari rannsóknum þar sem þær geta, eins og fram er komið, átt þátt í að viðhalda heilsukvíða. Í framhaldinu er mikilvægt að skoða með viðkomandi hvort meinlausar skýringar kunni að vera á einkennunum. Mikilvægt er að draga aldrei í efa líkamleg óþægindi viðkomandi, heldur aðeins þá hugmynd að einkennin séu til marks um alvarleg líkamleg veikindi. Gott er að útskýra að líkaminn sé sjaldnast einkennalaus og að líkamleg óþægindi tengist oft eðlilegum breytingum á líkamsstarfsemi sem meðal annars geta hlotist af breyttu svefnmynstri, mataræði, hreyfingu eða örvun tengdri kvíða eða öðrum tilfinningum. Kvíði einn og sér lýsi sér í fjölda líkamlegra einkenna, svo sem vöðvaspennu, slappleika, verkjum, svima, dofa, meltingartruflunum og auknum hjartslætti.20
Ræða má hvort viðkomandi vilji aðstoð við að fást við heilsukvíðann og hverju það myndi breyta fyrir hann ef hann næði tökum á kvíðanum. Nefna má hugræna atferlismeðferð sem kost sem viðkomandi tapi engu á að reyna, hann geti í það minnsta lært að höndla einkennin betur og minnka heilsufarsáhyggjur og streitu. Þá megi jafnframt bæta líðanina með lyfjameðferð.
Lyfjameðferð
Lyfjameðferð, helst með serótónín-endurupptökuhemlum (SSRI), hefur reynst nokkuð vel við heilsukvíða þrátt fyrir að fátt sé um tvíblindar rannsóknir. Mikilvægt er að meðhöndla aðrar samhliða geðraskanir, svo sem þunglyndi, felmtursröskun og áráttu- og þráhyggjuröskun. Hafi heilsukvíðinn komið í kjölfar annarrar geðröskunar nægir oft að meðhöndla frumvandann til að heilsukvíðinn minnki. Með serótónín-endurupptökuhemlum er oft hægt að slá tvær flugur í einu höggi þegar kemur að lyfjameðferð heilsukvíðans og annarrar tengdrar röskunar.32-34 Sérstaklega ber að nefna nýlega rannsókn sem sýndi fram á áþekkan árangur með paroxetín og hugrænni atferlismeðferð gegn heilsukvíða.35 Í töflu III má sjá yfirlit yfir helstu lyf og skammta sem notuð eru við heilsukvíða. Algengt er að það þurfi að nota nokkuð háa skammta en eigi að síður er nauðsynlegt að byrja hægt þar sem heilsukvíðnir eru sérstaklega viðkvæmir fyrir aukaverkunum, ekki síst í byrjun meðferðar.33, 36, 37
Þakkir
Höfundarnir þakka Aðalheiði D. Matthíasdóttur, Pétri Berg Matthíassyni og Helenu Jónsdóttur fyrir yfirlestur greinarinnar og góðar ábendingar.
Heimildir
- American Psychiatric Association. Diagnostic and statistical manual of mental disorders (4th ed., text rev.).: APA, Washington DC 2000.
- Simon G. Psychiatric disorders and functional somatic symptoms as predictors of health care use. Psychiatr Med 1992; 10: 49-59.
- Barsky AJ, Wyshak G, Latham KS, Klerman GL. Hypochondriacal patients, their physicians, and their medical care. J Gen Intern Med 1991; 6: 413-9.
- Magariños M, Zafar U, Nissenson K, Blanco C. Epidemiology and treatment of hypochondriasis. CNS Drugs 2002; 16: 9-22.
- Barsky AJ. Clinical practice. The patient with hypochondriasis. N Engl J Med. 2001; 345: 1395-9.
- Barsky AJ, Wyshak G, Klerman GL, Latham KS. The prevalence of hypochondriasis in medical outpatients. Soc Psychiatry Psychiatr Epidemiol 1990; 25: 89-94.
- Kellner R. Hypochondriasis and somatization. JAMA 1987; 258: 2718-22.
- Barsky AJ. The validity of bodily symptoms in medical outpatients. In: Stone AA, Turkkan JS, Bachrach CA, Jobe JB, Kurtzman HS, Cain VS eds. The science of self-report: Implications for research and practice. Mahwah, NJ: Erlbaum, 2000: 339-61.
- Kellner R. Somatization and hypochondriasis. Praeger, New York 1986.
- Faravelli C, Salvatori S, Galassi F, Aiazzi L, Drei C, Cabras P. Epidemiology of somatoform disorders: a community survay in Florence. Soc Psychiatry Psychiatr Epidemiol 1997; 32: 24-9.
- Gureje O, Ustum TB, Simon GE. The syndrome of hypochondriasis: a cross-national study in primary care. Psychol Med 1997; 27: 1001-10.
- Salkovskis PM, Warwick HMC. Making sense of hypchondriasis: A cognitive model of health anxiety. In Asmundson GJG, Taylor S, Cox BJ (Eds.) Health anxiety: Clinical and research perspectives on hypochondriasis and related conditions. John Wiley & Sons Ltd, New York 2001: 46-64.
- Haenen MA, de Jong PJ, Schmidt AJ, Stevens S, Visser L. Hypochondriacs´ estimation of negative outcomes: domain-specificity and responsiveness to reassuring and alarming information. Behav Res Ther 2000; 38: 819-33.
- Rief W, Hiller W, Margraf J. Cognitive aspects of hypochondriasis and the somatization syndrome. J Abnorm Psychol 1998; 107: 587-95.
- Wells A. Cognitive Therapy of Anxiety Disorders. John Wiley & Sons, Chichester 1997.
- Brown HD, Kosslyn SM, Delamater B, Fama J, Barsky AJ. Perceptual and memory biases for health-related information in hypochondriacal individuals. J Psychosom Res 1999; 47: 67-78.
- Pauli P, Alpers GW. Memory bias in patients with hypochondriasis and somatoform pain disorder. J Psychosom Res 2002; 52: 45-53.
- Miller SM, Brody DS, Summerton J. Styles of coping with threat: implications for health. J Pers Soc Psychol 1988; 54: 142-8.
- Haenen MA, Schmidt AJ, Kroeze S, van den Hout MA. Hypochondriasis and symptom reporting - the effect of attention versus distraction. Psychother Psychosom 1996; 65: 43-8.
- Taylor S, Asmundson GJG. Treating Health Anxiety: A Cognitive-Behavioral Approach. The Guilford Press, New York 2004.
- Salkovskis PM, Warwick HM. Morbid preoccupations, health anxiety and reassurance: a cognitive-behavioural approach to hypochondriasis. Behav Res Ther 1986; 24: 597-602.
- Abromowitz JS, Braddock AE. Hypochondriasis: Conceptualization, Treatment, and Relationship to Obsessive – Compulsive Disorder. Psychiatr Clin N Am 2006; 29: 503-19.
- Starcevic V. Relationship between Hypochondriasis and Obsessive-Compulsive Personality Disorder: Close Relatives Seperated by Nosological Schemes? Am J Psychother 1990; 154: 340-7.
- Greeven A, van Balkom AJ, van Rood YR, van Oppen P, Spinhoven P. The boundary between hypochondriasis and obsessive-compulsive disorder: a cross-sectional study from the Netherlands. J Clin Psychiatry. 2006; 67: 1682-9.
- Fallon BA, Qureshi AI, Laje G, Klein B. Hypochondriasis and its relationship to obsessive-compulsive disorder. Psychiatr Clin North Am. 2000; 23: 605-16.
- Barsky AJ. Hypochondriasis and obsessive compulsive disorder. Psychiatr Clin North Am. 1992; 15: 791-801.
- Cohen J. Statistical Power Analysis for the Behavioral Sciences (2. útg.). Lawrence Erlbaum Associates, Hillsdale 1988.
- Bouman TK. A community-based psychoeducational group approach to hypochondriasis. Psychother Psychosom 2002; 71: 326-32.
- Kroenke K, Swindle R. Cognitive-behavioral therapy for somatization and symptom syndromes: a critical review of controlled clinical trials. Psychother Psychosom 2000; 69: 205-15.
- Clark DM, Salkovskis PM, Hackmann A, et al. Two psychological treatments for hypochondriasis: a randomised controlled trial. Br J Psychiatry 1998; 173: 218-25.
- Stern R, Fernandez M. Group cognitive and behavioural treatment for hypochondriasis. BMJ 1991; 303: 1229-31.
- Noyes R, Reich J, Clancy J, O‘Gorman TW. Reduction in hypochondriasis with treatment of panic disorder. Br J Psychiatry 1986; 149: 631-5.
- Keeley R, Smith M, Miller J. Somatoform symptoms and treatment nonadherence in depressed family medicine outpatients. Arch Fam Med 2000; 9: 46-54.
- Fava GA, Mangelli L. Hypochondriasis and anxiety disorders. In: Starcevic V, Lipsitt DR, eds. Hypochondriasis: modern perspectives on an ancient malady. Oxford University Press, Oxford, England 2001: 89-102.
- Greeven A, van Balkom AJ, van der Leeden R, Merkelbach JW, van den Heuvel OA, Spinhoven P. Cognitive behavioural therapy versus paroxetine in the treatment of hypochondriasis: an 18-month naturalistic follow-up. J Behav Ther Exp Psychiatr 2009; 40: 487-96.
- O‘Malley PG, Jackson JL, Santoro J, Tomkins G, Balden E, Kroenke K. Antidepressant therapy for unexplained symptoms and symptom syndromes. J Fam Pract 1999; 48: 980-90.
- Fallon BA, Schneier FR, Marshall R, et al. The pharmacotherapy of hypochondriasis. Psychopharmacol Bull 1996; 32: 607-11.