03. tbl. 96.árg. 2010

Umræða og fréttir

Mynd mánaðarins

Etersvaefing-a-Patreksfirdi-1969

Séra Tómas Guðmundsson svæfir með eter á opna grímu (Esmarch grímu) við skurðaðgerð á sjúkrahúsinu á Patreksfirði 1968 eða 1969. Hann heldur grímunni með vinstri hendi og virðist halda hökunni fram en með hægri hendi lætur hann drjúpa á grisjuna úr eterdropaglasi. Hannes Finnbogason var læknir á Patreksfirði 1956 og kenndi prestinum þá að svæfa. Hægra megin á myndinni er kona að mæla blóðþrýsting en læknarnir Guðmundur Guðjónsson og Þórir S. Arinbjarnarson gera aðgerðina.




Ljósmyndari þessarar myndar er óþekktur en myndin er fengin að láni frá Minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti í Örlygshöfn við Patreksfjörð og birt með góðfúslegu leyfi Sigurbjargar Ásgeirsdóttur safnstýru þar. Myndin er einnig notuð á veggspjaldi fyrir sameiginlegt vísindaþing Skurðlæknafélags Íslands og Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands árið 2010.

Eter kom til sögunnar á Íslandi eftir aldamótin 1900 en fyrir þann tíma var klóróform eina svæfingarlyfið. Fram yfir miðja síðustu öld var gjöf eters og klóróforms í opna svæfingagrímu mikið notuð, klóróform einkum við stuttar svæfingar en eter við lengri svæfingar. Stundum var gefin blanda af klóróform og eter. Svæfingin var venjulega undir leiðsögn þess læknis sem aðgerðina gerði. Úti á landsbyggðinni fengu héraðslæknar oft eiginkonur sínar til liðs við sig eða jafnvel einhverja handlagna menn úr sveitinni. Því má segja að svæfingar hafi oftast verið í höndum lítt reyndra lækna, læknanema, hjúkrunarkvenna, ljósmæðra eða leikmanna.
Þótt hinn gamli góði eter hafi verið barn síns tíma (í langan tíma!) var hann þó á vissan hátt öruggt svæfingarlyf. Þetta voru þó ekki fínar svæfingar. Sjúklingarnir sváfu oft klukkutímum saman eða jafnvel í nokkra daga eftir aðgerðir og leið oft mjög illa þegar þeir vöknuðu. Eftir miðja öldina áttuðu læknar sig betur á nauðsyn góðra svæfinga. Með aukinni þekkingu og menntun, bættum útbúnaði og betri lyfjum voru gerðar meiri kröfur um öryggi og velferð sjúklinga. Hin nýju svæfingarlyf eru þó bara góð lyf í höndum þeirra sem fengið hafa sérstaka þjálfun í notkun þeirra.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica