01. tbl. 96. árg. 2010
Fræðigrein
Mat á járnbúskap með mælingu á transferrínviðtökum
Evaluation of iron status by serum transferrin receptor level
Ágrip
Inngangur: Tilgangur þessarar könnunar var að bera saman gildi mælinga á transferrínviðtökum í sermi (sTfR) og nokkurra annarra blóðrannsókna við greiningu járnskorts.
Efniviður og aðferðir: Könnunin var framskyggn og öllum sjúklingum sem fljótandi mergsýni var tekið úr á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri á tímabilinu 1999 til 2003 var heimil þátttaka. Fullgildir þátttakendur voru 89. Næmi, sértæki, skilvirkni og mælikvarði Youdens við greiningu járnskorts var reiknað fyrir ferritín, MCV, CHr, sTfR, sTfR-ferritín-vísi, járnmettun transferríns og Tómasartöflu. Járnskortur var skilgreindur sem ekkert sjáanlegt járn við smásjárskoðun á merg.
Niðurstöður: Samkvæmt mælikvarða Youdens reyndist Tómasartafla best við greiningu járnskorts. Hjá þátttakendum sem höfðu CRP <6 mg/L og virtust þannig ekki hafa bólgusvörun reyndist hún mjög sértæk en mjög næm hjá þeim sem höfðu CRP ≥6 mg/L. sTfR-ferritín-vísir reyndist næstbest af samsettum mælikvörðum og af einstökum blóðrannsóknum reyndist sTfR best til að greina járnskort samkvæmt mælikvarða Youdens.
Ályktanir: Í þessari könnun reyndust Tómasartafla og sTfR-ferritín-vísir best við greiningu járnskorts. Notkun þessara mælikvarða getur dregið úr þörf á því að taka mergsýni til að greina járnskort.
Inngangur
Blóðleysi er algengt sjúkdómseinkenni og járnskortur er tiltölulega algeng orsök blóðleysis. Greining járnskorts er oft auðveld með hjálp blóðrannsókna og dæmigerðar niðurstöður eru þá til dæmis smá rauð blóðkorn, lækkun á ferritíni og járni en hækkun á transferríni (eða járnbindigetu) í sermi. Greining járnskorts með þessum rannsóknum getur þó verið erfið þegar bólgusvörun er til staðar. Bólgusvörunin getur sjálf valdið blóðleysi með smáum, rauðum blóðkornum, þó að járnbirgðir séu nægar, og bólguboðefni líkamans valda gjarnan lækkun á járni og transferríni en hækkun á ferritíni í sermi. Þegar saman fara bólgusvörun og járnskortur ráða áhrif bólgusvörunarinnar á ofangreinda mælikvarða þannig að dæmigerð áhrif járnskorts koma ekki fram í blóði. Þá þarf að nota aðrar aðferðir til að greina járnskort. Stundum er tekið mergsýni og gáð að járni í því með smásjárskoðun en æskilegra væri að eiga kost á blóðrannsókn sem sagt gæti til um járnskort óháð bólgusvörun. Ein af þeim rannsóknum sem koma til greina til þess er mæling á transferrínviðtökum í sermi.
Transferrínviðtakar (TfR) eru prótínviðtakar sem binda transferrín og finnast á yfirborði flestra frumna í líkamanum. Tvær gerðir af TfR eru þekktar, TfR1 og TfR2. Erfðagalli á TfR2 getur valdið járnofgnótt1 og verður ekki frekar fjallað um TfR2 í þessari grein. TfR1 hefur hins vegar þýðingu fyrir flutning járns og nýtingu þess í líkamanum og verður hér eftir vísað til þess sem TfR. TfR bindur járnflutningsprótínið transferrín og færir það ásamt járninu inn í frumuna. Járnið skilst þar frá transferríninu og nýtist í frumunni en transferríni er skilað aftur út í blóðrásina og það endurnýtt.2 Járnþörf frumunnar ræður fjölda af TfR sameindum á yfirborði hennar.3 Fjöldi TfR er mestur á yfirborði rauðkornskímfrumna (forstiga rauðra blóðkorna) í mergnum þar eð þær mynda blóðrauðann og þurfa mest af járni af öllum frumum í líkamanum. Járnskortur eykur einnig fjölda TfR á yfirborði frumna. Fjöldi af TfR er þess vegna í hámarki á yfirborði rauðkornskímfrumna þegar þær búa við skort á járni.4
TfR finnst líka fljótandi í blóði (sTfR) og magn af sTfR stendur í réttu hlutfalli við heildarfjölda TfR á yfirborði frumna í líkamanum.5 sTfR eykst þannig í blóði þegar aukning er á rauðkornskímfrumum í mergnum, til dæmis við blóðrof eða blóðmissi, og aukningin verður enn meiri ef járnskortur ríkir. Fleira en fjöldi rauðkornskímfrumna og járnskortur getur haft áhrif á sTfR.4 sTfR eykst í seinni hluta meðgöngu vegna TfR í fylgju. Langvinnt eitilfrumuhvítblæði (CLL) og eitilfrumukrabbamein (lymphoma) geta valdið aukningu á sTfR í sermi, fleiri illkynja æxli og mergsjúkdómar geta haft áhrif til hækkunar eða lækkunar og epóetínmeðferð getur valdið hækkun.
Bólgusvörun hefur ekki áhrif á sTfR og mælt hefur verið með mælingu á því til að greina járnskort hjá sjúklingum með bólgusvörun.4, 5 Fleiri rannsóknir hafa komið til álita í sama tilgangi, til dæmis sTfR-ferritín-vísir, sem er reiknaður út frá sTfR og ferritíni, CHr (meðalblóðrauðamagn í netfrumum, einnig nefnt RET-He) og aðferð C. Thomas og L. Thomas. Síðastnefnda aðferðin, sem hér er vísað til sem Tómasartöflu, skiptir sjúklingum í fjóra flokka eftir sTfR-ferritín-vísi og CHr og tekur líka mið af CRP til þess að vega upp á móti áhrifum bólgusvörunar á ferritín eins og sést á mynd 1. Tómasartaflan hefur þann kost að geta greint á milli starfræns járnskorts, það er ófullnægjandi framboðs á járni til rauðkornskímfrumna þó að járnbirgðir séu nægar, og raunverulegs járnskorts og hún getur komið að gagni við val á meðferð við blóðleysi og við mat á árangri af þeirri meðferð.6-8 CHr lækkar við járnskort eins og MCV en mun hraðar og eykst aftur í eðlilegt gildi á örfáum dögum þegar rauðkornskímfrumurnar fá aftur nægt járn.9 sTfR-ferritín-vísir hefur verið talinn betri mælikvarði á járnhag en sTfR.3, 4
Sú könnun sem hér er greint frá var gerð til þess að meta gildi sTfR við greiningu járnskorts samanborið við gildi annarra blóðrannsókna. Notaðar voru niðurstöður úr mergskoðunum sem voru gerðar af öðru tilefni hjá óvöldum hópi sjúklinga með margvíslega sjúkdóma. Járnskortur var talinn til staðar ef ekkert járn sást í mergnum. Mat á járnbirgðum í merg með smásjárskoðun hefur almennt verið talinn góður mælikvarði á járnhag og hefur áður verið notað sem viðmið í hliðstæðum könnunum.3, 10-18
Efniviður og aðferðir
Þýði: Allir sjúklingar sem fljótandi mergsýni var tekið úr á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri (FSA) á tímabilinu frá nóvember 1999 til október 2003, voru hlutgengir í könnunina, óháð tilefni til mergsýnitökunnar. Könnunin var skýrð fyrir þátttakendum sem staðfestu þátttöku sína með undirskrift. Alls tóku 113 þátt í könnuninni en við úrvinnslu voru 24 ekki teknir með af eftirtöldum ástæðum: Fjórtán vegna þess að mergsýni var ófullnægjandi til mats á járnbirgðum, sjö vegna þess að niðurstöður úr mælingu á sTfR vantaði og þrír vegna þess að upplýst samþykki sjúklings vantaði. Á tímabilinu sem könnunin stóð yfir voru tekin 170 fljótandi mergsýni á FSA þannig að 66% af mögulegum þátttakendum tóku þátt. Orsök þess að ekki tóku fleiri þátt var oftast sú að viðkomandi lækni yfirsást að bjóða þátttöku. Í fáeinum tilvikum var þátttaka ekki boðin vegna þess að sami sjúklingur hafði skömmu áður verið þátttakandi eða vegna þess að ekki reyndist unnt að fá fastandi blóðsýni innan þriggja sólarhringa frá töku mergsýnis. Enginn sjúklingur hafnaði þátttöku. Gildir þátttakendur voru 89, 56 konur og 33 karlar. Meðalaldur þátttakenda var 67,4 ár og aldursbil 20-95 ára. Tilefni mergsýnitöku og tíðni járnskorts í hverjum flokki koma fram í töflu I. Aldur, kyn og niðurstöður mergskoðunar og blóðrannsókna hvers þátttakanda voru skráðar en skráning sjúkdómsgreininga og lyfjameðferðar var ekki stöðluð.
Blóðrannsóknir: Blóðsýni voru dregin klukkan 08-10 eftir næturföstu innan þriggja sólarhringa fyrir eða eftir töku mergsýnis. Sermi í mælingu á sTfR var geymt við –70°C þar til að mælingin var framkvæmd. Aðrar rannsóknir voru að jafnaði framkvæmdar innan sólarhrings. Talning rauðra blóðkorna (RBK) og netfrumna og mælingar á blóðrauða (Hb), meðalstærð rauðra blóðkorna (MCV), stærðardreifingu rauðra blóðkorna (RDW, Red cell Distribution Width) og meðalblóðrauðamagni í netfrumum (CHr) voru gerðar með H·1 eða H·3 blóðkornateljurum (Bayer Diagnostics, Danmörk) samkvæmt forskrift framleiðanda.
CRP (C reactive protein) var mælt með RA-XT efnamæli (Bayer Diagnostics, Danmörk) frá upphafi til nóvember 2000 en síðan með Hitachi 912 efnamæli (Roche Diagnostics, Þýskaland). Prófefni og stýrilausnir frá viðkomandi framleiðendum voru notaðar. Báðar aðferðirnar voru staðlaðar gagnvart sama alþjóðlega staðli og jafngildar.
Járn var mælt með RA-XT efnamæli frá upphafi til nóvember 2000 en síðan með Hitachi 912 efnamæli. Prófefni og stýrilausnir frá viðkomandi framleiðendum voru notaðar. Báðar aðferðirnar voru staðlaðar gagnvart sama alþjóðlega staðli og jafngildar.
Járnbindigeta var mæld með RA-XT efnamæli frá upphafi til nóvember 2000 en síðan var mælt transferrín með Hitachi 912 efnamæli. Prófefni og stýrilausnir frá viðkomandi framleiðendum voru notaðar. Báðar aðferðirnar voru staðlaðar. Niðurstöður úr mælingum á transferríni í g/L voru margfaldaðar með 25,1 til að fá samanburðarhæfan mælikvarða á járnbindigetu í μmól/L. Mettun járnbindigetu var reiknuð samkvæmt annarri hvorri formúlunni: (a) mettun járnbindigetu (%) = S-Járn (μmól/L)·100/S-Járnbindigeta (μmól/L) eða (b) mettun járnbindigetu (%) = S-Járn (μmól/L) · 4/S-Transferrín (g/L).
Ferritín var mælt með Elecsys 2010 efnamæli (Roche Diagnostics, Þýskaland) samkvæmt forskrift framleiðanda. Prófefni og stýrilausnir frá framleiðanda tækisins voru notaðar.
sTfR var mælt með prófefnasamstæðunni Quantakine® IVD Soluble Transferrin Re-ceptor ELISA (R&D Systems Europe, Eng-land) samkvæmt forskrift framleiðanda með Multiscan RC 6.0 míkróplötumæli og Wellwash 4 míkróplötuþvottavél (Labsystems OY, Finn-land). Mælingin byggist á mótefnatækni með samlokuaðferð og ljósmælingu í míkróplötubollum. Tvö einstofna mótefni gegn TfR eru notuð. Annað er bundið í bollunum og bindur sTfR í sýninu á meðan önnur efni eru þvegin í burtu. Hitt mótefnið er með áfestan peroxíðasa og binst við sTfR í bollanum. Óbundið mótefni er þvegið í burtu. Peroxíðasavirkni í bollanum er síðan mæld með ljósmælingu og stendur hún í beinu hlutfalli við sTfR í sýninu. Notaðar voru stýrilausnir og eftirlitssýni frá framleiðanda prófefnasamstæðunnar. Mæling á hverju sýni var tvítekin og meðaltal niðurstaðna notað. Breytistuðull (CV) mælingarinnar reyndist 6,7% innan atrennu við sTfR 28 nmól/L, reiknað út frá mismun milli tvítekninga. Breytistuðull milli daga reyndist 11,5% við sTfR 27 nmól/L, reiknað á sama hátt.
sTfR-ferritín-vísir (sTfR-F-index) var reiknaður samkvæmt formúlunni: sTfR-ferritín-vísir (nmól/log μg) = sTfR(nmól/L)/log10 ferritín(μg/L).
Næmi (sensitivity) er sá hundraðshluti af járnlausum þátttakendum sem tilgreindar forsendur greina rétt sem járnlausa.
Sértæki (specificity) er sá hundraðshluti af þátttakendum með járn í merg sem tilgreindar forsendur greina rétt sem ekki járnlausa.
Skilvirkni (efficiency) er sá hundraðshluti af þátttakendum sem tilgreindar forsendur flokka rétt sem járnlausa eða ekki járnlausa.
Mælikvarði Youdens (Youden index) var reiknaður samkvæmt formúlunni: mælikvarði Youdens = næmi (%)/100 + sértæki (%)/100 - 1.
Mergrannsóknir: Mergstrok til mats á járnbirgðum voru lituð með prussian-blue aðferð og mótlituð með safranínlit.19 Járnbirgðir voru metnar af öðrum höfundi (VÞ) án vitneskju um niðurstöðu úr mælingu á sTfR. Járnbirgðir voru metnar í stigum frá 0 til 6 samkvæmt forskrift Gales og félaga.20 Í stuttu máli eru forsendur stigunarinnar þessar:
- 0 stig Ekkert sjáanlegt járn í mikilli stækkun.
- 1 stig Litlar járnörður greinanlegar í mikilli stækkun.
- 2 stig Litlar járnörður sjáanlegar á mörgum svæðum í minni stækkun.
- 3 stig Margar litlar járnörður um allan merginn.
- 4 stig Stærri járnörður um allan merginn með tilhneigingu til að renna saman í klumpa.
- 5 stig Þéttir, stórir járnklumpar um allan merginn.
- 6 stig Mjög mikið af járnklumpum, innan og utan frumna, sem skyggja á mergfrumur.
Önnur mergstrok voru lituð með May-Grünwald-Giemsa lit.
Tölfræðiforritið SPSS (SPSS Inc., BNA) var notað við tölfræðiúrvinnslu. Tölfræðilegt marktæki var fundið með t prófi og miðað við p<0,05. Siðanefnd læknaráðs FSA og Tölvunefnd samþykktu þessa könnun.
Niðurstöður
Dreifing járnbirgða í merg samkvæmt stigun með smásjárskoðun á járnlituðum mergstrokum kemur fram á mynd 2. Ekkert járn sást í mergnum hjá 15 þátttakendum (17%) níu konum og sex körlum.
Í töflu II koma fram meðaltöl og staðalfrávik þeirra breyta sem skoðaðar voru í þessari könnun, annars vegar hjá sjúklingum án járns í merg (stig 0) og hins vegar hjá sjúklingum með járn í merg (stig 1 til 6) ásamt tölfræðilegu marktæki á mismun. Tölfræðilega marktækur munur (p<0,05) var á meðaltali allra breytanna.
Samræmi á milli stigunar járnbirgða í merg með smásjárskoðun annars vegar og hins vegar sTfR, sTfR-ferritín-vísis og ferritíns kemur fram á mynd um 3-5. Á mynd 3 sést að sTfR mældist marktækt hæst hjá þeim sem voru með járnlausan merg en minni munur var á meðaltali sTfR hjá þátt takendum með stig 1 til 5 af járnbirgðum. Mynd 4 sýnir að sTfR-ferritín-vísir var einnig marktækt hæstur hjá járnlausum þátttakendum og fór lækk- andi við hvert stig af vaxandi járnbirgðum. Á mynd 5 sést að ferritín var ívið hærra hjá járnlaus-um þátttakendum en þeim sem höfðu stig 1 af járnbirgðum en steig annars marktækt milli stiga með vaxandi járnbirgðum.
Tveir þátttakendur höfðu sTfR undir viðmiðunarmörkum prófefnasamstæðunnar sem notuð var (8,7-28,1 nmól/L samkvæmt upplýsingum framleiðanda). Annar þeirra var á frumueyðandi meðferð (cytostatica) og fækkun á rauðkornskímfrumum í merg kom fram við smásjárskoðun hjá hinum. sTfR var yfir viðmiðunarmörkum hjá 23 þátttakendum og 11 þeirra voru með járnlausan merg. Af hinum 12 voru sjö með aukningu á rauðkornskímfrumum í merg samkvæmt smásjárskoðun, þrír voru með eitilkrabbamein (lymphoma) og einn var á epóetínmeðferð. Engin nærtæk skýring fannst á hækkun á sTfR hjá einum þátttakanda sem mældist með sTfR 36,8 nmól/L. Fjórir járnlausir þátttakendur höfðu sTfR innan viðmiðunarmarka.
Af þeim þátttakendum sem reyndust járnlausir samkvæmt smásjárskoðun voru 13 af 14 (93%) rétt flokkaðir samkvæmt Tómasartöflu (einn járnlausan þátttakanda var ekki hægt að flokka vegna þess að niðurstöðu úr mælingu á CHr vantaði), 10 voru í flokki 3, þrír í flokki 2 og einn ranglega í flokki 1. Af þátttakendum með járn í merg flokkaði Tómasartafla 13 af 71 (18%) ranglega sem járnlausa, níu í flokk 3 og fjóra í flokk 2.
Í töflu III birtast næmi, sértæki, skilvirkni og mælikvarði Youdens fjögurra stakra blóðrannsókna, ferritíns, MCV, CHr og sTfR, og þriggja reiknaðra mælikvarða, sTfR-ferritín-vísis, mettunar járnbindigetu og Tómasartöflu, við greiningu járnleysis. Þær forsendur sem reyndust skilvirkastar í óskiptu þýði án tillits til bólgusvörunar voru notaðar við útreikningana. Í töflunni eru þátttakendur með annars vegar CRP <6 mg/L og hins vegar ≥6 mg/L skoðaðir sérstaklega til þess að meta áhrif bólgusvörunar.
Umræða
Á myndum 3-5 sést að sTfR-ferritín-vísir og sTfR greina allvel algert járnleysi en gefa ekki að öðru leyti miklar upplýsingar um magn af járnbirgðum á meðan ferritín er fyrst og fremst mælikvarði á magn af forðajárni en greinir síður á milli al-gers járnleysis og lægsta stigs af járnbirgðum. Forspárgildi ferritínmælinga um járnleysi takmark- ast einnig vegna þess að ferritín eykst í blóði við bólgusvörun og verður þá hærra en svarar til járnbirgða. Næmi ferritíns við greiningu járnskorts er þess vegna lítið þó að sértækið sé gott, 97% í þessari könnun ef miðað er við <20 µg/L. Mjög lágt ferritín bendir þannig eindregið til lítilla eða engra járnbirgða en eðlilegt eða hátt ferritín útilokar ekki járnleysi. CHr <23 pg er einnig mjög sértækur mælikvarði á járnleysi, 99%, og sTfR- ferritín-vísir >18 og Tómasartafla fylgir á eftir með 92% sértæki. Með því að nota aðrar forsendur mætti enn auka sértækið á kostnað næmis eða öfugt. Ef til dæmis væri miðað við forsendurnar S-Ferritín <12 μg/L, MCV <76 fL eða CHr <21 pg yrði sértæki þessara rannsókna 100% því að allir þátttakendur sem höfðu svo lágar niðurstöður reyndust járnlausir við smásjárskoðun. Næmið félli hins vegar undir 50%.
Skilvirkni rannsókna segir til um hve oft þær segja rétt til um það atriði sem þeim er ætlað að skera úr um, í þessari könnun járnhag. Skilvirkni þeirra rannsókna, sem hér er fjallað um, reyndist 76-91% hjá öllum þátttakendum án tillits til bólgusvörunar miðað við forsend-urnar í töflu III. Ferritín <20 μg/L og CHr <23 pg reyndust skilvirkustu einstöku rannsóknirnar. Af reiknuðum mælikvörðum var sTfR-ferritín-vísir skilvirkastur. Ferritín reyndist skilvirkari mæli- kvarði á járnskort en sTfR í þessari könnun. Í öðrum könnunum, þar sem þessar rannsóknir hafa verið bornar saman, hefur sTfR reynst betri en ferritín í sumum10, 16, 21-23 en ekki í öðrum,15, 17, 18 ef til vill vegna mismunandi þýðis.
Kannað var hvort bólgusvörun hefði áhrif á notagildi rannsóknanna með því að athuga næmi, sértæki og skilvirkni þeirra við greiningu járnskorts auk mælikvarða Youdens hjá þátttakendum með CRP annars vegar <6 mg/L og hins vegar ≥6 mg/L. Í töflu III sést að sértæki allra rannsóknanna var mjög gott, 90-100%, hjá þeim sem höfðu CRP <6 mg/L en ekki eins gott hjá hinum. Næmi og skilvirkni rannsóknanna voru hins vegar síðri og áhrif bólgusvörunar á þá þætti mismunandi eftir rannsóknum. Munur á næmi, sértæki, skilvirkni eða mælikvarða Youdens milli þeirra sem höfðu CRP <6 og ≥6 mg/L var þó sjaldan tölfræðilega marktækur eins og kemur fram í töflu III.
Mælikvarði Youdens (Youden index) segir til um notagildi rannsókna við greiningu sjúkdóms eða sjúklegs ástands.24 Hann hækkar með vaxandi notagildi og getur hæst orðið 1,00. Af þeim rannsóknum sem þessi könnun nær til reyndist Tómasartafla hafa mest notagildi samkvæmt mælikvarða Youdens, 0,75 í óskiptu þýði án tillits til CRP. Hún spáði fyrir um járnskort með 100% næmi hjá þátttakendum með CRP ≥6 mg/L og 100% sértæki hjá þeim sem voru með CRP <6 mg/L. Af því má álykta að óhætt sé að treysta niðurstöðum sem gefa til kynna járnskort hjá þeim sem hafa CRP <6 mg/L og sömuleiðis niðurstöðum sem benda ekki til járnskorts hjá þeim sem eru með CRP ≥6 mg/L þegar Tómasartafla er notuð. Tekið skal fram að enginn af þátttakendunum hafði merki um Miðjarðarhafsblóðleysi (thalassaemia) sem getur eins og járnskortur valdið blóðleysi með smáum rauðum blóðkornum. Næst að notagildi kom sTfR-ferritín-vísir sem reyndist aðeins síðri en Tómasartafla, bæði í óskiptu þýði og hjá þátttakendum með CRP ≥6 mg/L. Hjá þátttakendum sem höfðu CRP <6 mg/L var sTfR-ferritín-vísir hins vegar aðeins betri mælikvarði á járnskort en Tómasartafla samkvæmt mælikvarða Youdens.
Samkvæmt þessu gefur Tómasartafla haldbetri upplýsingar um járnhag en hinar rannsóknirnar. Hún byggist á því að mæla samtímis sTfR, ferritín, CHr og CRP, reikna sTfR-ferritín-vísi og skipta sjúklingunum í fjóra flokka eins og kemur fram á mynd 1.
Í flokki 1 er meirihluti sjúklinga með blóðleysi vegna bólgusvörunar (anemia of chronic disorder, anemia of infection) og einnig sjúklingar með blóðleysi af ýmsum öðrum orsökum, til dæmis sumir sjúklingar með krabbamein, nýrnabilun og innkirtlasjúkdóma.
Í flokki 2 eru þeir sem hafa engar eða hverf-andi litlar járnbirgðir en mynda enn eðlileg rauð blóðkorn, hvort sem þeir eru nýlega búnir að tapa járnbirgðum en hafa enn nægilegt járn til að mynda blóðrauða eða hafa járntekju sem dugar til myndunar blóðrauða en ekki til að byggja upp járnforða. Í flokk tvö lenda ennfremur sjúklingar sem hafa nægar járnbirgðir en aukna myndun rauðra blóðkorna, til dæmis vegna blæðingar eða blóðrofs, og líka konur í síðari hluta meðgöngu.
Í flokki 3 eru sjúklingar með dæmigert járnskortsblóðleysi.
Í flokki 4 eru sjúklingar með blóðleysi vegna ófullnægjandi framboðs af járni til rauðkornskímfrumna þó að járnbirgðir séu nægar. Það ástand hefur verið nefnt starfrænn járnskortur (functional iron deficiency) og stafar einkum af truflun á flutn ingi járns úr járnbirgðum til rauðkornskímfrumna. Sjúklingar í þessum flokki hafa oft gagn af járngjöfum, með eða án epóetíns. Honum tilheyra sumir sjúklingar með blóðleysi vegna bólgusvörunar eða nýrnabilunar og sumir sjúklingar sem fá lyfjameðferð gegn krabbameini. Miðjarðarhafsblóðleysi (thalassemia) tilheyrir einnig þessum flokki.
Mælt hefur verið með járngjöf hjá öllum sjúk lingum í flokki 3, hjá öðrum í flokki 2 en þunguðum konum, sjúklingum með fjölgun á netfrumum og sjúklingum með mergrangvaxtarheilkenni (myelodysplastic syndrome) og hjá þeim sjúklingum í flokki 4 sem fá epóetín til þess að bæta úr blóðleysinu.6-8 Árangur af járngjöf getur komið fram í því að CHr eykst og/eða að sTfR-ferritín-vísir lækkar þannig að hnit sjúklingsins hliðrast upp á við og/eða til vinstri á mynd 1, jafnvel á milli flokka og flytjast þá í flokk með hærra CHr eða lægri sTfR-ferritín-vísi. Ef hnit sjúklings sem fær epóetín hliðrast í gagnstæða átt getur það bent til þess að starfrænn járnskortur sé til staðar og þá gæti betri árangur fengist með því að auka járngjöf eða bæta henni við meðferðina.7, 8
Í vafatilvikum má hafa gagn af mælingu á CHr til að greina á milli blóðleysis af völdum járnskorts og blóðleysis af öðrum orsökum með því að gá hvernig CHr breytist við járngjöf.25 Þá er CHr mælt fyrir járngjöf og aftur nokkru síðar. Ef marktæk hækkun verður á CHr staðfestir það járnskort og gefur tilefni til frekari járngjafar. Þessa nálgun má ef til vill nýta sér við orsakagreiningu blóðleysis og byrja á því að mæla CHr. Ef niðurstaðan er <21 pg telst raunverulegur járnskortur staðfestur (ef sjúklingurinn er af erlendum uppruna þarf fyrst að útiloka Miðjarðarhafsblóðleysi). Sé niðurstaðan >28 pg virðist járnskortur ekki vera orsök blóðleysis.6-8 Ef CHr er 21-28 pg gæti Tómasartafla komið að gagni við að greina á milli starfræns og raunverulegs járnskorts. Einnig mætti gefa járn og mæla CHr aftur eftir til dæmis 2-4 daga eftir járngjöf í æð eða 1-2 vikur eftir járngjöf um munn. Ef CHr mælist þá eðlilegt eða að minnsta kosti 2 pg hærra en áður bendir það til járnskorts en greinir ekki á milli starfræns og raunverulegs járnskorts. Notagildi þessarar aðferðar þarf að sannreyna áður en hægt er að fullyrða hve mikið það er.
Nokkur atriði draga úr gildi þessarar könnunar. Þátttakendur voru tilltölulega fáir og vægi niðurstaðna þar af leiðandi minna en ella. Mat á járnbirgðum í merg með smásjárskoðun er háð skoðanda og æskilegt hefði verið að fleiri en einn hefði rannsakað mergstrokin með tilliti til járnbirgða. Ekki var í öllum tilvikum athugað hvort þátttakendur fengu járnmeðferð, sem getur skekkt þéttni ferritíns í sermi til hækkunar, eða krabbameinsmeðferð sem getur haft áhrif á sTfR og CHr. Það skal einnig haft í huga að ekki er enn til alþjóðlegur staðall fyrir mælingu á sTfR þannig að niðurstöður úr mælingum á sTfR með mismunandi aðferðum eru ekki alltaf sambærilegar. Þar að auki eru notaðar mismunandi einingar við mælingar á sTfR sem eykur enn á ósamræmið.
Samantekt
Hjá sjúklingum með bólgusvörun er oft erfitt að greina járnskort með blóðrannsóknum. Af þeim blóðrannsóknum sem fjallað er um í þessari könnun reyndust Tómasartafla og sTfR-ferritín-vísir vera áreiðanlegustu mælikvarðarnir á járnskort. Fyrrnefnda aðferðin skipar sjúklingum í fjóra flokka eftir járnhag og er sögð gagnleg við val á meðferð við blóðleysi og til þess að meta árangur af þeirri meðferð. Notkun þessara mælikvarða getur dregið úr þörf á því að taka mergsýni til þess að meta járnbirgðir.
Þakkir
Vísindasjóður læknaráðs FSA fær þakkir fyrir styrk til könnunarinnar. Guðlaug H. Ísaksdóttir, lífeindafræðingur, fær þakkir fyrir mælingar á sTfR.
Heimildir
1. Mattman A, Huntsman D, Lockitch G, et al. Transferrin receptor 2 (TfR2) and HFE mutational analysis in non-C282Y iron overload: identification of a novel TfR2 mutation. Blood 2002; 100: 1075-7.
2. Worwood M. Serum transferrin receptor assays and their application. Ann Clin Biochem 2002; 39: 221-30.
3. Punnonen K, Irjala K, Rajamäki A. Serum transferrin receptor and its ratio to serum ferritin in the diagnosis of iron deficiency. Blood 1997; 89: 1052-7.
4. Beguin Y. Soluble transferrin receptor for the evaluation of erythropoiesis and iron status. Clin Chim Acta 2003; 329: 9-22.
5. Feelders RA, Kuiper-Kramer EPA, van Eijk HG. Structure, function and clinical significance of transferrin receptors. Clin Chem Lab Med 1999; 37: 1-10.
6. Thomas C, Thomas L. Anemia of chronic disease: pathophysiology and laboratory diagnosis. Lab Hematol 2005; 11: 14-23.
7. Thomas C, Thomas L. Biochemical markers and hematologic indices in the diagnosis of functional iron deficiency. Clin Chem 2002; 48: 1066-76.
8. Thomas C, Kirschbaum A, Boehm D, Thomas L. The diagnostic plot: a concept for identifying different states of iron deficiency and monitoring the response to epoetin therapy. Med Oncol 2006; 23: 23-36.
9. Cook JD. Diagnosis and management of iron-deficiency anaemia. Best Pract Res Clin Haematol 2005; 18: 319-32.
10. Baillie FJ, Morrison AE, Fergus I. Soluble transferrin receptor: a discriminating assay for iron deficiency. Clin Lab Haematol 2003; 25: 353-7.
11. Das Gupta A, Abbi A. High serum transferrin receptor level in anemia of chronic disorder indicates coexistent iron deficiency. Am J Hematol 2003; 72: 158-61.
12. Juncà J, Fernández-Avilés F, Oriol A, et al. The usefulness of the serum transferrin receptor in detecting iron deficiency in the anemia of chronic disorders. Haematologica 1998; 83: 676-80.
13. Ervasti M, Kotisaari S, Romppanen J, Punnonen K. In patients who have stainable iron in the bone marrow an elevated plasma transferrin receptor value may reflect functional iron deficiency. Clin Lab Haematol 2004; 26: 205-9.
14. Means RT, Allen J, Sears DA, Schuster SJ. Serum soluble transferrin receptor and the prediction of marrow aspirate iron results in a heterogenous group of patients. Clin Lab Haematol 1999; 21: 161-7.
15. Joosten E, Van Loon R, Billen J, Blanckaert N, Fabri R, Pelemans W. Serum transferrin receptor in the evaluation of the iron status in elderly hospitalized patients with anemia. Am J Hematol 2002; 69: 1-6.
16. Hanif E, Ayyub M, Anwar M, Ali W, Bashir M. Evaluation of serum transferrin receptor concentration in diagnosis and differentiating iron deficiency anaemia from anaemia of chronic disorder. J Pak Med Assoc 2005; 55: 13-6.
17. Lee EJ, Oh EJ, Park YJ, Lee HK, Kim BK. Soluble transferrin receptor (sTfR), ferritin, and sTfR/log ferritin index in anemic patients with nonhematologic malignancy and chronic inflammation. Clin Chem 2002; 48: 1118-21.
18. Song JS, Park W, Bae SK, et al. The usefulness of serum transferrin receptor and ferritin for assessing anemia in rheumatoid arthritis: comparison with bone marrow iron study. Rheumatol Int 2001; 21: 24-9.
19. Dacie JV, Lewis SM. Practical Haematology, 6. útgáfa. Churchill Livingstone 1984.
20. Gale E, Torrance J, Bothwell T. The quantitative estimation of total iron stores in human bone marrow. J Clin Invest 1963; 42: 1076-82.
21. Marković M, Majkić-Singh N, Subota V. Usefulness of soluble transferrin receptor and ferritin in iron deficiency and chronic disease. Scand J Clin Lab Invest 2005; 65: 571-6.
22. Vernet M, Doyen C. Assessment of iron status with a new fully automated assay for transferrin receptor in human serum. Clin Chem Lab Med 2000; 38: 437-42.
23. O´Broin S, Kelleher B, Balfe A, Mc Mahon C. Evaluation of serum transferrin receptor assay in a centralized iron screening service. Clin Lab Haematol 2005; 27: 190-4.
24. Fluss R, Faraggi D, Reiser B. Estimation of the Youden Index and its associated cutoff point. Biom J 2005; 47: 458-72.
25. Fishbane S, Galgano C, Langley RC Jr, Canfield W, Maesaka JK. Reticulocyte hemoglobin content in the evaluation of iron status of hemodialysis patients. Kidney Int 1997; 52: 217-22.