01. tbl. 96. árg. 2010
Umræða og fréttir
Félag ungra lækna verður Félag almennra lækna
en hafa ekki lokið sérgreina-námi kandídata,” segir
Hjördís Þórey Þorgeirsdóttir formaður
Þann 6. nóvember síðastliðinn var aðalfundur Félags ungra lækna haldinn í Þjóðleikhús-kjallaranum. Á fundinum var samþykkt að breyta nafni félagsins í Félag almennra lækna, skammstafað FAL. Ástæðurnar fyrir nafn-breytingunni eru þær helstar að sögn formannsins Hjördísar Þóreyjar Þorgeirsdóttur, að mikilvægt sé að hnykkja á því að félagsmenn séu fullgildir læknar – kandídatar eru ekki með almennt lækningaleyfi. „Hvatinn var sá misskilningur að unglæknar væru ekki útskrifaðir og að félagið væri meira í ætt við ungliðahreyfingu en fullgilt stéttarfélag. Félagið gengst þó enn við gamla nafninu þar til nafnabreytingin hefur verið fest í sessi á aðalfundi Læknafélags Íslands.“
Hjördís Þórey segir að nafnbreytingin hafi verið orðin tímabær því margir félagsmanna í FUL geti tæplega talist unglæknar samkvæmt þeirri skilgreiningu sem lögð er í hugtakið. „Þetta er félag lækna sem hafa almennt lækningaleyfi en hafa ekki lokið sérgreinarnámi auk kandídata. Það hefur færst í vöxt að læknar stundi sérnám sitt hér heima og eru þá í félaginu í 5-6 ár, jafnvel lengur. Áður stöldruðu flestir stutt við í félaginu, kannski eitt til tvö ár áður en þeir héldu utan til framhaldsnáms. Einnig eru margir læknar starfandi með almennt lækningaleyfi án sérgreinar sem geta tæpast talist ungir en eiga þó heima í okkar félagi kjósi þeir það.“
Mótmæla harðlega Night-Float- vaktafyrirkomulagi
Að loknum almennum aðalfundarstörfum sendi fundurinn frá sér tvær ályktanir: Aðalfundur Félags almennra lækna lýsir yfir ánægju með að fjármögnun og bygging nýs Háskólasjúkrahúss hafi verið tryggð. Fundurinn álítur að sameinaður Landspítali spari fjármuni og tryggi öryggi sjúklinga mun betur en núverandi fyrirkomulag.
Aðalfundur Félags almennra lækna mótmælir harð-lega fyrirhuguðum breytingum á vaktafyrirkomulagi á Landspítala. Fyrirkomulagið, nefnt Night-Float, mun leiða af sér aukið vinnuálag, minnkaða starfsánægju, skerðingu á kjörum og aukna hættu á mistökum í starfi.
Hjördís segir þetta fyrirkomulag hreina afturför, það hafi verið við lýði á Landspítala til ársins 2005 en hafi þá verið lagt af. Hugmyndin með Night-Float vaktafyrirkomulagi er að skeyta saman næturvöktum þannig að tekin sé fleiri en ein vakt í röð. Við það eykst heildarvinnutími læknanna til muna, án þess að kaupaukning komi til. „Þetta stangast á við vinnutímatilskipanir ESB sem Ísland hefur gengist undir og er því lögbrot hvað varðar heildarvinnutíma lækna, en hann skal ekki vera meiri en 48 klukkustundir á viku að meðaltali. Nú þegar eru þessi lög brotin á fleiri sviðum. Þrjár útfærslur eru mögulegar með mislöngum vaktalotum. Hefur yfirstjórn spítalans reifað hugmyndir um sjö daga lotur sem hefði í för með sér gríðarmikla vinnu á skömmum tíma og ógnaði verulega öryggi sjúklinga og starfsfólks. Slíkt fyrirkomulag er heldur ekki í samræmi við lög um vinnutíma. Við höfum ennfremur reiknað út að þetta þýði 20% kjararýrnun fyrir almenna lækna og kandídata sem er ekki hægt að sætta sig við.
Í upphafi var þessum breytingum lýst sem faglegri framför því samfella í starfi deildarlækna yrði meiri. Á sameiginlegum fundi með umsjónardeildarlæknum hefur þó komið fram að skortur á samfellu sé einungis bundinn við tvö svið og á hvorugu þeirra sé fyrirkomulagið vel fallið til að bæta úr því. Jafnframt lögðu umsjónardeildarlæknar annars sviðsins fram tillögur að úrbótum, en þær hugmyndir voru slegnar af borðinu þar sem þær myndu ekki leiða til aukins vinnuframlags. Nú hefur yfirstjórn líka viðurkennt að þetta sé fyrst og fremst sparnaðarráðstöfun, enda veruleg rýrnun á launakjörum deildarlækna. Útreikningar okkar sýna hins vegar fram á að sparnaður spítalans í krónum talið verður í raun enginn, það er að segja ef lög um vinnutíma verða virt, því með því að nýta starfskrafta deildar- og aðstoðarlækna í auknum mæli í dagvinnu þarf meiri mannskap til að manna hverja vaktalínu. Þetta gæti þannig leitt til aukinnar mönnunarþarfar. Auk þess leiðir kerfið til þess að vaktaskipti lækna verða einum fleiri á hverjum sólarhring. Því fylgir aukinn kostnaður og hætta á mistökum, eins og sýnt hefur verið fram á með rannsóknum.
Við munum ekki sætta okkur við þetta og höfum bæði Vinnueftirlitið og Læknafélag Íslands með okkur í þessari baráttu. Það verður að sjálfsögðu ekki liðið að framin séu lögbrot á stéttinni.“
Stjórn FAL
Hjördís Þórey Þorgeirsdóttir formaður
Davíð Þór Þorsteinsson gjaldkeri
Árdís Björk Ármannsdóttir ritari
Meðstjórnendur:
Eyjólfur Þorkelsson,
Ingibjörg Kristjánsdóttir
Óli Hilmar Ólason
Sigrún Ásgeirsdóttir
Sigrún Hallgrímsdóttir
Unnur Guðjónsdóttir
Valentínus Þór Valdimarsson
Fulltrúar læknanema:
Dagur Ingi Jónsson
og Katrín Jónsdóttir