11. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Aðalfundur með afrískum tilbrigðum

- Ráðherra svarafár um hugsanlegan samning við heimilislækna

Aðalfundur Læknafélags Íslands var haldinn í húsakynnum félagsins í Kópavogi dagana 30. september og 1. október. Ekki verður sagt um fundinn að hann hafi verið stormasamur. Stjórnin var öll endurkjörin og engin breyting gerð á fé­lagsgjaldi. Helstu umræðuefni voru ný skýrsla um stöðu heimilislækninga sem lögð var fram fyrir fundinn, ógnanir gegn læknum og samskipti lækna og lyfjaiðnaðarins, auk þess sem sameiningu Lífeyrissjóðs lækna og Almenna lífeyrissjóðsins bar á góma.

Sigurbjörn Sveinsson formaður setti fundinn en í stað þess að flytja hefðbundna setningarræðu gaf hann hópi læknanema orðið. Þeir voru nýkomnir úr ferð til Kenýa, meðal annars fyrir tilstyrk LÍ, og höfðu frá mörgu að segja. Er óhætt að segja að frásögn þeirra hafi hrært strengi í brjóstum fundarmanna því margir þeirra sem á eftir töluðu vitnuðu til þeirra.

Ráðherra og þriðji liðurinn

Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingaráðherra ávarpaði fundinn og ræddi um það sem efst er á baugi í málaflokknum að hans mati. Meðal þess var ályktun alþingis um nauðsyn þess að gert verði átak í að auka heilbrigði landsmanna með því að hvetja til breytts mataræðis, aukinnar hreyfingar og breytinga á lífsstíl. Sagðist ráðherra eiga von á tillögum faghóps um málið á vordögum 2006 en að þeim fengnum vildi hann efla til átaks með þátttöku læknasamfélagsins, ráðuneytisins og Lýð­heilsustöðvar.

Þegar ráðherra svaraði fyrirspurnum snerust þær ekki síst um málefni heilsugæslulækna og þá einkum þriðja lið viljayfirlýsingar ráðherra um þau mál sem hann gaf út fyrir hartnær þremur árum. Sá liður snerist um samninga við sjálfstætt starfandi heimilislækna en fátt hefur orðið um efndir á honum. Ráðherra svaraði því til að ástæður þess að ekkert hefði þokast væru af ýmsu tagi en honum væri annt um að standa við orð sín og því yrði undinn bráður bugur að því að hefja viðræður um þriðja liðinn.

Ráðherra var spurður um ýmislegt fleira, svo sem hvort hann sæi fyrir sér að sveitarfélögin tækju að sér fleiri verkefni í heilbrigðisþjónustu. Því svaraði hann játandi en sagði að hann teldi betra að flytja verkefni til sveitarfélaga og tekjurnar með í stað þess að gera þjónustusamninga eins og tilraun hefur verið gerð með. Slíkir samningar væru allt of vinnufrekir og snúnir í framkvæmd. En til þess að sveitarfélögin yrðu fær um að taka að sér þessi verkefni þyrftu þau að stækka og þar stendur hnífurinn í kúnni (eins og best sást í sameiningarkosningunum viku eftir aðalfund).

Loks má nefna að í máli ráðherra kom fram að nú starfa um 40 manns í ráðuneyti hans sem hann taldi of fátt. Það jafngildir því að velta ráðuneytisins á hvern starfsmann séu um tveir milljarðar króna. Alþingi væri hins vegar viðkvæmt fyrir fjölg­un starfsmanna og þess vegna hefði verið farið hægt í sakirnar. Hins vegar kvaðst hann opinn fyrir aukinni ráðgjöf, ekki síst frá læknum og vildi gjarnan koma henni á fastari grundvöll en nú er.

Ógnanir og lyfjasamskipti

Eftir að ráðherra var farinn heim var tekið til við hefðbundin fundarstörf, skýrslu stjórnar, reikninga og starfsskýrslur einstakra nefnda og stofnana félagsins. Allt var þar með hefðbundnum hætti og það eina sem vakti áhuga fundarmanna í reikningunum var að gert er ráð fyrir halla á rekstri félagsins næsta ár. Birna Jónsdóttir gjaldkeri sagði ástæðu hallans vera þá ákvörðun aðalfundar í fyrra að stofna hagdeild og ráða starfsmann til hennar. Það væri tilraun til þriggja ára og að henni lokinni yrði dæmið gert upp og ráðstafanir gerðar til að afla meira fjár ef þurfa þætti.

Nokkrar umræður urðu einnig um skýrslu sem Hulda Hjartardótt­ir varaformaður flutti um ógnanir gegn læknum í starfi. Margir könnuðust við þær en vissu ekki hvað til bragðs skuli taka gegn þeim. Flestir tengdu ógnanirnar aukinni fíkniefna­neyslu og fjölg­un fíkla í samfélaginu og spunnust nokkrar um­ræður um það hvort leyfilegt væri að merkja læknaskýrslur fíkla og annarra sem gerst hafa sekir um ofbeldi gegn læknum. Fyrir fundinum lá tillaga um þetta efni en fundarmenn töldu hana ekki fullrædda svo ákveðið var að vísa henni til stjórnar til frekari vinnslu.

Sigurbjörn formaður gerði grein fyrir umræðum sem orðið hafa innan og utan stjórnar LÍ um endurnýjun á samningi við lyfjaiðnaðinn um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja en hann rennur út um næstu áramót. Formaðurinn lagði fram drög að nýjum samningi þar sem meðal annars er kveðið á um stofnun samráðsnefndar sem fylgist með framkvæmd samningsins. Um þetta ákvæði urðu nokkr­ar umræður þar sem sitt sýndist hverjum. Raunar voru menn ekki einhuga um nauðsyn þess að gera samning við lyfjaiðnaðinn, sumir vildu helst engar reglur heldur ættu læknar að eiga þetta við samvisku sína, en aðrir vildu að gefin yrði út einhliða yfirlýsing lækna um samskiptin við lyfjafyrirtækin.

Katrín Fjeldsted upplýsti að í Evrópu sé alls staðar verið að setja svona reglur enda skipti það miklu máli fyrir lækna að þeim væri treyst. Sigurbjörn bætti því við að í Noregi hefði verið sett ákvæði um samráðsnefnd sem hefði raunveruleg völd til að grípa inn í samskipti lækna og lyfjafyrirtækja. Ekki hafði hann fréttir af því að læknar kveinkuðu sér undan þessari nefnd en þó hefði hann ekki talið rétt að ganga svo langt í sínum samningsdrögum.

Óbreytt stjórn

Samkvæmt lögum áttu formaður og gjaldkeri að ganga úr stjórn en þau gáfu bæði kost á sér til endurkjörs. Voru þau endurkjörin ásamt öllum meðstjórnendum og er stjórnin því óbreytt. Hún er þannig skipuð:

Formaður: Sigurbjörn Sveinsson

Varaformaður: Hulda Hjartardóttir

Féhirðir: Birna Jónsdóttir

Ritari: Ófeigur T. Þorgeirsson

Meðstjórnendur: Bjarni Þór Eyvindsson, Elín­borg Bárðardóttir, Páll H. Möller, Sigríður Ó. Haraldsdóttir, Sigurður Einar Sigurðsson.

Endurskoðandi er Einar H. Jónmundsson og til vara Þengill Oddsson.

Á næstu síðum getur að líta ályktanir aðal­fundarins. Þess ber þó að geta að á fundinum voru afgreiddar verulegar breytingar á Codex Ethicus og verður hann birtur hér í blaðinu, þó ekki í þessu tölublaði.

Gunnar Ármannsson framkvæmdastjóri LÍ lengst til vinstri og Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra lengst til hægri en á milli þeirra eru lækna­nemarnir fimm sem fóru til Kenýa í sumar.

Aðalfundarfulltrúar hlýða á erkibiskups boðskap.

Hulda Hjartardóttir varaformaður LÍ kynnir niðurstöður starfshóps um ógnanir gegn læknum.

Feðgin á fundi. Kristín Sigurðardóttirog Sigurður Björnsson.Þetta vefsvæði byggir á Eplica