11. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Nýr spítali á að rísa á 13 árum

Norrænn hópur arkitekta og verkfræðinga átti sigurtillöguna í samkeppni um skipan nýja Landspítalans

Það var spenna í loftinu í Öskju miðvikudaginn 12. október síðastliðinn og ekki laust við að helstu máttarstólpar heilbrigðiskerfisins og háskólasamfélagsins væru eins og börn í nýrri leikfangabúð. Tilefnið var líka ærið: það var komið að því að birta niðurstöður dómnefndar í samkeppni um skipulag nýbygginga á Landspítalalóðinni. Langþráður draumur margra færðist nokkrum hænufetum nær því að verða að veruleika. Fari tímaáætlun sem nú er höfð uppi við eftir verður nýi spítalinn risinn að fullu árið 2018.

Hópurinn sem varð hlutskarpastur er norrænn að samsetningu. Hópinn mynda tvær arki­tektastofur, arkitektur.is og danska stofan C.F. Møller Architects, tvær stofur landslagsarki­tekta, Schønherr Landscape frá Danmörku og Suðaustanátta, og tvær verkfræðistofur, norsk/sænska stofan SWECO Grøner og Verkfræðistofa Norðurlands. Flaggskipið í þessum hópi er án alls vafa C.F. Møller frá Danmörku en sú stofa hefur öðlast mikla reynslu í hönnun stórra sjúkrahúsa allt frá því stofan vann samkeppni um hönnun Århus kommunehospital í Danmörku árið 1931. Nýjasta verkefni þeirra er hönnun háskólasjúkra­hússins í Akershus í Noregi sem lokið var að byggja á þessu ári en það vann stofan í samvinnu við SWECO Grøner og Schønherr Landscape.

Þarna er því komin saman mikil reynsla á sviði hönnunar heilbrigðisstofnana sem skilaði sér í því að hópurinn fékk langhæstu einkunnina hjá dómnefnd, eða 72 stig af 80 mögulegum, og fyrir tilboð í framhaldsvinnu við verkefnið fékk hópurinn 20 stig sem er það hæsta sem gefið er. Niðurstaða dómnefndar var sú að tillaga hópsins uppfyllti ?velflest þau atriði sem samkeppnislýsing kveður á um og telur hana því besta kostinn til áframhaldandi vinnu við skipulag svæðisins?.

Byrjað á bráðadeildunum

Nú blasir við að semja við hópinn um gerð deiliskipulags að svæðinu sem eins og kunnugt er afmarkast af nýju Hringbrautinni, Njarðargötu, gömlu Hringbraut, Barónsstíg, Eiríksgötu og Snorrabraut. Eitt þeirra atriða sem dómnefndin taldi sigurtillögunni til tekna var skýr og sannfærandi áfangaskipting. Samkvæmt henni verður hafist handa um leið og deiliskipulag liggur fyrir við að flytja gömlu Hringbraut upp að húsi geðdeildar en þaðan á hún að liggja í beinni línu meðfram aðalbyggingunni og barnaspítalanum og falla inn á sitt núverandi vegarstæði rétt vestan núverandi gatnamóta Laufásvegar og Hringbrautar. Til þess að þetta sé hægt þarf að rífa suðurbyggingu gamla Hjúkrunarskólans.

Árið 2009 á að hefja uppbyggingu bráðakjarna sem verður í tveim byggingum sunnan aðalbyggingarinnar. Á milli þeirra verður torg sem liggur upp að aðalbyggingunni en tengslin milli bráðakjarna og núverandi bygginga verður um göng. Einnig verður byggt neðanjarðarbílastæði sunnan við geðdeildina. Í þessum áfanga verður byggð ný bráðamóttaka, gjörgæsla, myndgreining og skurðstofur en dag- og göngudeildir verða í núverandi byggingum.

Bráðakjarninn liggur norðan við núverandi vegarstæði gömlu Hringbrautar en það á að lifa áfram sem yfirbyggð gata inni í nýja spítalanum. Sunnan við hana munu í öðrum áfanga rísa legudeildir og rannsóknarstofur, auk þess sem aðalinngangur verður reistur vestan þessara bygginga. Til þess að þetta megi gerast þarf að rífa húsnæði læknadeildar HÍ ? Tanngarð sem svo er nefndur. Einnig verður afgangurinn af Hjúkrunarskólanum rifinn, svo og rannsóknarstofurnar sem nú eru í skúrbyggingum norðarlega á lóðinni. Kvennadeild og barnaspítali verða tengd öðrum byggingum og Blóðbankanum og núverandi Rannsóknarstofu í meinafræði breytt í gestaíbúðir.

Í þriðja áfanga rísa svo göngu- og dagdeildir og háskólabyggingarnar vestast á svæðinu. Geðdeildin verður stækkuð og byggt yfir barna- og unglingageðdeildina norðan við barnaspítalann. Loks verður byggð kapella upp undir Barónsstíg. Á þessu stigi verður bráðamóttakan rifin og einnig núverandi aðalinngangur og skurðstofur milli aðalbyggingar og núverandi legudeilda.

Fjármagnið tryggt

Þannig verður nýi spítalinn byggður í grófum dráttum. Við þessa lýsingu má lengi bæta enda mannvirkið tröllvaxið, alls er gert ráð fyrir að reisa nýbyggingar fyrir sjúkrahúshlutann sem nema tæplega 94.000 fermetrum en núverandi byggingar sem haldast eru rúmlega 44.000 fermterar. Við þetta bætast háskólabyggingar sem eru tæplega 30.000 fermetrar að flatarmáli en inni í þeirri tölu er reyndar verslunarmiðstöð sem fyrirhuguð er sunnan háskólahlutans. Samtals er því gert ráð fyrir að sjúkrahúsbyggingar verði hátt í 170.000 fermetrar að flatarmáli.

Eins og áður segir er áformað að hefjast handa við bygginguna árið 2009 en tíminn fram að því verður notaður til undirbúnings. Arkitektarnir hafa sett fram ákveðnar hugmyndir um útlit og skipan spítalans en nú þarf að hefjast handa við gerð deiliskipulags og hönnun á innviðum hinna ýmsu deilda sem eiga að rísa.

Samkvæmt tímaáætlun sem sett hefur verið fram er ætlunin að ljúka byggingu spítalans árið 2018. Að sjálfsögðu getur það breyst í tímans rás en eitt rennir þó stoðum undir að auðveldara verði að halda tímasetningar í þessari byggingu en mörgum öðrum sem hið opinbera hefur reist. Ríkisstjórnin ákvað nefnilega í haust að verja hluta ágóðans sem fékkst af sölu Símans til byggingar spítalans. Kostnaðaráætlun spítalans hljóðar upp á tæplega 40 milljarða króna en ákvörðun ríkisstjórnarinnar tryggir að 18 milljarðar af þeirri upphæð liggja fyrir við upphaf framkvæmda. Það er óvenjuleg staða þegar opinberar byggingar eiga í hlut.

Margt var um manninn í Öskju þegar úrslitin voru tilkynnt, framámenn úr heilbrigðiskerfinu, háskóla­samfélaginu og stjórnmála­menn.

Á þessari afstöðumynd má sjá hvernig nýi spít­alinn leggur sig á lóðinni. Gamla Hringbrautin er komin upp undir aðalbygginguna en sunnan við hana er bráðakjarninn (tvö austari húsin) og hús göngu- og dagdeilda. Þar sem gamla Hringbraut liggur nú er yfirbyggð gata en sunnan hennar eru legudeildir og rannsóknarstofur. Vestan (vinstra megin) göngudeildarhússins er torg sem verður aðkoman inn á spítalann en vestast er háskólahlutinn. Bílastæði verða vestast, sunnan göngudeilda og austast á svæðinu, sunnan við geðdeildarhúsið.

Arkitektahópurinn við líkanið að sigurtillögunni. Talsmaður hópsins er Helga Benedikts­dóttir, sú með blómvöndinn. Lengst til hægri má sjá Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra.

Líkanið að spítalasvæðinu eins og það á að líta út árið 2018. Byggingarnar verða mest sex hæðir og eru hannaðar þannig að þær skyggi ekki á aðalbygginguna. Neðst í hægra horninu er þyrlupallur en staðsetning hans var eitt örfárra atriða sem dómnefndin gerði athugasemdir við í áliti sínu.

Á myndunum hér að neðan má sjá hvernig arkitektarnir sjá fyrir sér að húsin líti út. Á efri myndinni er horft á aðalinngang spítalans frá torginu í miðju svæðisins en á þeirri neðri er horft úr móttökunni inn á yfirbyggða göngugötu sem liggur eftir endilöngum spítalanum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica