07/08. tbl. 96.árg. 2010

Umræða og fréttir

Söguleg formannskosning í LR

u06-fig1
Sjaldan hafa fleiri mætt á aðalfund LR.

Á framhaldsaðalfundi Læknafélags Reykjavíkur þann 1. júní síðastliðinn var Steinn Jónsson lungnalæknir kjörinn formaður með ríflega 50% atkvæða. Fjórir voru í framboði og er það í fyrsta sinn sem svo margir gefa kost á sér og vekur sérstaka athygli að aðalfundinum var frestað mánuði fyrr þar sem enginn hafði gefið kost á sér til formennskunnar. Á aðalfundinn í byrjun maí voru mættir 14 félagar og verður það að teljast lítil mæting í nær 800 manna félagi.

Greinilegt var að félagsmenn höfðu tekið áskorun fráfarandi formanns Sigurðar Böðvarssonar um að fylkja sér um nýjan formann því hvert sæti var setið í  fundarsal Læknafélagsins í Hlíðasmára og þurftu nokkrir að standa. Sagðist Sigurður ekki óttast um framtíð Læknafélags Reykjavíkur þegar svo margir létu sér annt um hag þess þegar á reyndi. Var haft á orði að þetta væri sögulegur fundur þar sem sjaldan eða aldrei hefði verið svo vel mætt á aðalfund félagsins.

Í framboði til formanns voru auk Steins Jónssonar þeir Teitur Guðmundsson læknir, Einar Guðmundsson geðlæknir og Orri Þór Ormarsson barnaskurðlæknir. Allir héldu þeir skörulegar framboðsræður og verður ekki annað sagt en sjónarmið þeirra hafi legið saman að flestu leyti; að standa vörð um hag félagsins og félagsmanna sérstaklega og heilbrigðisþjónustuna almennt.

u06-fig2
Nýkjörinn formaður Steinn Jónsson tekur við hamingjuóskum
fráfarandi formanns Sigurðar Böðvarssonar.

Þegar búið var telja atkvæði kom í ljós að 114 höfðu greitt atkvæði og var ekkert þeirra autt eða ógilt. Niðurstaðan var sem áður sagði að Steinn Jónsson var kjörinn formaður með rúmlega helming atkvæða. Stjórnin var að öðru leyti sjálfkjörin en hana skipa nú Michael Clausen barnalæknir varaformaður, Jón Gunnar Hannesson heimilislæknir ritari, Friðný Jóhannesdóttir heimilislæknir gjaldkeri og Jörundur Kristjánsson heimilislæknir meðstjórnandi.  Má geta þess að á aðalfundinum í maí voru samþykktar lagabreytingar þess efnis að fækkað var í stjórn félagsins úr níu í fimm.

Að loknu stjórnarkjöri fór Kristján Guðmundsson formaður samninganefndar LR yfir stöðu samningamála og sagði stöðu félagsins lagalega sterka gagnvart kjaraskerðingu en ljóst væri að framundan væru átök svo standa þyrfti vörð um kjör lækna.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica