11. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Málþing á aðalfundi LÍ

Ævistarf Arnar Bjarnasonar krufið til mergjar

Sú hefð hefur skapast á aðalfundum Læknafélags Íslands að auk aðalfundarstarfa er eitthvert tiltekið umræðuefni tekið fyrir og því gerð ítarleg skil á sérstöku málþingi á laugardagsmorgni. Að þessu sinni fjallaði málþingið um líf og störf Arnar Bjarnasonar læknis sem lét af störfum sem læknir fyrir skömmu þótt hann sé fjarri því sestur í helgan stein.

Tómas Zoëga var fyrsti frummælandi á málþinginu en á eftir honum talaði Guðmundur Þorgeirsson. Þessir tveir ræddu um þá hliðina á Erni snýr að siðfræði og skrifum um læknisfræði. Aðrir frummælendur voru Kristinn Tómasson sem ræddi um trúnaðarlækninn Örn og John R. Williams forystumaður Alþjóðafélags lækna en hann fjallaði um tvískipta ábyrgð lækna. Hér á eftir verður stiklað á stóru í erindum tveggja þeirra fyrstnefndu.

Sá að sér í tíma ...

Tómas rakti lífshlaup Arnar allar götur frá því hann kom í heiminn vestur á Ísafirði árið 1934. Eftir stúdentspróf hóf hann nám í lögfræði ?en sá að sér í tíma? og skipti yfir í læknisfræði. Hann stundaði framhaldsnám í heimilis- og embættislækningum hér á landi og í Bretlandi og starfaði að því loknu í Vestmannaeyjum fram yfir gos.

Eftir að heilbrigðisráðuneytið hætti að vera skúffa í dómsmálaráðuneytinu starfaði Örn þar um nokkurra ára skeið. Hann var forstjóri Holl­ustu­verndar ríkisins, trúnaðarlæknir Ríkis­end­ur­skoð­­unar og starfaði á skrifstofu Ríkisspítalanna síð­ustu starfsárin. Samhliða þessu kenndi hann lækna­nemum siðfræði og framhaldsnemum heimil­is­lækn­ingar.

Ritstörf og félagsstörf hafa alltaf verið stór hluti af lífi Arnar Bjarnasonar og þetta tvennt sameinaði hann sem ritstjóri Læknablaðsins um miðjan áttunda áratug síðustu aldar. Skömmu síðar varð hann formaður Íðorðanefndar læknafélaganna og lagði fram drjúgan skerf til Íðorðasafns lækna sem kom út á árunum 1985-1989. Hann var einnig virkur í erlendu samstarfi, ritstjóri Nordisk medicin, stjórnarmaður í Norræna heilsuháskólanum og átti sæti í samstarfsnefnd Evrópuráðsins um lífsiðfræði um árabil. Þar var hann formaður nefndar um líffæraflutninga og beitti sér fyrir gerð sérstaks sáttmála um þá.

Þýðingar og útgáfustarf Arnar er umfangsmikið. Hann hefur þýtt kennslubækur um rökvísi og heimspeki læknisfræðinnar og fjöldann allan af yfirlýsingum, reglugerðum og tilskipunum um siðfræði og læknisfræði. Þá eru ótaldar nafnaskrár læknisfræðinnar en þar er mesta stórvirkið án efa ICD-10 sem hefur að geyma íslenskun á sjúkdóma­flokkum sérgreina læknisfræðinnar.

? Og nú er hann geymdur í kjallara Þjóðar­bók­hlöðunnar þar sem sem hann situr á safni Jóns Steffensen og fleiri góðra manna frá kl. 8 til 18 dag hvern og það þótt engin sé þar stimpilklukkan. Hann þýðir og skrifar um læknisfræði miðalda og undirbýr útgáfu á lækningaritum frá þeim tíma, sagði Tómas Zoëga um leið og hann þakkaði Erni fyrir samstarf á ýmsum sviðum.

Frjó umræða um íslenska læknisfræði

Guðmundur Þorgeirsson nefndi erindi sitt Orð­ræða um læknisfræði á íslensku og sagði í upphafi að Guðmundur Hannesson hefði verið mikilvægur áhrifavaldur og jafnvel fyrirmynd Arnar Bjarnasonar sem ritstjóra Læknablaðsins og í öðrum ritstörfum. Þeir áttu sameiginlega þá stefnu að íslenska allt sem íslenskað verður. Einnig að Læknablaðinu sé ætlað að vera málgagn lækna­stéttarinnar sem eigi sér tilverurétt, hvort sem fræðigreinar sem í því birtast eru fáar eða margar. Það eigi að vera fræðirit, fréttablað og félagslegur miðill.

Guðmundur tíndi til fleiri fyrirmyndir og kennara Arnar, þeirra á meðal tvo danska meltingar­sérfræðinga, þá Henrik Wulf og Povl Riis. Örn þýddi bækur hins fyrrnefnda um heimspeki og siðfræði læknastéttarinnar þar sem rauði þráðurinn er rökvísi og siðferðileg ábyrgð á sjúklingnum. Sá síðarnefndi kenndi Erni hins vegar margt um útgáfu læknablaða.

Guðmundur gerð Íðorðasafn lækna einnig að umræðuefni enda um stórvirki að ræða þar sem finna má þýðingar á 30-40.000 heitum og hugtökum á sviði læknisfræði. Hann vitnaði í ritdóm Jóhanns Heiðars Jóhannssonar hér í blaðinu þar sem hann gerði stikkprufu af 150 orðum í safninu og komst að þeirri niðurstöðu að af þeim væru tæplega 80% góð eða í það minnsta nothæf en 15% vond eða óþörf. Eftir þetta réð Örn Jóhann til að halda úti íðorðapistli í blaðinu sem væri sennilega einsdæmi í læknablöðum heimsins. Þar færi fram stöðug og frjó umræða um íslenska læknisfræði sem væri öllum til sóma, þeim sem settu hana af stað, þeim sem haldið hefur utan um hana og þeim sem taka þátt í henni. Hann bætti því við að enn væri eftir að ljúka við orðasafnið og átti þá við að fara þyrfti yfir það og tína út þau orð sem ekki hafa öðlast líf og gera aðra atlögu að þeim.

Orðaskak um íðorð

En svo merkilega vill til að Örn lenti í orðaskaki um Íðorðasafnið við Þorstein Gylfason prófessor í heimspeki sem nú er nýlátinn. Þorsteinn gaf út ritgerðasafnið Að hugsa á íslenzku þar sem hann segir að sér sé hugstæður sköpunarmáttur mannlegs máls sem birtist í því að þrátt fyrir takmarkaðan orðaforða sem umlukinn er ströngum reglum er hægt að mynda óendanlegan fjölda nýrra setninga sem við skiljum öll þótt þær hafi aldrei verið sagðar áður.

Grundvallaratriði í krafti málsins væri samhengisstefna sem leiddi það af sér að ætli menn sér að efla íslenskt mál verði þeir að gera það í samfelldu máli, ekki í orðaskrám eða listum. Þær stönguðust á við fjölkynngi málsins því orð í lifandi máli væru alltaf margræð og því bæri það vott um skilgreiningaveiki og einþykkni að ætla hverju orði aðeins eina merkingu og ekki aðra. Hann tók dæmi af tveimur orðum, fall og kraftur, sem ættu sér ákveðna merkingu í stærðfræði. Hins vegar truflaði það stærðfræðinga ekki neitt þegar talað væri um dauðsfall, lykkjufall, kjötkraft eða skemmtikraft. ? Allt er þetta til marks um að orð eru leikföng fyrir hugsandi menn, sagði Þorsteinn. Þess vegna eru engar réttar skilgreiningar til, hvað þá hin eina rétta skilgreining.

Örn svaraði Þorsteini í grein sem bar titilinn Er orðasmíð hættuleg? Þorsteinn svaraði þeirri spurningu neitandi, það væri misskilningur á orðum sínum að halda því fram. Hins vegar væri starf íðorðanefnda misjafnlega farsælt og um það gæti hann gefið nokkur ráð. ? Ég sé ekki betur en að þarna hafi tekist á tveir ómetanlegir verkamenn í víngarði tungumálsins og að sjálfsögðu eru þeir einlægir samherjar þegar dýpra er skyggnst, sagði Guðmundur.

Hann velti í lokin fyrir sér hvort allt þetta starf Arnar hefði orðið til einhvers. ? Tungumálið er verkfæri hugsunar, vald á tjáningu byggist á skýru máli, skýr hugsun byggist á skýru málfari. Auk þess er tungumálið arfur og auðlegð, það er fjöregg og ef það brotnar í okkar höndum þá hefur það brotnað á okkar vakt. Læknisfræðin er í daglegum samskiptum við fólkið í landinu í gegnum öll störf lækna. Þeir verða því að tala mannamál sem skilst, sagði Guðmundur Þorgeirsson.

Guðmundur Þorgeirsson með tilvitnun í Guðmund Hannesson á skjánum.

Örn með Sigurbjörn sér á hægri hönd en tvo framá­menn Alþjóðafélags lækna á þá vinstri: John R. Williams og Jón Snædal sem stjórnaði málþinginu.

Örn sat hinn keikasti undir öllu lofinu sem yfir hann var ausið. Dóttir hans og tengdasonur sitja næst honum: Edda Björk Arnardóttir og Guðmundur Jóhann Olgeirsson.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica