04. tbl. 96.árg. 2010

Umræða og fréttir

Börnin þyngjast og þyngjast

Athygli heimsins beinist að vaxandi offitu Bandaríkjamanna með átaki í nafni forsetafrúarinnar Michelle Obama undir slagorðinu Let´s Move. Staðreyndir um offitu barna þar eru skelfilegar en önnur vestræn ríki eru ekki langt á eftir í þróuninni. Margt hefur verið rætt og ritað um efnið og enginn ætti að velkjast í vafa um það; lausnirnar eru fyrir hendi en þegar kemur að framkvæmd virðast hindranirnar óyfirstíganlegar.

Í leiðara Lancet 20. febrúar er bent á að samkvæmt niðurstöðum National Health and Nutrition Examination Survey er annað hvert barn í Bandaríkjunum við eða yfir 85 hundraðshluta markinu á BMI kvarðanum. Ennfremur kemur fram í niðurstöðum Kaiser Family stofnunarinnar að bandarísk börn á aldrinum 8-18 ára verja að meðaltali 7,5 klukkustundum á dag við hreyfingarlausa iðju eins og sjónvarp, tölvu, tónlist og tölvuleiki. Verður að teljast bitamunur en ekki fjár hvort evrópsk börn verja heldur styttri tíma við sömu iðju daglega.

Átakið sem Obama leiðir beinist að fjórum þáttum sem hafa áhrif á offitu barna: vanþekkingu foreldra á hollri fæðuvali, lélegri næringu í skólum, hreyfingarleysi í daglegu lífi og takmörkuðum aðgangi að hollum mat í verslunum í hverfum lágtekjufólks. Hið síðasttalda á einna síst við um íslenskan veruleika, en bent hefur verið á að aðgangur að hollum matvælum sé ekki nóg, verðlagning þeirra verður að leyfa almenningi að geta keypt þau. Hefur oft verið bent á að grænmeti og ávexti séu mun dýrari en svokallaður ruslmatur og að niðurgreiðsla eða verðstýring á hollum mat verði að koma til ef hvatning af þessu tagi eigi að hafa áhrif á innkaupavenjur fólks.

Í nýrri rannsókn sem Lancet vísar til kemur fram að staðsetja megi upphafspunkt offitu barna sem við tíu ára aldur eru komin að eða yfir 85 hundraðshluta af BMI, við 22 mánaða aldur. Fullyrt er að aldursbilið milli 6 mánaða og tveggja ára sé hið mikilvægasta í mótun matarsmekks barnsins og því verði að beina meginþunga fræðslu og stuðnings að nýbökuðum foreldrum og gera þeim grein fyrir að mataræði barnsins til framtíðar ráðist að miklu leyti á þessum aldri.

Til að árangur náist verði að fara saman fræðsla, stuðningur, aðgengi, verðstýring, hvatning og samhæft átak á öllum stigum umönnunar þar sem börnum er boðinn matur, ef ekki á að fara sem horfir að óbreyttu; að hverfa verði aftur fyrir miðja síðustu öld til að finna sambærilegar lífslíkur fyrir kynslóðina sem nú er að vaxa úr grasi.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica