12. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Um fyrstu íslensku konurnar í læknastétt

III. Sigríður Geirsdóttir Kristjánsson/Sigga Christiansson Houston, MD Winnipeg 1925. Fyrsti íslenski kvenlæknirinn í Kanada og fimmta íslenska kona í læknastétt

Uppruni

Sigríður, eða Sigga, eins og hún alltaf var kölluð, var fædd 28. júní 1893 í Kanada. Foreldrar henn­ar voru Geir Kristjánsson frá Hafnarfirði, fædd­ur 23. maí 1860, og kona hans Sesselja Rakel Sveins­dóttir frá Starrastöðum í Skagafirði, fædd 12. ágúst 1857.

Geir hafði starfað sem farandverkamaður og smiður á Íslandi og kynntist Sesselju í foreldrahúsum á Starrastöðum, 15 km sunnan við Varmahlíð. Honum leist vel á hana og fór þangað aftur ári síðar til að hitta hana og frétti að hún væri flutt til Vesturheims. Hann seldi þá allt sem hann átti og dreif sig þegar á eftir henni, og átti 25 cent eftir af ferðasjóðnum við komuna til Winnipeg. Honum var vel tekið meðal landa sinna og fann fljótt Sesselju sem vann sem þerna á Hótel Pembina við Rauðá sunnan borgarinnar. Þau giftust, settust að í Grand Forks og eignuðust son 1892, og síðan þrjár dætur 1893-8 og var Sigga elst þeirra. Geir hafði nóga vinnu á sumrin, en litla vinnu og stopula á veturna þegar smíðar lágu niðri. Tímakaupið var 25 cent á tímann og dugði ekki til framfærslu fjölskyldunnar. Þau fluttu því til Saskatchewan og fengu land og hófu búskap. Búskapurinn var erfiður, rækta þurfti landið og byggja allan húsakost. Jörðin þarna er ekki frjósöm, sækja þurfti drykkjarvatn 5 mílur og við til smíða 12 mílur. Geir kunni ekki mikið til verka í búskap en fékk fljótt verkefni við smíðar, meðal annars að byggja skólann fyrir byggðina.

Námsferill

Sigga var ekki sátt við dvölina í sveitinni því þarna var enginn skóli fyrstu tvö árin, en síðar komst hún í skóla og lauk 7.-8. bekk í Nýja Fjallaskólanum. En hún vildi læra meira. Grannkona útvegaði henni vinnu við að sjá um máltíðir fyrir starfsfólk The Bardal Funeral Parlour í Winnipeg, en þar eru miklir vetrarkuldar og hún þurfti að eignast vetrarkápu sem kostaði 10 dali til að geta farið þang­að til að ljúka 9. bekk og engir peningar voru til heima. Móðurbróðir hennar Gísli sem var búsettur í Gimli frétti af þessu vandamáli og sendi henni 10 dali og hún fór til Winnipeg. Hún vann þar með námi, lauk high school og fór síðan á Kennaraskóla (Neutral school eða Teachers collage) í Saskatoon og lauk námi 1914. Hún kenndi síðan í þrjú fjögur ár í sveitahéruðum nálægt Wynyard og Bruno og lagði nánast öll launin sín fyrir og safnaði þannig peningum til að kosta sig til frekara náms.

Sigga komst í nám í læknisfræði í University of Manitoba í Winnipeg og bjó hjá Jónasi Thorvardsson, á 768 Viktor Street sem var nálægt skólanum. Hún var fyrst eitt ár í pre-med námi og var í hópi 13 kvenna þar sem tókst að komast áfram. Tíu af þeim útskrifuðust saman ásamt 45 piltum og það hlutfall kvenna varð ekki slegið fyrr en 45 árum síðar. Á hverju vori þegar skóla lauk fór hún heim með the Great West Express og kenndi í sveitinni sinni fram á haust til að afla fjár til að sjá fyrir sér og tókst að koma mörgum nemenda sinna í gegnum árs grunnskólanám á fimm mánuðum sem þótti mjög gott. Sumarið 1924 vann hún um fimm mánaða skeið á Qu'Appaelle heilsuhælinu undir stjórn dr. RG Ferguson, og skrifaði þar merka grein: The Weyburn Survey of the Health of Children and the Revalence of Tuberculosis sem aflaði henni styrks til að kosta sig síðasta náms­árið og var vinna hennar þarna metin sem hluti af kandídatsári. Á námsárum sínum kynntist hún öllum helstu íslensku læknunum í Winnipeg sem margir voru kennarar hennar. Hún útskrifaðist sem læknir sumarið 1925 frá Manitobaháskóla í Winnipeg.

Fjölskylda

Sigga kynntist skólabróður sínum Clarence J. Houston lækni sem var sjö árum yngri en hún og var í læknaskólanum ári á eftir henni. Hann var myndarlegur, rauðhærður sveitadrengur. Þau felldu hugi saman, en aldursmunurinn stóð í henni svo að hún fór í burtu eitt ár til að láta reyna á sambandið. Hún starfaði þá á berklahæli í Forth Wayne í Indiana þar sem laryngsberklar voru meðhöndlaðir með því að spegla sólarljósi niður í kokið. Að ári liðnu og eftir miklar bréfaskriftir hittust þau Sigga og CJ í Grand Forks í desember 1927. Þá uppgötvaði hún að hann var illa haldinn af opinni ígerð á hálsi, submandibular abcess, sem var fylgikvilli við króníska Ludwigs angina, og þurfi á umönnun hennar að halda og ákvað hún þá að taka bónorði hans og giftast honum umsvifalaust. En þau gátu ekki fengið giftingarleyfi fyrr en eftir langa bið vegna veikinda hans og ekki heldur vegna þess að ekki þótti við hæfi að kona giftist sér svo mikið yngri manni og gátu þau því ekki gifst í Kanada. Þau fóru þá yfir Rauðána til Crookston í Minnesota. Þar Sigga gaf upp rangan fæðingardag og yngdi sig um sjö ár, en þeim var enn hafn­að um leyfi, vegna veikinda hans. Þau spurðu þá hvort það breytti ekki málinu að þau væru bæði Kanadamenn og þá sá réttarritarinn enga ástæðu til að verja par frá öðru landi fyrir smiti og sjúkdómum, gaf út leyfið og þau giftu sig þar 3. des­ember 1926. Þau fluttu síðan til Watford City í N-Dakota þar sem CJ var með stofu, og störfuðu þar í 13 mánuði og eignuðust einkason sinn, Clarence Stuart Houston, f. 26. september 1927.

Stuart var vel gefinn drengur og stundaði nám sitt vel. Hann lærði til læknis í háskólanum í Manitoba eins og foreldrar hans og starfaði á lækningastofu þeirra 1951-55, fór síðan í framhaldsnám í lyflækningum og barnalækningum og kom aftur og starfaði með þeim 1956-60. Þá flutti hann til Saskatoon, fór í nám í geislafræði, og síðar áfram á Barnaspítala Harward þar sem hann hann hlaut eftirsóttan námsstyrk kenndan við Georg von L. Mayer. Hann starfaði síðan í 32 ár á röntgendeild háskólasjúkrahússins í Saskatchewan, varð brátt pró­fessor og síðan forstöðulæknir, 1982-1987. Hann er eini læknirinn sem hefur verið valinn heið­urs­for­seti samtaka læknastúdenta háskólans í Saskatchewan þrisvar sinnum, skólaárin 1973-4, 1987-8, 1994-5. Hann skrifaði mikinn fjölda greina og bóka um fag sitt og var mjög virkur félagslega og hlaut fjölda viðurkenninga. Hann skrifaði einn­ig gríðarlega mikið um fuglafræði sem var áhugamál hans.

Hann giftist Mary Isabel Belcher og þau eignuðust fjögur börn, þrjú þeirra eru læknar og starfa öll í viðurkenndum háskólum, á Mayo Clinic, Rochester, Minnisota, í háskólanum í Alberta og í háskólanum í Manitoba.

Starfsferill

Sigga og CJ fluttu til Yorkton í Saskatchewan í ársbyrjun 1928 og opnuðu saman lækningastofu, í næsta nágrenni heimilis síns. Hún sinnti móttöku á stofunni og var mest í barna- og kvenlækningum. Hún varð mjög vinsæll læknir og sóttu sjúklingar til hennar um langan veg. Einkum var hún fræg fyrir að aðstoða mæður með börn sem þrifust illa og bjó til sérstaka uppskrift að næringardrykk handa þeim sem dugði vel. Hún sá líka um bókhaldið fyrir stofuna, en reikningar vegna vinnu voru bara sendir út einu sinni á ári við lok uppsker­unnar. Hún hafði því mikið að gera. En hún gaf sér einn­ig tíma til að sinna syni sínum og uppeldi hans vel. Hún skipti vinnudegi sínum, fór heim um miðjan daginn og gaf drengn­um að borða er hann kom úr skólanum og fór síðan aftur til vinnu í tvær klukkustundir. Maður hennar sinnti meira skurðlækningum, sá um vitjanir og fór á sjúkrahúsin. Þau ráku lækningastofuna í 50 ár, eða til 1975, og fóru þá á eftirlaun, hún 82 ára gömul og hann 75.

Sigga gaf upp sama aldur og á giftingarvottorðinu á öllum opinberum plöggum meðan hún var í starfi, þar á meðal lækningaleyfinu og viðurkenndi ekki réttan aldur, ekki einu sinni fyrir afkomendum sínum, fyrr en á 90 ára afmælinu sínu. Hún skilaði starfsævi í samræmi við uppgefinn aldur og beið með töku eftirlauna. Hún varð meira en 100 ára og var um tíma langelsti læknirinn í Saskatchewan í Kanada.

Heimildir

Greinin styðst við greinina "A pioneer woman doctor, Sigga Christiansson Houston", í Manitoba Medicine, 63, 2. júní 1993 eftir son hennar, C. Stuart Houston.

Fyrstu íslensku konurnar í læknastétt frá HÍ

1. Kristín Ólafsdóttir, f. 21.11.1889, Cand. med. 1917

2. Katrín Thoroddsen, f. 07.07.1896, Cand. med. 1921

3. María Hallgrímsdóttir, f. 21.08.1905, Cand. med. 1931

4. Gerður Bjarnhéðinsson, 27.10.1906, Cand. med. 1932

5. Jóhanna Guðmundsdóttir/Guðmundsson, f. 05.08.1898, Cand. med.

1933 (Lita Sigurðsson, f. 09.11.1907, Cand. med. Khöfn 1933.

Starfaði á Íslandi).

6. Sigrún Briem, f. 22.02.1911, Cand. med. 1940

7. Ragnheiður Guðmundsdóttir f. 20.08.1915, Cand. med. 1945

8. Hulda Sveinsson, f. 06.01.20, Cand. med. 1948

9. Kristjana P. Helgadóttir, 05.08.21, Cand. med. 1948

10. Inga Björnsdóttir, f. 24. 06.1922, Cand. med. 1949

11. Þorbjörg Magnúsdóttir, f. 12.10.1921, Cand. med. 1949

12. Lilja Petersen, f. 19.11.1922, Cand. med. 1949

13. Ragnhildur Ingibergsdóttir, f. 15.04.1923, Cand. med. 1950

14. Alma Þórarinsson, f. 12.08.1922, Cand. med. 1951

15. Kristín E. Jónsdóttir, f. 28.01.1927, Cand. med. 1953

16. Guðrún Jónsdóttir, f. 06.10.1926, Cand. med. 1955

17. Margrét Guðnadóttir, f. 07.07.1929, Cand. med. 1956

18. Ása Guðjónsdóttir, f. 05.02.1928, Cand. med. 1957

19. Bergþóra Sigurðardóttir, f. 13.10.1931, Cand. med. 1958

20. Hólmfríður Magnúsdóttir, f. 17.01.1931, Cand. med. 1958

21. Þórey Sigurjónsdóttir, f. 21.05.1930, Cand. med. 1959

Þar sem Sigga var fædd í Kanada og hvorki lærði né starfaði á Íslandi er hún ekki talin meðal íslenska lækna erlendis í bókinni Læknar á Íslandi frá 1970.

2 konur luku læknaprófi frá HÍ 1917-1929

3 konur luku læknaprófi frá HÍ 1930-1939

7 konur luku læknaprófi frá HÍ 1940-1949

9 konur luku læknaprófi frá HÍ 1951-1959

Kynskipting íslenskra lækna

samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu læknafélaganna 23. júní 2005

Allir íslenskir læknar 1702 þar af konur 449, eða 26%.

Læknar starfandi á Íslandi 1207 þar af konur 293, eða 24%.

Íslenskir læknar erlendis 495 þar af konur 156, eða 32%.

Kandídatar 2005 43 þar af konur 20, eða 46%.

Margrét Georgsdóttir

Dr. Sigga Houston. Myndin er tekin á Fort Wayne í Indiana, líklega árið 1926.

Þessi mynd var tekin árið 1987 þegar Sigga var 96 ára gömul en hún dó sex árum síðar, 102 ára að aldri.Þetta vefsvæði byggir á Eplica