06. tbl. 91. árg. 2005

Fræðigrein

Mergæxli í fornri beinagrind frá Hofstöðum í Mývatnssveit

Myeloma in an archaeological skeleton from Hofstaðir in Mývatnssveit

Læknablaðið 2005; 91: 505-9

Ágrip

Fornleifauppgröftur hefur staðið yfir í kirkjugarðinum á Hofstöðum í Mývatnssveit frá því sumarið 1999. Nú þegar hafa leifar tveggja bænhúsa og 78 beinagrindur frá 11.-15. öld verið grafnar upp. Sumarið 2003 fannst beinagrind í kirkjugarðinum með meinafræðilegar breytingar sem bentu til illkynja meins. Slík fornleifafræðileg tilfelli eru mjög sjaldséð og þykir því vert að birta hvert einasta tilfelli.

Beinagrindin sem um ræðir, HST-027, var úr konu sem hefur verið á aldrinum 45-50 ára þegar hún lést. Staðlaðar beinafræðilegar aðferðir voru notaðar til að greina kyn, lífaldur og líkamshæð. Fornmeinafræðileg rannsókn var gerð þar sem öllum sýnilegum breytingum á hverju einasta beini var lýst. Því næst voru höfuðkúpa, rifbein, vinstri mjaðmarspaði, og öll vinstri leggjarbein röntgenmynduð til að aðstoða við sjúkdómsgreiningu.

Rannsókn leiddi í ljós beineyður í nánast öllum flötu beinum líkamans, auk hryggjarliða, rifbeina og efri hluta vinstri lærleggs, einkennandi fyrir mergæxli. Í fornleifafræðilegum tilfellum getur verið erfitt að greina á milli mergæxlis og meinvarps (þá líklegast frá brjóstakrabbameini, sérstaklega hjá konum), en ólíklegt er að um meinvarp sé að ræða þar sem engin merki eru um nýmyndun beins umhverfis vefskemmdirnar.

Beinagrind HST-027 frá Hofstöðum er fyrsta birta tilfellið af illkynja meini á Íslandi og með öruggari greiningum af mergæxli í fornum beinum sem birt hafa verið almennt, en aðeins hafa um 20 tilfelli verið birt til þessa hvaðanæva úr heiminum.

Inngangur

Einstaka sinnum finnast við fornleifauppgröft beinagrindur sem bera þess merki að einstaklingurinn hafi þjáðst af illkynja meini. Slík tilfelli eru þó mjög fátíð og hafa ýmsar skýringar verið settar fram til að útskýra það, til dæmis var meðalævi styttri á fyrri öldum sem þýddi að fæstir náðu þeim aldri þegar þessir sjúkdómar gera oftast vart við sig. Varðveisla beina getur líka haft áhrif og ekki er óalgengt að bein einstaklinga sem voru veikir lengi fyrir andlát varðveitist verr þar sem að þau eru veikbyggðari en bein hinna heilsuhraustari.Mörg illkynja mein eru ekki í beinum og því greinast þau ekki við fornleifafræðilegar rannsóknir þar sem óalgengt er að aðrir vefir en bein varðveitist. Einnig hafa margir bent á að aukin iðnvæðing þýðir að nú á dögum eru mun fleiri krabbameins­valdandi efni í umhverfinu (1). Hverjar sem skýringarnar eru þá þykir vert að greina sérstaklega frá nýjum fundum. Í þessari grein er lýsing og greining á einni slíkri beinagrind sem grafin var upp við fornleifarannsóknir í kirkjugarðinum á Hofstöðum í Mývatnssveit sumarið 2003.

Efniviður og aðferðir

Kirkjugarðurinn

Árið 1999 hófust fornleifarannsóknir í kirkjugarðinum á Hofstöðum í Mývatnssveit. Nákvæm staðsetning bænhúss á Hofstöðum var ekki þekkt, en einungis örfáar heimildir eru til um það. Þá elstu er að finna í jarðaskiptabréfi dagsettu 12. apríl 1477 þar sem kemur fram að kirkjuskuld sé á Hofstaðajörðinni. "J sama handabandi selldi tittnefndr jon þorkelsson opt nefndum finboga jonssyni jordina hofstadi er liggur j reykiahlidar kirk(i)usokn vid myvatn - Item skyllde finboge suara kirk(i)v skylld oc benhvs skylld aa þveræ oc hofstodum" (2). Árið 1712 skráðu Árni Magnússon og Páll Vídalín um Hofstaðajörðina að "Bænhús rómast að hjer muni að fornu verið hafa, sem af sje fallið fyrir manna minni" (3). Rannsóknin á Hofstöðum sumarið 1999 hófst því á jarðsjármælingum með það í huga að staðsetja bænhúsið. Byrjað var að kanna það svæði í túninu sem heimamenn kalla "Kirkjugarð", norðaustan við gamla bæjarhólinn. Þar hafði sést bogadreginn garður, 20-30 m í þvermál sem var sléttaður eftir miðja 20. öld (4). Jarðsjármælingarnar leiddu í ljós hringlaga garð, um 30 m í þvermál, umhverfis tóft, um 6x4 m, sem sneri nokkurn veginn austur-vestur (5). Fornleifauppgröftur leiddi þarna í ljós leifar tveggja bænhúsa í miðju hringlaga torfbyggðs garðs. Eldra bænhúsið hefur verið rifið og það yngra byggt á sama stað. Af eldra bænhúsinu var ekkert eftir nema fjórar stoðarholur sem marka hornin á ferhyrndu timburhúsi sem hefur verið 4x4,5 m að stærð. Kolefnisgreiningar benda til þess að það hafi verið reist um árið 1000 (6). Yngra bænhúsið er betur varðveitt. Það er aðeins minna en það eldra og hefur staðið aðeins vestar. Það hefur verið stafbyggt. Fjórar steinfylltar stoðarholur eða undirstöður afmarka horn kirkjuskipsins þar sem burðarstoðir hafa staðið sem líklegast hafa verið tengdar með krosstrjám til að gera þær stöðugri. Raðir af flötum steinum eru á milli stoðarholanna og á þeim hafa hvílt syllur; undirstöður fyrir stafþilið. Gólfið hefur verið úr timbri fyrir utan norðausturhorn kirkjuskipsins sem var hellu­lagt og er hugsanlegt að altarið hafi staðið þar. Merki eru um að bekkur hafi verið meðfram suðurveggnum. Líklegast hefur verið torfþak á bænhúsinu, en engir torfveggir (7). Kirkjubyggingar af þessari gerð þekkjast til dæmis í Noregi og eru elstu mannvirki sem byggð eru þar með þessari tækni tímasett til 12. aldar (8). Seinni tíma viðbót við yngra bænhúsið er forkirkja sem afmörkuð er af tveimur stoðarholum við vesturenda þess. Yngra bænhúsið hefur ekki verið stórt, aðeins 3,5x5,5 m að utanmáli (9). Umhverfis bænhúsin og inni í forkirkju í yngra bænhúsinu eru grafir og þegar þetta er ritað er vitað um 100 grafir í kirkjugarðinum á Hofstöðum og búið að grafa upp 75 þeirra, alls 78 beinagrindur, en í þremur gröfum voru tvö börn grafin saman. Gjóskulög á staðnum og kolefnagreiningar á birkigreinum sem komu úr hruni úr eldra bænhúsinu benda til þess að grafið hafi verið í kirkjugarðinum frá 11. fram á 15. öld. Ekki er hægt að segja til um á þessu stigi hvenær yngri kirkjan var byggð, en í gólfi hennar fundust leirkersbrot, líklegast úr könnu, hugsanlega Aardenburg Ware sem framleitt var í Flandri í Belgíu. Hægt er að tíma­setja ílátið til 13.-14. aldar (10) sem gefur vís­bend­ingu um hve­nær bænhúsið hefur verið í notkun. Nákvæmari greining á aldri einstakra grafa hefur enn ekki fengist. Flestar grafirnar eru í fjórum skipulögðum röðum austan við bænhúsin, eða sunnan við þau, þar sem flestar barnsgrafirnar eru. Konur liggja flestar í norðurhluta garðsins, karlar flestir í suðurhluta og börn nálægt bænhúsum, eins og þekkist í öðrum miðaldakirkju­görðum bæði á Íslandi og annars staðar í Evrópu (11). Kista er í um helmingi grafanna á Hofstöðum, ein­fald­ar timburkistur sem hafa ekki varðveist, held­ur sést einungis "skuggi" þeirra, timbrið hefur litað jarðveginn dökk­an. Beinagrindurnar liggja flestar á bakinu, með hendur á mjöðmum og hefur aska verið lögð á bringu þeirra að kristnum sið. Varðveisla beina á Hofstöðum er nokkuð misjöfn, en í flestum tilfellum mjög góð. Þó að greiningu beinagrindanna sé ekki lokið benda fyrstu niðurstöður til þess að þær henti mjög vel til ýmissa mannabeinarannsókna (12).

Beinagrindin

Beinagrindin sem þessi grein fjallar um, HST-027, var grafin upp sumarið 2003. Hún er mjög vel varðveitt, flest bein eru til staðar þó að sum þeirra séu brotin (mynd 1). Staðlaðar beinafræðilegar aðferðir voru notaðar við að greina kyn (13-15), lífaldur (16, 17) og líkamshæð (18) og reyndist beinagrindin vera af konu á aldrinum 45-50 ára, 162±3 sm á hæð.

Niðurstöður

Fornmeinafræðileg rannsókn á beinunum leiddi í ljós sýnilegar beineyðandi vefskemmdir í þó nokkr­um beinum.

  • Höfuðkúpa: Hnakkabein, hægra og vinstra hvirfilbein (sjá mynd 2), hægra og vinstra gagnaugabein, ennisbein og kinnkjálki (sjá mynd 4). Í öllum tilfellum eru vefskemmdirnar algengari á ytra borði beinsins og nokkrar þeirra rjúfa bæði innra og ytra borð beinsins. Þær eru misstórar, flestar <1-10 mm. Svo virðist sem stærstu holurnar séu nokkrar mismunandi vefskemmdir sem hafa runnið saman.
  •  Hryggjarliðir: Vefskemmdir hafa myndast í alla hryggjarliðina, en þeir eru flestir illa varðveittir. Skemmdirnar er aðallega að finna á liðbogum, en þó líka á liðbolum. Á hálsliðum eru vefskemmdirnar <1-5 mm í þvermál, en á brjóst- og lendarliðum eru þær <1-10 mm, og eru stærstu holurnar líklegast nokkrar vefskemmdir sem hafa sameinast. Þó er erfitt að segja um það með vissu vegna slæmrar varðveislu.
  •  Rifbein: Varðveisla rifbeina er ekki mjög góð, en greina má vefskemmdir, <1-5 mm í þvermál, á öllum rifbeinsbrotum. Engin þeirra nær alveg í gegnum beinið.
  •  Herðablöð: Vefskemmdir, <1-6 mm í þvermál, er að finna á báðum herðablöðum. Flest­ar eru umhverfis liðskálarnar og herðablaðsnibburnar, einungis á blöðunum ná þær alveg í gegnum beinið.
  •  Viðbein: Vefskemmdir er að finna á báðum viðbeinum, nálægt báðum endum. Þær eru <1-4 mm í þvermál.
  •  Mjaðmabein: Vefskemmdir á báð­um mjaðma­beinum. Þær eru <1-4 mm í þvermál og ná sumar í gegnum beinið. Flest­ar vefskemmdir er að finna á efri hluta mjaðma­spaða, sérstaklega á vinstra beininu.
  •  Lærleggur: Ein vefskemmd er á aftari hluta af vinstri lærleggjarhálsinum, 4 mm í þvermál.

Allar þessar beineyðandi vefskemmdir eru hringlaga og allt að 5 mm í þvermál, nema þar sem tvær eða fleiri hafa sameinast. Brúnir þeirra eru mjög skarpar og ekki er að sjá nein merki um óeðlilega beinamyndun eða eyðingu umhverfis þær. Eftir að rannsókn á sýnilegum skemmdum var lokið voru teknar röntgenmyndir af höfuðkúpu (sjá mynd 3), rifbeinum, vinstri mjaðmarspaða, og vinstri leggjar­beinum (upparmslegg, sveif, öln, lærlegg, sköflungi og dálk - sjá mynd 5). Röntgenmyndirnar sýna víðtæka myndun bein­eyð­andi vefskemmda í frauðbeini sem hafa ekki rofið barkarbein í nánast allri höfuðkúpunni, í öllum rifbeinum, í mjaðmarspaðanum og í efsta hluta lærleggs.

