11. tbl. 96.árg. 2010

Ritstjórnargrein

Skorið inn að kviku

Gísli G. Auðunsson heimilislæknir á Húsavík

doi: 10.17992/lbl.2010.11.323

Frumvarp til fjárlaga, sem lagt var fram á Alþingi í byrjun október, hefur valdið ótta og reiði í fjölmörgum byggðarlögum landsins. Svo mikilli reiði að þeir sem lengi hafa fylgst með, muna ekki eftir annarri eins mótmælaöldu. Hvað veldur? Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir gríðarlegum niðurskurði til flestra sjúkrahúsa á landsbyggðinni og auk þess til framhaldsskólanna. Þarna er komið við kvikuna – alveg inn að kviku. Fólk þolir margvíslegt mótlæti en þegar ýmist á að rústa eða draga allan mátt úr þeim stofnunum sem standa þeim næst, sem veita þeim öryggi, er þeim nóg boðið. Þar liggja mörkin.

Ríkisstjórn Íslands stendur frammi fyrir miklum vanda. Hún boðaði mikinn niðurskurð en tók þó fram að heilbrigðismálum og menntamálum yrði hlíft, þar yrði niðurskurðurinn minni. En hvað kom fyrir fjárlagagerðarmenn? Hvað varð til þess að boðaður 5% niðurskurður varð allt í einu að tæplega 40% niðurskurði á sumum heilbrigðisstofnunum? Urðu þeir fyrir vitrun? Tæpast. Hins vegar barst þeim rödd úr ráðuneyti heilbrigðismála, bergmál af endurtekinni þulu kenningasmiða sem  hæstráðendur heilbrigðismála hafa lengi hlustað á og virðast nú trúa á. Í þulunni segir að litlu sjúkrahúsin á landsbyggðinni séu úreltar stofnanir sem beri að leggja niður. Þær veiti ekki nógu góða þjónustu, en landsmenn eigi kröfu til bestu heilbrigðisþjónustu og hana sé aðeins hægt að veita á hátæknisjúkrahúsunum. Þetta er auðvitað rétt í þeim tilvikum sem hátæknin á við, en fjarri fer því að hún eigi alltaf við. Og því miður hafa margir málsmetandi menn í læknastétt, sem starfa á þröngum sérsviðum, tileinkað sér þetta viðhorf og haldið því á lofti.

Sjúkrahúsin á landsbyggðinni starfa samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40 frá 27. mars 2007 og reglugerð um heilbrigðisumdæmi, sem sett var samkvæmt þeim. Þar er talið upp hvar á landinu skuli vera „heilbrigðisstofnanir“ og hvaða þjónustu þær eigi að veita. En þar segir „... að þær veiti almenna heilbrigðisþjónustu í umdæminu. Með almennri heilbrigðisþjónustu er átt við heilsugæslu, þjónustu og hjúkrun á hjúkrunarheimilum og hjúkrunarrýmum stofnana og almenna sjúkrahúsþjónustu.“ Þetta er sú þjónusta sem fjölmargar heilbrigðisstofnanir landsins veita, en sumar hafa ekki bolmagn til þess að veita almenna sjúkrahúsþjónustu sakir fámennis byggðarlaganna. Almenn sjúkrahús á landsbyggðinni flokkast undir það sem á alþjóðamálinu kallast „Primary Care Hospitals“. Sérgreinasjúkrahús, eins og Sjúkrahúsið á Akureyri mundi flokkast undir „Secondary Care Hospital“ og Háskólaspítalinn, Landspítalinn, mundi flokkast undir „Tertiary Care Hospital“. Ég þekki engin dæmi þess í heiminum að þjónusta almennra sjúkrahúsa sé dýrari en þjónusta hátæknisjúkrahúsanna. Of langt mál yrði að telja upp hvaða starfsemi fer fram á almennu sjúkrahúsi, en í lögum um heilbrigðisþjónustu er hún þannig skilgreind: „Almennar lyflækningar, hjúkrun, slysamóttaka, endurhæfing og nauðsynleg stoðdeildarþjónusta“. Og það er nákvæmlega þessi þjónusta sem almennu sjúkrahúsin veita. Nokkur blæbrigðamunur er þó á starfseminni og eðlilega er hún meiri í fjölmennum byggðarlögum eins og á Selfossi, í Keflavík og á Akranesi. Auk þess hefur ríkt um það nokkurs konar þjóðarsátt að sjúkrahúsin á Ísafirði, í Neskaupsstað og Vestmannaeyjum geti tekist á við flóknari viðfangsefni. Þessi sjúkrahús eru í frekar fjölmennum byggðarlögum sem geta einangrast af veðurfarsástæðum. Öryggi íbúanna er í veði. Það yrði þjóðinni ekki til sóma að skera þau niður við trog. Það má ekki gerast.

Það má heldur ekki gerast að læknar leggist í faglegan meting um mikilvægi starfa sinna og stofnana. Sagt er að fólk eigi að fá þá bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Þá er gjarnan vísað til Landspítala og um leið gefin í skyn vanhæfni minni sjúkrahúsanna. En hvernig stendur á því að Landspítali sendir fjölmarga Íslendinga til aðgerða erlendis á hverju ári? Það er vegna þess að spítalinn býr ekki við sömu þekkingu eða tækni og er til staðar erlendis. Læknar Landspítala senda því sjúklingana frá sér á betur búnar stofnanir. Það þýðir ekki að við eigum að leggja niður Landspítalann, heldur eigum við að hlúa að honum á allan hátt og reyna að efla hann sem hátæknisjúkrahús okkar Íslendinga. Og það sama á við litlu sjúkrahúsin á landsbyggðinni, þau keppa ekki við Landspítala eða Sjúkrahúsið á Akureyri. En þar eins og á Landspítala er vel menntað heilbrigðisstarfsfólk sem þekkir takmörk sín og sendir alla þá sjúklinga sem betur eru komnir á stærri sjúkrahúsunum til meðferðar þar. Þessi sjúkrahús eru jafn mikilvæg litlu byggðarlögunum hringinn í kringum landið eins og Landspítalinn er landinu öllu. Því skulum við ekki gleyma. Stöndum saman og verjum alla heilbrigðisþjónustu í landinu.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica