11. tbl. 96.árg. 2010

Umræða og fréttir

Sjúkratryggingar Íslands og rafræn samskipti

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) skilgreina sig sem uppfærslu, varðveislu- og miðlunaraðila réttindaskrár sjúkratrygginga en hún geymir upplýsingar um tryggingarfræðilega stöðu sjúkratryggðra einstaklinga, svo sem afsláttarkort og lyfjaskírteini.

SÍ eru nú að hefja rafræna miðlun í rauntíma til veitenda heilbrigðisþjónustu um réttindastöðu sjúkratryggðra. Þetta þýðir að sérfræðilæknar, heilsugæsla, sjúkrahús og lyfsalar munu geta nálgast rafrænt í rauntíma nægjanlegar upplýsingar til að ákvarða rétta kostnaðarþátttöku hins sjúkratryggða án frekari staðfestingar eða framvísunar hans á réttindastöðu sinni. Ávinningur af rafrænni miðlun réttindastöðu er margháttaður, til dæmis þarf ekki að gefa út kort til sönnunar stöðu, sjúkratryggður fær ávallt rétt sinn og veitendur geta verið öruggir um rétta afgreiðslu á grundvelli upplýsinga úr réttindaskrá. Viðskiptakostnaður í kerfinu lækkar og hagkvæmni eykst.

Forsenda miðlunar upplýsinga til veitenda heilbrigðisþjónustu er undangengin miðlun til rétthafa heilbrigðisþjónustu. Um áramótin verður opnuð Réttindagátt (mínar síður einstaklinga) á vef Sjúkratrygginga Íslands www.sjukra.is fyrir sjúkratryggða einstaklinga þar sem þeir geta skoðað og stýrt miðlun eigin upplýsinga.

Frá og með 1. janúar 2011 verða greiðsluskjöl frá SÍ einungis birt rafrænt í Gagnagátt (mínar síður veitenda heilbrigðisþjónustu) á www.sjukra.is og ekki send á pappír í pósti. Veitendur heilbrigðisþjónustu munu þá geta skráð sig þar inn og fengið aðgangsorð sent í heimabanka. Gagnagáttin verður þróuð sem samskiptavettvangur SÍ og veitenda heilbrigðisþjónustu þar sem hægt verður að senda inn umsóknir og fleira.

Frekari upplýsingar um þessar breytingar og tengingar er að finna á vefsíðu Sjúkratrygginga Íslands á www.sjukra.is eða í gegnum tölvupóst sjukra@sjukra.is.Þetta vefsvæði byggir á Eplica