Sjúkdómsgreining

Þegar unnin er meinafræðileg rannsókn á manna­beinum sem grafin hafa verið upp við fornleifa­rannsóknir er ávallt fyrsta skrefið að greina á milli breytinga af völdum sjúkdóma og breytinga af völdum umhverfistengdra skemmda í gröfinni sem geta líkst þeim breytingum sem sjúkdómar valda (e. pseudo-pathology) (19). Í þessu tilfelli þarf til dæmis að athuga að ýmis skordýr geta valdið skemmdum sem líkjast mjög þeim holum sem sjást á beinunum. Röntgenmyndirnar sem sýna holumyndun í frauðbeini sem er ekki sjáanleg á barkarbeini útiloka þá skýringu.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að hér sé um illkynja krabbamein að ræða, mergæxli (e. multiple myeloma). Helsti vandinn við greiningu á mergæxli í fornum beinum er að greina á milli þess og beineyðandi meinvarps (e. osteolytic metastatic carcinoma), en áhrif á bein geta verið mjög svipuð í þessum sjúkdómum. Því er mjög mikilvægt að hafa heila, tiltölulega vel varðveitta beinagrind eins og á við í þessu tilfelli, til að sem bestar upplýsingar fáist um dreifingu skemmda í beinagrindinni svo að hægt sé að greina á milli með einhverri vissu (20, 21).

Röntgenmyndir af beinum konunnar sýna beineyður dæmigerðar fyrir mergæxli. Þá ber helst að nefna dreifingu beinbreytinga í frauðbeini höfuðkúpu, hrygg, rifbeinum og efri enda lærleggs, en auk þess sést ekki nýmyndun beins umhverfis æxliseyðurnar sem eru útslegnar (e. punched out lesions), en slíkt er einkennandi fyrir mergæxli. Aðeins ein önnur greining væri hugsanleg, það er meinvörp frá brjóstakrabbameini en slík meinvörp eru sjaldgæf í höfuðkúpu og sýna oftast nýmyndun beins umhverfis vefskemmdirnar.

Allt bendir til að konan hafi lifað mjög lengi með þennan sjúkdóm, jafnvel nokkra áratugi og byggir sú ályktun á því hve beineyðurnar eru útbreiddar (22). Það merkilega er að röntgenmyndirnar sem teknar voru eru í engu frábrugðnar myndum af lifandi fólki með mergæxli, og líklegt er að síðustu mánuði eða jafnvel ár ævinnar hafi konan frá Hofstöðum verið sárkvalin sem bendir til þess að líklegt sé að hún hafi fengið einhverja umönnun og hjúkrun í veikindum sínum.

Umræða

Beinagrindin frá Hofstöðum er fyrsta birta tilfell­ið af illkynja sjúkdómi í fornum beinum á Íslandi og eitt af fáum tilfellum um mergæxli sem birt hafa verið almennt. Í grein frá 1998 (1) er listi yfir öll birt tilfelli af mergæxli sem greind hafa ver­ið í fornum beinum. Þar eru talin upp 19 tilfelli, þar af sjö karlar og níu konur (ekki er gefið upp kyn í þremur tilfellum). Tólf eru 40 ára eða eldri, einn eldri en tvítugur, einn eldri en þrítugur, þrír eru skráðir fullvaxnir og ekki er gefinn upp aldur í tveimur tilfellum. Þau eru frá ýmsum tíma­bilum, frá 4000 f.Kr. til 18. aldar e.Kr., og frá tíu löndum, Austurríki (1), Þýskalandi (4), Sviss (1), Ungverjalandi (2), Póllandi (1), Tékklandi (1), Rússlandi (2), Japan (1), Súdan (2) og Egyptalandi (4). Í tíu tilfellum er greiningin ekki örugg og gefnar upp aðrar mögulegar sjúkdómsgreiningar. Í sjö tilfellum er talið að beineyðandi meinvarp hafi getað valdið þeim breytingum sem sjást á beinunum, í tveimur tilfellum haemoblastosis og í einu hvítblæði (22). Í mörgum tilfellum voru þessar beinagrindur illa varðveittar og oft fundust aðeins einstök bein með beineyður en ekki heillegar beinagrindur. Beinagrindin frá Hofstöðum er því með öruggustu fornmeinafræðilegri greiningu mergæxlis sem birt hefur verið til þessa.

Þakkir

Sérstakar þakkir fá starfsmenn og nemar Forn­leifa­skóla Fornleifastofnunar Íslands og North Atlantic Biocultural Organisation (NABO), en upp­gröfturinn á Hofstöðum er liður í skólanum. Einnig ber að þakka Önnu Birnu Ólafsdóttur, Lækna­setrinu, sem tók röntgenmyndirnar og Sif Guðmundsdóttur, sem ljósmyndaði beinin.

Helsti styrktaraðili rannsókna Fornleifa­stofn­­unar Íslands í Mývatnssveit hefur verið Rann­­sóknamiðstöð Íslands (RANNÍS) og Forn­leifa­sjóð­ur.

Heimildir

1. Wakely J, Strouhal E, Vyhánek L, Nemecková A. Case of a Malignant Tumour from Abingdon, Oxfordshire, England. J Arch Sci 1998; 25: 949-55.
2. Íslenskt fornbréfasafn VI. Hið íslenska bókmenntafélag: Reykja­vík, 1904: 110.
3. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, XI. Þingeyjar­sýsl­ur. Kaupmannahöfn, 1943: 242.
4. Vésteinsson O. Fornleifaskráning í Skútustaðahreppi I: Forn­leifar á Hofstöðum, Helluvaði, Gautlöndum og í Hörgsdal. Skýrslur Fornleifastofnun Íslands (Fjölrit): FS022-96011, 1996.
5. Horsley TJ. A Preliminary Assessment of the Use of Routine Geophysical Techniques for the Location, Characterisation and Interpretation of Buried Archaeology in Iceland (MSc dissertation). University of Bradford, 1999.
6. Gestsdóttir H, ed. Hofstaðir 2004: Framvinduskýrsla/Interim Report. Fornleifastofnun Íslands (Fjölrit): í vinnslu.
7. Gestsdóttir H. Area Z (Farm Mound). In: Lucas, G, ed. Hof­stað­ir 2002: Framvinduskýrslur/Interim Report. Forn­leifa­stofn­un Íslands (Fjölrit): FS193-910110, 2003: 26-8.
8. Hauglid, R. Norske Stavkirker. Dryers Forlag: Oslo, 1969.
9. Gestsdóttir H. 2003. Area Z (Farm Mound). In: Lucas, G, ed. Hofstaðir 2002: Framvinduskýrslur/Interim Report. Forn­leifa­stofnun Íslands (Fjölrit): FS193-910110, 2003: 26-8.
10. Mehler N. The Finds. In: Lucas, G, ed. Hofstaðir 2001: Fram­vinduskýrsla/Interim Report. Skýrslur Fornleifastofnunar Ís­lands (Fjölrit): FS167-91019, 2002: 43-54.
11. Steffensen J. Knoglerne fra Skeljastadir i Thjórsárdalur. In: Stenberger M, ed. Forntida gårdar i Island. Ejnar Munksgaard: Københaven, 1943; 227-60.
12. Gestsdóttir H, ed. Hofstaðir 2003: Framvinduskýrsla/Interim Report. Fornleifastofnun Íslands (Fjölrit): FS193-910111, 2004.
13. Brothwell DR. Digging up Bones. Oxford University Press: Oxford, 1981.
14. Schwartz JH. Skeleton Keys. Oxford University Press: Oxford, 1995.
15. Bass WM. Human Osteology. Special Publication No. 2 of the Missouri Archaeological Society, 1995.
16. Lovejoy CO, Meindl RS, Pryzbeck TR, Mensforth RP. Chrono­logical Metamorphosis of the Auricular Surface of the Ilium: A New Method for the Determination of Age of Death. Am J Phys Anthropol 1985; 68: 15-28.
17. Meindl RS, Lovejoy CO. Ectocranial Suture Closure Ageing Scheme. Am J Phys Anthropol 1985; 68: 57-66.
18. Trotter M. Estimation of Stature from Intact Long Limb Bones. In: Stewart, TD, ed. Personal Identification in Mass Disasters. Smithsonian Institute: Washington DC, 1970: 71-83.
19. Ortner DJ, Putschar WGJ. Indentification of Pathological Conditions in Human Skeletal Remains. Smithsonian Insti­tu­tion Press: Washington, 1981.
20. Strouhal E. Myeloma Multiplex versus Osteolytic Metastatic Carcinoma: Differential Diagnosis in Dry Bones. Int J Osteo­archaeol 1991; 1: 219-24.
21. Alt KW, Adler CP. Multiple Myeloma in an Early Medieval Skeleton. Int J Osteoarchaeol 1992; 2: 205-9.
22. Lee R. Wintrobe?s Clinical Hematology. Lea & Febiger: Phila­del­phia, 1993; 2220.

Mynd 1.

Mynd 2.

Mynd 3.

Mynd 4.

Mynd 5.Þetta vefsvæði byggir á Eplica