06. tbl. 96.árg. 2010

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Hafa skal það er sannara reynist. Birna Jónsdóttir

Í hreinskilni sagt hef ég ekki lesið rannsóknaskýrslu alþingis þó ég sem kjörinn trúnaðarmaður félagasamtaka sé embættismaður í skilningi íslensku orðabókarinnar. Tvær merkingar eru reyndar í heitinu embættismaður, hin er „starfsmaður ríkis eða bæjarfélags, skipaður til ákveðinnar trúnaðarstöðu með formlegum hætti og tilteknum skilyrðum.“

Þessir hinir embættismenn fá víða í skýrslunni ábendingar um hvað betur mátti fara í embættisfærslum þeirra í hrundansinum. Af hliðarlínunni virðist oft sem embættismenn hafi hugsað um að þóknast og hugnast kjörnum fulltrúum frekar en bregðast við á faglegum forsendum með hagsmuni fólksins í landinu í huga, þó með heiðarlegri undantekningu.

Það er siðferðileg skylda Læknafélags Íslands að upplýsa almenning jafnt sem ráðamenn, hvort heldur þeir eru kjörnir fulltrúar fólksins eða embættismenn, um þá staðreynd að læknum, sem starfa fyrir þegnana í landinu fækkar hraðar en sem nemur fólksfækkun. Læknum fækkar fyrst og fremst vegna þess að ungir læknar sem lokið hafa sérnámi sínu erlendis snúa ekki til baka í þeim takti sem eðlilegt væri.

Einnig hafa ungir sérfræðingar, sem eru nýfluttir heim eftir margra ára sérnám erlendis, ákveðið að flytja aftur út, til lengri eða skemmri tíma, þar sem lífskjör og laun eru betri,

Ráðherra hefur sagt að það sé í lagi að læknar dvelji lengur erlendis, þeir muni ná sér í betri menntun og reynslu. Er hins vegar hægt að gefa sér að eftir árið 2013 þegar á að fara að byggja upp heilbrigðisþjónustu á ný að þá muni þeir allir koma aftur? Í góðærinu skiluðu milli 80-90% lækna sér heim að sérnámi loknu. Eins og við vitum eru íslenskir læknar eftirsóttir í nágrannalöndunum. Við því má búast að því lengur sem læknir dvelur erlendis og verður sérhæfðari er erfiðara fyrir hann að finna starf við sitt hæfi hér heima. Fækkun lækna er áhyggjuefni og mikilvægt að ráðherra og embættismenn horfist í augu við hana og reyni að finna viðunandi lausn. 

Heilbrigðisráðherra hefur talað mjög frjálslega í fjölmiðlum um það að laun lækna séu allt of há og gefið það í skyn að laun lækna séu á bilinu 2-3 milljónir kr. á mánuði. Staðreyndin er hins vegar sú að meðalheildarlaun lækna í 100% starfi hjá ríkinu eruí kringum 1 milljón króna. Í mars 2009 voru þau 983.918 kr. og 952.267 kr. í mars 2010 (heimild úr skilagreinum ríkissjóðs sem berast LÍ í hverjum mánuði). 10% lækna var með hærri tekjur en 1,5 milljón kr. á mánuði og rúmur tugur lækna með hærri tekjur en 2 milljónir. Til að eiga möguleika á slíkum tekjum þarf læknir hins vegar að skila af sér óheyrilega mikilli vinnu og í mörgum tilfellum að vera bundinn ákveðnu landssvæði svo mánuðum skipti. Þessi mikla vinna laðar ekki marga lækna til starfa. Það er áhyggjuefni hvers konar þjónusta verður  þar sem alltof fáir læknar hafa unnið myrkranna á milli til lengri tíma. Hættan er sú að við missum þann góða árangur sem verið hefur í heilbrigðisþjónustunni og svokallaður tímabundinn niðurskurður verði dýru verði keyptur.

 

 u01b
Mynd. Fjöldi lækna í að minnsta kosti 10% starfi hjá ríkinu, í mars 2009 og í mars 2010.*
Þetta vefsvæði byggir á Eplica