05. tbl. 96.árg. 2010

Umræða og fréttir

Svar við athugasemdum um Herbalife

Í þessu hefti Læknablaðsins eru athugasemdir frá talsmönnum Herbalife um grein okkar „Lifrarskaði tengdur notkun á Herbalife“ sem birtist í marshefti Læknablaðsins á þessu ári.1

Við gerum eftirfarandi athugasemdir við þessa umfjöllun.

Á árunum 2007 og 2008 birtust greinar í virtum tímaritum frá Sviss, Ísrael og Spáni þar sem lýst var samanlagt 28 tilfellum af eitrunarlifrarbólgu sem talin voru tengjast neyslu vara frá Herbalife. Í umræddri grein okkar var lýst 5 tilfellum til viðbótar þannig að þau eru orðin 33 talsins. Í öllum þessum fjórum löndum var beitt sambærilegum aðferðum og niðurstaðan var sú sama, talið var líklegt að Herbalife væri orsakavaldurinn. Talsmenn Herbalife gerðu athugasemdir við greinarnar frá Sviss og Ísrael2 sem voru að mestu leyti sams konar og hér eru birtar en þeim athugasemdum var svarað í sama hefti tímaritsins. 

Mat á orsakatengslum áreitis (t.d. lyfs eða fæðubótarefnis) og aukaverkana er flókið mál og til að gera slíkt mat áreiðanlegra hafa verið þróaðar aðferðir sem eru almennt viðurkenndar meðal fræðimanna. Þær aðferðir sem einna mest hafa verið notaðar eru kenndar við WHO og RUCAM en síðarnefnda aðferðin er sérstaklega miðuð við lifrarskaða. Eðli málsins samkvæmt skiptir engu máli hvort hugsanlegur orsakavaldur er lyf eða fæðubótarefni. Þessar aðferðir byggja á gamalreyndum aðferðum við mat á orsakatengslum sem eiga sér aldagamla sögu en hafa þróast hratt síðustu 50 árin eða svo. Við mat okkar á orsakatengslum Herbalife og lifrarskaða var beitt þessum viðurkenndu aðferðum á eins faglegan hátt og framast var unnt. Niðurstöðurnar birtust í grein okkar í marshefti Læknablaðsins og athugasemdirnar frá Herbalife breyta engu þar um, niðurstöður okkar standa óhaggaðar. Athugasemdir talsmanna Herbalife um þær viðurkenndu aðferðir sem við beittum eru ekki byggðar á gildum rökum.

Umfjöllun Herbalife um sjúkratilfellin er ónákvæm og villandi og notkun þeirra á hinni viðurkenndu WHO flokkun er óskiljanleg. Starfsmenn Herbalife vilja útiloka mikilvægasta tilfellið, það er nr. 4. Staðfest er að sjúklingurinn var ekki að taka lyfið Zyban þegar lifrarbólgu varð vart á nýjan leik. Sjúklingurinn hélt áfram að taka birkiösku í seinna skiptið og einkenni gengu til baka þegar neyslu Herbalife var hætt í bæði skiptin. Auk þess hefur birkiaska ekki verið tengd lifrarskaða. Það er því enginn vafi á að hér eru örugg orsakatengsl.

Þeir vilja útiloka tvö tilfelli til viðbótar þar sem sjúklingarnir tóku lyf samhliða fæðubótarefnum. Ekki er tilgreint nákvæmlega hvaða tilfelli þeir eiga við. Í þeim tilvikum þar sem sjúklingar voru að taka lyf er í grein okkar gerð ítarleg grein fyrir viðkomandi lyfjum og rökstudd sú niðurstaða að þau séu ólíkleg orsök.

Talsmenn Herbalife virðast hafa misskilið almenna umfjöllun okkar um lifrarskaða af völdum náttúruefna í inngangi greinarinnar. Þeir gefa til kynna að við höldum því fram að vörur Herbalife innihaldi kava, ma huang, krossfífil og hóffífil. Augljóst ætti að vera að þarna er verið að fjalla almennt um náttúruvörur sem geta valdið lifrarskaða en ekki um Herbalife. Þeir hafa líka misskilið grein okkar varðandi það hvaða vörur flestir sjúklinganna voru að taka, í greininni kemur skýrt fram í töflu I hvaða vörur þarna var um að ræða.

Talsmenn Herbalife fjalla í grein sinni í löngu máli um grænt te, negul og aloe vera en sú umfjöllun hefur litla þýðingu þar sem enginn veit hverjir orsakavaldarnir kunna að vera, það er að segja hvað í þessum fæðubótarefnum kann að valda lifrarskaða. Þetta kemur skýrt fram í grein okkar en á bls. 170 stendur: „Aðeins er hægt að geta sér til um orsakirnar en líklegast virðist að einhverjar af þessu vörum innihaldi eitraðar jurtir“. Það skiptir þó máli að negull og grænt te eru þekkt af því að geta valdið lifrarskaða sérstaklega ef magn efnanna er meira en ráðlagt er en ekki er vitað hvort sjúklingarnir sem um ræðir tóku vörurnar í ráðlögðum skömmtum.3 Vangaveltur af þessu tagi eru venjulegar og fullkomlega eðlilegar í fræðigrein sem þessari. Það er vel þekkt að oft er erfitt að finna nákvæmlega hvaða innihaldsefni eða efnasamsetningar valda lifrarskaða þegar náttúruefni eða lyf eru annars vegar. Þótt ekki sé á þessu stigi þekkt hvaða meingerð er að baki  lifrarskaða í tengslum við Herbalife notkun útilokar það ekki orsakasamhengi. Umfjöllun á svipuðum nótum er að finna í greinunum frá Sviss, Ísrael og Spáni þar sem lýst var sambærilegum tilfellum.

Mikill fjöldi efna úr náttúrunni (náttúruefni) hefur vel staðfestar aukaverkanir4 og fjöldinn allur af fæðubótarefnum hefur verið tekinn af markaði víða um heim vegna heilsutjóns sem þau hafa valdið. Lyfjaframleiðendur hafa fyrir löngu fallist á að lyf hafi aukaverkanir og það er mál til komið að framleiðendur fæðubótarefna viðurkenni þá staðreynd að fæðubótarefni geta líka haft aukaverkanir.5 Með því að viðurkenna þessar staðreyndir gætu framleiðendur fæðubótarefna unnið með vísindasamfélaginu að því að bæta öryggi fæðubótarefna í stað þess að vinna gegn vísindamönnum á þessu sviði.

Svo virðist sem notkun fæðubótarefna fari vaxandi víða um heim og þess vegna er enn meiri ástæða til að fara varlega og vinna markvisst að því að bæta öryggi þessa vöruflokks.

 

Höfundar hafa engin hagsmunatengsl.

 

Heimildir

  • Jóhannsson M, Ormarsdóttir S, Ólafsson S. Lifrarskaði tengdur notkun á Herbalife. Læknablaðið 2010; 96: 167-72.
  • Ignarro L, Heber D, Henig YS, Bejar E. Herbalife nutritional products and liver injury revisited. J Hepatol 2008; 49: 291-3; author reply 293-4.
  • Molinari M, Watt KD, Kruszyna, T et al. Acute liver failure induced by green tea extracts: case report and review of the literature. Liver Transpl 2006; 12: 1892-5.
  • Jacobsson I, Jonsson AK, Gerden B, Hagg S. Spontaneously reported adverse reactions in association with complementary and alternative medicine substances in Sweden. Pharmacoepidemiol Drug Saf 2009; 18: 1039-47.
  • Björnsson ES. Lifrarskaði af völdum lyfja. Læknablaðið 2010; 96: 175-82.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica