09. tbl. 96.árg. 2010
Umræða og fréttir
Urtagarður í Nesi
Núna í ágúst var vígður garður við Nesstofu á Seltjarnarnesi og er hluti Lækningaminjasafns Íslands og Lyfjafræðisafnsins. Í garðinum eru lækningajurtir og aðrar næringar- og heilsubótarplöntur og tilheyrir hluti þeirra íslenskri flóru. Aðrar eru innfluttar en hafa verið ræktaðar í landinu um lengri eða skemmri tíma.
Garðurinn er stofnaður í minningu þriggja manna: Bjarna Pálssonar landlæknis, Hans Georg Schierbeck landlæknis og stofnanda Garðyrkjufélags Íslands árið 1885 og Björns Jónssonar lyfsala sem annaðist nytja- og lækningajurtagarð í Nesi frá árinu 1768.
Bæklingurinn Urtagarður í Nesi. Plöntuvísir, hefur verið gefinn út af þessu tilefni og fulltrúi landlæknis í undirbúningsnefnd að stofnun garðsins, Lilja Sigrún Jónsdóttir, er ritstjóri hans og er hugmyndin að gerð garðsins frá henni komin.
Garðurinn er samvinnuverkefni Seltjarnarnessbæjar, Garðyrkjufélags Íslands, landlæknisembættisins, Læknafélags Íslands, Lyfjafræðingafélags Íslands, Lyfjafræðisafns og Lækningaminjasafns Íslands. Ragnhildur Skarphéðinsdóttir landslagsarkitekt hannaði garðinn.
Texti og myndir: VS