04. tbl. 96.árg. 2010

Umræða og fréttir

Sextán landlæknar á 250 árum

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Bjarni Pálsson, fyrsti sérmenntaði læknirinn á Íslandi, var skipaður fyrsti íslenski landlæknirinn með konungsúrskurði hinn 18. mars árið 1760. Með skipun hans í embætti má segja að heilbrigðisþjónusta í nútímaskilningi hafi haldið innreið sína í landið. Embætti landlæknis er eitt elsta samfellda veraldlega embætti Íslandssögunnar og hafa alls 16 læknar gegnt því fram á þennan dag, sumir þó oftar en einu sinni. 250 ára afmælis landlæknisembættisins var minnst með málþingi í hátíðarsal Háskóla Íslands á afmælisdaginn að viðstöddu fjölmenni. Málþingið var haldið í samvinnu við Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar og Lækningaminjasafnið.

u7-fig2
Á myndinni eru fleiri burðarásar landlæknis, frá vinstri: Svanhildur
Þorsteinsdóttir verkefnisstjóri, Júlíana Héðinsdóttir aðstoðarmaður
sóttvarnalæknis, Sara Halldórsdóttir skjalastjóri, tveir fulltrúar af
heilbrigðistölfræðisviði; Lilja Bjarklind Kjartansdóttir og Hildur Björk
Sigbjörnsdóttir og dóttir hennar, Arna Ísold.

Að loknu setningarávarpi heilbrigðisráðherra, Álfheiðar Ingadóttur, flutti Margrét Björnsdóttir, settur forstjóri Lýðheilsustöðvar, afmæliskveðju. Fimm fræðimenn héldu erindi um ýmsa þætti í sögu embættisins frá öndverðu þar sem litið var yfir þróunina allt til þessa dags. Sá liður var í höndum fræðimannanna Erlu Dorisar Halldórsdóttur hjúkrunar- og sagnfræðings, Ólafar Garðarsdóttur sagnfræðings, Óttars Guðmundssonar geðlæknis, Þórólfs Guðnasonar yfirlæknis og Jóns Ólafs Ísberg sagnfræðings. Að erindunum loknum flutti Ólafur Ólafsson, fyrrum landlæknir, afmæliskveðju og að síðustu ávarpaði Geir Gunnlaugsson, núverandi landlæknir, hátíðargesti.

u7-fig1
Til vinstri Laura Scheving Thorsteinsson, hjúkrunarfræðingur og
verkefnisstjóri á gæða- og lýðheilsusviði, og Hildur Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og verkefnisstjóri á sama sviði.

Í máli ráðherra á málþinginu kom fram að hafinn sé undirbúningur að sameiningu landlæknisembættis og Lýðheilsustöðvar og að ný sameinuð stofnun taki til starfa um næstu áramót. Sameiningin er í samræmi við tillögu starfsnefndar um breytta skipan stjórnsýslu heilbrigðisráðuneytisins. Verkstjórn þessa verður í höndum Margrétar Björnsdóttur, setts forstjóra Lýðheilsustöðvar.

u7-fig3
Úr hátíðasal Háskóla Íslands 18. mars síðastliðinn á málþingi í tilefni
þess að 250 ár eru liðin frá því landlæknisembættið var sett á laggirnar.
Ljósmyndir: Eggert Jóhannesson, birt með leyfi landlæknis.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica