07/08. tbl. 91.árg. 2005

Umræða og fréttir

Fimm læknanemar á leið til Kenýa

- LÍ greiðir hluta ferðakostnaðarins

Í byrjun ágúst leggja fimm íslenskir læknanemar upp í ferð til Nairóbí í Kenýa þar sem þau ætla að sinna sjálfboðaliðsstörfum um tveggja vikna skeið í heilsugæslustöðvum í fátækrahverfum höfuðborgarinnar. Ferðina hafa þau fjármagnað sjálf en stjórn LÍ samþykkti að greiða hluta ferðakostn­aðarins.

Læknablaðið hitti fimmmenningana að máli en þeir eru Erna Halldórsdóttir, Eyjólfur Þorkelsson, Kristín Ólína Kristjánsdóttir, Margrét Ólafía Tómasdóttir og Þorgerður Guðmundsdóttir. Þau sögðu blaðamanni að hugmyndin að ferðinni hefði kviknað á norrænni læknanemaráðstefnu sem haldin var í Vatnaskógi í fyrrahaust.

"Norsku læknanemasamtökin hafa undanfarin fimm ár mannað fimm heilsugæslustöðvar í fátækrahverfum Nairóbí en stöðvarnar eru starfræktar af hjálparsamtökum heimamanna sem nefnast Provide International. Á hverju ári sækja um 100.000 manns til stöðvanna og er meirihlutinn konur og börn. Norsku samtökin senda lækna­nema reglulega til Kenýa en ásóknin í að komast er mest á sumrin sem er skiljanlegt því læknanemar eru uppteknir við nám yfir veturinn.

Norðmennirnir auglýstu á fundinum eftir áhuga annarra þjóða á að taka þátt í þessu verkefni og við gáfum okkur fram. Fyrst var rætt um að tveir færu út en það endaði með því að við fengum fimm pláss," segja þau.

Forvarnarstarf nýtist vel

Þau segjast bæði vera spennt en líka dálítið kvíðin fyrir ferðinni því ef marka má myndband sem þau fengu sent eru aðstæður heldur frumstæðar á þessum heilsugæslustöðvum. "Okkur sýndist læknarnir þurfa að margnota sömu sárabindin, þeir voru að skera fólk upp á venjulegum eldhúsborðum og deyfilyf virtust vera af skornum skammti. Við vitum í sjálfu sér ekki mikið hvað bíður okkar en þarna getum við þurft að glíma við allt frá smáslys­um upp í umönnun HIV-jákvæðra. Svo verðum við líklega að útvega okkur skyndinámskeið í tannúrdrætti því það virðist ekki vera gerður sami greinarmunur þarna úti og hér á hinum ýmsu líkamspörtum."

Auk þess að safna fé til ferðarinnar hafa þau leitað til stofnana og fyrirtækja eftir lyfjum og lækningavörum sem þau geta haft með sér. Að dvölinni lokinni verða þessar vörur svo skildar eftir. Meðal þess sem þau hyggjast taka með eru smokkar sem nýst geta til forvarna gegn HIV sem er mesta heilbrigðisvandamál Afríku.

"Við höfum töluverða reynslu af kynfræðslu meðal unglinga hér á landi á vegum Ástráðs, forvarnastarfs læknanema. Við höfum heimsótt vel­flesta framhaldsskóla landsins og rætt við nemendur í lífsleiknitímum og árangurinn er sjáanlegur af þessu starfi, klamydíutilfellum hefur fækkað og sömuleiðis ótímabærum þungunum og fóstureyðingum unglingsstúlkna," segja þau og vitna til orða Reynis Tómasar Geirssonar og Jóns Hjaltalíns Ólafssonar því til staðfestu. Þau gera sér þó grein fyrir að erfiðara geti verið að koma boðskapnum til skila í Kenýa þar sem fáfræði og ranghugmyndir um sjúkdóma og smitleiðir þeirra eru útbreiddar.

"Við getum hins vegar kynnt starfsfólki heilsu­gæslustöðvanna aðferðir okkar og aðstoðað það við að koma á fót svipuðu verkefni meðal skjólstæðinga sinna," segja þau.

Opnar vonandi dyr

Þetta verður í fyrsta sinn sem íslenskir læknanemar taka þátt í þessu verkefni norsku samtakanna en það er að heyra á fimmmenningunum að áhugi læknanema á að sinna hjálparstarfi í þróunarríkjunum sé vaxandi.

"Já, viðhorfin eru að breytast. Nú eru níu lækna­nemar í hjálparstörfum í Afríku og Asíu og annar eins fjöldi tekur þátt í stúdentaskiptum á vegum alþjóðanefndar læknanema. Þetta er töluvert stærri hópur en var fyrir nokkrum árum. Vonandi verður þessi ferð okkar til þess að auka áhuga læknanema á að taka þátt í slíku starfi," segja þau.

Þau segjast víðast hvar hafa fengið afar jákvæðar viðtökur þegar þau leituðu eftir stuðningi og framlögum til ferðarinnar. "Vonandi getum við farið klyfjuð af varningi," segja þau og nefna til sögu ýmis fyrirtæki, auk Landspítalans. Og eins og áður segir styrkir Læknafélag Íslands þau til fararinnar með því að greiða helming fargjaldsins. En hvað vakti fyrir stjórn félagsins með þessum stuðningi?

"Fyrstu viðbrögð okkar voru undrun og ánægja með að til væru læknisefni sem vildu leggja svona ferð á sig," sagði Sigurbjörn Sveinsson formaður. "En möguleikar íslenskra lækna til að starfa í þróunarlöndunum hafa oft verið til umræðu í hópi lækna. Þar hafa menn spurt sig hvort ástæða væri fyrir félagið að vera með svipaða starfsemi og læknafélög í nágrannalöndunum, til dæmis í Bretlandi og á Norðurlöndunum þar sem rík hefð er fyrir slíku starfi. Stöku læknar hafa sinnt slíku starfi og jafnvel fórnað stórum hluta starfsævi sinnar sem er aðdáunarvert.

Læknafélag Íslands hefur hins vegar ekkert lagt af mörkum til slíks starfs en þarna sáum við möguleika á að opna þessar dyr. Þetta unga fólk getur síðan orðið súrdeig meðal íslenskra lækna þegar þau koma heim reynslunni ríkari og leitt til frekara starfs á þessu sviði. Ég hef satt að segja meiri trú á að unga fólkið geti ýtt þessu starfi af stað heldur en skarfar eins og ég," sagði formaðurinn.

Fimmmenningarnir sem eru á leið til sjálfboðaliðsstarfa í Nairóbí í Kenýa, talið frá vinstri: Erna Halldórsdóttir, Kristín Ólína Kristjánsdóttir, Eyjólfur Þorkelsson, Margrét Ólafía Tómasdóttir og Þorgerður Guðmundsdóttir. Þær Kristín og Þorgerður hafa lokið fimmta ári í læknisfræði en hin hafa lokið fjórða ári. Þess má geta að Kristín hefur áður sinnt hjálparstarfi, hún var á Indlandi í fyrrasumar.

Kort af Kenýa. Höfuð­borgin Nairóbí er sunnarlega í landinu, miðja vegu milli Indlandshafs og Viktoríuvatns, ekki langt frá landamærum Tansaníu.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica