05. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Nýjung í læknadeild: Valnámskeið fyrir 6. árs nema

Tómas Guðbjartsson og Gunnhildur

Í byrjun næsta árs verður í fyrsta skipti boðið upp á valnámskeið fyrir 6. árs læknanema við læknadeild HÍ. Þetta er nýjung sem Tómas Guðbjartsson, sérfræðingur á hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala og aðjúnkt við læknadeildina hefur umsjón með í samvinnu við kennsluráð læknadeildar. Boðið er upp á svipuð námskeið við marga erlenda læknaskóla en við skipulagninguna hefur Tómas meðal annars tekið mið af reynslu læknadeilda háskólanna í Lundi í Svíþjóð og Harvard í Boston þar sem hann stundaði framhaldsnám og starfaði við kennslu.

"Það má segja að þetta valnámskeið sé eins konar lokahnykkur á því breytingaferli sem hefur verið í gangi á læknanáminu og árgangurinn sem útskrifast á næsta ári hefur rutt á undan sér." Tómas segir að breytingarnar hafi staðið lengi yfir. Þær hafa aðallega verið unnar af Kristjáni Erlendssyni kennslustjóra læknadeildar en einnig af kennsluráði og sérstakri valnámskeiðsnefnd sem í áttu sæti læknarnir Runólfur Pálsson og Engilbert Sigurðsson og læknanemarnir Davíð Þór Þorsteinsson og Þórarinn Ólafsson.

"Valnámskeiðið sem við erum að kynna núna er reyndar talsvert frábrugðið því sem gert hefur verið áður en er engu að síður hluti af breytingunum sem verið er að gera."

Leitað út fyrir ramma deildarinnar

Hann segir að valnámskeiðið sé í grunninn svipað og valnámskeið í rannsóknarvinnu sem 3. og 4. árs nemar hafa tekið en með 6. árs námskeiðinu sé verið að ganga skrefinu lengra. "emendurnir hafa ennþá meira um það að segja hvað þeir vilja gera og við bindum valið ekki við rannsóknir eingöngu. Meðal verkefna sem koma til greina á valnámskeiðinu eru göngudeildarvinna með lyf- og barnalæknum, hjartaþræðingar, dvöl á heilsugæslustöð, nýburadeild og mæðraskoðun. Einnig kemur til greina að fylgja skurðlæknum á stofu, geðlækni á göngudeild eða taka þátt í starfsemi ofvirkniteymis, kynnast hugrænni atferlismeðferð, taka þátt í heila- eða hjartaaðgerðum og stunda grunnrannsóknir. Loks kemur vel til greina að taka námskeið í siðfræði, heimspeki, sálarfræði, lögfræði, stærðfræði og líffræði svo að dæmi séu tekin. Fyrir þá sem hafa áhuga á vísindarannsóknum er tilvalið að nýta tímann til að kynna sér frekar aðferðafræði rannsókna og hvernig skrifa eigi vísindagreinar."

Tómas segir að valnámskeiðið veiti einnig möguleika fyrir nemendurna að komast að á rannsóknarstofum og sérhæfðum deildum sjúkrahúsa erlendis. "öguleikarnir í þeim efnum er fjölmargir en þar er mikilvægt að hafa tímann fyrir sér og því hvet ég nemendur til að kynna sér allt slíkt með góðum fyrirvara"

Gunnhildur Jóhannsdóttir skrifstofustjóri á skurðdeild Landspítala hefur unnið að undirbúningi námskeiðsins ásamt Tómasi. Hún segir að reynsla spítalans af móttöku erlendra læknanema á skurðdeildum sjúkrahússins sé góð en þar er einmitt oft um að ræða nema í sambærilegum valnámskeiðum við erlenda læknaskóla.

"Við búum því nú þegar að reynslu í móttöku erlendra læknanema á slíkum námskeiðum sem nýtist okkur beint við skipulagningu valnámskeiðsins fyrir íslensku læknanemana," segir Gunnhildur.

Kappsmál að lokka til sín sterka nemendur

Tómas segir einu skilyrðin sem sett eru fyrir samþykkt á vali á viðfangsefni séu að nemandinn geti sýnt fram á að námið á valtímabilinu nýtist þeim síðar í starfi sínu sem læknar. "Með þessu skapast mjög margir nýir möguleikar bæði fyrir læknanema og leiðbeinendur þeirra. Horft er út fyrir hina hefðbundnu ramma læknadeildarinnar og öllum starfandi sérfræðingum er gefið tækifæri til að koma með hugmyndir að verkefnum sem þeir geta hugsað sér að leiðbeina nemendunum með á námskeiðinu. Þarna opnast því fjölmörg tækifæri fyrir lækna og sérgreinar þeirra, bæði til kynningar sérgreininni og þeim rannsóknum sem henni tengjast. Það ætti að vera kappsmál lækna hverrar sérgreinar að lokka til sín sterka nemendur og vekja þannig áhuga á faginu."

Tómas segir mjög mikilvægt að starfandi læknar séu samstíga læknadeildinni í að virkja möguleikana sem felast í valnámskeiðinu. "Við höfum lagt mikla vinnu í að skipuleggja þetta sem best til að fyrirbyggja misskilning og hugsanlega árekstra."

Hann segir jafnframt að með hinu nýja námsfyrirkomulagi sé verið að fela nemendunum sjálfum ábyrgðina að talsverðu leyti á eigin námi. "Auðvitað verður agi að vera til staðar og eftirlit með því að nemendur sinni náminu. En þegar þeir hafa lokið kjarnanámi í svo langan tíma þá ættu að gefast möguleikar á vali sem fer eftir áhuga hvers og eins og þá jafnvel út fyrir múra deildarinnar. Það er mikil ábyrgð lögð á herðar mér og kennsluráði læknadeildarinnar að fylgja þessu vel eftir og tryggja að námskeiðið fari vel af stað. Nemandinn verður að leggja fram svokallaða verkáætlun fyrir ákveðinn tíma sem ég sem umsjónarmaður námskeiðsins tek afstöðu til og met hvort standist kröfur eða ekki. Nemandinn vinnur þessa verkáætlun í samstarfi við sinn leiðbeinanda og ég á ekki von á öðru en þetta gangi vel fyrir sig."

Læknanám sem stenst ítrustu gæðakröfur

Námskeiðið er síðasti hluti hins formlega sex ára læknanáms og tekur yfir fjóra mánuði en síðasti mánuðurinn er ætlaður til undirbúnings fyrir USMLE læknanemaprófið sem er lokapróf þeirra. Prófið verður haldið um miðjan maí 2007. "Kjarni valnámskeiðsins er því þrír mánuðir sem nemendur geta ráðstafað að töluverðu leyti sjálfir. Það er t.d. gert ráð fyrir góðum tíma til lesturs bóka og vísindagreina sem tengjast því viðfagnsefni sem neminn hefur valið sér. Valnámskeið er því ekki hugsað sem bein viðbót við hefðbundið klínískt nám á spítala eða heilsugæslustöð eins og tíðkast hjá yngri árgöngum."

Tómas segir að læknanám sé í eðli sínu frekar íhaldsamt, enda byggt á gömlum gildum sem full ástæða sé til að halda í heiðri. "Læknadeildin hefur hinsvegar sýnt að þar er fullur hugur á því að bjóða nám sem er í senn nútímalegt og í hæsta gæðaflokki. Með þessum breytingum er verið að fylgja þeim straumum sem verið hafa ríkjandi í fremstu læknadeildum háskólanna í kringum okkur og við gjarnan tekið mið af. Ég myndi því segja að við séum að bjóða upp á mjög nútímalegt læknanám sem stenst ítrustu gæðakröfur."

Nánari upplýsingar og eyðublöð um valnámskeið sjötta árs má finna á heimasíðu læknadeildar www.hi.is

Tómas Guðbjartsson hjarta- og æðaskurðlæknir og aðjúnkt við læknadeild og Gunnhildur Jóhannsdóttir skrifstofustjóri á skurðdeild Landspítala.

Harvard Medicalschool í Boston.Þetta vefsvæði byggir á Eplica