09. tbl. 91. árg. 2005

Ritstjórnargrein

Já, saga læknisfræðinnar!

Atli Þór Ólason

Saga læknisfræðinnar hefur verið í brennidepli að undanförnu. Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar varð 40 ára á árinu og félagið hélt 20. norræna þingið um sögu læknisfræðinnar í Háskóla Íslands dagana 10.-13. ágúst síðastliðinn. Þetta er í þriðja skipti sem þing Norrænu lækna­sögusamtakanna er haldið á Íslandi. Í samtökunum eru 25 aðildarfélög með um það bil 5000 félagsmenn. Ráðstefnuna sóttu um 170 manns frá 16 löndum. Á boðstólum var fjölbreytt efni: 60 fyrirlestrar og veggspjöld. Yfirskrift þingsins var ?Sjúklingur og samfélag í sögulegu ljósi? og var sérstök áhersla lögð á sérstöðu heilbrigðissögu á norðlægum slóðum. Fjallað var um faraldsfræði í norðurálfu og læknisfræði víkinganna eins og hún birtist í Íslendingasögunum, á skinnhandritum og við fornleifauppgröft. Þáttur kvenna í heilbrigðissögu var skoðaður sérstaklega ásamt sögu tannlækna, lyfjafræðinga og heimilislækna. Við opnun þingsins í Þjóðmenningarhúsinu veitti félagið tvo heiðurspeninga. Annan fékk formaður Augustinus fonden í Danmörku, en sjóðurinn veitti rausnar­legan styrk til Nesstofusafnsins. Hinn fékk Ís­lands­vinurinn og læknirinn góðkunni Povl Riis sem hafði milligöngu um styrkinn. Farin var dagsferð á Snæfellsnes og dregin fram atriði er tengjast lækningasögu. Gestirnir voru ánægðir með þingið og upplifun sína af landinu og sögu þess.

Á þingi um sögu læknisfræðinnar gefst fólki kostur að hugleiða læknisfræði í samhengi við sögu, þjóðfélag og menningu. En er söguhugsun fjarri læknum?

Í raun eru læknar í daglegu starfi sínu sífellt að fást við sögu viðfangsefna sinna. Þeir eru beinlínis þjálfaðir skipulega til að nema og meta þá sögu. Læknir tekur saman hefðbundna sjúkrasögu til að skilja betur ástand sjúklingsins í ljósi sögu hans. Læknir sem ritar fræðigrein í lækna­tímarit ber niðurstöður sínar saman við eldri rannsóknir og finnur þeim stað í rannsóknarsögu efnisins. Rannsóknarlæknar fá stundum nýjar hugmyndir við að kynna sér verk fyrirrennara sinna. Fjöl­margir fyrirlesarar á síðustu Læknadögum hófu mál sitt á að rekja markverðustu áfanga í þróunarsögu umfjöllunarefnisins en það þykir merki um góð vinnubrögð að hafa sögu viðfangsefnisins á valdi sínu. Af þessum fáu dæmum má sjá að læknar eru alvanir að skoða verkefni sín út frá sögulegu sjónarmiði hvort sem þeir fást við lækningar, rannsóknir eða kennslu. Þeim reynist því auðvelt að hugsa eftir sögulegum brautum og þá er stutt í að hugleiða sögu læknisfræðinnar í víðara samhengi.

Saga læknisfræðinnar gefur kost á að sjá fræðigreinina í margvíslegu ljósi. Hægt er að rekja þró­un þekkingar mannsins á sjúkdómum, lækningum og rannsóknum og sjá hvernig vísindagreinin lækn­is­fræði hefur vaxið úr grasi. Fylgjast má með tengslum lækna og þjóðfélags og sjá þróun starfsgreinarinnar í ljósi breyttra þjóðfélagsaðstæðna, hugmyndasögu, menningar og lista. Það má skoða nánast hvað sem er í söguspegli. Sjá hvernig keimlík vandamál koma upp æ ofaní æ og hvernig sömu mistök eru endurtekin. Það má sjá snjallar lausnir þoka málum áfram eða falslausnir draga þau aftur á bak. Mikinn lærdóm má draga af sögunni ef henni er gefinn gaumur og margan pyttinn má forðast með því að kynna sér þekkingu og reynslu fortíðar.

Sögu læknisfræðinnar er hægt skoða sem neyt­andi eða framleiðandi. Margur læknirinn er tilbúinn að hlusta á fyrirlestur eða lesa grein um lækningasögulegt efni, verði slíkt á vegi hans. Hann lítur á lækningasögu sem eitt af mörgum áhugasviðum sínum sem hann eru reiðubúinn að dvelja við í stuttan tíma frá dagsins önn. Mun meiri tíma þarf til að sinna rannsóknum eða skrifum um lækningasögu. Raunin er sú að læknar skrifa ekki sögu sína nema að litlu leyti þótt sjónarmið þeirra séu mikilvæg vegna sérþekkingar þeirra á viðfangsefninu. Mun afkastameiri eru sagnfræðingar, fornleifafræðingar, þjóðfræðingar, félagsfræðingar og fleiri starfsstéttir sem hafa fengið sérstaka þjálfun í rannsóknaraðferðum og framsetningu á efni. Sérstakar stofnanir og háskóladeildir sinna nær eingöngu sögu lækna og heilbrigðismála.

Greina má aukinn áhuga á sögu læknisfræðinnar þar sem sífellt fleiri fást við rannsóknir og skriftir, meira efni er gefið út og fleiri fræðslufundir eru í boði. Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar hefur þann tilgang að efla þekkingu á sögu læknisfræðinnar og hefur stutt við þessa þróun. Þar með hefur það orðið vettvangur fyrir sögu læknis- og heilbrigðisfræði. Félagið telur að lækningasaga sé menningarmál læknastéttarinnar og að allir læknar eigi að styðja við það.Þetta vefsvæði byggir á Eplica