01. tbl. 96. árg. 2010

Umræða og fréttir

Nýjar reglur um erlenda lækna í Bretlandi

Katrín Fjeldsted

Ákveðnar hafa verið nýjar reglur fyrir þá erlendu lækna sem starfa vilja í Bretlandi og tóku þær gildi 16. nóvember 2009. Frá og með þeim tíma verða læknar að vera 


a) með lækningaleyfi (registered) hjá General Medical Council þar í landi og 


b) vera með starfsleyfi (licence to practice) frá sömu stofnun ef þeir hyggjast starfa í landinu sem læknar.


Mér sýnist óljóst hvort þetta hafi nokkur áhrif á þá íslenzku lækna sem vilja starfa í Bretlandi, þar sem EES-samningurinn nær yfir starfsleyfi og gagnkvæma viðurkenningu á lækningaleyfi eins og gildir milli Evrópusambandsríkjanna.


Í tilkynningu frá GMC kemur fram yfirlit yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið á kröfum til lækna og hvaða upplýsingar, skjöl og þjónustu hægt er að nálgast hjá GMC og til frekari glöggvunar vísað á intel@gmc-uk.org og heimasíðuna www.gmc-uk.org.


Nýjar reglur um starfsleyfi eru fyrsta skrefið í átt að endurmati sem hefur ekki verið fyrir hendi í Bretlandi. Markmiðið er að tryggja sjúklingum að læknar sem meðhöndla þá hafi fylgzt með í fagi sínu og séu færir um að starfa. Fyrsta endurmat mun ekki fara fram fyrr en árið 2011.


Lagabreyting þessi táknar að starfsemi sem áður var takmörkuð við lækna með lækningaleysi verður nú takmörkuð við lækna með lækningaleyfi og starfsleyfi. Þetta innifelur leyfi til að skrifa lyfseðla, gera dánarvottorð og líkbrennsluvottorð og ráða sig í vissar stöður, svo sem innan heilbrigðisþjónustunnar, National Health Service, NHS.


Eftirfarandi gildir um þá lækna sem uppfylla ofannefnd tvö skilyrði:


• Þeir mega starfa sem læknar í Bretlandi.


• Þeir mega takast á hendur verkefni svo sem að skrifa lyfseðla og undirrita dánarvottorð.


• Verða að sæta því að undirgangast endurmat þegar reglur taka gildi.


• Þeim er skylt að fylgja gæðareglum GMC eins og þær birtast í Good Medical Practice.


• Þeir heyra undir þær reglur sem GMC beitir til að meta hvort þeir séu hæfir til að starfa sem læknar.


Eftirfarandi gildir um lækna með lækningaleyfi en ekki starfsleyfi:


• Þeir hafa ekki lögformlegt leyfi til að starfa sem læknar í Bretlandi.


• Þeir hafa ekki leyfi til að skrifa lyfseðla, dánarvottorð eða taka að sér verkefni sem takmarkast við lækna með lækningaleyfi.


• Þeim er ekki skylt að undirgangast endurmat þegar það tekur gildi.


• Þeir þurfa að fylgja gæðareglum GMC: Good Medical Practice


• Þeir heyra undir þær reglur sem GMC beitir til að meta hvort þeir séu hæfir til að starfa.

katrinf@simnet.is




Þetta vefsvæði byggir á Eplica