09. tbl. 96.árg. 2010

Umræða og fréttir

Athugasemd

Athugasemd frá Tryggva Ásmundssyni


Gunnar Baldvinsson framkvæmdastjóri Almenna Lífeyrissjóðsins gerir nokkrar athugasemdir við viðtal mitt í Læknablaðinu um lífeyrismál. Hann segir réttilega að Almenni lífeyrissjóðurinn hafi ekki verið til umfjöllunar hjá Rannsóknarnefnd Alþingis. Hins vegar gagnrýnir nefndin harðlega það sem Gunnar kallar "gjaldeyrisvarnir" og voru samskonar hjá öllum sjóðunum. Lái mér hver sem vill að ég líti svo á að nefndin gagnrýni samskonar gjörðir Almenna lífeyrissjóðsins. Það var þetta sem ég átti við sem "hjarðhegðun" í viðtalinu. Gunnar er ekki sáttur við að ég tali um að sjóðurinn hafi tekið stöðu með krónunni. Hann vill nefna þetta "gjaldeyrisvarnir", en við erum sammála um að aðgerðin hafi verið til varnar erlendum eigum sjóðsins. Mér finnst ekki aðalatriðið hvað maður kallar gjörninginn. Óumdeilt er að hann kostaði sjóðinn stórfé. Hins vegar er það mikið gleðiefni að Gunnar telur að tapið verði minna en ætlað var í fyrstu. Væri fróðlegt að vita hvort það gæti orðið til þess að skerðingin á næsta ári yrði minni en reiknað var með.Þetta vefsvæði byggir á Eplica