09. tbl. 96.árg. 2010

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Um upphaf og félagsstarf öldungadeildar LÍ

Í febrúar 1994 skrifuðu læknarnir Árni Björnsson, Ásmundur Brekkan og Gunnlaugur Snædal ítarlegt bréf um þörfina á að stofna félagsskap eldri lækna undir verndarvæng Læknafélags Íslands.

Bréfið var sent stjórn LÍ sem fjallaði um málið og ákvað síðan í samráði við bréfritara að senda bréfið öllum læknum sem fæddir voru 1933 eða fyrr. Jafnframt var boðið til undirbúningsfundar að slíkum félagsskap. Sá fundur var haldinn á Holiday Inn 19. mars 1994.


u07-fig1
Spánarfarar.
Í maí 2010 var farin vel heppnuð ferð til Spánar undir leiðsögn  Kristins R. Ólafssonar.
Myndin er tekin í borginni  Segovia skammt norðan við Madrid.  Fararstjórinn er neðst fyrir miðju með
íslenskan fána. Ljósm. Hjörleifur Guttormsson


Til fundarins mættu 56 læknar auk formanns og framkvæmdastjóra LÍ. Kosin var nefnd til að undirbúa stofnun félagsins. Í henni voru:  Árni Björnsson formaður, Ásmundur Brekkan, Gunnlaugur Snædal, Ragnhildur Guðmundsdóttir og Þór Halldórsson. Stofnfundur var svo haldinn í Rúgbrauðsgerðinni 7. maí 1994. Stjórnaði Árni Björnsson þeim fundi en á hann voru mættir 64 læknar.

Nafn félagsins var samþykkt: Öldungadeild Læknafélags Íslands. Þá voru samþykkt lög félagsins sem eru að mestu samhljóða núgildandi lögum. Í fyrstu stjórn félagsins voru kosnir Árni Björnsson formaður, Grétar Ólafsson gjaldkeri og Þór Halldórsson ritari en meðstjórnendur þau Þórey Sigurjónsdóttir og Arinbjörn Kolbeinsson.Einnig var kosið í fyrsta öldungaráð félagsins. Það skipuðu þau Ásmundur Brekkan, Gunnlaugur Snædal, Ragnhildur Guðmundsdóttir, Sigurður Þ. Guðmundsson, Tómas Árni Jónasson og Þorgeir Gestsson. Í lögum félagsins segir svo: Tilgangur félagsins er að gæta hagsmuna aldraðra lækna og stuðla að auknum samskiptum meðal þeirra, svo og að efla samskipti lækna almennt, félagslega og faglega. Starf félagsins hefur nokkuð breyst með árunum. Fyrstu árin voru félagsfundir strjálir en stjórn félagsins hittist þeim mun oftar og ræddi mál sem vörðuðu hagsmuni félaganna, einkum lífeyrismál en þau eru mönnum enn hugleikin. Félagsfundum fjölgaði smám saman og síðustu árin hafa verið haldnir fundir í hverjum mánuði frá október til maí á hverju starfsári. Á fundum eru jafnan fyrirlestrar um margvíslegt áhugavert efni. Fyrstu árin voru fyrirlesarar gjarnan læknar en í seinni tíð eru þeir úr ýmsum áttum og umræðuefni sjaldnast af læknisfræðilegum toga. Fundarsókn hefur farið sívaxandi og ræður þar um efni fyrirlestra en ekki síður það tækfæri sem gefst til að spjalla við félagana yfir kaffi og vínarbrauði. Makar eru velkomnir á fundina og sækja þá vel. Fundir félagsins eru haldnir fyrsta miðvikudag hvers mánaðar í húsakynnum LÍ í Hlíðasmára 8 í Kópavogi. Í desember ár hvert er haldin aðventuhátíð þar sem menn gleðjast og gæða sér á réttum af jólahlaðborði. Fyrstu árin var oft farið í heimsóknir á ýmsar stofnanir eða dagsferðir innanlands. Slíkar ferðir hafa með árunum orðið veigameiri og hefur á síðustu árum verið farið í lengri ferðir innan lands og utan og hafa þær notið mikilla vinsælda. Samkvæmt lögum félagsins geta allir þeir læknar orðið meðlimir sem náð hafa 60 ára aldri. Þegar menn eru 70 ára eru þeim send fundarboð sem ekki hafa þegar gengið í félagið.

P.Á.


Ritstjórn Læknablaðsins hefur veitt Öldungadeild LÍ vilyrði fyrir rými í blaðinu þar sem Öldungadeildin getur komið á framfæri fréttum og fróðleik til félagsmanna sinna. Vera má að sá fróðleikur verði blandaður og höfði ekki eingöngu til aldraðra lækna. Það er því von okkar að aðrir lesendur blaðsins megi einnig hafa nokkurt gagn og gaman af.

Umsjón síðu:
Páll Ásmundsson

Stjórn
Öldungadeildar:
Sigurður E. Þorvaldsson
formaður
Jón Hilmar Alfreðsson
ritari
Tryggvi Ásmundsson
gjaldkeri
Guðmundur Oddson
Óli Björn Hannesson

Öldungaráð:
Hörður Þorleifsson
Höskuldur Baldursson
Kristín Guttormsson
Leifur Jónsson
Páll Ásmundsson
Vigfús Magnússon

Vefsíða Öldungadeildar
finnst meðal annarra vefsíðna sérfélaga á síðu LÍ



Þetta vefsvæði byggir á Eplica