Ávarp

Ávarp

Velkomin á 10. sameiginlegt vísindaþing Skurðlæknafélags Íslands og Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands!?

Kæru félagar, kollegar, læknanemar, stuðningsaðilar og aðrir gestir

Það er okkur sérstök ánægja að bjóða ykkur velkomin á 10. sameiginlegt vísindaþing Skurðlæknafélags Íslands og Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands.

Þingið er haldið á Hilton Reykjavík Nordica Hótel og stendur í tvo daga, 11.-12. apríl. Reyndar hefst óformleg dagskrá þegar að kvöldi 10. apríl, haldinn verður fyrirlestur um nýjungar í öndunarvélarmeðferð.

Að vanda hefur mikil vinna verið lögð í undirbúning þingsins. Auk stjórna félaganna hefur ráðstefnufyrirtækið Congress Reykjavík nú í annað sinn haft með höndum skipulag þess. Samstarfið við Congress Reykjavík hefur verið sérlega ánægjulegt og tókst þinghaldið í fyrra með miklum ágætum. Er það von okkar að jafn vel takist til í ár og að stjórnir félaganna séu á réttri leið með uppbyggingu þess.

Líkt og í fyrra eru þátttakendur beðnir að skrá sig á www.congress.is Skráningargjaldi er stillt í hóf (2000 kr) og eru læknanemar, ung- og deildarlæknar auk hjúkrunarfræðinga undanþegnir gjaldinu.

Margir koma að skipulagningu dagskráratriða á þinginu og hefur það verið markmið beggja félaga að hafa dagskrána fjölbreytta til að tryggja að sem flestir finni eitthvað við sitt hæfi. Styrktaraðilar munu eins og áður skapa glæsilega umgjörð um þingið og verður boðið upp á sýningu á ýmsum nýjungum innan skurð-, gjörgæslu- og svæfingalækninga.

Við opnun þingsins mun landlæknir ávarpa þinggesti að venju og síðan verður fjöldi málþinga og fyrirlestra, m.a. um upphafsmeðferð fjölslasaðra, enduruppbyggingaraðgerðir á höfði og hálsi, sýkingar eftir bæklunaraðgerðir, afleiðingar hækkaðs þrýstings í kviðarholi, meðferð með hjarta- og lungnavél, hvernig tryggja eigi erfiðaðan öndunarveg og loks þróun aðgerða við offitu og svæfingar offitusjúklinga. Í langflestum tilvikum munu erlendir fyrirlesarar leiða málþingin og hefur alls 10 fyrirlesurum verið boðið til landsins af þessu tilefni.

Mikilvægasti þáttur þingsins og þungamiðja er kynning á vísindaerindum sem eru 58 talsins. Besta erindi ungs vísindamanns mun keppa til veglegra verðlauna á laugardeginum en sérstök vísindanefnd félaganna hafði með höndum það erfiða verkefni að velja sex bestu erindi unglæknis eða læknanema sem send voru inn á þingið. Einnig verða veitt verðlaun fyrir besta erindið sem ekki var valið í hóp áðurnefndra sex erinda og loks verða verðlaun fyrir besta veggspjaldið. Í ár verður sú nýbreytni að höfundar veggspjalda stíga á pall og kynna rannsókn sína með tveggja mínútna erindi en veggspjöldin verða einnig hengd upp á þinginu.

Þinginu lýkur á laugardagskvöld með hátíðarkvöldverði á DómóBar. Þar verður meðal annars boðið upp á fordrykk, þríréttaðan hátíðarmatseðil og lifandi tónlist. Að loknum kvöldverði verður dansleikur (upp úr kl. 22) og hafa félögin boðið unglæknum og læknanemum á 4-6. ári að taka þátt. Þetta var gert í fyrra og þótti takast með ágætum, en hugmyndin að tengja saman (utan skurðstofu og gjörgæslu) eldri, yngri og verðandi kollega.

Fyrir hönd Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands viljum við sérstaklega þakka öllum þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem styrkt hafa þingið í ár. Án stuðnings þessara fyrirtækja hefði aldrei verið hægt að skipuleggja þing að þessari stærðargráðu þar sem vísindi og fræðsla eru höfð í fyrirrúmi. Gunnhildur Jóhannsdóttir skrifstofustjóri fær þakkir fyrir frábær störf við skipulagningu vísindahluta þingsins, einnig Læknafélagið og starfsfólk Læknablaðsins fyrir ómetanlega aðstoð.

 

Stjórn Skurðlæknafélags Stjórn Svæfinga- og  gjörgæslulæknafélags Íslands

Tómas Guðbjartsson, formaður Sigurbergur Kárason, formaður

Helgi H. Sigurðsson, varaformaður Felix Valsson, varaformaður

Þorvaldur Jónsson, ritari Hildur Tómasdóttir, ritari

Fritz Berndsen, gjaldkeri Kári Hreinsson, gjaldkeri

Hulda Brá Magnadóttir, meðstjórnandi Guðmundur Klemenzson, meðstjórnandi

 

Ritari þingsins Gunnhildur Jóhannsdóttir
Þetta vefsvæði byggir á Eplica