12. tbl. 91. árg. 2005

Íðorð 182. Blóðrekshjal

Embolisation

Eyþór H. Björnsson, lungnalæknir, hringdi og bað um íslenska þýðingu á fræðiheitinu embolisation. Það kemur ekki fyrir sem sérstök fletta í Íðorðasafni lækna, en nokkur skyld heiti er þar þó að finna. Eyþór var að leita að almennu heiti á aðgerð sem lokar lungnaæð með því að í henni er komið fyrir sérhönnuðum tappa. Eftir stutta umræðu kom okkur saman um að nota mætti heitið æða(r)stíflun. Þetta verkefni varð síðan tilefni þess að farið var yfir ýmis heiti af sama stofni. Skoðaðar voru fleiri heimildir en hægt er að tilgreina í stuttum pistli.

Embolism

Enska heitið er stytting á latneska fræðiheitinu embolismus, sem aftur er komið úr grísku. Bolos (L. bolus) getur verið hnaus, köggull, kökkur, moli og bole er kast eða varp. Þessi nafnorð eru sögð dregin af grísku sögninni ballein, að kasta eða varpa. Forskeytið em- (í sumum samsetningum en-) merkir inn eða inní. Síðasti hluti orðsins er viðskeytið -ism, sem er oft notað til að mynda nafnorð sem gefa til kynna ástand eða verknað. Bein orðhlutaþýðing á grísk-latneska heitinu embolismus gæti því verið innkast, innskot eða innvarp. Nefna má að til er fræðiheitið embololalia, sem notað er um það fyrirbæri að menn skjóti marklausum eða óskiljanlegum orðum inn í tal sitt. Þar gæti heitið innskotstal átt vel við.

Blóðrek, blóðreki

Í læknisfræði er heitið embolism notað um feril eða atburðarás sem endar með stíflumyndun í æð (einni eða fleirum) af völdum massa sem borist hefur með blóðrás. Oftast kemur hann úr blóðstorkumassa, blóðsega, en flest efni og agnir, sem borist geta sem massi í blóðrásinni, geta tekið þátt í slíku ferli. Nefna má bæði líkamsefni, svo sem beinmerg, bone marrow embolism, fituvef, fat embolism, legvatn, amniotic fluid embolism, og æxlisfrumur, tumor embolism, og utanaðkomandi efni, svo sem bakteríumassa, bacterial embolism, loftbólur, air embolism, og manngerðar agnir úr gleri, málmi eða plasti.

Samkvæmt Íslenskri orðabók Eddu hefur nafnorðið rek nokkrar merkingar. Meðal þeirra eru: 1 það að reka, hefjast fyrir vindi og straumi; 2 það sem rekur, flýtur með straumi. Merking nafnorðsins reki er tilgreind á svipaðan hátt, meðal annars: 1 hlutir sem rekið hefur á land, einkum trjáviður.

Við þýðingu sjúkdómaflokkunarkerfisins ICD-10 tók Orðanefnd læknafélaganna þá ákvörðun að taka þessi tvö orð inn í Íðorðasafn lækna til að aðgreina fyrirbærin embolism og embolus. Ofangreind stíflumyndun, embolism, verði þannig táknuð með íslenska heitinu blóðrek, en það sem berst með blóðrásinni, embolus, verði táknað með heitinu blóðreki. Í réttu samhengi má stytta samsettu heitin og nefna fyrrgreind fyrirbæri beinmergsreka, fitureka, æxlisreka og loftreka.

Blóðrekanám

Nefndin lagði ekki til atlögu við önnur heiti en þau sem koma fyrir í ICD-10. Þannig varð til dæmis embolectomy útundan í umfjölluninni á þessum tíma. Það heiti er notað um aðgerð, oftast skurðaðgerð, sem felur í sér brottnám blóðreka, embolus, úr æð. Íslenska heitið ætti nú að breytast úr blóðreks­nám í blóðrekanám. Þeir sem ekki fella sig við að nota nafnorðið nám um -ectomy geta notað heitið -taka, samanber botnlangataka og sýnistaka.

Blóðrekameðferð

Í erlendum læknisfræðiorðabókum má að auki finna heitin embolotherapy og therapeutic embolisation. Ekki virðist teljandi munur á hugtökunum sem að baki þeim liggja. Meðferðin beinist að því að loka fyrir blóðrás með því að sprauta inn í æð örsmáum vefjaögnum eða aðskotahlutum úr plastefni, málmi eða gleri, sem berast síðan með blóðstraumi á réttan stað og stífla þar minni æðar. Henni hefur verið beitt til að stöðva blæðingar, loka æðagúlum og til að koma af stað blóðþurrð og vefjadrepi í æxlum. Þetta finnst undirrituðum rétt að nefna blóðrekameðferð. Sé stífluefnið ekki látið reka með blóðrás, heldur sett sem tappi beint á þann stað sem stífla á, er nær að aðferðin fái hið almenna heiti æða(r)stíflun eða stíflunarmeðferð. Gaman væri að fá fréttir af öðrum hugmyndum eða tillögum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica