12. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Málefnaleg umræða um lyfjamál óskast

Í norska Læknablaðinu birtist fyrir skömmu athyglisverð grein um þá bjöguðu mynd sem birtist af lyfjaiðnaðinum í norskum fjölmiðlum (1). Höfundurinn er raunar ráðgjafi sem hefur unnið mikið fyrir lyfjaiðnaðinn en málflutningur hans er þess eðlis að hann á fullt erindi við íslenska lesendur. Kenning hans er sú að fréttaflutningur fjölmiðla af málefnum lyfjaiðnaðarins sé svo lélegur að hann hamli gegn eðlilegri upplýsingu og fræðslu almennings um þennan mikilvæga þátt í þjóðlífinu.

Í upphafi slær höfundur því föstu að framfarir í lyfjaframleiðslu hafi haft veruleg jákvæð áhrif á þróun samfélagsins og tekur sem dæmi getnaðarvarnapilluna sem hafi gert konum kleift að skipuleggja barneignir sínar. Þar með hafi þær getað aukið þátttöku sína í atvinnulífinu og öðlast aukið efnahagslegt sjálfstæði.

Á hinn bóginn eru syndir lyfjaiðnaðarins líka legíó. Talídómíð-hneykslið á sjöunda áratug síðustu aldar og viðbrögð lyfjafyrirtækjanna við því hafi gert almenning tortryggan í garð iðnaðarins og sú tortryggni hafi síðan fengið næga næringu í fréttum af undanbrögðum fyrirtækjanna gagnvart aukaverkunum lyfja, tilraunum til að þegja yfir neikvæðum rannsóknarniðurstöðum og ósvífnum aðferðum við markaðssetningu lyfja.

Reynsla hans er hins vegar sú að fjölmiðlar megni ekki að veita almenningi réttar upplýsingar um jákvæðar og neikvæðar hliðar lyfjaframleiðsl­unnar. Hann tekur dæmi sem sýna vel hversu erfitt blaðamenn eiga með að greina sauðina frá höfrunum í þessu efnum. Í einu tilviki blésu fjölmiðlar upp fréttir af nýju lyfi gegn brjóstakrabbameini sem að því er virtist nálgaðist það að vera endanleg lausn á þeim sjúkdómi. Með því vöktu þeir upp falsvonir hjá sjúklingum og aðstandendum. Í öðru tilviki var lyfjafyrirtæki að kynna getnaðarvörn fyrir konur sem byggðist á hormónagjöf. Þar var skýrt tekið fram að lyfinu fylgdu ýmsar aukaverkanir og þá brást fréttamaður sjónvarps við með því að hætta við að segja frétt af lyfinu, hún vildi bíða þar til búið væri að vinna bug á þessum auka­verkunum.

Próteasar og kjóll Viktoríu

Þriðja dæmið sem höfundur nefnir þekkir hann af eigin raun því hann tók þátt í að kynna lyf sem nýtist við beinmergsskipti. Það tengdist Nóbelsverðlaunum í efnafræði á þann hátt að árið 2004 fékk þau hópur vísindamanna sem uppgötvaði á níunda áratugnum hvernig frumur merkja þau prótein sem á að eyða til þess að greina þau frá þeim próteinum sem fruman hyggst nota áfram. Merktu próteinin eru því næst send í svonefndan próteasa sem er einskonar sorpkvörn frumunnar. Þessi þekking var síðan notuð til að þróa lyf sem nefnast próteasahamlar og svo vildi til að fyrsta lyf þeirrar tegundar kom á markað um líkt leyti og vísindamennirnir fengu Nóbelinn.

Greinarhöfundur taldi tilvalið að nota þetta til að vekja athygli á lyfinu Velcade. Hann hafði samband við fólk úr rannsóknar- og meðferðarhópi í Osló sem er í fararbroddi í norskum rannsóknum á krabbameini í beinmerg. Þeim leist vel á lyfið og úr varð að einhverjir úr hópnum lýstu sig reiðubúna að ræða um mikilvægi þess við blaðamenn. Engir peningar komu við sögu í þessum samskiptum og greinarhöfundur segir að það hafi einungis vakað fyrir vísindamönnunum og framleiðendum lyfsins að útskýra fyrir almenningi hvernig grunnrannsóknir í efnafræði leiða til hagnýtrar þekkingar sem hægt er að beita í læknisfræði. Að sjálfsögðu myndi þetta gagnast framleiðanda lyfsins og þau tengsl var ekki reynt að fela.

Þessari aðferð var einnig beitt í Svíþjóð þar sem afhending verðlaunanna fór fram. Þar tóku fjölmiðlar málið upp og það hlaut töluverða athygli í dagblöðum og sjónvarpi í tengslum við Nóbelshátíðina. Gerðar voru teikningar sem sýndu verkun lyfsins og rætt við sérfræðinga sem lýstu mikilvægi þessarar nýju meðferðar.

Í Noregi var að sjálfsögðu sagt frá hátíðinni en einungis einn fjölmiðill, fréttastofan NTB, sagði frá lyfinu og tengslum þess við verðlaunahafana. Hins vegar lýsti síðdegisblaðið VG fjálglega bláum kjól sem Viktoría prinsessa íklæddist við athöfnina.

Ótti við raunvísindi

Greinarhöfundur segir að vissulega beri blaða­mönnum að vera gagnrýnir á þær fréttir sem komi frá lyfjaiðnaðinum. Þær eru oftar en ekki liður í markaðssetningu og fyrirtækin hafa því beinan hag af því að koma þeim á framfæri. En blaðamenn verða að spyrja sig þeirrar spurningar hvort fréttin hafi almennt gildi, jafnvel þótt markaðsgildið sé augljóst.

Hann bendir á að á öðrum sviðum þar sem jákvæðar tækniframfarir hafi augljós áhrif á daglegt líf almennings séu blaðamenn miklu jákvæðari í garð framleiðenda, svo sem þegar bílar eða rafmagnstæki eiga í hlut. Hann er þó ekki að fara fram á að sú ógagnrýna blaðamennska sem oftar en ekki einkennir umfjöllun um áðurnefnd neyslugæði sé yfirfærð á lyfjaiðnaðinn. Þvert á móti vill hann að blaðamenn fjalli um lyfjaframleiðslu af þekkingu og innsæi og beiti sinni gagnrýnu hugsun.

Hann veltir því hins vegar fyrir sér hvers vegna fjölmiðlar kjósi svo oft að þegja frekar en að fjalla um lyfjamál. Fyrir því sér hann ýmsar ástæður. Ein gæti verið hin hefðbundna mótsögn milli guðs og Mammons, að blaðamenn láti stjórnast af þeirri fornu hugsun að heilsufari, kvölum og dauða megi ekki blanda saman við viðskipti.

Önnur ástæða gæti verið sú gjá sem oft er kvartað yfir að sé milli mannvísinda og raunvísinda. Raunvísindamenn kvarta oft yfir því skeytingarleysi sem þeir mæta þegar þeir vilja vekja athygli á uppgötvunum sínum. Þeir halda því jafnvel fram að blaðamenn sem flestir eru menntaðir á sviði mann- eða félagsvísinda hafi annað veruleikaskyn en raunvísindamenn, lifi í öðrum heimi. Höfundur segir að þegar litið sé á efni fjölmiðla blasi það við að fréttir úr menningu og félagsvísindum eigi miklu greiðari leið inn í fjölmiðla en fréttir úr heimi raunvísinda.

Lokaorð höfundar eru þessi:

"Það er full ástæða til þess að spyrja hvort það sem lítur út fyrir að vera viðeigandi gagnrýn afstaða til lyfjaiðnaðarins sé ekki æði oft yfirvarp yfir óöryggi og ótta blaðamanna við að afla sér þekkingar á sviði sem þeim finnst vera framandi og erfitt. Þetta væri í sjálfu sér ekki til þess að hafa áhyggjur af ef þessi ótti væri einkamál blaðamanna en það er hann ekki. Blaðamenn viðhalda óttanum og þekkingarleysinu í nafni lesenda sinna og þar með alls samfélagsins."

Þröstur Haraldsson endursagði

Heimild

1. Hannisdal K. Demoniseringen av legemiddelindustrien for­dummer. Tidsskr Nor Lægeforen 2005; 125: 2662-3.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica